Ræða fulltrúa Flokks fólksins við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar 2. nóvember 2021

FYRRI UMRÆÐA
Ræða fulltrúa Flokks fólksins

Í fyrra hóf ég ræðu mína á að segja “Hver átti von á að upplifa þær aðstæður sem nú ríkja, aðstæður þar sem skæð veira skekur heiminn allan? Nú glittir í bóluefni og með því ef allt gengur vel þá er það upphafið af ferð til eðlilegs samfélags.“

Sannarlega kom bóluefnið en enn þá er greinilega langt í land með að nái að beisla veiruna. En starfsfólk Reykjavíkurborgar á þeim sviðum sem mest hefur mætt á í COVID hefur staðið sig vel í þessum aðstæðum og kann fulltrúi Flokks fólksins því öllu bestu þakkir fyrir.
Ég vil hér í upphafi einnig hnykkja á stefnumálum Flokks fólksins en við í Flokknum í borg á á þingi erum vakin og sofin yfir að þörfum allra verði mætt í samfélaginu eins og lög gera ráð fyrir. Kjörorð okkar er FÓLKIÐ FYRST, svo allt hitt. Flokkur fólksins berst fyrir bættum kjörum og aðstæðum þeirra verst settu, öryrkja, eldri borgara og barna. Við höfum einnig látið okkur varða málefni ferfætlinga, dýra og viljað standa vörð um réttindi eigenda þeirra.
Við viljum útrýma fátækt, að allir hafi fæði, klæði og húsnæði. Við höfum látið okkur aðgengismálin varða, umferðar- og skipulagsmálin, grænu málin og almennt allt það sem gefur fólki tækifæri á að auðga og betrumbæta líf sitt. Skóla- og frístundasvið og Velferðarsvið eru þau svið sem mæðir hvað mest á enda sinna lögbundinni þjónustu við fólk og annarri nauðsynlegri þjónustu. Um þessi svið og starfsemi þeirra vill Flokkur fólksins standa vörð.
En byrjum á húsnæði og húsaskjóli.
Húsnæðismálin hafa verið í brennidepli síðustu vikur vegna þess að áþreifanlega hefur það nú komið í ljós að það vantar húsnæði. Sjálfsagt er að þétta og stendur Flokkur fólksins að baki þéttingarstefnu upp að skynsamlegu marki. En eins og framkvæmdin hefur verið á þéttingarstefnunni er ljóst að hún hefur leitt til spennu á fasteignamarkaði, mikið til vegna þess að ekki hefur verið ljáð nægilega máls á að gera annað og meira en að þétta.
Hátt verð og hækkandi verð þýðir að framboð er ekki nægjanlegt
Nú eru 1900 íbúðir í byggingu í borginni eða 30% færri en var fyrir tveimur árum eftir því sem Samtök iðnaðarins segir. Ekki skal karpað hér um talningu á húsnæði. Raunveruleikinn er skýr, það er slegist um hverja eign. Litlar íbúðir á þéttingasvæðum eru dýrar. Á þeim hafa hvorki námsmenn, fyrstu kaupendur né þeir sem minna hafa milli handanna efni á.

Reynt hefur verið að kenna bönkunum um þetta (sbr. málflutning borgarstjóra) en þeir sverja af sér að vilja ekki lána. Þá hefur verið reynt að kenna verktökum um en kannski hafa líka margir verktakar bara gefist upp á að eiga viðskipti við Reykjavíkurborg og farið annað. Flækjustig byggingaferils og kvaðir eru sagðar allt of miklar og íþyngjandi hjá borginni. En sú kvöð sem telja mætti langmikilvægust vantar og hún er sú að ef þú færð lóð þá ber þér að byggja á henni innan tilskilins tíma. T.d. í Úlafarárdal eru lóðir sem á er byggingarúrgangur en engin bygging, viðkomandi hefur ekki byggt á henni árum saman. Eftir hverju er sá að bíða eða eru þessi verktakar að glíma við borgarkerfið enn þá.
Nú eru hverfi að verða ansi einsleit, blokkir ofan á blokkir, litlir og stórir kassar. Hvað varð um hugmyndina af blandaðri bygg, sjálfbæru hverfi með atvinnutækifæri innan hverfis? Var þetta ekki kosningaloforð þessa meirihluta?

Sá var tíminn að einstaklingar gátu fengið lóðir og byggt sjálfir og samhliða því byggt upp félagslega samstöðu og myndað hverfismenningu. Þessi hugsun virðist með öllu fjarri nú.
Vandinn er sá að það er takmarkað framboð af lóðum fyrir allar gerðir fasteigna. Núna hefði t.d. verið unnt að skipuleggja svæði utan við borgina, og utan þéttingarsvæða þar sem þeir sem það vilja hefðu getað byggt í stað þess að kaupa hús í Þorlákshöfn eða Hveragerði. Með því að útvíkka hverfin og þá innviði sem fyrir eru skapast fleiri íbúðarmöguleikar t.d. mætti skoða suðurhlíðar Úlfarsfells og svæði austur af núverandi Úlfarsárdals sem tengjast því hverfi.

