Borgarráð 4. júlí 2019

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um afdrif hugmynda um búsetuhús:

Fyrirspurn Flokks fólksins um hugmyndir um búsetuhús sem hópur foreldra barna með þroskahömlun lagði fyrir fyrrverandi skrifstofustjóra SEA og fyrrverandi formann velferðarráðs fyrir ca. 5 árum síðan. Spurt er um afdrif þessa máls. Fundað var all oft um þessar hugmyndir og fjöldi bréfaskrifta fóru á milli aðila en síðan er ekki vitað hvað varð um þær. Foreldrar og börnin bjuggu til sérstaka bók með hugmyndum um búsetuhús. Þessir foreldrahópur skilaði inn mikið af gögnum frá þeim og börnum þeirra. Systir eins barnsins var arkitekt og bauðst til að teikna húsið frítt og börnin máluðu málverk sem á stóð „Ekki gleyma okkur“. Þáverandi skrifstofustjóri lét að því liggja að þetta hús gæti risið í Skerjafirði. Nú vill borgarfulltrúi Flokks fólksins vita hvað varð um alla þessa vinnu?

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um námsskrá vinnuskólans:

Í reglugerð og leiðbeinandi viðmiðunarreglum Vinnuskólans er talað um hefðbundin hreinsunar- og garðyrkjustörf og að námsefnið samanstandi af þremur þáttum: fræðslu, tómstundum og vinnu. Í ljósi frétta um að börnin í Vinnuskólanum læri að gera kröfuspjöld og fara í kröfugöngur og þess háttar langar borgarfulltrúa Flokks fólksins að spyrja nánar um: Hver ákveður hvaða verkefni börnin taka sér fyrir hendur í Vinnuskólanum hverju sinni og er verkefnavalið borið undir foreldra þeirra? R19070050

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu tillagna og fyrirspurna í borgarráði – framlagning  

Flokkur fólksins telur að enn sé mörgum fyrirspurnum ósvarað sem og tillögur óafgreiddar í borgarkerfinu, dæmi er um að málum hafi verið frestað t.d. tillögu um sveigjanleg starfslok eldri borgara. Ekki er vitað hvar það mál er statt. Fleira mætti telja upp. Sagt er að búið sé að svara og afgreiða 94% af málum Flokks fólksins í borgarráði. Flokkur fólksins þiggur að fá nákvæman lista yfir öll mál flokksins frá upphafi með upplýsingum um hvernig þau voru afgreidd á sérstökum lista og hvaða mál eru óafgreidd og hvar þau eru þá stödd. Hér er einnig átt við allar fyrirspurnir. R19070045

Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ákvörðun um staðsetningu varanlegs regnboga:

Hvernig var ferli þess að Skólavörðustígur var valinn regnbogagata en ekki einhver önnur gata og hverjir komu að ákvörðuninni? Óskað er eftir nákvæmum upplýsingum um ferlið lið fyrir lið og hverjir sátu í hópi þeirra sem ræddu um hvaða gata yrði fyrir valinu. Flokkur fólksins telur mikilvægt að þegar val eins og þetta stendur fyrir dyrum þarf ferlið að vera gegnsætt og rétt hefði verið að leggja fram nokkra valmöguleika og leyfa fleirum að hafa eitthvað um þetta val að segja. R19060051

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um staðsetningu varanlegs regnboga

Lagt er til að allir rekstraraðilar verslana og fyrirtækja sem og íbúar Skólavörðustígs verði spurðir um afstöðu þeirra gagnvart því að gatan þeirra hefur verið valin regnbogagata. Ákveðið var með öllum greiddum atkvæðum í borgarstjórn að gera eina götu að regnbogagötu og var það hið besta mál. Vissulega var ávallt reiknað með að haft yrði viðhlítandi samráð við íbúa og fyrirtæki við þá götu sem borgin vildi stinga upp á að yrði fyrir valinu enda er meirihluti borgarinnar sífellt að monta sig af því að hafa samráð við borgarbúa og hlusta á raddir þeirra. Nú eru sterkar vísbendingar eftir því sem heyrist að ekkert samráð hafi verið haft við þá sem starfa og búa við Skólavörðustíg og vekur það furðu. Nú stendur til að Skólavörðustígur verði opnaður aftur fyrir umferð 1. október samanber tillögu meirihlutans frá 1. apríl 2019. Gatan verður því ekki göngugata a.m.k. næsta ár. Vissulega breytir það engu þótt bílaumferð fari eftir regnbogagötu sem er gata eins og hver önnur gata.

