Tillaga um hækkun á úthlutun fjárhæðar fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að úthlutað verði að lágmarki 130 þús.kr. fyrir hvert barn sem fær rauða niðurstöðu á Milli mála málkönnunarprófi eins og skóla- og frístundaráð hefur lagt til. Í skýrslu Innri endurskoðunar (2019) um ÚTHLUTUN FJÁRHAGSRAMMA OG REKSTUR kemur fram að börn af erlendu bergi brotin fá ekki næga aðstoð í íslensku vegna fjárskorts skóla. Á vorönn 2018 voru töluð 63 tungumál í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Fjármagni er sérstaklega úthlutað til skólanna vegna kennslu barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Milli mála málkönnunarprófinu er ætlað að greina þörf fyrir stuðning við nám á íslensku. Niðurstöður eru flokkaðar í þrjá flokka, grænan, gulan og rauðan, og metið er að þau börn sem fá gula eða rauða niðurstöðu úr prófinu þurfi aðstoð.
Á árinu 2018-2019 var úthlutun 107.600 kr. á hvern nemanda sem fékk rauða niðurstöðu og 36.000 kr. á nemanda sem fékk gula. Í fjárhagsáætlun 2019 var aukning um 10.544 kr. hækkun á hvert barn, sé miðað við þann fjölda nemenda sem þreytti slík próf á árinu 2018, óháð niðurstöðu prófa. Ljóst er að úthlutun í þennan málaflokk er vel innan við 130 þús.kr. fyrir hvern nemanda sem er á rauðu.
Greinargerð
Í niðurstöðum Milli mála málkönnunarprófinu og úthlutun fjármagns á vor- og haustönn 2018 sem birt er í skýrslu Innri endurskoðunar 2019 má sjá fjölda barna sem tóku prófið og hvernig skipting þeirra var milli flokka. Alls tóku prófið 2.294 nemendur. Rauða niðurstöðu fengu 1.997. Gula niðurstöðu fengu 327 og græna niðurstöðu fengu 170. Þess má geta að 45% af börnunum sem fengu rauða niðurstöðu eru fædd á Íslandi af erlendum foreldrum þannig að börnin hafa alist upp hér á landi en eru þrátt fyrir það svona illa stödd með íslenska tungu.
Börn af erlendu bergi brotin eiga oft erfitt uppdráttar á Íslandi. Þau kunna íslenskuna ekki nógu vel og þurfa meiri aðstoð við námið heldur en íslenskir bekkjarfélagar þeirra en fá jafnvel ekki næga aðstoð vegna fjárskorts skólans. Börnin sem hér um ræðir eru bæði börn kvótaflóttamanna og hælisleitenda. Þetta eru börn sem hafa oftast upplifað erfiða hluti í heimalandinu og leggja síðan í erfitt ferðalag til framandi lands. Það er að mörgu leyti haldið vel utan um þessi börn fyrsta árið. Þau fá þjónustu sálfræðinga og heilbrigðisstarfsmanna sem kostuð er af ríkissjóði. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá stuðning greiddan af ríkinu þann tíma þar til mál þeirra hafa verið afgreidd, en kvótaflóttamenn hafa fengið greiddan stuðning fyrsta árið eftir komu. Eftir það falla þau í sama flokk og önnur börn af erlendu bergi brotin í skólunum. Úthlutað er fjármagni úr potti vegna nemenda af erlendum uppruna.
Ef litið er til baka til ársins 2017- 2018 var 190,7 m.kr. úthlutað til þessa verkefnis og því skipt milli skóla.
Nemendur á rauðu fengu það árið úthlutað 98.600 kr. og nemendur á gulu 32.650 kr. á hvern nemanda. En árið en 2018-2019 var úthlutun hækkuð lítillega, 107.600 kr. á hvern nemanda á rauðu og 36.000 kr. á hvern nemanda á gulu eins og að ofan greinir. Ljóst er að sú hækkun sem samþykkt var í fjárhagsáætlun 2019 til þessa verkefnis nær ekki þeirri upphæð sem skóla- og frístundasvið leggur til sem er 130 þús.kr. fyrir hvert barn sem fær rauða niðurstöðu. Börnin með gula niðurstöðu myndu samkvæmt tillögu skóla- og frístundasviðs fá hlutfall af þeirri fjárhæð og myndi þessi útfærsla koma í stað þeirra rúmu 190 m.kr. sem skipt er á milli skóla.
