Borgarráð 17. október 2019

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kolefnisjöfnun flugferða í miðlægri stjórnsýslu, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. september 2019.

Tillögunni er vísað frá.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins:

Flokkur fólksins lagði til að  borgarfulltrúar, embættismenn og starfsmenn miðlægrar stjórnsýslu borgarinnar sem farið hafa erlendis á kostnað borgarinnar planti trjám til að vega upp á móti flugferðum sínum og birti afrakstur sinn á opinberu vefsvæði og/eða greiði eðlilega upphæð til t.d. Kolviðar eða Skógræktarfélaga. Tillögunni hefur verið vísað frá með þeim rökum að þetta sé nú þegar í gangi. Þá myndi borgarfulltrúi vilja fá að sjá alla skráningu þar um.  Tal meirihlutans um loftlagsmál og mikilvægi þess að draga úr útblæstri er hávært. Hins vegar veltir  borgarfulltrúi því fyrir sér hvort það sé meira í nösum en reynd. Til að setja þetta í samhengi hefur Flokkur fólksins lagt fram fyrirspurn um um fjölda fjarfunda/streyma sem borgarfulltrúar og starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa valið að sitja í stað þess að taka sér ferð á hendur til að sækja fundi. Svar hefur ekki borist. Fjarfundur á að verða meginreglan og flugferð erlendis á fund þá undantekningin. Hér verða kostnaðar- og mengunarsjónarmiðum að vera haldið til haga í mun meira mæli en gert hefur verið. Tillagan fjallaði um að borgarfulltrúi planti trjám til að kolefnisjafna. Slík skráning þarf að vera gegnsæ og tengd nöfnum. Að öðrum kosti getur hver og einn sagt það sem honum sýnist  án þess að nokkuð sé hægt að sannreyna upplýsingarnar.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. október, um yfirlit yfir tillögur og fyrirspurnir í borgarráði 2018-2022:

Það er ánægjulegt að sjá þá aukningu sem orðið hefur á framlagningu mála og sýnir það einfaldlega hvað mikið þarf að laga og breyta í borginni. Af nógu er að taka á flestum sviðum á forræði borgarinnar. Margir málaflokkar, sér í lagi þeir sem snúa beint að grunnþjónustu við fólkið, hafa mætt afgangi hjá þessum og síðasta borgarmeirihluta. Það eru einmitt þessi mál sem borgarfulltrúi er að reyna að vekja athygli meirihlutans á og því ekki að undra að mikið er af framlögðum málum, tillögum og fyrirspurnum. Það dapurlega er hins vegar, að fæst mál minnihlutans hafa náð athygli meirihlutans.  Þessu til áréttingar er að Flokkur fólksins hefur lagt fram, eða verið aðili að, 145 tillögum fyrir borgarstjórn eða borgarráð frá síðustu kosningum. Af þessum 145 tillögum hafa aðeins 6 tillögur verið samþykktar. Það eru rétt rúm 4%. Tillögur Flokks fólksins sem borgarráð hefur synjað snúa lang flestar að því að bæta grunnþjónustu fólksins í borginni. Meðal tillagna sem hefur verið hafnað er tillaga um að borgin svari erindum borgarbúa innan 14 daga, tillaga um ókeypis skólamáltíðir, tillaga um íbúakosningu vegna borgarlínuverkefnisins, tillaga um gjaldfrjáls frístundaheimili, tillaga um að bæta lýsingu við gangbrautir og fjölmargt fleira. Meirihlutinn hefur gert það að venju sinni að kjósa eftir flokkslínum en ekki málefnum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Fjöldi mála endurspeglar ekki endilega gæði málanna. Það er af og frá að meirihlutinn samþykki mál eingöngu eftir flokkslínum. Þegar góð mál koma fram sem tóna við áherslur meirihlutans þá hefur verið tekið vel í það enda sýnir það sig að meirihlutinn hefur samþykkt ýmis mál sem komið hafa frá minnihlutanum og stundum gert breytingar á hnökrum tillagna minnihlutans til að geta samþykkt þær. Vel er tekið í góðar hugmyndir sama hvaðan þær koma. Ekki hefur alltaf verið hægt að samþykkja tillögur þó hugurinn á bak við tillöguna sé í takt við áherslur meirihlutans ef innihaldið er ekki nægilega vel útfært. Ekki er það á ábyrgð meirihlutans að útfæra tillögur minnihlutans þannig að hægt sé að samþykkja þær þó fulltrúar meirihlutans hafi stundum gert það.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er sammála því að fjöldi tillagna er ekki merki um gæði þeirra. Það hefur ítrekað sýnt sig að tillögur meirihlutans eru oft afar rýrar og meira til að skreyta sig með. Dæmi eru einnig um að tillögum minnihlutans er vísað frá en síðan stuttu seinna tekur meirihlutinn þær upp og gerir að sinni tillögu. Halda mætti að meirihlutinn vilji helst ekki una minnihlutanum að góðar tillögur þeirra nái fram að ganga. Taka skal fram að fjölmargar tillögur Flokks fólksins lúta að bættri þjónustu við börn. Það er dapurlegt ef meirihlutanum þykir slíkar tillögur ekki góðar. Það er hending og afar sjaldgæft að mál minnihlutans nái fram að ganga og ítrekað er góðum hugmyndum einnig hent í ruslið sérstaklega ef óttast er að þær skyggi á meirihlutann. Þetta er leiðinlegt því allir borgarfulltrúarnir eru kosnir til vinna fyrir fólkið í borginni. Í því verkefni sem borgarstjórn er ættu borgarfulltrúar því að vera samstíga.