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um borgarlínu : 

Í allri þessari umræðu um borgarlínu er afar margt loðið og óljóst og sumt eiginlega óskiljanlegt. Þess vegna vill borgarfulltrúi freista þess að koma með nokkrar fyrirspurnir: 1. Hvar á götunni á borgarlínan/vagnarnir að aka? Á miðri götu eða hægra megin? 2. Hvers lags farartæki er hér um að ræða? Sporvagn, hraðvagnar á gúmmíhjólum, annað? 3.Hversu margir km. verður línan? 4. Hvað þarf marga vagna í hana? 5. Á hvaða orku verður hún keyrð? 6. Hver á að reka hana? Strætó? Ríkið? Sveitarfélög? Allir saman? Aðrir? 7. Hvar er hægt að sjá rekstrar- og tekjuáætlun borgarinnar fyrir borgarlínu? 8. Hvað myndi kannski kosta að reka 400 til 500 vagna? 9. Hvað þýðir þetta í skattaálögum á almenning?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um greiðslu í hússjóð hjá Félagsbústöðum – framlagning

Óskað er eftir upplýsingum um gjald sem leigjendur Félagsbústaða eru látnir greiða í hússjóð og þjónustugjald á mánuði og fyrir hvað verið er að greiða nákvæmlega með gjaldinu. Óskað er upplýsinga um alla hússjóði sé mikill munur á þessu gjaldi milli sjóða.

Vísað til umsagnar hjá stjórn Félagsbústaða.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um starfslokasamninga hjá Félagsbústöðum:

Óskað er eftir upplýsingum um fjárhæðir og fjölda starfslokasamninga sem gerðir hafa verið árin 2015-2019 hjá Félagsbústöðum. R19070048

Vísað til umsagnar hjá stjórn Félagsbústaða.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda barna sem fær ekki skólavist vegna hegðunarvanda

Svar Skólaráðs

Flokkur fólksins þakkar svarið við fyrirspurninni, sem finna má í lokamálsgrein: það er að ekki eru til nein dæmi þess síðastliðin 5 ár að barn hafi ekki fengið skólavist vegna þess að það glímir við djúpstæðan hegðunarvanda tengda röskun af einhverju tagi. Þetta er náttúrulega ekki rétt enda skemmst að minnast máls stúlku sem ítrekað var rætt um í fréttum nýlega en henni hafði verið úthýst úr skólakerfi borgarinnar vegna félags- og tilfinningalegra vandkvæða. En nokkur orð um svarið sjálft: Borgarfulltrúi veit að oft er mikil vinna við að svara fjölda fyrirspurna frá borgarráði og vill benda á að alveg óþarfi er að eyða of mikilli orku í að rekja ákvæði laga og reglugerða. Betra er að koma sér beint að því að svara fyrirspurninni með skýrum hætti. Fyrirspurnin var lögð fram af tilefni þar sem alvarlegt dæmi um að barn var utan skóla vegna hegðunarvanda hafði verið reifað í fjölmiðlum og var ósk Flokks fólksins að vita hvort um fleiri slík tilfelli væri að ræða. Svo virðist ekki vera samkvæmt þessu svari.

Bókun Flokks fólksins við tillögu um verklagsreglur Úrbótasjóðs tónleikastaða

Ekkert samráð hefur verið haft við íbúa í þessu máli. Þessar reglur hefði átt að senda til stjórnar íbúasamtaka Miðborgar til umsagnar. Hér skortir allt tillit. Þetta er sérlega mikilvægt því hér er verið að ræða um tímasetningar, hljóð og mögulega hljóðmengun. Staðsetningin skiptir miklu máli og að tryggt sé að tónlistaatriðum sé ávallt lokið á þeim tíma sem nágrannar eru sáttir við. Þætti sem þessa þurfa íbúasamtök að fá tækifæri til að fjalla og álykta um. Hvað varðar afstöðu Flokks fólksins þá snýst hún um 16 milljónir úr borgarsjóði (verkefni til tveggja ára). Í hvert sinn sem tillaga eins og þessi er lögð fram er borgarfulltrúa Flokks fólksins hugsað til skertrar grunnþjónustu, biðlista barna eftir þjónustu, börn sem búa við skert kjör og eldri borgara sem bíða eftir heimaþjónustu og fleira af sama meiði. Vissulega er mikilvægt að gleyma ekki tónlistinni og gefa listamönnum tækifæri en hér er ekki verið að tala um hefðbundna „tónleikastaði“ heldur veitingastaði og bari og ættu tónlistabönd að semja beint við þá og auðvitað ávallt að fylgja reglum Heilbrigðiseftirlits um hljóðmengun sem og öðrum reglum.

