Borgarráð 19. september 2019

Tillaga Flokks  fólksins að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum 10 hverfum borgarinnar

Flokkur fólksins leggur til að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum 10 hverfum borgarinnar. Í dag eru aðeins fjórar skólahljómsveitir í Reykjavík, (í Austurbæ, í Árbæ og Breiðholti, í Vesturbæ og í Grafarvogi) en hverfi borgarinnar eru 10. Eftir stendur Grafarholt og Úlfarsárdalur, Háaleiti og Bústaðir, Laugardalur, Hlíðar og Miðborg. Á sjöunda hundrað nemendur stunda nám í þessum hljómsveitum. Nemendur í grunnskólum borgarinnar eru tæp 15 þúsund. Vel má því gera því skóna að mun fleiri nemendur hefðu áhuga á að sækja um aðild að skólahljómsveit. Eins og staðan er í dag er ekki boðið upp á tónlistarkennslu í öllum grunnskólum. Nám í einkareknum tónlistarskóla er dýrt og ekki á færi allra foreldra að greiða fyrir tónlistarmenntun barna sinna. Tónlistarskólinn á  Klébergi, Kjalarnesi er eini tónlistarskólinn sem er alfarið rekinn af Reykjavíkurborg. Borgin er með þjónustusamninga við 17 einkarekna tónlistarskóla. Þeir njóta styrkja frá Reykjavíkurborg en setja sína eigin gjaldskrá. Á meðan grunnskólar bjóða ekki upp á tónlistarnám og  ekki er á allra færi að stunda slíkt nám vegna mikils kostnaðar  gæti þátttaka í skólahljómsveit verið góður valmöguleiki. Með því að hafa skólahljómsveit í öllum hverfum er tækifæri til tónlistarnáms flutt í nærumhverfi barnanna. Reykjavíkurborg tryggir með þessu að börnum sé ekki mismunað á grundvelli efnahags foreldra þegar kemur að tækifæri til að stunda tónlistarnám.

Tillaga Flokks fólksins að farið verði í sérstakt átak við að auka þátttöku barna í hverfi 111 m.a. með notkun frístundakortsins til íþrótta- og tómstundanáms

Tillaga um að Reykjavíkurborg fari í sérstakt átak við að auka þátttöku barna í hverfi 111 m.a. með notkun frístundakortsins til íþrótta- og tómstundanáms. Í yfirliti yfir þátttöku barna í skipulögðu starfi árið 2018 og notkun frístundakorta kemur í ljós að þátttakan er lökust í hverfi 111. Þátttaka stúlkna í þessu hverfi er 66% og þátttaka drengja er 69%. Til samanburðar má nefna að mest er skráning í frístundastarf í hverfi 112, drengir með 94% og stúlkur 85%. Ástæður fyrir þessu geta verið af ýmsum toga. Hverfi 111 er Fella- og Hólahverfi og þar er eitt mesta fjölmenningarsamfélagið í borginni. Flokkur fólksins hefur spurt um stöðu barna í Fella- og Hólaskóla. Þar býr hæsta hlutfall fólks sem er af erlendu bergi brotið. Af svari að dæma er stór hópur barna í hverfinu félagslega einangraður og þar búa margir sem glíma við fátækt. Ekki eru til upplýsingar hjá íþrótta- og tómstundasviði um hlutfall þátttöku barna af erlendu bergi brotnu. Möguleg skýring á minni þátttöku barna í hverfinu er að hér er um efnalitla og fátæka foreldra að ræða sem eiga e.t.v. ekki annan kost en að nota frístundakort barnanna til að greiða gjald frístundaheimilis svo foreldrarnir geti verið á vinnumarkaði. En það er auðvitað ekki markmiðið með frístundakortinu.

Greinargerð

Meginmarkmið Frístundakortsins er að öll börn á aldrinum 6-18 ára  í Reykjavík geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika íþrótta-, lista- og tómstundastarfs eins og segir í reglum um Kortið. Íþrótta- og tómstundarnám er dýrt og notkun frístundarkortsins dekkar aðeins brot af þeim kostnaði. Hins vegar er þessi litla upphæð sem frístundarkortið gefur engu síður ákveðin hvatning til að taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Hér þarf að koma til sérstaks átaks hjá borginni. Slíkt átak gæti t.d. falið í sér að bjóða þeim sem eru verst settir og sem nota frístundarkortið til að greiða upp í gjald frístundaheimilis sérstakan styrk til að greiða með frístundaheimili svo barnið geti notað frístundarkortið í annað. Einnig þarf að fara af stað með hvatningarátak þar sem börnum þessa hverfis er sérstaklega kynnt hvað stendur til boða og kannað hjá þeim með markvissum hætti hvaða íþrótta- og tómstundargreinar veki áhuga þeirra. Í kjölfarið þyrfti að sinna eftirfylgni og mæla svo árangurinn eftir einhvern tíma. Það er ekki viðunandi að svo mikill munur sé á milli hverfa í þessu tilliti.