FJÁRHAGSÁÆTLUN

Ekki fer hjá því að rekstur og fjárhagsstaða A-hluta borgarsjóðs veldur áhyggjum. Veltufé frá rekstri á árinu 2020 var 1.9% af heildartekjum og á árinu 2021 er útlit fyrir að það verði neikvætt um 1,8 ma.kr eða um -1,3% af heildartekjum.

Þetta þýðir að tekjur A-hlutans nægja ekki til að greiða útgjöld hans. Þá er búið að taka tillit til allra reiknaðra liða svo hér er um raunverulegan mismun á milli tekna A-hlutans og daglegra útgjalda hans. Það þarf sem sagt að taka lán upp á 1.8 milljarða kr. til að geta greitt daglegan rekstur.

Með neikvætt veltufé þarf ekki einungis að taka lán fyrir hluta af daglegum rekstri heldur þarf einnig að taka lán til að greiða afborganir lána og daglegan rekstur.

Á árinu 2022 er ætlað að veltufé frá rekstri verði jákvætt. Það er engu að síður langt fyrir neðan þau mörk sem ásættanlegt er. Í fjárhagsáætluninni kemur fram að það eigi að vera 1,9% af heildartekjum. Eins og fram hefur komið hjá fjármálastjórn er miða við að það þurfi að vera 9-10% af heildartekjum svo rekstur viðkomandi sveitarfélags sé ásættanlega sjálfbær.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 kemur fram að gert er ráð fyrir gríðarlegri aukningu tekna af seldum byggingarrétti. Árið 2020 voru þær um 1.2 ma.kr. en í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir að það nemi 5.0 ma.kr.

Eðlilegt er að spurt sé hvað liggur að baki þess að gert er ráð fyrir svo mikilli aukningu tekna af sölu byggingarréttar?
Ef horft er á hlutfall milli veltufjár frá rekstri og langtímalána má sjá að á árinu 2020 er áætlað að það taki rétt um 44 ár að greiða niður öll langtímalán A-hlutans ef veltuféð væri nýtt til þess og einskis annars.
Auðvitað er þetta svolítill leikur að tölum en þetta sýnir að fjárhagsstaða borgarinnar er óásættanleg að þessu leyti.
Gert er ráð fyrir mikilli aukningu á lántöku. Árið 2020 voru teknir 9.4 ma.kr að láni hjá A-hluta Reykjavíkurborgar. Árið 2022 er gert ráð fyrir lántöku upp á 25 ma.kr. Samtímis er áætlað að afborganir langtímalána vaxi úr 1.8 ma.kr. á árinu 2020 í 3.6 ma.kr. á árinu 2020.

Afborganaþungi lána tvöfaldast þar með á tveimur árum.
Á árinu 2022 er áætlað að langtímaskuldir A-hluta Reykjavíkurborgar verði orðnar rúmir 97 ma.kr. það er aukning um 44 milljarða á tveimur árum eða um rúm 80%.

Hvað veldur þessari miklu aukningu á skuldum A-hlutans. ER ÞAÐ BARA COVID?
Það er ekki annað hægt en að hafa áhyggjur af þessari þróun. Heildarskuldir og skuldbindingar vaxa á sama tíma um 66% SEM ER ENN YFIR ásættanlegum mörkum.

Fjárhagsáætlun fyrir árin 2023-2026

En hvernig horfir þetta til framtíðar, hver verður þróunin á nokkrum mikilvægustu kennitölum í rekstri A-hlutans á næstu fjórum árum eftir árið 2022. Það segir töluvert mikið um hver er líkleg þróun á fjárhag A-hluta borgarsjóðs á komandi árum.
Almennt er gert ráð fyrir batnandi afkomu A-hlutans. Veltufé frá rekstri batni og verði komið upp í 7-8% af heildartekjum á seinni hluta tímabilsins.
Í því sambandi vekur athygli að það er einungis gert ráð fyrir 8% hækkun á kostnaði við kaup á vörum og þjónustu á árunum 2022 – 2026 á sama tíma og gert er ráð fyrir að tekjur vaxi um 21% og kostnaður við laun og launatengd gjöld vaxi um 20%.

Mikilvægt er að vita á hvaða forsendum áætlunin um kostnað vegna kaupa á vörum og þjónustu byggir því hún stingur í stúf við aðra þróun á stærstu þáttum í rekstri A-hlutans.
Gert er ráð fyrir mikilli aukningu á lántöku og þar með mikilli skuldasöfnun á tímabilinu. Langtímaskuldir A-hlutans voru 53.7 ma.kr. á árinu 2020 en áætlað er að þar verði komnar í 131.7 ma.kr. á árinu 2026.