Bókun Flokks fólksins við svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um húsnæði fyrir fólk með fötlun, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2019:

Sveitarfélögin eiga að tryggja fólki með fötlun húsnæði þannig að þeim sé gert kleyft að reka eigið heimili og búsetuúrræðin þurfa að vera í samræmi við þarfir einstaklinganna. Húsnæðisúrræðin eiga að vera staðsett nálægt almennri og opinberri þjónustu ef það er hægt. Á þessu hefur verið mikill misbrestur í Reykjavík, stærsta sveitarfélagi landsins. Vel á annað hundrað manns bíða eftir húsnæði og hafa aðeins 52 fengið úthlutað nýju húsnæði sem byggt var á grunni uppbyggingaráætlunar síðastliðin 3 ár. Á þessum biðlista sér varla högg á vatni og hefur hann ekki mikið styst á heilu ári. Í fyrra biðu  173 einstaklingar eftir búsetuúrræði. Vitað er um dæmi þess að einstaklingar með erfiða þroskahömlun sem komnir eru á fertugsaldurinn eru enn heima hjá foreldri/foreldrum sínum sem eru í sumum tilfellum að niðurlotum komin. Ekki þarf að fjölyrða um hversu erfitt þetta er fyrir einstaklinginn sjálfan. Uppbyggingaráætlun er í gangi en henni er einfaldlega ekki fylgt. Hér þarf að gera skurk. Í þessum málaflokki á enginn biðlisti að vera.

 

Bókun Flokks fólksins við svari velferðarsviðs, dags. 11. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úrræði foreldra sem bíða eftir húsnæði fyrir fatlaða einstaklinga, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2019:

Sveitarfélögin eiga að tryggja fólki með fötlun húsnæði þannig að þeim sé gert kleift að reka eigið heimili og búsetuúrræðin þurfa að vera í samræmi við þarfir einstaklinganna. Húsnæðisúrræðin eiga að vera staðsett nálægt almennri og opinberri þjónustu ef það er hægt. Á þessu hefur verið mikill misbrestur í Reykjavík, stærsta sveitarfélagi landsins. Vel á annað hundrað manns bíða eftir húsnæði og hafa aðeins 52 fengið úthlutað nýju húsnæði sem byggt var á grunni uppbyggingaráætlunar síðastliðin 3 ár. Á þessum biðlista sér varla högg á vatni og hefur hann ekki mikið styst á heilu ári. Í fyrra biðu  173 einstaklingar eftir búsetuúrræði. Vitað er um dæmi þess að einstaklingar með erfiða þroskahömlun sem komnir eru á fertugsaldurinn eru enn heima hjá foreldri/foreldrum sínum sem eru í sumum tilfellum að niðurlotum komin. Ekki þarf að fjölyrða um hversu erfitt þetta er fyrir einstaklinginn sjálfan. Uppbyggingaráætlun er í gangi en henni er einfaldlega ekki fylgt. Hér þarf að gera skurk. Í þessum málaflokki á enginn biðlisti að vera.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um leikjagrind við Öskjuhlíð, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst 2019:

Spurt var um leikjagrind í Öskjuhlíð sem byrjað var að setja upp en var skyndilega tekin niður aftur. Eftir þessu var tekið af vegfarendum. Nú hefur borist svar og segir að farið hafi verið í uppsetningu án grenndarkynningar. Hér má kannski segja að sé enn eitt dæmið um að ekki er hugað nægjanlega að undirbúningi verkefna. Af hverju var ekki talið nauðsynlegt að fara í grenndarkynningu? Það segir sig kannski sjálft að ef ekki er farið í grenndarkynningu má búast við að það komi mótmæli frá einhverjum. Fólk og í þessu tilfelli nágrannar og nærliggjandi fyrirtæki,  vill að það sé haft við það samráð um stór sem smá verkefni. Þarna hefði mátt sjá að t.d.  rekstraraðila Perlunnar  fyndist staðsetningin slæm vegna gosbrunna/ strokksins í suðurhlíð Öskjuhlíðar. Í það minnsta hefði verið betra að eiga við þá orð um þetta áður en ráðist var í verkefnið.  Þarna hefur peningum verið hent á glæ sem hefði mátt koma í veg fyrir ef sýnd hefði verið meiri fyrirhyggja.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  skrifstofu borgarstjórnar, dags. 14. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu tillagna og fyrirspurna í borgarráði, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. júlí 2019, ásamt fylgiskjölum:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þakkar fyrir  þennan lista og gerir sér grein fyrir að hann hefur kostað talsverða vinnu. Það er mikilvægt að yfirlit eins og þetta sé til og það sé uppfært t.d. á 6 mánaða fresti. Yfirlitið þarf einnig að vera aðgengilegt á vefsvæði borgarfulltrúa á heimasíðu borgarinnar. Þetta er spurning um að hafa vinnu borgarfulltrúa gegnsæja og aðgengilega. Fordæmi fyrir slíku má sjá hjá Alþingi en á heimasíðu Alþingis eru öll  vinna þingmanna skráð með nákvæmum hætti og aðgengileg almenningi.

 

Bókun Flokks fólksins við svari skóla- og frístundasviðs, dags. 25. september 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við erindum vegna skólahalds í Staðahverfi, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2019:

Það er ljóst að ekkert hefur gerst í þessu máli, skólahald í Staðahverfi. Það svar sem hér er birt staðfestir að málið allt hefur ratað í ómældar ógöngur og hefur tekið á sig óþarflega flókna mynd. Tillögur um 2 eða 3 skóla koma að sjálfsögðu ekki til greina enda engin ástæða. Umræðan um samgöngumálin í tengslum við málið eru orðnar flóknar og ekki sýnilegt að þarna séu alvöru lausnir. Hér virðist blasa við að skóla- og frístundarráð hefur lengi haft þann ásetning að loka Kelduskóla en á þeim veiku rökum að það vanti börn í hann? Alls kyns öðru er farið að blanda inn í málið og látið sem um sé að ræða stóra áhrifaþætti og sýnist borgarfulltrúa sem heildarmyndin hafi tapast í málinu. Það vantar ekki börn í þennan skóla. Það sem þarf að gera er að fá unglingadeildina aftur heim í hverfisskólann og þar með er komin ágætist stærð af skólaeiningu.  Tími er kominn að ljúka þessu máli og losa foreldra og börn undan óþarfa áhyggjum um framtíð skólastarfs í hverfinu. Nóg er komið af óöryggi.  Skólahúsnæði er til staðar, kennaralið og nú vantar bara börnin.

 

Lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins er varðar Miðborgina okkar og kostnað við að breyta Laugavegi í varanlega göngugötu

Hvað hefur Miðborgin okkar fengið greitt undanfarin ár úr miðbæjarsjóðnum? Svar óskast sundurliðað eftir árum frá árinu 2008.
1. Hefur Bílastæðasjóður greitt til samtakanna og ef svo er er óskað eftir upplýsingum um hversu háar upphæðir það eru frá 2008.
2. Hver er áætlaður kostnaður við að breyta Laugavegi í varanlega göngugötu?
3. Hver er áætlaður kostnaður við að breyta Skólavörðustíg í varanlega göngugötu? 4. Hver er áætlaður framkvæmdatími við að breyta götunum í varanlegar göngugötur? 5. Hvenær er áætlað að byrja framkvæmdirnar og hvenær eru verklok áætluð? R19100355

Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og umhverfis- og skipulagsviðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar alþjóðlegan dag gegn einelti:

Nú styttist í alþjóðlegan dag gegn einelti og kynferðisofbeldi, fyrir alla aldurshópa 8. nóv. næstkomandi. Flokkur fólksins gerir það að tillögu sinni að borgarstjórn, borgin öll, ráð og svið og þá ekki síst skóla- og frístundasvið mælist til þess að stofnanir, fyrirtæki þ.m.t. skólar í borginni hugi að samræmdum gjörningi til að vekja athygli og leggja áherslu á baráttuna gegn einelti og öðru ofbeldi. Gjörningurinn færi þannig fram að stofnanir og fyrirtæki borgarinnar hringi bjöllum af ýmsu tagi eða þeyti flautur á eineltisdaginn 8. nóvember kl. 13:00. Tilmælunum er hægt að koma áleiðis munnlega t.d. á fundum eða í netpósti og myndi hver og ein stofnun útfæra hringinguna eftir eigin hentisemi. Árið 2009, 3. nóvember samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur að helga árlega einn dag í baráttunni gegn einelti. Dagur gegn einelti var fyrst haldinn hátíðlegur 17. mars árið 2010. Árlegur dagur gegn einelti og kynferðisofbeldi var haldinn á landsvísu 8. nóvember 2011. Öllum mögulegum klukkum og bjöllum var hringt og flautur þeyttar. Í tilefni dagsins var undirritaður þjóðarsáttmáli um jákvæð samskipti. Að hringja bjöllum er skemmtilegur gjörningur í tilefni þessa mikilvæga dags, gegn einelti og kynferðisofbeldi í öllum aldurshópum og til þess fallinn að vekja athygli á baráttunni.

Vísað til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar neyðarnúmer fyrir viðhaldsþjónustu Félagsbústaða

Flokkur Fólksins leggur til að Félagsbústaðir hafi á heimasíðu sinni neyðarnúmer fyrir viðhaldsþjónustu sem hægt er að hringja í utan hefðbundins opnunartíma skrifstofu. Félagsbústaðir er hlutafélag um eignahald og rekstur félagslegs leiguhúsnæðis á vegum borgarinnar. Félagsbústaðir þurfa sem rekstraraðilar leiguhúsnæðis að sinna ýmsum skyldum gagnvart leigjendum. Ef óvænt atvik koma upp á hjá leigjendum þarf neyðar- og viðbragðsþjónusta að vera til staðar. Ef rafmagn slær út eða lagnir springa verða leigjendur að geta sett sig í samband við Félagsbústaði strax. Þetta kallar á að hafa starfsmann á vakt sem getur brugðist við í slíkum neyðartilfellum á kvöldin og um helgar. Margir leigjendur eru eldra fólk og öryrkjar sem eiga ekki möguleika á að bregðast við að sjálfsdáðum þegar upp koma neyðartilfelli er varðar húsnæðið. Þá þurfa úrræði að vera til staðar. Mörg dæmi eru um að hlutir hafi gerst sem þarf að huga að strax en þá hefur fólk þurft að bíða þar til daginn eftir.  Að hafa neyðarþjónustu er hluti af eðlilegri þjónustu hjá leigufélagi sem vill sinna leigjendum sínum vel. Neyðarþjónusta sem þessi er líkleg til að  fyrirbyggja tjón á eignum félagsins. R19100350

Vísað til meðferðar hjá stjórn Félagsbústaða.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar tímasetningar sundnámskeiða eldri borgara

Flokkur fólksins leggur til að menningar-, íþrótta- og tómstundaráð skoði tímasetningar sundkennslu eldri borgara. Sumum eldri borgurum finnst tíminn 7.30 miður heppilegur. Í það minnsta mætti skoða að hafa annað sundnámskeið síðar að morgninum. Margt eldra fólk tekur lyf snemma morguns og telur sig ekki tilbúið í sundkennslu eldsnemma morguns. Myrkur er auk þess að morgni yfir vetrartímann. Margt eldra fólk á erfitt með að aka bíl í myrkri. Mestu umferðarvandræðin eru frá kl. 7:30 til 9:30. Þeir sem búa ekki skammt frá Sundhöll Reykjavíkur lenda því iðulega í mikilli umferð á leiðinni heim að loknu sundnámskeiði.  Heppilegur tími fyrir sundkennslu fyrir eldri borgara er frá kl. 10 til 12 eða 11 til 13. Þá er ívið minni umferð. Þessi breyting myndi ríma við umræðuna um að dreifa álagi og umferð. R19100351