Það eru allir sammála um að gera þarf betur í móttöku barna af erlendum uppruna og í leik- og grunnskólastarfi. Borgaryfirvöld eru ekki að standa sig nægjanlega vel gagnvart börnum sem eiga foreldra af erlendum uppruna. Það er ekki nóg að taka við fólki, bjóða því að dvelja til langframa á Íslandi en sinna því síðan ekki sem skyldi. Það hlýtur að vera markmiðið að þau standi ekki hallari fæti en önnur börn þegar kemur að námi eða öðru sem þau kunna að vilja taka sér fyrir hendur. Til að draumar þeirra geta ræst eins og annarra barna á Íslandi þarf margt að koma til svo sem faglegur stuðningur við starfsfólk og viðeigandi fjárveitingar.
Það liggur fyrir að til að læra mál þarf að heyra það sem oftast og mest. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til í borgarstjórn að fundnar verði fjölbreyttar leiðir til að tryggja að börn sem eru af erlendu bergi brotin heyri íslenskt mál sem oftast til að auka líkur þeirra á að tileinka sér íslenskt mál sem fyrst. Þátttaka þeirra í umhverfi s.s. íþrótta- og tómstundastarfi þar sem töluð er íslenska skiptir sköpum.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun v. afgreiðslu málsins:
Tillagan um hækkun á úthlutun fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna í samræmi við tillögu skóla- og frístundasviðs frá 2019. Tillögunni er vísað til skóla- og frístundaráðs til meðferðar. Fulltrúi Flokks fólksins mun halda áfram að vinna að þessari tillögu og vonandi í góðri samvinnu við skóla- og frístundasvið. Á það verður að horfa að yfirvöld borgarinnar á sviði skóla hafa ekki staðið sig nógu vel gagnvart börnum af erlendum uppruna þegar kemur að íslenskukennslu. Ekki er nóg að taka við fólki, bjóða því að dvelja til langframa á Íslandi en sinna því síðan ekki sem skyldi. Tæpur helmings barna sem eru verst sett eru fædd hér á landi. Heldur dugir ekki að kvarta yfir að ekki fáist úthlutun úr Jöfnunarsjóði eins og borgarstjóri hefur gert. Fyrir því liggja ástæður. Reykjavík er ríkt sveitarfélag sem hefur einfaldlega ekki sett börn í nægilegan forgang í það minnsta ekki á þessu sviði nákvæmlega. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að þessi börn standi ekki hallari fæti en önnur börn. Til að draumar þeirra geta ræst eins og annarra barna á Íslandi þarf margt að koma til svo sem faglegur stuðningur við starfsfólk og viðeigandi fjárveitingar.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu uppfærðrar húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar:
Skortur er á þjónustuíbúðum aldraðra og hjúkrunarrýmum. Byggja á 450 íbúðir fyrir eldri borgara. Þjóðin er að eldast og þessi rými stytta biðlistann aðeins að hluta til. Bið eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk er enn of löng. Nú bíða á annað hundrað manns eftir sértæku húsnæði en á áætlun er að byggja um 100 íbúðir. Nýlega féll úrskurður í Úrskurðarnefnd Velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns sem beðið hefur árum saman á biðlista. Í úrskurðinum segir að borgin skuli hraða afgreiðslu málsins og taka ákvörðun um úthlutun viðeigandi húsnæðis svo fljótt sem auðið er. Ekki hafa allir borgarbúar öruggt húsnæði. Biðlisti í félagslega íbúðakerfið eru tæp 600, með börnum talið þá um 1000 manns. Það er skortur á almennu hagkvæmu húsnæði sem eykur líkur þess að efnalítið fólk finni sér skjól í hættulegu, ósamþykktu húsnæði. Verið er að byggja agnarsmáar íbúðir sem deila má um hversu hagkvæmar þær eru þegar litið er til smæðar þeirra. Gengið er langt í þéttingu byggðar þegar tekið er upp á að fylla fjörur til að fá byggingarland eins og í Skerjafirði. Einnig er erfitt að fá iðnaðarhúsnæði í sumum hverfum í Reykjavík en atvinnutækifæri eru afar misgóð eftir hverfum, í sumum hverfum lítið sem ekkert.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu Sjálfstæðisflokksins:
Það er mikilvægt að borgin geri úttekt á stöðu geðheilbrigðismála til að sjá hvað þarf að gera betur eða öðruvísi. Aðstæður eru með ólíkindum. Hver átti von á að upplifa aðstæður þar sem banvæn veira skekur heiminn allan? Svona aðstæður kalla á æðruleysi og samvinnu. Enginn er beinlínis sökudólgurinn og enginn er óhultur. Ekki er í boði að leyfa þessum skæða sjúkdómi að höggva óteljandi skörð í samfélagið okkar með tilheyrandi sársauka. Minna þarf á að það er vissa í óvissunni. Vissan er sú að ef við fylgjum leiðbeiningum sérfræðinga okkar munum við ná yfirhöndinni og að það kemur bóluefni. Halda þarf utan um þá sem eru veikir fyrir, andlega og líkamlega og þá sem hafa tapað lífsviðurværi sínu. Hvað tekur meira á andlegu hliðina en að missa vinnuna, vera skyndilega komin á bætur? Mörg börn eru einnig kvíðin. Sem stjórnvald ber okkur líka að benda á það sem þó er jákvætt. Rafrænar lausnir bjarga miklu þótt þær komi ekki í staðinn fyrir nærveru. Tækifæri til hreyfingar hefur takmarkast en ekki skerst að fullu. Hægt er að fara í göngu-, hjóla og hlauptúra sem sannarlega bjarga geðheilsu margra. Hvetjum fólk til að halda í vonina og hika ekki við að leita hjálpar.
