Skipulags- og samgönguráð 2. desember 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Umferðarljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu, niðurstöður úttektar, kynning:

Kynntar eru niðurstöður úttektar SWECO á umferðarljósastýringum í Reykjavík. Ef gluggað er í niðurstöður úttektarinnar þá virðist Reykjavík aftarlega á merinni miðað við þær borgir sem fjallað er um í skýrslunni. Hinn 3. júní bókaði Flokkur fólksins við yfirlitskynning á fyrirkomulagi umferðarljósastýringa í Reykjavík eftirfarandi:

Á 100 stöðum er enn gömul útfærsla á umferðarljósum en á 113 stöðum nýrri. Þetta er langt því frá að vera viðunandi Eldri útfærslan hlýtur að vera á þeim stöðum þar sem mesta álagið er því slíkar eru umferðartafirnar og umferðarflæðið slakt? Það er vont að enn eigi eftir að nútímavæða ljósabúnað á 100 stöðum. Umferðaröngþveiti er víða í borginni og á hverjum morgni bíða raðir bíla eftir grænu ljósi og leiðin samt löngu orðin greið. Gamaldags umferðar ljósastýringarkerfi er ein stærsta ástæða þess að umferðin er í svo miklum ólestri sem raun ber vitni. Af hverju hefur þetta skref ekki verið tekið til fulls? Leiðrétta þarf einnig gangbrautarljós. Sú staðreynd að rauð ljós loga á gangbraut lengi eftir að viðkomandi hefur þverað gangbrautin er ekki til að bæta útblástursvandann.

 

Bókun Flokks fólksins við Umferðaröryggisaðgerðir 2020, hluti 2

Umferðaröryggi í Úlfarsárdal hefur verið ábótavant. 7. október bókaði fulltrúi Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að gert verði átak til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í Úlfarsárdal. Tillögunni var vísað frá.

Minnt er á að málið var á dagskrá íbúaráðs Úlfarsárdals fyrir skemmstu en þar var bókað að nokkuð sé ábótavant við merkingar og einnig við umferðaskipulag svo sem hringtorg í Grafarholti og Úlfarsárdal.

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að verið sé að vinna að umferðaröryggisaðgerðum s.s. merkingu og lýsingu gangbrauta í Úlfarsárdal. Miklar tafir hafa verið á verkinu sem búið var að lofa fyrir ákveðinn tíma. Fram hefur komið hjá skipulagsyfirvöldum að það sé veghaldara að ákveða hvar gangbrautir yfir vegi eigi að liggja en ekki íbúa. Það er miður ekki síst í allri umræðunni um samráð við íbúa. Auðvitað eiga íbúar að hafa um þetta að segja. Eiga gagnbrautir að vera gangbrautir aðeins ef veghaldari segir svo, annars bara gönguþverun? Og ef það er gönguþverun þarf þá ekki að vera skilti?! Hér er gott tilefni til að hafa samráð við íbúa sem vilja kannski hafa eitthvað um það að segja hvar gangbrautir eigi að vera í hverfinu þeirra.

 

Bókun Flokks fólksins við Frakkastígur – Skúlagata, breyting á deiliskipulagi

Fulltrúi Flokks fólksins finnst ástæða til að styðja skoðun íbúasamtakanna ÍMR sem stendur gegn því að þessi bygging rísi. Samkvæmt riss –teikningu skemmir þessi bygging útsýni. Ályktum Íbúasamtaka Miðborgar (ÍMR) um deiliskipulagsbreytingu vegna nýbyggingar á Frakkastíg 1 á rétt á sér en stjórn ÍMR leggst gegn því að reist verði sjö hæða bygging á horni Frakkastígs og Skúlagötu þar sem nú, samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 1986 er gert ráð fyrir opnu svæði og “hugsanlegri dagvistun”. Stjórnin telur að halda eigi opna svæðinu við norðurenda Frakkastígs sem einskonar “öndunaropi” en þar er eini staðurinn í röð hárra bygginga við Skúlagötu þar sem enn eru tengsl milli eldri byggðar og sjávar.

Það er auðvitað óþarfi að ganga með “þéttingu byggðar” út í slíkar öfgar að stoppa þurfi í hvert gat/bil með byggingu. Ef heldur sem horfir mun hvergi sjást til sjávar úr borginni áður en yfir lýkur. Fyrir augum verður aðeins steypa hvert sem litið er.

