Borgarráð 15. janúar 2020

Tillaga Flokks fólksins að innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirlitinu en hlutverk innri endurskoðunar er að stuðla að hagkvæmari og skilvirkari nýtingu á fjármunum stofnana:

Flokkur fólksins leggur til að innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirlitinu en hlutverk innri endurskoðunar er að stuðla að hagkvæmari og skilvirkari nýtingu á fjármunum stofnana. Í ljósi megnrar óánægju með hundaeftirlit borgarinnar m.a. það árlega gjald sem hundaeigendum er gert að greiða og sem talið er að fari að mestu leyti í yfirbyggingu og laun er nauðsynlegt að innri endurskoðun fari í úttekt á hundaeftirlitinu. Hundaeigendur greiða um 35 milljónir á ári í hundaleyfisgjöld til að halda uppi hundaeftirlitinu. Hundaeftirlitsgjaldið er ekki notað í þágu hunda t.d. til að lagfæra svæðið á Geirsnefi og gera ný hundagerði. Margir hundaeigendur telja að það kunni að vera brotin lög gagnvart hundaeigendum með því að nota hundagjöld til annarra útgjaldaliða en kveðið er á um í lögum. Engar vinnuskýrslur liggja fyrir t.d. í hvað þetta fjármagn fer í. Allir vita að umfang eftirlitsins hefur minnkað og verkefnum hundaeftirlitsins hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Árið 2019 voru kvartanir 84 en fyrir fáeinum árum margfallt fleiri. Fjöldi lausagönguhunda er varla teljandi enda sér hundasamfélagið á samfélagsmiðlum um að finna eigendur lausagönguhunda. Því er tilefni til að athuga hvort úrbóta sé þörf á starfsemi hundaeftirlitsins eða hvort tilgangur þess og hlutverk hafi ekki runnið sitt skeið á enda. R20010132

Vísað til umhverfis- og heilbrigðissviðs

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars við  fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um langtímaveikindi á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2019:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá upplýsingar um langtímaveikindi starfsmanna sem heyra undir velferðarsvið og skóla- og frístundasvið. Í svari má sjá að þetta er svipað milli ára. Ekki er hjá því litið að þetta eru mikil veikindi. Einn af hverjum 20 er langtímaveikur. Ekki liggur fyrir nein marktæk skoðun á ástæðum eða hvort þetta sé í takt við það sem gengur og gerist annars staðar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvort meirihlutinn í borginni velti því aldrei fyrir sér hvort margir séu undir ómanneskjulegu álagi og ekki þarf að hafa mörg orð um launin sem eru þessleg í mörgum störfum að ekki er hægt að lifa af þeim. Langtímaálag er víst til að veikja ónæmiskerfið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst gæta varna í svarinu með því að segja „að athuga þarf að ofangreindar hlutfallstölur tilgreina hlutfall starfsfólks í langtímaveikindum af heildar fjölda starfsmanna“. Þetta breytir því ekki að einn af hverjum 20 er langtímaveikur. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt að fá einhverja hugmynd um hvort þarna að baki kunni að vera eitthvað sem rekja má til vinnuaðstæðna og vinnumenningar og sem vinnustaðurinn geti þá lagað til að starfsmenn eigi bestu möguleika á að halda heilsu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að samþykkja erindi Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins um fyrirhugaða undirskriftasöfnun samkvæmt 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga:

Borgarstjóri og meirihlutinn brýtur odd af oflæti sínu og samþykkir erindi Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins um fyrirhugaða undirskriftasöfnun samkvæmt 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga. Hér er um matskennda ákvörðun að ræða sem sveitarstjórn hefur í höndum sér að ákveða samkv. 3 gr. þar sem segir að “sveitarstjórn skal innan fjögurra vikna meta hvort ákvæði 3. mgr. 108 gr. sveitarstjórnarlaga hamli því að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um málið”. Reykjavíkurborg hefði því getað synjað beiðninni og látið slag standa hvort kærur bærust sem í þessu máli hefðu klárlega borist. Þetta er auðvitað svo sjálfsagt mál enda ákvörðun sem snertir marga. Kannski skipti það máli að þessi ákvörðun var tekin að umboðsmaður borgarbúa bættist í hóp þeirra í minnihlutanum sem reyndu að koma vitinu fyrir þennan meirihluta. Umboðsmaðurinn sendi frá sér tilmæli um að ekki yrðu keyrðar áfram framkvæmdir í óþökk íbúa. Eins og vitað er hefur hvert málið rekið annað þar sem farið er í framkvæmdir þrátt fyrir hávær mótmæli og ákall um hlustun. Eiga erindin það sammerkt að lýsa neikvæðri upplifun aðilanna af meirihlutanum í tengslum við þær framkvæmdir. Snúa umkvörtunarefnin helst að skorti á árangursríku samráði og nægu upplýsingaflæði í aðdraganda framkvæmda og á verktíma eins og segir í tilmælum umboðsmanns borgarbúa.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf Félagsbústaða, dags 5. desember 2019 þar sem óskað er eftir að Reykjavíkurbor veiti einfalda ábyrgð vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða:

Aftur er verið að biðja um að Reykjavíkurborg veiti ábyrgð vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða að þessu sinni fyrir 3.500 m.kr. Á þetta að ganga svona áfram? Segir í erindi að óskað er eftir að eigandinn sem er Reykjavíkurborg veiti ábyrgð til tryggingar á endurgreiðslu bréfanna vegna útgáfu á árinu 2020. Þetta er sum sé í þriðja sinn sem farið er fram á slíka ábyrgð sem þessa. Með þessari lántöku fara skuldir frá 41. ma.kr upp í 44.5 ma.kr. Þótt eitt og annað hafi batnað hjá fyrirtækinu eftir að farið var að veita meira aðhald m.a. af hálfu Flokks fólksins þá er ímyndarvandi enn mikill og varla líður sá dagur að ekki berast kvartanir frá leigjendum. Sami vandi er með ástand eigna. Leigjendur segja að seint og um síðir koma viðgerðarmenn og oft aðeins plástra þann vanda sem kvartað er yfir. Fólk er enn að láta vita af veikindum vegna myglu. Félagsbústaðir kaupa eignir eins og enginn sé morgundagurinn en geta að sama skapi ekki sinnt viðhaldi né halda þau nægjanlega vel utan um leigjendurnar sem er afar viðkvæmur hópur. Meirihlutinn í borginni þarf að taka á málum Félagsbústaða í heild sinni. Leigan hækkar einnig reglulega.