Bókun Flokks fólksins við  Stekkjarbakki/Elliðaárdalur– deiliskipulag

Þetta er stórmál sem varðar fjölmarga. Það verður að vera íbúakosning um þetta nýja deiliskipulag fyrir nýtt þróunarsvæði á Stekkjarbakka. Elliðaárdalurinn skiptir fjölmarga máli, tilfinningamáli. Þetta er viðkvæmt svæði fullt af dýrmætu dýralífi. Um þetta verður aldrei friður nema að haft verði fullt samráð við áhugahópa, hagsmunahópa og aðra sem óska eftir að hafa skoðun á málinu. Borgarráð samþykkti, á fundi miðvikudaginn 6. desember, að veita félaginu Spor í sandinn ehf. vilyrði fyrir lóð í Stekkjarbakka í Breiðholti en ætlunin er að byggja þar gróðurhvelfingu fyrir Aldin BioDome. Þetta er afar umdeilt mannvirki. Hér er um að ræða 20 metra hátt mannvirki, hjúpað gleri. Borgarmeirihlutinn virðist vera sérlega hrifinn af háum glerhjúpamannvirkjum. Skemmst er að minnast verksins Pálma í Vogahverfi. Í þessu máli er talað um að það hafi verið haft samráð við íbúana og fólk hafi verið afar ánægt með þetta en um var að ræða einn samráðsfund eftir því sem næst er komist? Hér hefði átt að fresta málinu og taka það aftur upp í haust og þá í borgarstjórn.

Bókun Flokks fólksins við deiliskipulag,  Sjómannaskólareitur:

Í þessu málefni Sjómannaskólareitsins hafa komið óvenju mikið af alvarlegum athugasemdum frá fólki á öllum aldri og þar með börnum sem er annt um umhverfi sitt. Þetta svæði er afar mikilvægt í borgarlandinu enda einstakt. Flokkur fólksins vill hvetja meirihlutann til að staldra við og ana ekki að neinu sem ekki verður aftur tekið. Hér er auðvelt að gera alvarleg mistök svo stórslys verði. Meirihlutinn í borgarstjórn verður að fara rækilega ofan í saumana á umsögnum og athugasemdum og kynna sér vandlega þau málefni er varða sjálfsprottnu grænu svæðin á Sjómannaskólareitnum í Reykjavík. Þegar slíkur mótbyr er, er varla þess virði að keyra áfram af offorsi og öfgum. Flokkur fólksins vill vekja athygli á óskum nemenda í Háteigsskóla og draga fram þeirra framtíðarsýn á svæðinu. Flokkur fólksins vill taka undir með Vinum Saltfiskmóans að gengið er um of á gróðurþekju Háteigshverfis sem er nú þegar of lítil samkvæmt úttekt borgarinnar sjálfrar. Gríðarlegt byggingarmagn með tilheyrandi skuggavarpi mun ekki aðeins rýra verðgildi þeirra eigna sem fyrir eru heldur einnig rýra gildi stakkstæðisins í Saltfiskmóanum og Vatnshólsins sem útivistarsvæðis. Ástæða er til að hafa áhyggjur af umferðaröryggi. Vandi Háteigsskóla vegna þéttingar í Háteigshverfi er enn óleystur. Fyrirliggjandi byggingaráform fela í sér skipulagsslys sem varað er eindregið við

Bókun Flokks fólksin undir liðunum 8 og 16 í fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. júní 2019:

Nú er ekki lengur frítt inn á söfn fyrir eldri borgara. Það var mikill hvati fyrir eldri borgara að hafa frítt á söfn og óttast borgarfulltrúi Flokks fólksins að með því að þurfa að kaupa menningarkort þótt ódýrt sé, þá muni það hafa letjandi áhrif að taka þátt í menningarlífi borgarinnar. Nóg er nú samt sem letur eldri borgara að sækja miðbæinn. Aðgengi að miðbænum er slæmt t.d. ef eldri borgari vill koma akandi. Mjög margir treysta sér ekki í bílahúsin vegna erfiðrar aðkomu að sumum bílastæðahúsum, flókins greiðslumáta og ótta við að lokast inni ef þeim tekst ekki að greiða gjaldið. Með þessari breytingu er verið að rýra kjör eldri borgara til muna. Það hefur ótvírætt gildi fyrir eldri borgara og þá sem hættir eru að vinna að geta notið menningarlífsins og er liður í að draga úr félagslegri einangrun. Því miður hafa ekki allir í þessum aldurshópi ráð á að fara á söfn eða kaupa menningarkort þó svo það verði á afslætti. Vegna liðs nr. 16., pylsuvagninn bannaður. Flokkur fólksins skilur ekki afstöðu meirihlutans að banna pylsuvagninn við Sundhöllina. Telur það „ekki heppilegt“. Hvað er eiginlega átt við hérna? Þetta er enn eitt dæmi um forræðishyggju flokka meirihlutans. Þeir vilja ekki aðeins ráða samgöngumáta fólks heldur einnig hvort þeir fái sér pylsu eftir sund.