 

Bókun Flokks fólksins við við liðinum Uppgjör umhverfis- og skipulagssviðs fyrir tímabilið janúar til september 2020.

Athygli vekur að undir liðnum Viðhald fasteigna má sjá að viðhaldskostnaður er undir áætlun. Þarf ekki einmitt að sinna viðhaldi vel ? “Viðhald fasteigna var 481 m.kr. undir fjárheimildum tímabilsins, helstu frávik eru sem hér segir; viðhald grunnskóla 166 m.kr., viðhald íþróttamannvirkja 66 m.kr., viðhald leikskóla 111 m.kr. og viðhald ýmissa fasteigna 50 m.kr.” Það er sérkennilegt að ekki hver króna sem er í áætlun sé nýtt í viðhald!

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Umhverfis- og skipulagssvið, yfirlit yfir innkaup yfir 1 m.kr.

Fulltrúi Flokks fólksins óar við öllum þessum innkaupum Umhverfis- og skipulagssviðs sem birt eru í yfirlit í ljósi þess að á sviðinu starfa ótal sérfræðingar. Nýlega var verið að ráða enn fleiri sérfræðinga. Samt sem áður eru nánast flest verkefni keypt út í bæ. Milljarðar streyma úr borgarsjóði í aðkeypta sérfræðivinnu sem skipulagsyfirvöld kaupa af sjálfstætt starfandi fyrirtækjum. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja fram spurningar um hvernig samskiptum umhverfis- og skipulagssviðs er háttað við verkfræði-arkitektastofur.

 

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn um greiðslur í gegnum app EasyPark sem áður var Leggja.is:

Það er talsvert áfall að heyra að bílaeigendur sem nota EasyPark eru að greiða bæði bílastæðasjóði og EasyPark gjöld/þóknun. Segir i svari við fyrirspurn að EasyPark keypti Leggja.is árið 2019. Greiðslur fyrir stæði sem greiddar eru með greiðslulausninni renna óskertar til Bílastæðasjóðs. EasyPark leggur aukalega á þóknun fyrir hverja notkun og rennur sú þóknun til þeirra. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta vond tíðindi og veltir fyrir sér hvort bílaeigendur sem leggja bíl sínum séu meðvitaðir um að þeir eru að greiða gjöld til beggja aðila. Seilst er ansi langt að mati fulltrúa Flokks fólksins í að hafa fé af þeim sem koma á bíl sínum á gjaldskylt svæði í Reykjavík

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um SWECO fyrirtækið og tengsl þess við skipulagsyfirvöld

Kynntar eru niðurstöður úttektar SWECO á umferðarljósastýringum í Reykjavík. Reykjavík fær þar frekar slæma útreið og er aftarlega á merinni ef samanborin við aðrar borgir sem Reykjavík er borin saman við.

Fulltrúi Flokks fólksins fýsir að vita hvernig það kom til að Reykjavík er þátttakandi í þessari úttekt og hvað er verið að greiða fyrir að vera aðili að þessari úttekt?

Hvaða fyrirtæki er þetta SWECO og hver eru tengsl þess við skipulagsyfirvöld í borginni? Óskað er eftir að umhverfis- og skipulagssvið finni út hver kostnaður er ef hann liggur ekki fyrir nú.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum hjólastóla og göngugrindum

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum í Reykjavík af hálfu umhverfis- og skipulagssviðs hvað varðar hjólastólaaðgengi og göngugrindur. Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja það að allir hafi jafnt aðgengi að verslunum og þjónustu í landinu. Þetta er kveðið á um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Lög um mannvirki leggja þá skyldu á sveitarfélög að hafa eftirlit með aðgengismálum. Ítrekað hefur verið bent á það að reglur um aðgengi séu ekki virtar. Fólk er orðið langþreytt á því að þurfa í sífellu að vekja athygli á því hve langt er í land í þessum málum þrátt fyrir það að lög og reglugerður séu til staðar sem kveði á um aðgengiskröfur. Þörf er á því að greina betur vandann og efla eftirlit og ráðgjöf til verslana og og þjónustuveitenda til að tryggja það að allir komist greitt sinna leiða. Því er lagt til að umhverfis- og skipulagssvið framkvæmi úttekt á málaflokknum og greini hvaða leiðir séu færar til úrbóta til að tryggja það að verslanir og þjónustuveitendur geti haft aðgengiskröfur í samræmi við lög, reglugerðir og alþjóðasamninga.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að breyta bílastæðum fyrir stóra bíla fyrir hleðslustöðvar.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði hvort ekki er hægt að breyta bílastæðum fyrir stóra bíla, sem ekki fá að nota þau lengur samkvæmt hverfisskipulagi Breiðholts, í hleðslustæði ?

