Borgarráð 16. september 2021

Bókun flokks fólksins við minnisblaði fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 16. september 2021, um áætlaða lántöku A-hluta árið 2021:

Gert er ráð fyrir því að borgarsjóður taki meira en tvo milljarða að láni í hverjum mánuði, með ábyrgð borgarinnar. Að óbreyttu munu skuldir samstæðu borgarinnar fara yfir 400 milljarða á næstunni. Við vinnslu á útkomuspá ársins vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 þá lítur út fyrir að lántaka borgarsjóðs verði ekki eins mikil og áætlað var og er það gott.
Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt harðlega 10 milljarða innspýtingu í stafræna umbreytingu á þremur árum og þá helst að ekki er verið að fara vel með þessa fjármuni eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur bent á með dæmum. Þegar COVID reið yfir átti að endurskoða þessa ákvörðun og umfram allt á þjónustu- og nýsköpunarsvið að leita hagkvæmustu leiða en ekki eyða fé í að finna upp hjól sem löngu hefur verið fundið upp. Fleiri, s.s. fjölmiðlar, eru sem betur fer farnir að fjalla um málið og þess er vænst að gerð verði úttekt af innri endurskoðanda á fjárreiðum þjónustu- og nýsköpunarsviðs innan tíðar. Enginn er hér að mótmæla að stafrænum lausnum þarf að fjölga. Finna má frábærar stafrænar lausnir hjá upplýsingatæknifyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum. Hagkvæmast væri að tengja sig við þá sem nú njóta stafrænna afurða, eru komnir lengra eins og verkefnið Stafrænt Ísland sem er umfangsmeira, þróaðra og virkar vel og bíður auk þess sveitarfélögum að stíga um borð.

Bókun flokks fólksins við minnisblaði við framlagningu samantekat borgarvaktarinnar sem borgarráð samþykkti að setja á fót til að vakta afleiðingar faraldursins á aðstæður borgarbúa í velferðar- og atvinnumálum. Afleiðingar COVID eru margvíslegar og mikilvægt að Reykjavíkurborg vinni að því að styrkja alla verndandi þætti og tækifæri til heilsueflandi lífs fyrir borgarbúa alla og sú vinna er sannarlega í gangi.

Fram kemur í kynningu að uppsöfnuð vannýting frístundakorts er um 450 m.kr. Fulltrúi Flokks fólksins vill að þessi upphæð verði færð yfir á næsta ár og styrkir þá bæði hækkaðir og reglur rýmkaðar. Fulltrúi Flokks fólksins var með tillögu um að vannýttar fjárhæðir frístundakortsins 2020 vegna COVID myndu færast yfir á þetta ár en sú tillaga var felld í lok árs 2020. Búið er að eyrnamerkja ákveðið fjármagn í frístundakortsstyrki og ef það er af einhverjum ástæðum ekki fullnýtt væri eðlilegt að afgangurinn flyttist yfir á næsta ár og það notað til að gera betur fyrir börnin. Þetta er sérstaklega brýnt núna eftir innilokanir og takmarkanir vegna COVID. Frístundakortið er sérstaklega ætlað til að auka jöfnuð og fjölbreytileika tómstundastarfs en hefur aldrei verið fullnýtt. Á COVID tíma var það eðli málsins samkvæmt ekki fullnýtt. Tilgangur þess, eins og segir í 2. gr. í reglum um frístundakort, er að öll börn, 6-18 ára, í Reykjavík geti tekið þátt í frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Reglur um frístundakort eru enn of stífar þótt þær hafi verið rýmkaðar aðeins. Þær þarf að rýmka enn meira, þannig að hægt sé að nota styrkinn á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar.