Bókun Flokks fólksins undir lið 15 við Embættisafgreiðslur skrifstofu borgarstjórnar 4. júlí 2019

Það er óskiljanlegt af hverju ekki má gera þeim sem velja að aka vistvænum bíl eða rafbíl hátt undir höfði. Sú var tíðin að þeir sem vildu skipta yfir í vistvæna bíla fengu ákveðna umbun. Sú umbun var tekin af. Það hefur komið skýrt fram að þessi meirihluti ætlar ekki að gera neinn greinarmun á hvort bíll er bensínbíll eða rafbíll. Á hinn bóginn vill meirihlutinn gjarnan draga úr mengun en gerir afar lítið til að stíga öll möguleg skref í þeim efnum. Að taka upp eldri reglur í þessu sambandi væri hvorki flókið né kostnaðarsamt en afar jákvæð skilaboð til almennings. Eigi að loka fyrir aðkomu bíla úr miðbænum endar með að bærinn tæmist alveg og má hann varla við því nú þegar rekstraraðilar í tugatali hafa verið hraktir burt með verslun sína. Staðreyndin er að almenningssamgöngur eru ekki hagstæðar fjölmörgum borgarbúum. Að umbuna þeim sem velja að aka vistvænum bílum ætti að vera á forgangslistanum fremur en að setja allt púður í að útiloka bíla frá miðbænum. Flokkur fólksins hvetur meirihlutann til að draga úr öfgum. Með því að leyfa þeim sem aka vistvænum bílum að fá frítt bílastæði í 90 mín. muni auka líkur á að fleiri sjái slíka fjárfestingu sem góðan kost.

Bókun Flokks fólksins við 10. lið fundargerðar stjórnar Sorpu bs. frá 25. júní 2019:

Flokkur fólksins fagnar því að fjalla eigi um notkun sveitarfélaganna á metani á eigendafundi Sorpu. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn 18. júní þess efnis að Strætó og Sorpa sem bæði eru fyrirtæki í meirihlutaeigu borgarinnar vinni saman og að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs. Hér er um eðlilegt og sjálfsagt sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ræða. Borgarfulltrúi Flokks fólksins batt vonir við að tillagan fái upplýsta umræðu í stjórn Strætó bs. Nefnt hefur verið að metanvagnar séu „hávaðasamir“. Borgarfulltrúi hefur ekki heyrt að það sé vandamál en svo fremi sem ekki sé um að ræða þess meiri hljóðmengun hlýtur sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ráða hér.

Bókun Flokks fólksins við 1. lið fundargerðar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 27. maí:

Það er með öllu vonlaust að átta sig á hvað er verið að ræða á stjórnarfundum Orkuveitu Reykjavíkur út frá fundargerð. Þarna er einungis sagt hvað er á dagskrá. Fundargerð er ekki sama og dagskrá. Skiljanlega er ekki hægt að fara í mikla dýpt í málin eða segja hver sagði hvað. En það má eitthvað á milli vera. Í þessa fundargerð vantar kjöt á beinin til þess að þeir sem vilja fylgjast með og hafa eftirlitsskyldu geti með einhverju móti áttað sig á umræðunni sem þarna fer fram.

Bókun Flokks fólksins undir lið 4. lið fundargerðarinnar frá 12. júní um aðgengi að Hverfisgötu á meðan á framkvæmdum stendur

Svo oft virðist það gleymast að tryggja aðgengi fyrir alla þegar verið er að framkvæma í borginni. Áður en framkvæmdir hefjast verður að setjast niður með hagsmunasamtökum t.d. hreyfihamlaðra til að hafa öflugt samráð um hvernig málum verði háttað er varðar aðgengi á viðkomandi stað. Þetta hefur ekki verið gert. Núna er víða vonlaust fyrir hreyfihamlaða að fara um. Bílastæði fyrir P merkta bíla eru fá. Núverandi borgarmeirihluti verður að virða þá staðreynd að ekki allir eru gangandi eða hjólandi vegfarendur. Hverfisgata eins og aðrir hlutar borgarinnar á að vera fyrir alla, hvaðan sem þeir koma og með hvaða leiðum. Búið er að fjarlægja fjölda bílastæða á götum með alls kyns þrengingum. Bílastæðahús eru vissulega til staðar en aðkoma og aðgengi að þeim er víða slæmt. Margir eldri borgarar, fatlaðir og einnig ungir ökumenn treysta sér ekki í þau, aðkoma virkar flókin og fólk óttast að lokast inni með bíl sinn t.d. þar sem enginn umsjón er á svæðinu.