Borgarráð 18. febrúar 2021

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. febrúar 2021 á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna byggðar í Skerjafirði, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram skýrsla hollensku loft- og geimferðastofnunarinnar til Isavia dags. ágúst 2020, ásamt minnisblaði Isavia, dags. 9. september 2020:

Það væri skynsamlegt að mati Flokks fólksins að hinkra með þetta mál enda mikið af upplýsingum eftir að berast í því og niðurstöðum. Það er mikil andstaða við fyrirhugaða landfyllingu. Fjörur í Reykjavík eru í útrýmingarhættu vegna landfyllinga meirihlutans. Fjörur eru ekki einkaeign skipulagsyfirvalda borgarinnar. Fjaran er „búsvæði dýra um aldur og ævi“ eins og segir í einni umsögn. Það er mat Náttúrufræðistofnunar að vel megi þétta byggð þó ekki sé um leið gengið enn frekar á fjörur og lífríki þeirra í Reykjavík. Ef markmið með þéttingu byggðar Nýja Skerjafjarðar, er eyðilegging núverandi Skerjafjarðar þá þarf að hugsa skipulagsmál á svæðinu upp á nýtt. Að mati Náttúrufræðistofnunar er landfylling vestan við flugvöllinn óþörf með öllu þegar og ef flugvöllurinn verður lagður niður. „Umhverfisstofnun gerir verulegar athugasemdir við áformaða landfyllingu. Raska á sem minnst náttúrulegri strandlengju. Minnt er á að Skerjafjörður er skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði.“ Heilbrigðisnefnd bendir jafnframt á í skýrslu sinni að við flutning staðsetningar á grunnskóla og meðfylgjandi lóð er farið nær því svæði þar sem staðfest hefur verið að er olíumengun í jarðvegi. Huga þarf að því að strangari kröfur þarf að gera til hreinsunar og jarðvegsskipta þegar um er að ræða starfsemi fyrir börn.

 

Bókun Flokks fólksins við Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í loftlagsmálum, vísað til borgarstjórnar:

Í skýrslu um loftslagsaðgerðir kennir margra grasa. Fjallað um tæknilausnir og um einfaldar leiðbeiningar um bætta hegðun. Auðvitað á að draga úr allri sóun og stytta ferðir og auðvitað á að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti. Kolefnisbinding CarbFix hreinsitækni kann að vera framfaraskref á heimsvísu en hún er kostnaðarsöm. Með henni er líkt eftir því sem plöntur gera. CarbFix kann að vera hagkvæmt við útblástur fyrirtækja þar sem styrkur koltvísýrings er mikill, en ekki aðeins 400 ppm (parts per million) eins og í náttúrunni. Líklega er hagkvæmara að rækta skóg, t.d. frá borginni og upp að Bláfjöllum og Hengli. Það einfalda er oft betra en það flókna og stuðlar einnig að líffræðilegri fjölbreytni. Í skýrslunni koma fyrir atriði sem virðast ekki endilega tengjast beint loftslagi. „Ráðist verði í eflingu flóðavarna meðfram strandlengjunni þar sem þarf og stefnt að því að úr verði útivistarsvæði, strandgarðar og aðstaða til sjávarbaða“. Bráðum verður ekkert eftir að gömlu góðu fjörunum þar sem hægt er að tína steina og skeljar. Allt er að verða manngert og fátt að verða um náttúruleg útivistarsvæði í borgarlandinu. Vandséð er að það að hætta urðun bæti loftgæði. Hringrásarhagkerfið stuðlar að því að minnka sóun náttúrugæða, en ekki að bæta loftgæði sérstaklega.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 16. febrúar 2021, að 6 tillögur sem fram komu úr vinnu starfshóps um börn innflytjenda í Reykjavík verði samþykkt að 6 tillögur verði vísað til borgarráðs:

Starfshópur um börn innflytjenda skilaði skýrslu sinni og tillögum í maí 2020. Tillögur hópsins voru til skoðunar við vinnslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021 og skilaði hópurinn uppfærðu yfirliti í janúar 2021 um stöðu tillagna. Tillögur hópsins voru alls 24 talsins. Sbr. hjálagt yfirlit dags. janúar 2021 eru 10 þeirra þegar komnar í vinnslu og þarfnast ekki fjármögnunar. Þá leggur hópurinn til að 8 tillögur til viðbótar fari í bið og verði endurskoðaðar að ári. Eftir stendur að lagt er til að 6 tillögur verði nú samþykktar af borgarráði. Lagt er til að eftirtaldar tvær tillögur verði samþykktar og verði vísað til meðferðar skóla- og frístundasviðs, sem hafi samstarf við velferðarsvið um framkvæmd tillagnanna, og til fjármála- og áhættustýringarsviðs til gerðar viðauka við fjárhagsáætlun. Kostnaður er 1.119.250 kr. sem greiðist af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð: 3. Foreldrasamstarf: 3.1. Fræðsla til fjölbreytts foreldrahóps í grunnskólum Reykjavíkur, í samstarfi við þjónustumiðstöðvar og frístundamiðstöðvar um íslenska forvarnarmódelið og niðurstöður Rannsókna og greininga í hverfum borgarinnar. Kostnaður felst í túlkakostnaði og kostnaði vegna fyrirlesara frá Rannsóknum og greiningu, samtals 719.250 kr. 3.2. Útgáfa myndbanda fyrir öll skólastig þar sem hugmyndafræði og mikilvægi íslenska forvarnarmódelsins er kynnt á einfaldan hátt á nokkrum tungumálum. Kostnaður er við þýðingar og orðaforðalista sem tekinn verði saman af Miðju máls og læsis, samtals 400.000 kr. Þá er lagt er til að borgarráð samþykki eftirtaldar tillögur sem ekki þarfnast viðbótarfjármagns og vísi til meðferðar skóla- og frístundasviðs, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu og íþrótta- og tómstundasviðs sbr. skýringar við hverja tillögu: 2. Fræðsla um fjölmenningu: 2.1. Fræðslupakki um fjölmenningu, viðhorf og fordóma verði aðgengilegur á netinu fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar og samstarfsaðila (s.s. íþróttafélög), börn, ungmenni og forráðamenn þeirra. Vísað til meðferðar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. 2.2. Þjálfun stjórnenda Reykjavíkurborgar í menningarnæmi til þess að ná til fjölbreytts barna- og foreldrahóps. Vísað til meðferðar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu; 3. Foreldrasamstarf: 3.4. Staðfæra verkefnið Velkomin í skólann, þ.e. útbúa skapalón af bæklingi fyrir foreldra. Vísað til meðferðar skóla- og frístundasviðs; 6. Aukið aðgengi að íþróttum og tómstundum: 6.1. Samþætta íþrótta- og skólastarf og vinna sameiginlega að því að finna leiðir til þess að börn og unglingar geti stundað íþróttir um leið og hefðbundnum skóladegi lýkur. Vísað til meðferðar íþrótta- og tómstundasviðs í samstarfi við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, velferðarsvið, skóla- og frístundasvið og Íþróttabandalag Reykjavíkur.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Starfshópurinn lagði fram sjö tillögur ásamt aðgerðum sem byggja á niðurstöðum rannsókna um börn innflytjenda á Íslandi. Tillögurnar fela í sér fræðslu af ýmsu tagi, eflingu foreldrasamstarfs og að tekjutengja gjald fyrir vistun á frístundaheimili, aukið aðgengi að tónlistarkennslu og auka aðgengi að íþróttum og tómstundum. Þessar tillögur tengjast mörgu því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur reynt að fá hlustun á og lagt, til t.d. tillögu í apríl 2019 um að grípa til sértækra aðgerða til að létta undir með efnaminni foreldrum. Fræðsla er auðvitað lykilatriði, vinna með foreldrum, auka jöfnuð í tómstundum og íþróttum og í tónlistanámi en á þessum sviðum er mikill ójöfnuður. Börn efnaminni foreldra sem margir eru innflytjendur fá færri tækifæri. Það verður að gera átak í að börn í þeim hverfum sem notkun frístundakortsins er minnst, eins og í hverfi 111 þar sem hæsta hlutfall innflytjenda er, finni tækifæri til að nýta kortið og sé notuð til þess aðferðin maður við mann samtal við barn og foreldra. En fátt af þessu verður líklega að veruleika á vakt þessa meirihluta.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi skóla- og frístundasviðs, dags. 10. febrúar 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. febrúar 2021 á tillögu um aðgerðir til að bæta íslenskukunnáttu barna með annað móðurmál en íslensku, ásamt fylgiskjölum. R20120136