 

Bókun flokks fólksins við svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 30. ágúst 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um áætlanir þjónustu- og nýsköpunarsviðs að stafrænni umbreytingu lokinni, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. ágúst 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvað þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar ætli að gera þegar það verður búið að eyða tíu þúsund milljónum af útsvarspeningum borgarbúa að 2 árum liðnum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur í marga mánuði gagnrýnt harðlega þjónustu- og nýsköpunarsvið með borgarmeirihlutann að bakhjarli fyrir að vera að byggja upp sitt eigið hug-búnaðarfyrirtæki. Meirihlutinn samþykkti að setja tíu milljarða í netþróun á 3 árum og hefur nú ráðið um 60 sérfræðinga. Enginn mótmælir því að stafrænar lausnir eru framtíðin og mun létta og einfalda fjölda ferla. Allar þessar stafrænu lausnir má finna hjá flestum upplýsingatæknifyrirtækjum hér á landi sem geta leyst þau verk-efni sem borgin hyggst nú vinna frá grunni. Fulltrúi Flokks fólksins gagnrýnir hvernig farið er með fé borgarbúa á sviðinu og hefur rökstutt það m.a. í fjölda bókana. Hagkvæmast væri að tengja sig við þá sem nú njóta stafrænna afurða, eru komnir lengra eins og verkefnið Stafrænt Ísland sem er umfangsmeira, þróaðra og virkar vel. Þar eru verkefni boðin út en verkefnastjórn sér um utanumhald. Aðferðafræði og ferlar þjónustu- og nýsköpunarsviðs standast ekki skoðun og hefur fulltrúi Flokks fólksins leitað til innri endurskoðanda með beiðni um úttekt.

 

Bókun flokks fólksins við minnisblaði við svari  þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 30. ágúst 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda og afköst stafrænna leiðtoga, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. ágúst 2021:

Í svari koma fram ýmis atriði sem vert er að skoða. Enn og aftur er hamrað á fjórðu iðnbyltingunni og talað um auknar kröfur borgarbúa um rafræna þjónustu. Rafrænar lausnir eru mikilvægar en fulltrúi Flokks Fólksins minnist þess ekki að hafa séð borgarbúa heimta að meirihlutinn ausi tíu þúsund milljónum af útsvarspeningum þeirra næstu þrjú ár í hugmyndavinnu og þróun stafrænna lausna sem nú þegar eru til. Stærstu mistök þessa meirihluta, með þjónustu- og nýsköpunarsvið sem leiðbeinanda um stafræna umbreytingu, er að ímynda sér að rjúka þurfi upp til handa og fóta líkt og mannslíf liggi við, að hraða þessu eins og kostur er á meðan fólk, þ.m.t. stór hópur barna, bíður eftir grunnaðstoð, s.s. sálfræðiþjónustu sem sveitarfélagi er skylt að veita. Stafræn umbreyting er vissulega þróunarverkefni sem nú þegar hefur verið skapað og er komið í virkni hvert sem litið er. Notendur rafrænnar þjónustu í Reykjavík eru ekkert frábrugðnir öðrum notendum og heimta hvorki meira né minna en aðrir í þeim efnum. Opinber stafræn þjónusta er í grunninn mjög áþekk á milli borga og bæja. Þess vegna má spyrja hvort hlutverk sem dæmi Gróðurhússins, sem verkefnis, sé ekki óþarft. Þangað hafa milljónir streymt undanfarin þrjú ár.

 

Bókun flokks fólksins við svari  skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. september 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna könnunar um framtíð Reykjavíkurborgar, sbr. 68. lið fundargerðar borgarráðs þann 20. maí 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvað þessi könnun um framtíð Reykjavíkurborgar kostaði borgarsjóð. Í þetta fóru 58.000 kr. Hverjum gagnast þessar upplýsingar í þeim mæli að það væri þess virði að borga fyrir þetta 58.000 kr.? Nú bíða 1448 börn þess að fá þjónustu fagaðila hjá skólaþjónustu. Laun tveggja sálfræðinga og eins talmeinafræðings myndu kosta 40,5 m.kr. á ári. Með aukningu þriggja stöðugilda tímabundið væri hægt að grynnka verulega á biðlistanum. Eru þarfir barna eftir fagþjónustu ekki mikilvægari en að finna út hvernig Reykjavík lítur út eftir 15 ár og greiða fyrir það 58.000 kr. auk vinnu starfsmanna atvinnuþróunarteymis á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara? Þar að auki var keypt vinna af Deloitte, en sá kostnaður er ekki gefinn upp í svarinu.

