Borgarráð 15. apríl 2021

Bókun Flokks fólksins við stöðuskýrsla umhverfis- og skipulagssviðs, dags. mars 2021, um framkvæmdir í Úlfarsárdal:

Samkvæmt skýrslunni er ekki verið að fara yfir hverfið sjálft en kvartanir hafa borist um að deiliskipulag hverfisins sé óskýrt og erfitt að sjá hver plönin eru með lóðir og hús og hvernig þau eiga að vera. Það hefur mikið gengið á í þessu hverfi að undanförnu. Kærur eru allt of margar. Uppbygging sumra lóða hefur tafist og eru þær lóðir jafnvel notaðar fyrir byggingarúrgang. Það væri ekki verra að gerð verði úttekt á öðrum þáttum en skóla, íþróttahúsi og sundlaug. Skoða þarf umferðaröryggi, ljósastýringu, lýsingu, þveranir, göngu- og hjólastíga. Við blasir að húsnæði verði helst til of einsleitt í þessu hverfi. Lítið verður byggt af rað- og sérbýli. Kvartað hefur verið yfir að tilfelli eru um að verið sé að breyta gildandi skipulagi eftir á, t.d. minnka bil á milli húsa og byggja ofan á hús sem ekki stóð til að yrðu hærri og þar með skerða útsýni frá næstu húsum. Við skoðun á sumum kærum í gegnum tíðina finnst fulltrúa Flokks fólksins eins og komið hafi verið aftan að fólki í sumum þessara mála. Einnig eru kvartanir vegna synjunar skipulagsyfirvalda án sýnilegra raka, t.d. stækkun glugga, framkvæmdir sem enginn hefur mótmælt og hefur ekki áhrif á umhverfið.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. mars 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. mars 2021 á þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024:

Þróunaráætlun sýnir að þétta á byggð mikið og er gengið allt of mikið á græn svæði og fjörur. Erfitt er að spá fyrir um mannfjölda svo rennt er blint í sjóinn með margt. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að borgin eigi að þróast þannig að hún geti mætt þörfum og væntingum allra. Enn er mikil vöntun af húsnæði og ekki síst af hagkvæmu húsnæði, bæði litlu og stóru. Minnstu íbúðirnar eru hins vegar hlutfallslega dýrari en þær stærri, sérstaklega á ákveðnum svæðum. Minna húsnæði ætti að vera ódýrara en stærra húsnæði öllu jafna. Skortur er á sérbýli. Fjölskyldur eru misstórar og sumir vilja nýta rými utan húss til ýmissa hluta, ræktunar eða vinnutengdra verkefna. Ef horft er til gatnamannvirkja þá eru mestu áhyggjurnar af fyrirhuguðum þriðja áfanga Arnarnesvegar. Ákveðið hefur verið að byggja framkvæmdina á 18 ára gömlu umhverfismati þrátt fyrir að forsendur hafi breyst verulega frá því mati, ásamt breytingum á landnotkun á áhrifasvæði og breytingum á löggjöf um umhverfismál og á alþjóðlegum skuldbindingum.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. apríl 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki vilyrði fyrir byggingarrétti á um 60 íbúðum á lóð á þróunarsvæði 6.2.23 í Seljahverfi í Breiðholti:

Veita á Bjargi vilyrði fyrir byggingarrétti á um 60 íbúðum á lóð á þróunarsvæði 6.2.23 í Seljahverfi í Breiðholti. En á sama tíma er umhverfis- og skipulagssvið að vinna við gerð hverfisskipulags Breiðholts og segir að sú vinna sé langt komin. Fulltrúi Flokks fólksins telur að rétt væri að ljúka við hverfisskipulagið í Breiðholti áður en lóðarvilyrði er veitt, ekki að það bráðvanti ekki íbúðir heldur að taka þarf hlutina í réttri röð. Engir formlegir íbúaráðsfundir vegna hverfisskipulagsins hafa verið haldnir í Breiðholti. Skipulagsyfirvöld létu sér nægja að mæta nokkrum sinnum með kynningu í Breiðholtið í miðjum COVID aðstæðum seinni hluta árs 2020. Sumt í hverfisskipulagi Breiðholts er mjög umdeilt, t.d. hvað gengið er á græn svæði og fækkun bílastæða svo um munar þótt vissulega mætti skipuleggja og nýta sum svæði betur í Breiðholti. Það er auk þess ekki upplýst hvernig og hvort skipulagsyfirvöld ætla að taka mark á einhverjum af þeim fjölmörgu athugasemdum sem borist hafa um skipulagið og ábendingum.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. apríl 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að endurskoðuðum reglum um notkun á merki Reykjavíkurborgar:

Kynntar eru endurskoðaðar reglur um notkun á merki Reykjavíkurborgar sem eru til afgreiðslu. Í endurskoðuninni felst að í stað 159 sniðmáta sem nota átti er lagt til að notuð verði aðeins 13 enda það stórum hagkvæmara. Hér er ekki annað hægt en að velta fyrir sér hvaða hugsun lá þarna að baki í upphafi. Þetta átti aldeilis að vera flott og ekki var mikið verið að spá í kostnað. Setja átti mismunandi upplýsingar neðst í hægra horni fyrir hvert og eitt embætti, deild eða stofnun sem hefði krafist mikils viðhaldskostnaðar því ef þurft hefði að gera smávægilegar breytingar hefði þurft að búa til nýtt sniðmát.

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Hér er um grundvallarmisskilning að ræða hjá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins. Hér er um mikla hagræðingu og vinnusparnað að ræða í tengslum við innleiðingu á nýju málakerfi borgarinnar, Hlöðunni, sem felst í því að samræma útlit allra skjala og gagna Reykjavíkurborgar. Tillagan gengur út á að í stað þess að þurfa að hanna 159 sniðmát í málakerfinu, sem ekki er búið að gera, er búið að hanna 13 samræmd sniðmát þvert á borgina. Með þessari breytingu á samræmdum sniðmátum er dregið verulega úr kostnaði til framtíðar og ímynd Reykjavíkurborgar jafnframt styrkt.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Hér er enginn misskilningur á ferð. Ef fulltrúi meirihlutans sem las upp þessa bókun hefði lesið bókun Flokks fólksins betur þá fagnar fulltrúi Flokks fólksins einmitt hagræðingu og vinnusparnaði sem hlýst af breytingu þessara reglna sem nú hafa verið samþykktar. Hér kemur lýsing á ástæðu þess að mikilvægt var að endurskoða reglurnar beint frá skrifstofustjóra upplýsinga- og skjalastýringar þjónustu- og nýsköpunarsviðs svona til að leiðrétta allan misskilning fulltrúa meirihlutans: „Samtals hafa því verið útbúin 159 sniðmát og er ljóst að með áframhaldandi innleiðingu Hlöðunnar á öðrum sviðum borgarinnar mun sniðmátunum fjölga enn frekar. Þegar til alls þessa er litið er ljóst að mikil vinna og viðhald er fólgin í því að hafa sniðmát með mismunandi skjaldamerki ásamt upplýsingum neðst í hægra horni fyrir hvert og eitt embætti, deild eða stofnun. Einnig gætu skipulagsbreytingar og smávægilegar breytingar á sniðmátunum sjálfum haft í för með sér mikla viðhaldsvinnu til framtíðar.“ Þessari ákvörðun er því fagnað en bent er á að ef ekki hefði verið tekin þessi ákvörðun hefði gríðarlegur kostnaður hlotist af sem greinilega var ekki verið að spá í í upphafi.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. apríl 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að gerðar verði breytingar á notkun skjaldamerkis Reykjavíkurborgar:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að einhver hefur nú hugsað til hagræðingar og sparnaðar en í upphafi þessarar vegferðar virðist sem það hafi ekki beinlínis verið leiðarljósið. Allir geta nú fagnað því að samþykkt hefur verið að gerðar verði breytingar á reglum um notkun skjaldarmerkis Reykjavíkur þannig að unnt sé að notast við samræmt útlit sniðmáta fyrir alla borgina með því að nota aðeins 13 sniðmát en ekki 159 eins og til stóð. Með þeirri breytingu er sett stopp á mikinn framtíðarkostnað sem upphaflega hugmyndin krafðist.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. apríl 2021, þar sem greinargerð varðandi innleiðingu á húsnæðisáætlun græna plansins fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2021:

