Borgarráð 17. janúar 2019

Flokkur fólksins og Miðflokkur bóka eftirfarandi í máli borgarinnar og Ástráðs Eysteinssonar en á honum braut borgin jafnréttislög:

Þetta samkomulag Reykjavíkurborgar, annars vegar og Ástráðs Haraldssonar (ÁH) hins vegar að greiða honum 3 milljónir staðfestir skömmina að borgin skyldi hafa brotið jafnréttislög, borg sem hefur hreykt sér fyrir að jafnrétti sé í heiðri haft.  Þetta var brot á jafnréttislögum, sem er háalvarlegt mál. Hér er dæmi um enn eitt málið sem útsvarsgreiðendur þurfa að standa skil á í arfaslakri stjórnsýslu  í ráðningarmálum í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði breytingar á forgangsreglum í leikskóla

Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði breytingar  á forgangsreglum í leikskóla þannig að einstætt foreldri sem er með fullt forræði yfir barninu fái forgang í þeim tilfellum sem hitt foreldrið tekur ekki fæðingarorlof.  Í þessum tilfellum þarf hið einstæða foreldri að fara út á vinnumarkaðinn þremur mánuðum fyrr en ella þ.e. þegar barnið er 6 mánaða. Ef forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof situr forsjárforeldrið ekki við sama borð og foreldrar sem deila með sér fæðingarorlofi.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun í máli: Breytingar á reglum um leikskólaþjónustu:

Flokki fólksins finnst margar breytingar góðar og nauðsynlegar. Borgarfulltrúi vill ítreka mikilvægi þess að séð sé til þess  að foreldrar fái pláss fyrir barn sitt innan hverfis síns. Fyrir sum börn getur það verið mjög erfitt að skipta um leikskóla á leikskólatímabilinu og jafnvel getur það haft einhverjar afleiðingar er varða tengsl og tengslamyndun fyrir þau allra viðkvæmustu. Það eru fleiri atriði sem huga þarf og vill borgarfulltrúi nefna eitt atriði hér er varðar forgangsmál á leikskóla. Í því sambandi má nefna að Flokkur fólksins telur að gera eigi breytingar  á forgangsreglum í leikskóla þannig að einstætt foreldri sem er með fullt forræði yfir barninu fái forgang í þeim tilfellum sem hitt foreldrið tekur ekki fæðingarorlof.  Í þessum tilfellum þarf hið einstæða foreldri að fara út á vinnumarkaðinn þremur mánuðum fyrr en ella þ.e. þegar barnið er 6 mánaða. Ef forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof situr forsjárforeldrið ekki við sama borð og foreldrar sem deila með sér fæðingarorlofi. Borgarfulltrúi hefur lagt fram tillögu þess efnis á fundi borgarráðs 17.1. 2019.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks Fólksins um leigubílakostnað 2011-2018 

1. Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt í leigubílakostnað á árunum 2018, 2017, 2016, 2015, 2014, 2013, 2012, og 2011? 2. Hvaða kjörnir fulltrúar hafa heimild til þess að nota leigubíla á kostnað Reykjavíkurborgar? 3. Hvaða embættismenn hafa heimild til þess að nota leigubíla á kostnað Reykjavíkurborgar? 4. Hver er kostnaður við innkaup, viðhalds og rekstur bíla fyrir starfsmenn borgarinnar ef velferðasvið er frá talið árin 2018, 2017, 2016, 2015,2014, 2013, 2012 og 2011? 5. Er farið í útboð ef Reykjavíkurborg kaupir bíla? 6. Hver var kostnaður Reykjavíkurborgar við flugmiðakaup 2018, 2017, 2016, 2015, 2014, 2013, 2012 og 2011 sundurliðað eftir kjörnum fulltrúum og starfsmönnum? 7. Er farið í útboð þegar flugmiðar eru keyptir? 8. Falla vildarpunktar við flugmiðakaup í hlut borgarinnar eða þeirra starfsmanna sem ferðast út fyrir landsteinana?

