Velferðarráð 16. júní 2021

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. janúar 2020, um teymi sem leysir deilumál leigjenda félagsbústaða utan opnunartíma.:

Tillögu Flokks fólksins um að sett verði á laggirnar teymi sem bregst við ef upp kemur erfitt ástand/tilvik meðal leigjenda Félagsbústaða utan hefðbundins opnunartíma þjónustumiðstöðva hefur verið vísað frá í velferðarráði. Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt við all marga leigjendur þetta kjörtímabil og ber þeim saman um að bjóða þurfi upp á stuðning og ráðgjöf utan hefðbundins opnunartíma skrifstofu ef upp koma erfið mál/atvik.  Hér er ekki verið að vísa til barnafólks eða tilfelli um heimilisofbeldi heldur óvænt og erfið tilvik sem upp geta komið í húsnæði félagsbústaða. Tillagan hefur legið ofan í skúffu í marga mánuði hjá velferðaryfirvöldum. Vel hefði mátt skoða að setja á laggirnar úrræði sem svaraði kalli leigjenda utan opnunartíma þjónustumiðstöðva ef tilefni þykir til. Þetta mætti að minnsta kosti prófa til reynslu í ákveðinn tíma. Eins og staðan er í dag er mögulega Vorteymið sem gæti hjálpað til? Ef um hátíðisdaga er að ræða þurfa leigjendur jafnvel að bíða dögum saman þar til skrifstofan Félagsbústaða opnar á ný. Það skiptir miklu máli að geta náð í einhvern í síma því oft nægir að veita ráðgjöf.  Margir leigjendur eru eldra fólk og öryrkjar og til þess verður að taka tillit. Margir treysta sér ekki til að hringja á lögreglu í svona tilfellum.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu á tillögu  fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs 24. júní 2020, um að auka gegnsæi þjónustu Þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar:

Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að auka gegnsæi þjónustu þjónustumiðstöðva hefur verið vísað frá. Tillagan snýr hvað helst að upplýsingaflæði og fræðslu til foreldra. Í samtali fulltrúa Flokks fólksins við foreldra þetta kjörtímabil hefur komið í ljós að gegnsæi á þjónustu þjónustumiðstöðva er ábótavant. Sem dæmi hafa foreldrar barna með ADHD og aðrar raskanir og fötlun upplifað jafnvel uppgjöf gagnvart „velferðarkerfinu“. Þess vegna lagði fulltrúi Flokks fólksins þessa tillögu fram. Foreldrar barna með námsörðugleika ásamt foreldrum fatlaðra barna hafa ekki allir áttað sig  á hvar þeir geta fengið ráðgjöf eða yfir höfuð hvert hlutverk þjónustumiðstöðva er. Þetta er m.a. ástæða þess að árið 2019 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um gerð upplýsingabæklings og í þeim bæklingi kæmi fram hvaða þjónusta er í boði hjá borginni fyrir ólíka hópa. Í drögum að velferðarstefnu er það viðurkennt að upplýsingaflæði er ábótavant. Engu að síður eru tillögur til bóta felldar með þeim rökum að verið sé að gera þetta allt og er viðkvæðið oft að „vinna sé í gangi“ o.s.frv. En hvergi er, enn, að sjá neinar afurðir! Í viðbrögðum meirihlutans má sjá mikið af mótsögnum sem skilur borgarbúa og þjónustuþega eftir í þoku og óvissu.

Bókun Flokks fólksins við bréfi skrifstofu borgarstjórnar, dags. 27. maí, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 16. júní 2021, um drög að lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030, sem vísað var til umsagnar velferðarráðs á fundi borgarráðs, þann 20. maí 2021.:

Drög að lýðheilsustefnu liggur fyrir og umsögn um hana.  Lýðheilsa er samheiti yfir heilsuvernd og forvarnir og miðar að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks. Ekki er þó minnst á biðlista sem er án efa einn stærsti lýðheilsuvandi í borginni. Nú bíða 1577 börn eftir þjónustu sálfræðinga og fleiri fagaðila. Í stefnunni er talað um „þátttöku allra“ og að ná eigi til viðkvæmra hópa.  Eldri borgarar fá samt ekki vægi í stefnunni. Málefni þeirra eru ekki í nægum forgangi. Málefni sem tengjast þessum aldurshópi hefur sem dæmi sjaldan ratað inn á borð í mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Úr því þarf að bæta hið snarasta. Það getur varla fallið undir „þátttöku allra“ að vilja ekki skoða tillögu um sveigjanleg starfslok eða Vinnumiðlun eftirlaunafólks. Tillaga Flokks fólks þess efnis var felld í borgarstjórn 15. júní. Útrýming á fátækt og að auka jöfnuð meðal barna í Reykjavík auk þess að eyða biðlistum hlýtur að vera meginmarkmið stefnu af þessu tagi. Í drögum að Lýðheilsustefnu segir að reyna á að manna stöður leikskóla sem þessum meirihluta hefur ekki lánast að gera á þeim þremur árum sem liðin eru. Vonandi á „stefnan“ eftir að dýpka eftir að hafa verið í samráðsgáttinni og tengjast þeim raunveruleika sem við búum við en ekki vera aðeins yfirborðskennt plagg.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu við kynning á niðurstöðum viðhorfskönnunar starfsmanna Reykjavíkurborgar.:

Viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2021 er kynnt fyrir velferðarráði. Nokkur atriði vekja sérstaka athygli í þessari könnun á niðurstöðum viðhorfskönnunar starfsmanna Reykjavíkurborgar.  Fyrst er að nefna niðurstöður sviðanna um einelti, áreitni og fordóma en þar er þjónustu- og nýsköpunarsvið (ÞON) með lang hæsta gildið, eða 8.0% þegar kemur að einelti frá samstarfsfólki. Önnur svið er helmingi lægir og alveg niður í 0,0%.  Segir þetta að á þessu sviði eru starfsmenn hvað mest að upplifa/verða fyrir einelti frá samstarfsaðilum sínum.  Þetta er alvarlegt og vísbending um að mikil vanlíðan kraumar á sviðinu innan starfsmannahópsins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um þegar svona niðurstöður birtast að þá er  lykilatriði að skoða stjórnunarþáttinn. Staðreyndin er sú að stjórnandi/yfirmaður hefur það hvað mest í hendi sér hvort einelti fær þrifist á  vinnustað. Þetta hafa rannsóknir marg sýnt. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að þetta verði skoðað með gaumgæfilegum hætti.