Segir í gögnum að stefnt er að byggingu 1000 íbúða í Reykjavík árlega og af þeim eru 250 íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna félaga.  Þetta er ekki nóg. Það á eftir að taka langan tíma að vinna upp þau ár sem ekkert var byggt. Úthluta þarf lóðum með meiri krafti fyrir ólíkar tegundir af húsnæði. Sárlega vantar sérbýli og raðhús ef halda á eðlilegum húsnæðismarkaði. Þétting byggðar hefur leitt til þess að það sem byggt er er einsleitt, mest litlar og meðalstórar blokkaríbúðir. Lítið fram. Í ljósi þess að eftirspurn eftir rað- og sérbýlislóðum er nú í sögulegu hámarki þarf að auka sveigjanleika byggðastefnunnar. Um 30% fasteignakaupenda eru fyrstu kaupendur. Í sölu eru um 200 eignir en þær þyrftu að vera um allt að 900 ef hægt ætti að vera að viðhalda eðlilegu flæði. Sú þróun sem átt hefur sér stað síðustu ár er slæm. Mæta þarf ólíkum þörfum í þessum málum sem öðrum. Erfiðleikar með að fá byggingarlóð í Reykjavík hefur verið mein í borgarkerfinu svo lengi sem elstu menn muna. Þess utan er mikill seinagangur í afgreiðsluferlinu öllu og líður allt of langur tími frá umsókn þar til eign kemst í notkun sem ekki auðveldar stöðuna.

 

Bókun Flokks fólksins við við bréfi  Strætó bs., dags. 2. mars 2021, varðandi beiðni um yfirdráttarheimild, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 12. apríl 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af Strætó. Staðan var slæm fyrir COVID og hefur versnað. Hækka á yfirdráttarheimild um 300 milljónir af neyð. Grunnvandinn er að Strætó er ekki notaður nógu mikið, þessi útgáfa af almenningsamgöngum virkar aðeins fyrir hluta fólks. Margt kemur til. Dýrt er í strætó fyrir þá sem nota hann sjaldan þannig að erfitt er fyrir fyrirtækið að laða að nýja notendur. Til þess ættu að vera leiðir svo sem að nýta vagna betur á þeim tímum sem þeir aka hálftómir, t.d. með því að hafa lágt verð þá. Það væri ódýr leið til að kynna leiðakerfið. Stjórn virðist ekki leita að nýjum leiðum til að bæta reksturinn. Þegar hallinn vex er bara leitað í sjóði borgarbúa. Til viðbótar þeim hallarekstri sem nú blasir við þarf að endurnýja flotann fljótlega. Í svona stöðu er oft gripið til útvistunar, til að redda málum. Útvistun getur verið frábær hugmynd en hræðileg framkvæmd. Gallar við útvistun eru fleiri en kostir. Venjulega er þetta dýrara dæmi þegar upp er staðið og þá tapast yfirsýn og minni stjórn verður á verkefnum. Þörf verður fyrir stíft eftirlit.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að  borgarlína verði kostnaðarmetin með tilliti til sambærilegra verkefna erlendis:

Í svari samgöngustjóra er ekki talið að framúrkeyrsla við gerð borgarlínu sé líkleg. Ekki er mjög sannfærandi að bera borgarlínuna saman við samgönguverkefni erlendis. Sagt er að borgarlínan sé „kostnaðarmetin með tilliti til sambærilegra verkefna erlendis“ og viðmiðið er m. a „Metro í Kaupmannahöfn, léttlestarkerfi í Óðinsvéum og Árósum“. Metro í Kaupmannahöfn er allt öðruvísi kerfi en borgarlínan. Þar er byggt á sjálfvirkni, ekki blöndun við aðra umferð og lestir eru án bílstjóra, sem dæmi. Borgarlínan er heldur ekki enn hugsuð sem léttlestarkerfi. Borgarlínan er eins og er strætisvagnakerfi. Það ættum við að þekkja vel og vitum að Strætó fer yfirleitt fram úr kostnaðaráætlun.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 25. mars 2021 er varðar innkaup ÞON yfir 5 milljónir:

Málinu er frestað á fundi innkaupa- og framkvæmdaráðs. Þegar þetta yfirlit er hins vegar skoðað má setja spurningarmerki við ýmislegt, t.d. mikinn kostnað (töluleg staðreynd) vegna útvistunar vettvangsþjónustunnar. Það sem sést í þessu yfirliti er að mikill kostnaðarauki fellur á borgarsjóð vegna ákvörðunar um að að leggja niður innri tölvu- og vettvangsþjónustu Reykjavíkur. Borga á Premis vegna notenda- og vettvangsþjónustu tæpar 65 milljónir, Þekkingu Tristan einnig fyrir það sama eða 92 milljónir og fyrir beint samband 15,5 milljónir. En hvað hefði kostað að halda föstum starfsmönnum sem sinntu þessum hlutverkum en sem voru reknir úr starfi? Fulltrúi Flokks fólksins vill fá samanburð kostnaðarlega séð á þessum tveim kostum.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 23. mars:

Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram sína umsögn um drög að reglum um bílastæðakort íbúa í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að með þessum reglum mun það verða enn líklegra en áður en þetta svæði stendur ekki til boða nema þeim sem eru efnaðir. Eignir eru dýrar og nú þarf hver og einn að borga fyrir stæði við heimili sitt. Ekki er um neinar ívilnanir að ræða eins og sjá má t.d. Ósló og Drammen t.d. fyrir hreyfihamlaða eða þá sem aka vistvænum bílum en þetta eru borgir sem öllu jafna skipulagsyfirvöld í borginni vilja líkja eftir þegar kemur að skipulagi. Í raun stefnir í það að þeir sem ætla að búa í miðbænum muni einfaldlega þurfa að hugsa sig tvisvar um hvort þeir geti leyft sér að eiga bíl.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 7. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 14. apríl:

Liður 2. Skýrslan um farleiðir laxfiska á ósasvæðum Elliðaáa er unnin í samstarfi við Reykjavíkurborg en borgin áætlar 13 ha landfyllingu austan megin á ósasvæði Elliðaáa þar sem gert er ráð fyrir að rísi íbúðabyggð. Landfylling minnkar náttúrulegt lífríki við ströndina. Best væri ef þessir bakkar fengju að vera sem mest í friði og setja þar ekki stór mannvirki. Skipulagsstofnun hefur veitt umsögn og minnir á náttúruverndarlög. Verið er að ganga á náttúrulegar fjörur og manngera náttúru til að búa til gerviveröld. Liður 7. Hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur. Mikilvægt er að hafa 30 km/klst. hraða á svæðum þar sem börn fara um, s.s. í nágrenni við skóla. Þegar horft er til hraðalækkunar og hraðahindrana almennt séð togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma, annars vegar að því minni hraði því færri óhöpp en hins vegar að því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins og meiri umferðartafir. Í skýrslu unninni af verkfræðingi fyrir borgina segir að það sé misskilningur að lækkun hraða þýði verra umferðarflæði og skapi tafir. En enginn er að halda því fram að hærri hraði leiði alltaf til meiri afkastagetu götu. Margt annað í aðstæðum hverju sinni þarf að taka inn í myndina.

Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 19 mál. R21040058

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið yfirlitsins um embættisafgreiðslur er varðar ósk borgarstjóra um að verða fulltrúi í bandalaginu Cities Coalition for Digital Rights og sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs staðgengill hans:

Borgarstjóri leggur til að hann verði fulltrúi í bandalaginu Cities Coalition for Digital Rights og sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs staðgengill. Vissulega er það rétt að hinn stafræni heimur er framtíðin sem er frábært. En nú þegar hefur háum fjárhæðum verið varið í stafræna umbreytingu í borginni og 10 milljarðar bætast við næstu 3 árin án þess að hægt sé að sjá skilgreinda útkomu í takt við kostnaðinn. Fólk hefur verið rekið af sviðinu og ekkert lát er á kaupum á ráðgjöf fyrir ævintýralegar upphæðir. Lýsingar á tilraunaverkefnum sem hönnuðir lýsa vekja ekki traust. Staðreyndin er sú að flestar snjalllausnir sem borgin kann að þarfnast eru nú þegar til og komnar í virkni hjá fjölmörgum stofnunum. Minnt er á að verið er að sýsla með útsvar borgarbúa. Meira fjármagn þarf í velferðarmálin. Fátækt fer vaxandi og viðkvæmustu hóparnir hafa stækkað í kjölfar COVID, fólk sem þarf aðstoð af ýmsu tagi, börn þar á meðal. Borgin á sinna fólkinu fyrst og fremst, einnig með stafrænum lausnum af skynsemi.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um stöðu Strætó bs. nú þegar rúmt ár er liðið frá því að COVID skall á:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um stöðu Strætó bs. nú þegar rúmt ár er liðið frá því að COVID skall á. Hvernig stendur áhættumat Strætó? Hvernig standa útvistunarmál? Óskað er upplýsinga um fjölda kvartana/tilkynninga/ábendinga sl. ár frá notendum, hvers eðlis þær eru/ sundurliðun á þeim (ástæður og úrvinnsla). R21040126

Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um biðlista á leikskóla í borginni sundurliðað eftir hverfum og hvað lengi beðið hefur verið á biðlista:

Óskað er eftir upplýsingum um biðlista á leikskóla í borginni sundurliðað eftir hverfum og hvað lengi beðið hefur verið á biðlista. Óskað er upplýsinga um stöðu biðlista í ljósi tillagna sem lagðar voru fram af meirihlutanum 2018 þar sem stefnt var að m.a. eftirfarandi: Fjölgun leikskólarýma um 700-750 á næstu fjórum til fimm árum svo bjóða megi öllum börnum 12 mánaða og eldri leikskólavist í Reykjavík fyrir lok árs 2023. Að byggðir verði fimm nýir leikskólar á næstu 5 árin. Að reistir verði a.m.k. fimm leikskólar í borginni þar sem mikil eftirspurn er eftir leikskólarýmum. Að viðbyggingar rísi við leikskólana Seljakot, Kvistaborg, Reynisholt, Hof og leikskóla í Grafarvogi. Að nýjar leikskóladeildir verði opnaðar í færanlegu húsnæði á árinu 2019 við fjóra leikskóla þar sem eftirspurn eftir leikskólarýmum er mikil. Að lokið verði við að setja á fót sérútbúnar ungbarnadeildir við alla borgarrekna leikskóla, sem hafa fjórar deildir eða fleiri, á næstu 5 árum. Að formleg inntaka barna í leikskóla borgarinnar verði tvisvar á ári. Að stefnt verði að fjölgun barna hjá sjálfstætt reknum leikskólum og dagforeldrum. Að lokum er spurt hverjum af þessum tillögum hefur ekki náðst að framfylgja að litlu eða neinu leyti nú í apríl 2021. R21040128

Vísað til skóla- og frístudasviðs.

Beiðni um að mál Flokks fólksins verði sett inn á vef Reykjavíkurborgar. Beiðnin var áður send inn 2019: 

Fulltrúi Flokks fólksins  óskar eftir að fá yfirlit yfir öll framlögð mál Flokks fólksins, fyrirspurnir og tillögur frá upphafi kjörtímabilsins, tímasetningar, hvert málum var vísað, afgreiðsluferli, og hvaða mál eru óafgreidd.

Óskað er eftir að fá þetta í öðru formi en excel formi eða í það minnsta einnig á word skjali.
Þess er jafnframt óskað að hafin verði vinna í að setja mál flokka minnihlutans inn á vef Reykjavíkurborgar með sama hætti og sjá má að er gert hjá Alþingi.

Gagnsæi og gott aðgengi að málum kjörinna fulltrúa er liður í því lýðræði sem við búum við á Íslandi. Allir eiga að hafa aðgang að vinnu kjörinna fulltrúa í þágu borgarbúa, hvaða mál hafa verið lögð fram og hvernig þau hafa verið meðhöndluð.