Tillaga Flokks fólksins að Strætó bs setji sér þjónustustefnu með áherslu á auðmýkt

Flokkur fólksins leggur til að Strætó bs setji sér þjónustustefnu með áherslu ekki einungis á notendavæna hönnun heldur einnig þjónustulund og auðmýkt gagnvart farþegum. Stofnanir og fyrirtæki í eigu borgarinnar eiga að starfa samkvæmt skýrri þjónustustefnu. Markmið þjónustustefnu er að stofnun uppfylli hlutverk sitt og veiti notendum góða þjónustu og sýni hlýtt viðmót. Þessi tillaga er lögð fram núna að gefnu tilefni. Í ljósi kvartanna vegna m.a. framkomu og aksturslags vagnstjóra sem borist hafa til Strætó bs. er afar brýnt að móta þjónustustefnu sem innleidd verði hið fyrsta. Í stefnu þeirri sem hér er lagt til að Strætó bs. setji sér, leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins til að hún feli í sér ákvæði um að vagnstjórar/starfsmenn Strætó bs sýni auðmýkt og lítillæti í störfum sínum og séu ávallt tilbúnir að aðstoða fólk við inn- og útgöngu í vagnanna. Sýni farþegum jákvætt viðmót, virðingu og kurteislega framkomu og séu vingjarnlegir og hjálpfúsir gagnvart farþegum. Vagnstjórar/starfsmenn þurfa að þekkja sitt hlutverk og hafa velferð farþega ávallt að leiðarljósi. Vagnstjórar þurfa að gæta sérstaklega að börnum, öryrkjum, eldri borgurum og öðrum viðkvæmum hópum þegar stigið er inn og úr vagninum. Vagnstjórar þurfa auk þess að hafi færni og getu til að lesa og meta aðstæður.

Greinargerð

Lagt er til að þjónustustefna Strætó feli einnig í sér:

  • Að vagnstjórar byggi ákvarðanir sínar ávallt á því hvað er farþegum fyrir bestu
  • Að vagnstjórar leyfi farþeganum ávallt að njóta vafans komi upp einhver vafamál enda skulu farþegar ávallt vera í forgangi
  • Að vagnstjórar veiti farþegum nauðsynlegar upplýsingar eftir atvikum

Flokkur fólksins vill ítreka mikilvægi þess að stefnan sem hér um ræðir kveði á um þjónustulund, kurteisi, tillit, sveigjanleika og að þjóna borgarbúum sem nota þjónustuna af auðmýkt og lítillæti. Gæta þarf sérstaklega að velferð og öryggi barna, öryrkja og eldri borgara. Þessum aðilum þarf að sýna sérstaka biðlund og oft sérstaka aðstoð. Gæta þarf að aksturslagi þegar um er að ræða börn, einstaklingar sem glíma við hreyfivanda eða hömlun af einhverju tagi og einnig fólki sem hefur lítil börn í fangi eða sér við hönd.

Vísað til meðferðar stjórnar Strætó bs.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um meðalstærð íbúða

Flokkur fólksins þakkar svarið. Þetta er greinargóð lýsing á því hvernig unnið er og það er greinilega verið að gera heilmikið til að mynda fjölbreytta byggð. Það sem borgarfulltrúi hafði í huga með fyrirspurninni er að með því að setja fram kröfu um meðalstærð íbúða t.d. á einstökum byggingarreitum má ná fram því markmiði að byggðar verði misstórar íbúðir á einstökum svæðum. Kosturinn við þessa aðferð sem spurt er um hvort borgin hafi er að hönnuðir fá nokkuð frjálsar hendur við hönnunina með að skapa enn meiri fjölbreytni. Reglan er einföld, en getur leitt til þess að mjög mismunandi íbúðir verði til í einu og sama húsinu.