Borgarráð 28. nóvember 2019

Lögð fram tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fái undanþágu frá reglugerð um hollustuhætti og að samþykkt um hundahald verði endurskoðuð.

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fái undanþágu frá reglugerð um hollustuhætti og að samþykkt um hundahald verði endurskoðuð. Farið verði fram á undanþágu frá reglugerðinni um: 1. Að gæludýr hafi aðgang að kaffihúsum með eigendum sínum þar sem rekstraraðilar leyfa. 2. Gæludýr hafi aðgang að verslunarmiðstöðum nema annað sé tekið fram. Einnig er lagt til að hundaleyfisgjaldið verði nýtt til að bæta aðstöðu fyrir hundaeigendur í borginni. Gjaldið er nú notað til að greiða niður starfsemi hundaeftirlits borgarinnar. R19110390

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

 

Lögð fram tillaga Flokks fólksins að reglur um gæludýr í strætisvögnum verði sambærilegar og eru í nágrannalöndunum:

Flokkur fólksins leggur til að reglur um gæludýr í strætisvögnum verði sambærilegar og eru í nágrannaborgum. Tilraunaverkefni hefur verið í gangi og gengið vel. Tímabært er að stíga skrefið til fulls. Þær reglur sem eru nú í gildi eru óþarflega strangar og þar sem tilraunaverkefnið hefur gengið vel er engin ástæða til annars en að taka skrefið til fulls. Núverandi meirihluti og einnig sá síðasti undir stjórn sama borgarstjóra hefur lagt á það áherslu að Reykjavík fylgi borgum eins og Osló og Kaupmannahöfn í flestu og ættu reglur um gæludýr í almenningsvögnum ekki að vera nein undantekning á því. Það er sem dæmi óþarfi að leggja aldurstakmark við því hverjir megi ferðast með gæludýr. Einnig þarf ekki að leggja sérstakt bann við að fólk ferðist með gæludýr á háannatímum. Eigendur gæludýra áttað sig sjálfir á hvað er best fyrir gæludýrið sitt. Flokkur fólksins leggur því til að reglur um gæludýr í strætisvögnum verði eins og reglur í þeim borgum sem Reykjavík ber sig saman við. R19110393

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Lögð fram tillaga Flokks fólksins að umferðarlæði verði bætt í borginni með því að vinna betur við ljósastýringu og að gera fráreinar án ljósa við hægri beygju:

Flokkur fólksins leggur til að umferðarflæði verði bætt í borginni með því að vinna betur við ljósastýringu og að gera fráreinar án ljósa við hægri beygju. Öðru hverju er slík hægri beygja gerð og ávallt er það til bóta. Þennan kost þarf að rýna og gera breytingar til batnaðar þar sem það á við. Miklar umferðartafir hafa myndast undanfarið á Sæbrautinni við Hörpuna og byggingasvæðin að Geirsgötu. Ástæða þess er fyrst og fremst fjöldi umferðarljósa, sem virðast ekki vera samstillt. Til að laga þetta ástand er eftirfarandi lagt til: Þegar ekið er í átt að miðbænum og Hörpu hafa verið sett upp mjög misvísandi ljós til móts við Landssmiðjulóðina þar sem ekið er að bílastæðakjallara Hörpu er búið að setja upp villandi ljósastýringu, þar sem gangandi og akandi umferð fær mismunandi skilaboð. Rautt ljós er á gangandi umferð, meðan grænt er á akandi við hægri beygjuna að Hörpu. Þarna var áður frárein til hægri án ljósastýringar. Þetta hefur skapað misskilning og tafir þannig að legið hefur við slysum. Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld borgarinnar endurskoði þessa tilhögun og breyti til að auka skilvirkni og öryggi. R19110394

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Lögð fram tillaga Flokks fólksins að slökkt verði á gönguljósum móts við Hörpu sem loga reglulega þótt enginn ýti á gönguljósahnappinn:

Flokkur fólksins leggur til að slökkt verði á gönguljósum móts við Hörpu sem loga reglulega þótt enginn ýti á gönguljósahnappinn. Við fyrstu gatnamót þar sem ekið er frá Hörpu eru umferðarljós með gönguljósum. Þessi ljós ættu að vera í samhengi við ljósin á undan, ásamt gönguljósunum, en það virðist ekki vera og þess vegna myndast raðir að óþörfu. Um 40 metrum eftir gatnamótin frá Hörpu eru tvær gönguþveranir norðan megin götunnar, sem sameinast í ein við Seðlabankann. Önnur er án ljósa en hin með gönguljósum, þar sem er rofabox fyrir gangandi til að kalla fram skiptingu. Síðari gönguþverunin með ljósastýringunni er núna lokuð með steinagirðingu og gönguljósin stillt á tíma þannig að rautt ljós kemur á umferðina með reglulegu þéttu millibili án þess að nokkur gangandi maður ýti á takkann, auk þess að þverunin er lokuð. Þetta er því algjörlega tilgangslaust og gerir ekkert nema stöðva akandi umferð að óþörfu. Flokkur fólksins leggur til að slökkt verði á þessum gönguljósum enda tilgangslaus.