Sú viðbót sem hér er veitt fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna sem standa illa að vígi í íslensku er góð og er í samræmi við tillögu Flokks fólksins sem nýlega var lögð fram í borgarstjórn. Í þeirri tillögu var einnig nefnt að gera þarf meira, finna ólíkar leiðir til að hjálpa börnum af erlendu bergi að komast hraðar inn í samfélagið. Það er ekki nóg að taka við fólki, bjóða því að dvelja til langframa á Íslandi en sinna því síðan ekki sem skyldi. Það hlýtur að vera markmiðið að þau standi ekki hallari fæti en önnur börn þegar kemur að námi eða öðru sem þau kunna að vilja taka sér fyrir hendur. Börn innflytjenda eru mörg einangruð. Þau hafa ekki verið að fá næga aðstoð í íslensku vegna fjárskorts skóla. Það þarf meira fjármagn til að hægt sé að hjálpa þeim börnum sem eru verst sett. Margir skólar eru verulega fjárþurfi, hafa glímt við fjárskort árum saman eins og sjá má í skýrslu innri endurskoðunar frá 2019. Fleira þarf að koma til, þar með talið faglegur stuðningur við starfsfólk og viðeigandi fjárveitingar.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 15. febrúar 2021 framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum vegna janúar til og með júní 2021 vegna COVID-19:

Framlenging á innheimtureglum Reykjavíkurborgar vegna leigugreiðslna er sjálfsagt mál að mati fulltrúa Flokks fólksins enda hafa COVID aðstæður ekkert breyst. Líklegt er að breytingar næstu mánuði verði hægar og ávallt þarf að vera undir bakslag búinn. Fulltrúa Flokks fólksins finnst skilyrði innheimtureglnanna of ströng og hefur tjáð sig um að þau mættu vera sveigjanlegri. Það mætti t.d. opna fyrir möguleikann á að skoða mál einstaklingslega og horfa þá jafnvel á sérstakar aðstæður hvers og eins þegar meta á tekjutap.

 

Bókun Flokks fólksins við svari skóla- og frístundasviðs, dags. 11. febrúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mönnun stöðugilda, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. janúar 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Búið er að ráða í 98,9% stöðugilda sem er gott. Við mannabreytingum er kannski fátt að gera, þær hafa sinn gang. Mönnun í frístundastarfi virðist vera erfiðari og þykir mikið að þar vanti um 46 starfsmenn, mun meira en í október en þá vantaði 10 starfsmenn. En kannski er skýringin tæknileg eins og fram kemur í svari, „algengt að þurfi að endurráða fólk í mörg hlutastörf um áramótin og því ferli ekki lokið“. Af hverju þarf að endurráða svo marga um áramót? Og af hverju er því ferli ekki lokið í seinnipart febrúar? Þetta eru spurningar sem koma upp í hugann við lestur svarsins. En fulltrúi Flokks fólksins lætur hér staðar numið með formlegar spurningar enda veit hann að starfsmenn á skóla- og frístundasviði eru án efa að gera sitt allra besta í þessu.

Bókun Flokks fólksins við svörum  þjónustu- og nýsköpunarsviðs í þremum liðum:  dags. 15. febrúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um útvistun á þjónustu- og nýsköpunarsviði á tímum atvinnuleysis, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. janúar 2021. R20110346

Fyrirspurnum hefur enn ekki verið svarað. Þessar spurningar eiga rétt á sér og þeim á að svara málefnalega. Tilgangur þeirra er að draga fram að það kostar marga milljarða að ná fram nokkurra milljóna sparnaði. Í svari segir „einn af mælikvörðum góðrar þjónustuveitingar er fjöldi beiðna sem berast. Því fleiri beiðnir sem berast, því meira traust er borið til tækniþjónustu upplýsingatækniþjónustu Reykjavíkurborgar“. Þetta myndi maður halda að væri einmitt þveröfugt, því færri beiðnir, því betra ástand á kerfinu. Í yfirliti 2019 kemur fram að aðkeypt þjónusta til Capacent og Gartner group er 90 milljónir og er farið langt fram úr áætlun. Í skjalið vantar greiðslur til Advania, Opinna kerfa og Origo. Efast er stórlega um að í útvistun felist hagræðing. Í yfirliti um stafræna umbreytingu 2021 á að setja rúma þrjá milljarða. Minnt er á að nú bíða 800 börn eftir fagþjónustu skóla og um 500 eftir félagslegu húsnæði. Flokkur fólksins telur að farið sé illa með fjármuni og hefur beint málinu til innri endurskoðunar með ósk um að lagt verði mat á það enda er fulltrúi Flokks fólksins ekki sérfræðingur og hefur ekki forsendur til að greina svörin frá þjónustu- og nýsköpunarsviði. Útilokað er að meta hvort allt sé betra núna en áður en verkefnum var útvistað.

