Skóla- og frístundaráð 23. júní 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu og umræða um skóla- og frístundastarf í norðanverðum Grafarvogi frá hausti 2020.

Allt þetta mál hefur verið erfitt einna helst vegna þess að farið var í framkvæmdir í óþökk íbúa, foreldra og barna. Hvernig þetta allt lukkast kemur ekki í ljós fyrr en komin er á reynsla og ekki fyrr en þá foreldrar segja að þau séu sátt og að þau séu örugg með börn sín. Það er einnig miður að þegar íbúar senda inn fyrirspurnir að þeim er ekki svarað fyrr en eftir dúk og disk og ítrekanir. Staðreyndin er sú að íbúar eru uggandi og enn kraumar án efa einhver óánægja og kvíði fyrir framtíðinni. Síðast í gær var borgarfulltrúum sent skeyti þar sem ítrekað er að fá svör við fyrirspurnum um ýmis atriði. Í skeytinu er lýst yfir áhyggjum ekki síst yfir því hvað gengur illa að fá viðbrögð skóla- og frístundasviðsins við fyrirspurnum. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ef borgari þarf að senda stjórnkerfi borgarinnar skeyti af þessu tagi þá er eitthvað sem þarf að laga. Ekkert afsakar samskiptaleysi eða hunsun gagnvart áhyggjufullum foreldrum eða íbúum sem eru uggandi um börn sín. Óvissa og þögn fer illa með alla.

 

Bókun Flokks fólksns við framlagningu skýrsluum  Öryggismál í skóla- og frístundastarfi, tillögur starfshóps, dags. 26. maí 2020:

Fram kemur í skýrslu starfshóps um öryggismál í skólum undir kaflanum um „Öryggismyndavélar, hvers vegna öryggismyndavélar?“ að alls hafa 73 rúður verið brotnar á 12 mánaða tímabili víðs vegar um húsnæði eins skóla í borginni. Hætta getur skapast af glerbrotum sem liggja á skólalóðinni eftir ítrekuð rúðubrot. Gríðarlegur kostnaður fer í að hreinsa upp glerbrot og skipta um gler í gluggum skólans. Kostnaður fyrir árið 2018 er 15.259.000 kr. og fyrir árið 2019 12.023.000 kr. Hér er aðeins um einn skóla að ræða í borginni en Reykjavíkurborg rekur 36 grunnskóla. Fulltrúa Flokks fólksins finnst eðlilegt að foreldrar axli ábyrgð brjóti barn þeirra rúðu í skólanum utan skólatíma, gefið að staðfest sé hver gerandinn er og að hann sé nemandi í skólanum. Ef barnið er í skólanum á skólatíma þá er barnið á ábyrgð skólans. Ef það er utan skólatíma þá hlýtur barnið þ.e. foreldrar þess að vera skaðabótaskyldir gagnvart skólanum. Hvað varðar öryggismyndavélar tekur fulltrúi Flokks fólksins undir mikilvægi þeirra í mörgu tilliti. Öryggismyndavélar eru dýrar og viðhaldskostnaður án efa mikill. Vega þarf og meta ávinninginn, hvar öryggismyndavélar koma að mesta gagni og í hvaða skólum uppsetning þeirra er sérstaklega mikilvæg t.d. hvað varðar fælingarmátt sem öryggismyndavélar sannarlega hafa.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um reglur afhendingu farmiða til nemenda í grunnskólum borgarinnar með strætisvögnum Reykjavíkur og akstur nemenda með hópbifreiðum:

Meirihlutinn er að samþykkja hér að gera engar breytingar á reglum um afhendingu farmiða til nemenda í grunnskóla borgarinnar með strætisvögnum Reykjavíkur og akstur nemenda með hópbifreiðum. Að halda reglunum óbreyttum eru vonbrigði því margt í þeim er úrelt. Fulltrúi Flokks fólksins situr því hjá. Í þessum reglum er t.d. ekki verið að hugsa til þeirra barna sem búa á tveimur stöðum en þannig er það með hóp barna. Þetta eru börn sem eru t.d. viku hjá föður og viku hjá móður en eru aðeins með lögheimili á einum stað eins og lögin kveða á um að verði að vera. Í þessum tilfellum hlýtur að þurfa að gera undantekningar ef vegalengd frá lögheimili til skóla er meiri en 1,5 km. Fulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á að skóla- og frístundarráð nái sambandi við stjórn Strætó bs. Það er tímabært að gera breytingar á reglunum ef börn eiga að sitja við sama borð í þessum efnum. Strætó bs er í eigu borgarinnar að stórum hluta og verður að vinna með fagsviðunum til þess að hægt sé að virða ákvæði mannréttindastefnu og Barnasáttmálans.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögun um að komið verði á fót smíðavöllum fyrir grunnskólanema í hverfinu sumarið 2020:

Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á þessa tillögu að komið verði á fót smíðavöllum fyrir grunnskólanema í Úlfarsárdal sumarið 2020 en tillagan kom frá íbúaráði Grafarholts og Úlfarsárdals þann 18. maí 2020. Verkefni sem þetta hentar án efa mörgum börnum. Fram kemur að smíðavellir hafa ekki verið starfræktir í Reykjavík síðan sumarið 2012. Nefndar voru ýmsar ástæður fyrir því að þetta verkefni var lagt af t.d. misjöfn mæting en engu að síður var biðlisti. Fulltrúa Flokks fólksins fyndist það skynsamlegt að prófa þetta aftur og finna leiðir til að bæta þá þætti sem betur máttu fara í verkefninu. Á meðan ekki er hægt að nota frístundakortið í námskeið sem eru styttri en 10 vikur er mikilvægt að finna vettvang fyrir börnin að koma saman í skapandi vinnu án þess að foreldrar þurfi að greiða. Vikunámskeið á vegum borgarinnar kostar a.m.k. 10 þúsund og jafnvel meira. Þetta verkefni gæti verið mjög hagkvæmt enda fellur mikið af viði til sem nýta má í smíði. Margir myndu án efa vilja leiðbeina í þessu.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. júní 2020, um stöðu ráðninga í leikskólum og grunnskólum 10. júní 2020:

Staða ráðningarmála fyrir næsta skólaár vekur upp áhyggjur. Eftir er að ráða í 67,5 stöðugildi fyrir haustið, 30,4 stöðugildi kennara, 26,5 stöðugildi stuðningsfulltrúa. Auðvitað getur margt breyst fram á haust en það er sú óvissa sem hér ríkir sem er ekki síður erfið. Staðan var líka erfið í fyrra og einnig árið áður. Fyrir ríkt og velmegandi sveitarfélag eins og Reykjavík er þessi staða sérkennileg þótt vissulega spili margt inn í. Í skýrslu Innri endurskoðunar um rekstrarramma grunnskólanna sem kom út sumarið 2019 mátti án efa greina hluta vandans. Kennarar eru undir miklu álagi og hafa margsinnis óskað eftir að álagsþáttur þeirra í starfi verði skoðaður. Þeir kalla eftir meiri fagþjónustu, fagfólk inn í skólana til að sinna börnunum og styðja við kennara. Í skýrslunni kemur fram að nærvera fagaðila myndi létta mjög álagi á þeim. Ekki hefur verið brugðist við því. Staðan er óbreytt og hefur verið árum saman.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar varðandi fjölda tómstunda- og félagsmála- og frístundafræðinga í frístundaheimilum:

Aðalatriðið að mati fulltrúa Flokks fólksins er að borgaryfirvöld hafi stefnu í því sem þau eru að gera í þessu sem öðru. Hér er lagt fram svar við fyrirspurn um fjölda tómstunda- og félagsmálafræðinga í félagsmiðstöðvum. Hvaða reynslu, menntun og bakgrunn starfsmenn hafa hlýtur að taka mið af því hvaða hugmyndir eru á lofti um markmið starfsins. Til að ná árangri þarf að gera ákveðnar grunnkröfur, þannig þróast fagvitund. Það er mikilvægt að skilgreina hlutina. Hluti starfsmanna eru ófaglærðir í skóladagvistun og á frístundaheimilum borgarinnar. Skortur á fagmenntuðu fólki til starfa á frístundaheimilum eða skóladagvistum er ástæðan. Gera þarf kröfur um menntun stjórnenda. Halda þarf vel utan um ófaglært fólk, sjá til þess að þeir fái góða handleiðslu og reglulega þjálfun auk grunnþjálfunar. Í þessum störfum er mikil hreyfing sem hefur iðulega vissulega ókosti. Klárlega er víða unnið gott starf og öll erum við sammála um að tryggja börnum góða þjónustu í þroskandi umhverfi.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hver er fjárhagslegur ávinningur við sameiningu skóla í norðanverðum Grafarvogi þegar upp er staðið.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga er að viðamiklar breytingar fylgja sameiningunni, innri sem ytri og sem eru kostnaðarsamar. Ekki er hægt að leggja fjárhagslegt mat á huglæga þætti eins og tilfinningar og upplifun íbúa/foreldra sem gátu af ýmsum ástæðum ekki sætt sig við þessa breytingu og hafa e.t.v. ekki enn gert og munu jafnvel aldrei gera. Fulltrúi Flokks fólksins spyr þess vegna hvort þetta borgaði sig fjárhagslega fyrir borgina að fara í þessar breytingar? Í svari er þess vænst að kostnaðartölur fylgi með sem varpa ljósi á kostnað nauðsynlegra breytinga sem gera þarf í kjölfar sameiningarinnar.

 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort foreldrar beri ekki kostnað í þeim tilfellum sem fyrir liggur hver sé gerandi og að gerandi sé nemandi í skólanum og að hann hafi brotið rúðu utan skólatíma:

Fram kemur í skýrslu starfshóps um öryggismál að alls hafa 73 rúður verið brotnar á 12 mánaða tímabili víðs vegar um húsnæði eins skóla í borginni. Kostnaður er fyrir árið 2019 í þessum skóla 12.023.000 kr. Hér er aðeins um einn skóla að ræða í borginni en Reykjavíkurborg rekur 36 grunnskóla. Ef barnið er í skólanum á skólatíma þá er barnið á ábyrgð skólans. Ef það er utan skólatíma þá getur barnið verið skaðabótaskylt gagnvart skólanum, þ.e. foreldrar þess. Barn er sakhæft 15 ára. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort foreldrar beri ekki kostnað í þeim tilfellum sem fyrir liggur hver sé gerandi og að gerandi sé nemandi í skólanum og að hann hafi brotið rúðu utan skólatíma?