 

Bókun flokks fólksins við minnisblaði Bókun flokks fólksins við svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 18. ágúst 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi biðtíma í þjónustuveri Reykjavíkurborgar, sbr. 70. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. maí 2021:

Svar hefur borist frá þjónustu- og nýsköpunarsviði um meðallengd biðtíma eftir svörun þjónustuvers og um fjölda símtala á dag. Meðaltími símaborðs er um 1,4 mínútur. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það hljóti þó að vera þannig að stundum sé svarað strax og dregur það þá niður meðalbiðtíma. Sumir bíða kannski í fáar sekúndur og aðrir kannski í tíu mínútur allt eftir hvað álagið er mikið. Fram kemur að ekki öllum innhringingum er svarað eða hátt í 10%. Þetta tölfræðiuppgjör sýnir að margir þurfa að bíða lengi, jafnvel í allmargar mínútur. Að bíða í margar mínútur veldur vonbrigðum og pirringi sem fulltrúi Flokks fólksins heyrir af. Þá kemur einnig fram að 50 tölvupóstar berist daglega og 34 koma í netspjall. Hvernig væri að þjónustu- og nýsköpunarsvið myndi kynna sér snjallmennið „Vinný“ hjá Vinnumálastofnun? Vinný er búin að sanna sig og skoða má sambærilega innleiðingu til að bæta og auka þjónustu í Reykjavík hratt og vel! Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá svörun þannig að biðtími sé vel innan við 45 sekúndur eftir að heyra rödd starfsmanns. Netspjallið mætti vera mikið öflugra og í gegnum það fengi fólk afgreiðslu á erindum frá öllum sviðum, erindum sem hægt er að afgreiða í gegnum rafrænar lausnir.

Bókun flokks fólksins við svari skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. september 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um heildarkostnað við stefnumótun stýrihópa á kjörtímabilinu, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. ágúst 2021:

Birtur er heildarkostnaður við stefnumótun stýrihópa á kjörtímabilinu. Samtals er kostnaður vegna 10 stýrihópa 43.386.430. Eftir því er tekið að verkefnið „2. áfangi tilraunaverkefnis um styttingu vinnudags án launaskerðingar“ sem mátti ekki kosta krónu kostaði tæpar 11 milljónir, laun til Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri og Félagsvísindastofnunar (rannsókn og skýrsla).

 

Bókun flokks fólksins við lið 5 í fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 2. september 25. september 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að sjá þennan lið á dagskrá nefndarinnar. Um er að ræða tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að gerð verði úttekt á starfi aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar, hvernig hún er raunverulega tengd í stjórnkerfinu, hvaða mál berast henni til afgreiðslu og hvaðan. Einnig hvernig mál eru afgreidd í nefndinni, hvert og hvaða áhrif þau hafi á áætlanir í borgarkerfinu. Fulltrúi Flokks fólksins er ekki með þessari tillögu að segja að nefndin leggi sig ekki fram. Engu að síður finnst fulltrúa Flokks fólksins hún geti gert betur, barist af meiri elju og krafti fyrir bættum réttindum þess hóps sem hún á að standa vörð um. Nefna má mál eins og af hverju verðskráin og þjónustan sé ekki sambærileg hjá Strætó og hjá akstursþjónustunni og mörg fleiri sanngirnismál. Skemmst að vitna í nýútkomna skýrslu um fátækt og bága stöðu öryrkja sem birt var í vikunni. 80 prósent fatlaðs fólks á erfitt með að ná endum saman og jafnhátt hlutfall þeirra þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. 60 prósent geta ekki mætt óvæntum útgjöldum og meira en einn af hverjum tíu þiggur mataraðstoð frá hjálparsamtökum. Um hverja krónu munar hjá þessum hópi.

 

Bókun flokks fólksins við lið 3 í fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 6. september 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins vekur athygli á því að undir lið þrjú um málefni hverfisins var tekin umræða um mögulega breikkun Breiðholtsbrautar vegna mikilla umferðarþyngsla þar um á álagstímum. Fulltrúinn hafði óskað eftir umræðunni en hefði kosið að málið hefði verið rætt undir sérstökum dagskrárlið. Bæði auðveldar það íbúum að taka þátt í umræðunni og þar með gagnsæi í stjórnkerfinu. Fulltrúinn telur mikilvægt að þessi ábending um þörf á tvöföldun verði tekin til skoðunar sem fyrst í borgarkerfinu.