Bókun Flokks fólksins við 6. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 28. október:
Tillögur stýrihóps um þjónustu við gæludýr eru til bóta og ganga út frá því að breyta eftirliti með gæludýrum úr refsikerfi yfir í leiðbeininga- og eftirlitskerfi með hagsmuni dýra að leiðarljósi. Í þessum tillögum eru hins vegar nokkrir ágallar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að skráning gæludýra hjá borginni eigi að vera gjaldfrjáls. Rafræn skráning er ekki kostnaðarsöm. Kettir hundar og kanínur eru þegar skráð í miðlægan örmerkjagagnagrunn hjá Matvælastofnun. Fulltrúi Flokks fólksins undrast viðhorf stýrihópsins að telja að kattaeigendur muni ekki skrá ketti sína þótt það væri skylda. Í þessum tillögum er því að finna talsverða fordóma þar sem misjafnt er lagt til eftir því hvaða gæludýr fólk heldur. Hundaeigendur hafa greitt hátt skráningargjald og eftirlitsgjöld árum saman en aðrir ekki. Eiga hundaeigendur að greiða fyrir allt dýraeftirlit í borginni? Ábyrgðatryggingin frá borginni er of dýr og er þessi trygging gegnum borgina lítið nýtt. Afar fátítt er að hundar valdi tjóni á umhverfi eða náttúru og langflestir hundar eru í taumi utandyra. Kettir valda hins vegar ákveðnu tjóni t.d. á fuglalífi. Kettir fara sínar ferðir en ábyrgir kattaeigendur setja bjöllur á ketti sína. Kettir valda einnig tjóni með því að dreifa sníkjudýrum í sandkassa.
Fundargerð borgarráð, liður 6 Endurgerð kvennabaða Sundhallarinnar:
Nú á að hefja framkvæmdir við endurgerð á kvennaböðum í eldri byggingu Sundhallar Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því og samhliða væntir hann þess að konur fái aftur að nota að fullu kvennaaðstöðuna í eldri byggingunni um leið og hún er tilbúin.
Viðaukinn við fjárhagsáætlun, styrkir til íþróttafélagaÞ
Fulltrúi Flokks fólksins styður alla styrki/viðauka til grunnþjónustu og til að tryggja heilbrigði og tómstundir. Vissulega átti engin von á slíkri vá sem veiran er og áhrif hennar. Fjölmarga viðauka þarf að samþykkja næstu vikur, tillögur um breytingu á rekstri vegna COVID sem lækka mun handbært fé. Á sama tíma og þörf fólks eykst fyrir aðstoð eru gjaldskrár hækkaðar og krafa gerð um hagræðingu hjá sviðum sem veita grunnaðstoð. Fulltrúi Flokks fólksins vill að beðið sé með allar gjaldskrárhækkanir þar til rofar til í aðstæðum vegna COVID. Hópurinn sem þarfnast aðstoðar stækkar. Fólk sem var í fastri vinnu er nú skyndilega atvinnulaust. Fyrirvarinn var enginn Huga þarf að skóla- og frístund- og velferðarsviði enda reynir mest á þessi svið. Í umræðunni er sjaldnast minnst á stöðu borgarinnar fyrir COVID. Fyrir faraldurinn var nærri stöðug skuldaaukning.