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Lögð fram tillaga Flokks fólksins að taka svæðið, Geirsgata, Kalkofnsvegur móts við Hörpu til endurskoðunar til að lágmarka tafir:

Flokkur fólksins leggur til að taka svæðið, Geirsgata, Kalkofnsvegur móts við Hörpu til endurskoðunar til að lágmarka tafir. Á gatnamótunum við Geirsgötu eru umferðarljós sem ekki voru á upphaflegu deiliskipulagi frá 2006 þar sem Kalkofnsvegur og Geirsgata voru í beinu flæði, heldur var þessu breytt og þrengt í „T“ gatnamót með ljósastýringu. Staða ljósanna er mjög erfið akandi umferð, þar sem ekki eru uppsettir ljósahattar nema við stöðvunarlínuna, en því sleppt hinum megin við gagnamótin. Þá eru gönguljós á öllum örmum gatnamótanna og þau tímastillt þannig að það er grænt á alla gangandi vegfarendur í töluverðan tíma í allar áttir og rautt á bílaumferðina, þó svo að enginn sé að ganga yfir. Þarna mætti setja hægri beygjuslaufu fram hjá ljósunum af Kalkofnsvegi inn á Geirsgötu eins og oft er gert til að greiða fyrir umferð og hægri beygjum. Staðan á þessu rúmlega 400 metra svæði móts við Hörpuna er skelfilegt, sérstaklega í vesturátt og verulegar umferðartafir að ástæðulausu með tilheyrandi mengun. Verst er ástandið á um 200 metra kafla við framkvæmdasvæði Landsbankans og að Geirsgötu. Lagt er til að allt þetta svæði verði tekið til endurskoðunar til þess að lágmarka tafir og auka flæði umferðar. Það er leitt að fallið skyldi frá að að nota verðlaunatillögu Hörpu í upphafi, þar sem Sæbraut, Kalkofnsvegur og hluti Geirsgötu átti að vera neðanjarðar undir torgið við Hörpuna. R19110394

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Lögð fram fyrirspurn Flokks fólksins um af hverju þeir sem standa saman að byggðasamlögum vinni ekki saman að sorhirðu, skipulagningu og ákvörðunum:

Fulltrúi Flokks fólksins vill spyrja af hverju  þeir sem standa saman að byggðasamlögum vinni ekki saman að sorphirðu, skipulagningu og ákvörðunum? Sorpa er eitt af 4 byggðasamlögum og á Reykjavík stærsta hlutinn í því en hefur lítið vægi í stjórn. Svo virðist sem stjórnendur geti ekki komið sér saman um hvernig haga eigi málum.  Nýlega komst tækniráð Sorpu að þeirri  niðurstöðu að hagkvæmasta leiðin fyrir sveitarfélög væri að íbúar settu plast í pokum í gráu tunnuna og að það yrði svo flokkað í Gufunesi með vélrænni flokkun. Keypt var vél, sem notar vind til að skilja plastið frá öðru sorpi. Hún kostaði rúmar fjörutíu milljónir króna. Var það metið af yfirverkfræðingi Sorpu að vindflokkunarvélin myndi borga sig ef öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu nýttu hana. Það gera þau ekki. Reykjavík og Kópavogur nota aðrar aðferðir. Flokkur fólksins spyr hverju Reykjavík notar ekki vélina og hvort það var ekki vitað að Reykjavík ætlaði ekki að nota vélina áður en ráðist var í kaupin? Það er alvarlegt og illa farið með fé borgarbúa ef þeir geta ekki nýtt rúmlega fjörutíu milljóna króna vélbúnað sem byggðasamlagið keypti til flokkunar á plasti. Reykvíkingar þurfa að leigja tunnu undir plast, fara með það í grenndargám eða á endurvinnslustöð í stað þess að njóta góðs af flokkunarvélinni. Er ekki tímabært að leggja niður þetta byggðasamlag? R19110392

Vísað til umsagnar hjá stjórn SORPU bs.