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Fyrirspurninni hefur verið svarað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins ætlar ekki að karpa um hvort fyrirspurnum hafi verið svarað eður ei. Mat fulltrúans er að svo sé ekki, þeim hefur verið svarað óbeint og með alls kyns útúrsnúningum. Ekkert virkar eðlilegt þegar horft er á fjárútlát þessa sviðs og ekki hvað síst ef litið er til undanfarinna missera. Það er mikilvægt að innri endurskoðun kafi ofan í saumana á fjármálum þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Einhver hugsanaskekkja er í þessu öllu, t.d. að útvistun sé hagræðingaraðgerð og að fjöldi beiðna sem sendar eru inn sé merki um gæði þjónustu.

 

Bókun Flokks fólksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 15. febrúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um ráðningar vegna styttingar vinnuvikunnar, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. janúar 2021.

Stytting vinnuvikunnar hefur verið lengi í deiglunni og er nú orðin að veruleika. Það sem er sérstakt er að breytingin mátti ekkert kosta sem þýðir að ekki má ráða inn aukamannafla. Gengur þetta upp? Er hægt að skilyrða svona hluti þannig að ekki er einu sinni gert ráð fyrir að meta aðstæður á hverjum stað fyrir sig? Ekki er vitað hvaða áhrif breytingin mun hafa á sumaropnanir leikskólanna. Vel kann að vera að ekki verði hjá því komist að ráða starfsmenn inn tímabundið í einhverjum leikskólum en munu þeir þá eiga rétt á styttingu vinnuvikunnar? Starfsfólk hefur m.a. afsalað sér hvíldarhléum til þess að þetta megi ganga upp. Gangi þetta ekki upp vofir yfir að styttingin verði dregin til baka. Það vill enginn. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að gerð verði skoðun á áhrifum breytinganna á líðan barna, starfsfólks og starfsemina en tillögunni var hafnað.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 29. janúar 2021:

Ástæða er til að halda áfram að hrósa stjórn SORPU fyrir að hafa tekið sig aðeins á með fundargerðir en þær eru betri en þær hafa oft verið. Fjallað er m.a. um í þeirri sem hér er lögð fram úrgangssöfnun og hvernig á að stuðla að því að samræming verði meðal sveitarfélaganna. Hér er verið að taka á máli sem hefur illa verið sinnt áður. En ef nýta á úrgang sem hráefni í aðra vinnslu þarf að flokka sem mest þar sem úrgangurinn verður til, á heimilum og í fyrirtækjum. SORPA telur að hún eigi að leiða þetta verkefni. Það er einn kosturinn en þeir sem búa til úrganginn ættu einnig að hafa mikið um flokkunina að segja. Kalla ætti eftir hugmyndum frá heimilum og fyrirtækjum hvernig talið er að gera mætti betur í flokkun sorps á þeim stað þar sem það verður til.

 

Bókun Flokks fólksins við lið 4 í embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði:

Fulltrúi Flokks fólksins, eins og öldungaráð Reykjavíkur, fagnar tillögu Félags eldri borgara þar sem lagt er til að Reykjavíkurborg komi að skipulagðri og heildstæðri heilsueflingu fyrir eldri borgara Á sama tíma er harmað að borgarstjórn skyldi hafa fellt tillögu Flokks fólksins um stofnun embættis hagsmunafulltrúa aldraðra sem lögð var fram í annað sinn. Fulltrúi Flokks fólksins óskaði sérstaklega eftir að öldungaráð Reykjavíkur fengi tillöguna til umsagnar, en sú beiðni fékk ekki hljómgrunn hjá meirihlutanum. Embætti Hagsmunafulltrúa aldraðra, hefði það verið samþykkt, hefði einmitt getað komið sterkt inn í heilsueflingu aldraðra, m.a. hvatt til og haldið utan um aðgerðir sem eru til þess fallnar að styðja við heildstæða heilsueflingu fyrir eldri borgara.

Flokkur fólksins styður þessa fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks sem óska eftir því að skýrsla Verkís um Fossvogsskóla sem kynnt var foreldrum á fundi í Fossvogsskóla þann 17. febrúar verði kynnt í borgarráði. Óska fulltrúarnir eftir því að farið verði yfir sögu málsins, þær framkvæmdir sem búið er að fara í, hvernig úttektum á þeim var háttað og hverjar eru ástæður þess að mygla sé áfram að finnast í skólanum þrátt fyrir allar þær framkvæmdir sem búið er að fara í. Eins óska fulltrúar Sjálfstæðisflokks eftir því að skýrsla Verkís sem kynnt var foreldrum á fundi 17. febrúar verði gerð opinber. R19020180