Vísað til meðferðar menningar- íþrótta og tómstundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar staðsetningu sundnámskeiða eldri borgara

Flokkur fólksins leggur til að menningar-, íþrótta- og tómstundaráð standi fyrir sundkennslu fyrir eldri borgara í fleiri borgarhlutum en miðbænum. Íþrótta- og tómstundasvið stendur fyrir námskeiðum í sundkennslu í Sundhöll Reykjavíkur klukkan 7:30 á föstudögum. Mikill fjöldi aldraðra býr langt frá Sundhöll Reykjavíkur, í hverfum eins og Breiðholti,  Árbæ og Grafarvogi. Í öllum þessum hverfum búa stórir hópar aldraðra og einnig eru þar sundlaugar. Engu að síður fer sundkennsla aðeins fram í Sundhöll Reykjavíkur. Þetta er bagalegt. Mikilvægt er að gera á þessu breytingar og bjóða upp á sundkennslu fyrir aldraða víðar í Reykjavík. Margir eldri borgarar kvíða einnig akstri inn í miðbæ borgarinnar vegna umferðarálags, slæms aðgengis m.a. vegna byggingaframkvæmda og erfiðleika við að finna aðgengileg bílastæði. R19100351

Vísað til meðferðar menningar- íþrótta og tómstundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar að borgin komi upp aðstöðu til að koma með húsgögn sem á að gefa

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgin komi upp aðstöðu þar sem hægt er að koma með húsgögn/húsbúnað sem fólk vill gefa til annarra. Þangað býðst þeim að koma sem að sama skapi vantar húsgögn. Með þessu er borgin að leggja sitt af mörkum til umhverfisins, stuðla að endurnýtingu og draga úr sóun. Verslanir Góða hirðisins taka við notuðum húsbúnaði til sölu. Hér er verið að leggja til að borgin skapi aðstæður/vettvang þar sem húsgögn og húsbúnaður fæst gefins. Hægt er að sjá ýmis konar útfærslu hvað varðar framkvæmdina.  Sjá má fyrir sér að starfsmenn/umsjónarmenn á vegum borgarinnar annist umsjón og utanumhald aðstöðunnar og/eða sjálfboðaliðar. Mikilvægt er að hafa þetta sem einfaldast og myndi nytjamarkaðurinn eða lagerinn eftir því hvað fólk kýs að kalla vettvanginn ekki þurfa að vera opinn nema hluta vikunnar til að þjóna tilgangi sínum. Öll vitum við að það er algengt að fólk endurnýi húsgögn og enn aðrir þurfa að losa sig við heilu búslóðirnar vegna flutninga. Flestum finnst ánægjulegt að vita til þess að húsgögn þeirra komist til þeirra sem vantar þau. Tillagan, nái hún fram að ganga, gagnast því, gefendum, þiggjendum og umhverfinu. R19100352

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varða refi og óhirðu í Elliðaárdal

Sést hefur til refa í Elliðaárdal í kringum Heimahvamm og Skálará. Refur og minkur er kominn í borgarlandið og eru það sennilega ekki ný tíðindi. Þarna er líka mávager, gæsir í hópum og endur. Mikið er um kanínur á þessum stað en einnig er mikið um óhirðu eftir því sem vegfarendur hafa lýst. Sjá má spýtnabrak og trjágreinar víðs vegar og plast hefur verið sett sem skjólgarður yfir steingarða sem eins konar skjól fyrir kanínurnar. Nákvæm staðsetning þar sem þessi lýsing á við er þegar ekið er niður heimkeyrsluna að Heimahvammi frá Stekkjabakka, þá er ekið með fram Skálaráhúsinu á hægri hönd. Neðan við það hús er aragrúi af mávum og kanínunum um allt. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvað hyggst borgarmeirihlutinn í umhverfis- og heilbrigðisráði gera við eða fyrir þetta svæði í komandi framtíð? R19100354

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.