Lögð fram tillaga Flokks fólksins um að ljúka við stíg og stígatengingu við nyrðri enda göngubrúar yfir Breiðholtsbraut þar sem eðlileg gönguleið er frá Mjódd upp Arnarbakkann:

Tillaga Flokks fólksins um að ljúka við stíg og stígatengingu við nyrðri enda göngubrúar yfir Breiðholtsbraut þar sem eðlileg gönguleið er frá Mjódd upp Arnarbakkann. Flokkur fólksins leggur til að stígur sem liggur að göngubrú yfir Breiðholtsbraut,  norðanmegin við hana þegar komið er frá Mjódd, verði gerður fær gangandi vegfarendum en til að komast upp á brúna frá þessum punkti þarf að að klífa 2-3 metra talsverðan halla.  Bætt aðgengi á þessum stað mun auka notkun brúarinnar að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins. R19110398

Bókun Flokks fólksins við framlagningu árshlutareikningar Reykjavíkurborgar fyrir janúar-september 2019 og minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs vegna frumvarps að fjárhagsáætlun og uppfærðar þjóhagsspár:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem vel er að ganga í borginni. Fjármálayfirvöld minna þó á að gæta verði aðhalds. Þess er vænst að hlustað verði á þá áminningu. Það sem veldur hvað mestum áhyggjum er staða ýmissa mála hjá skóla- og frístundasviði og sem staðfest er í skýrslu innri endurskoðunar um rekstrarramma skólanna. Í þeirri skýrslu má lesa um ákall skólastjóra eftir meira rekstrarfé; að brugðist sé hraðar við raka og mygluskemmdum skólabygginga og hlustað verði á ákall skóla eftir að fá fagaðila meira inn í skólanna eins og Flokkur fólksins hefur ítrekað komið með tillögu um. Áhyggjur eru ekki síður af líðan og heilsu kennara skólanna en veikindi eru meiri en áætlun gerði ráð fyrir. Efnaðir foreldrar eru í æ ríkari mæli að fara með börn sín á einkastofur til að fá þjónustu sem skólaþjónustan á að veita og enn er kallað eftir að reiknilíkan, hið plástraða verði endurnýjað. Ekki er alveg ljóst hvernig á að bregðast við vanda grunnskólanna. Sviðið er engan veginn í stakk búið að mæta neinu óvæntu eins og í ljós koma þegar óvæntur vandi kom upp í Klettaskóla, Dalskóla og Seljaskóla. Það er álitamál hvort verið sé að vinna samkvæmt grunnskóla- og sveitarstjórnarlögum þegar kemur að þessum þáttum og fleirum sem reifaðir eru í skýrslu innri endurskoðunar.

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra vegna fyrirhugaðrar ferðar hans og tveggja annarra á ráðstefnu í Madríd:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst það bruðl að borgarbúar eigi að kosta þrjá einstaklinga á loftlagsráðstefnu. Á sama tíma og þessir sömu aðilar tjá sig um kolefnisspor eru þeir að taka sér ferð á hendur sem kostar ansi mörg slík spor. Þetta er mikill tvískinnungsháttur. Það líður varla sá fundur í borgarráði að meirihlutinn samþykkir ekki einhverjar utanlandsferðir borgarstjóra með fríðu föruneyti, aðstoðarmanni og oft fleiri borgarfulltrúum meirihlutans. Hvar er Skype? Hvar er fjarfundatæknin? Það fer mikið fé í utanlandsferðir meirihlutans í borginni, embættismanna og annarra yfirmanna. Væri allt tiltekið skiptir þetta tugum milljóna á ári.

Bókun Flokks fólksins við svari umhverfis- og skipulagssviðs við fyrirspurn um fjölda gangandi vegfarenda yfir göngubrú sem liggur yfir Breiðhlotsbraut:

Flokkur fólksins þakkar svarið. Segir í svari að ekki sé annað vitað en að almenn ánægja ríki um þessa nýju brú. Spyrja má þá hvort það hafi verið kannað? Hafi það ekki verið kannað er þá ekki rétt að kanna það svo það liggi einfaldlega fyrir? Allar göngubrýr bæta öryggi en staðsetningu þarf að velja vel. Tengingin sem er á ábyrgð Reykjavíkurborgar er slæm þegar komið er frá Mjódd, upp Arnarbakkann en áður en hann sveigir til vinstri má sjá stíg sem liggur beint að enda brúarinnar. Við enda stígsins er mikill halli sem þarf að klífa upp til að komast upp á brúna. Flokkur fólksins vill láta fullklára þennan stíg svo þessi leið verði fær upp á brúna enda líklegt að margir komi þarna að.