Bókun flokks fólksins við lið 3 fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 26. ágúst:

Ekki er ein báran stök þegar kemur að GAJU, gas- og jarðgerðarstöð SORPU í Álfsnesi. Nú er mygla komin upp í þaki og burðarvirki GAJU og hefur jarðgerð verið stöðvuð af þeim sökum. Framkvæmdastjóri segir tjónið líklega hlaupa á tugum milljóna króna. Myglan hreiðraði um sig í límtré sem notað var í burðarvirkið. Stöðin opnaði í fyrra vor og nam kostnaður við bygginguna sex milljörðum króna. Óhætt er að álykta sem svo að ákvörðun um GAJU hafi verið óheillaskref ef horft er til alls þess sem gengið hefur á í sambandi við verkefnið. Nú virðist sem mistökin liggi hjá „færustu“ verkfræðistofum landsins sem hönnuðu bygginguna. Má ekki spyrja hver átti að hafa eftirlit með framkvæmdinni? Í ljós hefur komið, eftir á, að burðarbitarnir eru úr límtré og segir framkvæmdastjórinn að það sé víst aldrei notað í starfsemi sem þessari. Tjónið er mikið en þó sagt minna en á horfðist því moltan er hvort eð er ónothæf. Metið er að tjónið hlaupi á einhverjum tugum milljóna. Nei, það er ekki ein báran stök þegar kemur að málefnum SORPU.

 

Bókun flokks fólksins við 1 lið fundargerð öldungaráðs frá 6. september 2021:

Flokki fólksins finnst að fjalla þurfi meira um fjármögnun í umsögn um stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða. Tryggja þarf að þeir sem ekki geta dvalið heima þrátt fyrir víðtæka heimaþjónustu og heimahjúkrun fái pláss á hjúkrunarheimilum. Einnig er mikilvægt að efla heimastuðning því ef þjónustuþáttum væri fjölgað og aðrir dýpkaðir myndu fleiri geta búið lengur heima. Horfa þarf til fleiri úrræða og fjölbreyttari, t.d. sveigjanlegrar dagdvalar sem millilið. Það er vilji flestra að vera sem lengst heima og er það hagkvæmt fyrir þjóðfélagið. Þess vegna er það ekki skynsamlegt að stefna um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða setji markmið um að aðeins 15% 80 ára og eldri dvelji í hjúkrunarrýmum þegar raunin er sú að í dag skortir yfir hundrað hjúkrunarrými þrátt fyrir að hjúkrunarrými séu til staðar fyrir 21,4% fólks 80 ára og eldri. Hér munar of miklu á raunverulegri þörf og markmiði sem sett er. Þeir sem þurfa pláss verða að fá pláss í stað þess að þurfa að vera á Landspítala vikum eða mánuðum saman vegna þess að ekkert annað úrræði er til. Umfram allt má ekki setja öll eggin í eina körfu. Fleiri tegundir úrræða þyrftu að vera til staðar í samræmi við aldursþróun þjóðarinnar.

Bókun flokks fólksins við 5 lið í yfirliti yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði:

Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu aldraðra. Birtar eru umsagnir Reykjavíkurborgar. Flokkur fólksins hefur barist fyrir þessum málaflokki bæði á þingi og í borg. Flokkur fólksins vill jafnrétti og mannréttindi fyrir þennan hóp sem dæmi að skerðingar verði afnumdar á atvinnutekjum eldra fólks. Stefna í málefnum aldraðra þarf að taka mið af þessum veruleika. Innan þessa hóps fyrirfinnst einnig ofbeldi eins og í öðrum hópum. Markvisst þarf að draga úr kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Það er skylda stjórnvalda að vinna gegn ofbeldi. Það hefur reynst erfitt að meta umfang ofbeldis í garð aldraðra af ýmsum ástæðum. Sumt eldra fólk vill ekki tala um ofbeldi vegna ríkjandi fordóma. Ekki er heldur víst að eldra fólk viti af mögulegri aðstoð, s.s. að hægt sé að hafa samband við Kvennaathvarfið og Stígamót.