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um greiðslur vegna starfsmannamála

Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt til yfirmanna/embættismanna varðandi starfslok/ólöglegar ráðningar/brottrekstur hjá borginni tæmandi talið ásamt dómsmálum 2019,2018, 2017, 2016, 2015, 2014, 2013, 2012, 2011 og 2010?

Tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokks og Flokks fólksins um að fá dómskvaddan matsmann til að meta framkvæmd við Nauthólsveg 100 R19010268

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins

Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins óska eftir að dómkvaddur matsmaður verði fenginn tafarlaust til að meta virði framkvæmda á Nauthólsvegi 100 (Bragganum)

Frestað.

Svar við tillögu Flokks fólksins er varðar fjölmargar spurningar um mötuneyti borgarinnar:

Flokkur fólksins spurði ýmissa spurninga er varða mötuneyti, nýtingu, næringu, vanskil og matarsóun. Sum svör eru skýr.  Svör um beinan fjölda eru ekki alveg nákvæm og gefa vísbendingu um að ekki sé haldið utan um rekstur allra þessara mötuneyta á einum stað.  Umfangið er nokkuð mikið, má ætla  3,8 milljónir matarskammta á ári, skv. svörunum.  Má þá ætla að heildarkostnaður, þ.e. hráefni, laun og rekstur, gæti verið 2,5 til 3,0 milljarðar á ári í öllum þessum mötuneytum? En hráefniskostnaður er auðvitað aðeins hluti þeirrar upphæðar, t.d. 30 til 50%.   Athygli vekur að ekki er nefnt að starfsfólk leik- og grunnskóla nýti sér mötuneytin.  Það gæti þó auðvitað verið og er líklegt, en er samt ekki nefnt.
Smávægilegt ósamræmi er í svari um fjölda mötuneyta á velferðarsviði, eru þau 14 eða 15 ?
Það sem eftir er tekið er að ekkert er rætt um fjölda máltíða til starfsfólks skólanna, er verið að selja þeim mat?. Hversu margir sem greiða fyrir mat, nýta sér þjónustuna er einnig óljóst. Vanskil eru 23 milljónir, er það uppsafnað frá fyrra ári, eða fyrir eitt ár? Einnig eru óljós svör hvað varðar matarsóun í mötuneytum og ekki er vitað hversu mikið er hent af þeim sem nýta þjónustuna.

Fyrirspurnir Í framhaldi af svörum við fyrirspurnum Flokks fólksins um mötuneyti borgarinnar:

Það sem eftir er tekið er að ekkert er rætt um fjölda máltíða til starfsfólks skólanna, er verið að selja þeim mat?.
Vanskil eru 23 milljónir, er það uppsafnað frá fyrra ári, eða fyrir eitt ár?
Er verið að selja starfsfólki skólanna mat og ef svo er hver er sá fjöldi máltíða?

Bókun Flokks fólksins í málinu: Styrkveitingar mannréttinda- og lýðræðisráðs

Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur  það afar brýnt að notaðir séu óháðir staðlar þegar kemur að styrkveitingum mannréttinda- og lýðræðisráðs. Við slíkar ákvarðanir getur alltaf komið upp sú staða í litlu samfélagi eins og okkar að einhverjar tengingar, tengsl, eða kunningsskapur þvælist fyrir þegar velja á úr stórum hópi. Þetta er mjög erfið staða fyrir þá sem vinna að valinu. Það er einnig mat Flokks fólksins að leggja skal áherslu á að veita þeim styrk fyrir verkefni sem ekki tengist fastri vinnu sem viðkomandi er að fá  full laun fyrir. Hér ættir frekar að horfa til þeirra sem hafa lagt á sig sjálfboðavinnu til að koma á koppinn verkefni, fólk sem hefur átt frumkvæði, lagt á sig mikla vinnu oft án nokkurra vissu um hvernig takast muni að fjármagna þau.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Óskað er eftir upplýsingum um brú yfir Breiðholtsbraut. Hver verður kostnaður við byggingu hennar? Hver var aðdragandi að ákvörðun byggingar hennar? Hverjar eru óskir hverfisins? Hver hefur nýtingin verið frá opnun hennar? Þegar komið er frá Seljahverfi yfir brúna þ.e. frá suðvesturs til norðausturs er ekki hægt að fara niður í neðra Breiðholt. Spurt er hvort það sé endanlegt skipulag?