Nú ríður á að liðka fyrir orkuskiptum og skipulagsyfirvöld geta beitt sér mun meira og betur í að komið verði hratt upp hleðslustöðum bæði fyrir rafmagn og metan.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að nota frárennsli húsa í meiri mæli til að hita almennar gangstéttir

Flokkur fólksins leggur til frárennsli frá húsum verði í meira mæli nýtt til að hita almennar gangstéttir. Nú sem fyrr er mikil hálka og víða stórhættulegt að ganga um í borginni. Hálkuvarnir eru hagkvæm framkvæmd sem fækkar beinbrotum og bætir lýðheilsu, því að á öruggum gangstéttum má ganga allan ársins hring. Þar sem ekki tekst að hita gangstéttir þarf að sinna snjómokstri og salta þegar hálka myndast. Saltkassar eiga einnig að vera aðgengilegir við göngustíga.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að sinna snjómokstri enn betur, salta gangstéttir og hafa saltkassa aðgengilega

Flokkur fólksins leggur til að skipulags- og umhverfissvið standi sig betur í snjómokstri og söltun gangstétta og að saltkassar verði aðgengilegir við göngustíga í borginni. Borist hafa kvartanir yfir hversu illa er hreinsað t.d. í kringum skóla í Breiðholti og víðar á göngustígum í Breiðholti sem og ýmsum öðrum hverfum. Nú sem fyrr er mikil hálka og víða stórhættulegt að ganga um í borginni. Hálkuvarnir eru hagkvæm framkvæmd sem fækkar beinbrotum og bætir lýðheilsu, því að á öruggum gangstéttum má ganga allan ársins hring.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um gjaldheimtu bílastæðasjóðs og EasyPark

Svar hefur borist við fyrirspurn um hvert tekjurnar sem mest notaða bílastæðaapp í Evrópu, sem nú er komið til Íslands fara vegna greiddra bílastæðagjalda innan Reykjavíkur?

Í svari segir að EasyPark keypti Leggja.is árið 2019. Greiðslur fyrir stæði sem greiddar eru með greiðslulausninni renna óskertar til Bílastæðasjóðs. EasyPark leggur aukalega á þóknun fyrir hverja notkun og rennur sú þóknun til þeirra.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta skrýtið svar frá bílastæðasjóði en er hér verið að segja að bæði bílastæðasjóður fái gjald og svo fari einnig sérstök greiðsla til EasyPark? Eru bílaeigendur að greiða gjald til beggja í hvert skipti sem þeir leggja? Eru bílaeigendur meðvitaðir um það og hafa þá gjöldin ekki hækkað sérstaklega þar sem EasyPark leggur aukalega þóknun á fyrir hverja notkun?

Óskað er upplýsinga um samninga sem liggja til grundvallar samstarfs bílastæðasjóðs og EasyPark og hvernig fyrirkomulagið allt er í því sambandi?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,

Fulltrúa Flokks fólksins óar við öllum þessum innkaupum Umhverfis- og skipulagssviðs sem birt eru í yfirlit í ljósi þess að á sviðinu starfa ótal sérfræðingar. Nýlega var verið að ráða enn fleiri sérfræðinga. Samt sem áður eru nánast flest verkefni keypt út í bæ. Milljarðar streyma úr borgarsjóði í aðkeypta sérfræðivinnu sem skipulagsyfirvöld kaupa af sjálfstætt starfandi fyrirtækjum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig samskiptum umhverfis- og skipulagssviðs (USK) er háttað við verkfræði-arkitektastofur.

Spurt er:

Hvernig er samskiptum við verkfræði-arkitektastofur háttað?

Óskað er eftir upplýsingum um tilboð- fasta samninga- magnafslætti?

Verið er að greiða verk- og arkitektastofum gríðarlegar upphæðir. Er ekki hægt að vinna nein þessara verkefna af sérfræðingum sviðsins?

Frestað.