Bókun Flokks fólksins við máli umhverfis og skipulagssviðs – Héðinsreitur – Vesturgata 64 og Seljavegur 2 – deiliskipulag:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur efasemdir um þessa inngarða sem þarna eru sýndir í kynningu Umhverfis og skipulagsráðs hvað varðar birtumagn.  Ætla má að skuggahornin og skuggasvæðin í slíkum görðum verði mörg og spurt er þá hvernig plöntur og gróður eigi þar að þrífast en fram kemur að hver garður en þeir eru þrír talsins eigi að hafa mismunandi plöntuþema.  Minnumst þess að íslensk sumur eru stutt og svöl og flestum plöntum og gróðri veitir ekki af þeirri sól sem þau geta fengið. Sjá má dæmi um slíkan inngarð í vesturbæ og má segja að sá garður, (milli Hringbrautar og Ásvallagötu) getur varla talist sérlega aðlaðandi.

Aðrar áhyggjur eru að þessar íbúðir muni seljast dýrar eins og gjarnan er raunin á þessu svæði. Hér er um mikinn fjölda íbúða 330 íbúðir og hótel með 230 hótelherbergi. Borgarfulltrúi hefur áhyggjur af umferðinni á þessu svæði sem nú þegar er mikil.

Fyrirspurn Flokks fólksins og Miðflokksins:

Fram hefur komið að 70 milljónir fóru í uppgerðum á minjum í tengslum við braggann í Nauthólsvík.  Óskað er eftir upplýsingum um hvað nákvæmlega þessar 70 milljónir fóru í vegna uppgerðar á minjum. Óskað er eftir nákvæmum lista yfir hvað skilgreint var sem minjar og sundurliðun á uppgerð þeirra.

Fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Miðflokksins:

Félagsbústaðir seldu hinn 19. september s.l. bifreiðir í eigu félagsins til HBB.
Er það hlutverk Félagsbústaða að selja bíla?
Ef svo er, hverjar eru þá reglurnar?

Varðandi þessa bíla:
Voru bílarnir settir í faglegt söluferli á bílasölu?
Hver er HBB og tengist hann Félagsbústöðum á einhvern hátt?
Hvert var söluverð bílanna OZ – 704, US – 391, AE – 308, VI – J28, allir af gerðinni Honda Jazz og RI – 484, Toyota Yaris?

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Óskað er eftir upplýsingum um brú yfir Breiðholtsbraut. Hver verður kostnaður við byggingu hennar? Hver var aðdragandi að ákvörðun byggingar hennar? Hverjar eru óskir hverfisins? Hver hefur nýtingin verið frá opnun hennar? Þegar komið er frá Seljahverfi yfir brúna þ.e. frá suðvesturs til norðausturs er ekki hægt að fara niður í neðra Breiðholt. Spurt er hvort það sé endanlegt skipulag?

Bókun Flokks fólksins við tillögu um breytingu á fjárhagsaðstoð

Flokkur fólksins fagnar öllum hækkunum til þeirra sem búa við fjárhagsörðugleika og þurfa fjárhagsaðstoð. Þessar hækkanir hefðu þó mátt vera meiri en raun ber vitni. Hafa skal í huga að fyrir suma er þetta ekki tímabundið ástand heldur ástand til lengri tíma. Það er einfaldlega staðreynd. Fram kemur í reglunum að gert sé ráð fyrir að húsnæðiskostnaði sé mætt með greiðslu vaxtabóta, húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings en einnig er gert ráð fyrir honum í grunnfjárhæð. Það eru tilfelli þar sem fólk á ekki rétt á vaxtabótum eða húsnæðisstuðningi. Sumir búa í ósamþykktu húsnæði sem dæmi eru þar fastir, eiga ekki möguleika á að koma sér úr þeim aðstæður vegna annarra vandamála. Athuga verður að hafa í huga að enginn velur að vera í erfiðri stöðu eins og  hér um ræðir.