Það er aukning upp á 145%. Afborganir langtímalána stefna í að vera orðnar um 8.2 ma á ári á árinu 2026 samanborið við 1.9 ma.kr á árinu 2020. Það er meira en fjórföldun. Afborganir langtíma munu hækka úr 3.6 ma.kr. á árinu 2022 í 8.2 ma.kr á árinu 2026. Það er tvöföldun.
Samkvæmt langtímaáætlun mun veltufé frá rekstri verða samtals 56.3 ma.kr. á árunum 2020 – 2026. Á sama tímabili eru afborganir langtímalána 39.6 ma.kr.

Það eru því einungis um 16.6 ma.kr. eftir á fyrrgreindu tímabili til að leggja í nýframkvæmdir.
Á sama tíma eru tekin ný lán að fjárhæð 126 ma.krÁtætlað er að framkvæma fyrir 179 ma.kr. eða tífalda þá fjárhæð sem A-hlutinn hefur til ráðstöfunar þegar búið er að greiða rekstrarkostnað og afborganir langtímalána.

Ekki er annað hægt en að hafa áhyggjur af þessari mikli aukningu á skuldsetningu borgarinnar.
Tvennt annað er ástæða til að minnast á í þróun fjármála borgarinnar.
Veltufjárhlutfall (veltufjármunir / skammtímaskuldir) er 1.0 á árinu 2022. Það er komið niður í 0,7 á árinu 2026.

Slík þróun leiðir af sér að það verður stöðugt erfiðara að greiða reikninga á gjalddaga og dráttarvextir munu fara vaxandi.
Í öðru lagi má nefna að handbært fé í árslok lækkar ár frá ári. Það er 12.6 ma.kr. í árslok 2022.

Áætlað er að það sé einungis 7.2 ma.kr. í árslok 2026. Það gerist þrátt fyrir bætta afkomu úr rekstri A-hlutans. Þessar tvær lykiltölur leiða í ljós að fjárhagur borgarinnar er að veikjast.

Stafrænar lausnir?

Eins og með biðlistana hefur fulltrúi Flokks fólksins oft rætt um stafræna ævintýri ÞONsins eða þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Það er sem sagt hvorki rætt hér í fyrsta sinn né síðasta sinn.
Fulltrúa Flokks fólksins hefur þótt ólíðandi að horfa upp á hvernig þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar (ÞON) hefur farið með fjármagn borgarbúa í þau stafrænu verkefni sem borgin vill koma á laggirnar.

Þess vegna leggur Flokkur fólksins það til að fjárfestingaráætlun vegna fjárfestinga í áhöldum, tækjum og hugbúnaði þjónustu- og nýsköpunarsviðs verði lækkuð um 2 ma.kr og fjármagnið nýtt til að hækka fjárframlagt til velferðarsviðs svo útrýma megi biðlistunum á sviðinu en um 1400 börn hið minnsta bíða eftir fagþjónustu og veita börnum frá tekjulægstu heimilunum fríar skólamáltíðir.

Stafræn umbreyting er nauðsynleg, um það er ekki deilt. En það er ekki sama hvaða leiðir eru farnar í þeim efnum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að sviðið hafi leikið sér með fjármagn, farið í allt of mikla þenslu, hefur ráðið sérfræðinga af öllu tagi til að vera með óskilgreinda tilraunastarfsemi í stað þess að leitast við að nýta þær lausnir sem þegar eru til og leita strax í upphafi til Stafræna Íslands eftir samvinnu. Flestar þessar snjalllausnir eru komnar í virkni og óþarfi að finna upp hjólið.

Fulltrúi Flokks fólksins vonar að með margra mánaða gagnrýni sinni hafi dropinn holað steininn og að farið sé að kaupa allt út í búð sem hægt er að kaupa þar ef svo má orða. Því miður eru tugir milljóna flognir út um gluggann m.a. í óskilgreinda ráðgjöf frá erlendum og innlendum fyrirtækjum.
Stafræn umbreytingarvinna hefur verið í mörg ár, óskilgreind og ómarkviss og í hana hafa verið settar ævintýralega háar upphæðir án þess að hægt sé að tengja við ávinning
Í ársskýrslu 2020 og 6 mánaða uppgjöri ÞON voru ótal atriði sem vöktu upp áhyggjur. Ýmsu háfleygu hefur verið fleygt fram svo sem að „verkefnið á að leiða borgina inn í stafræna framtíð sé af þeirri stærðargráðu sem eigi sér fáar hliðstæður hér á landi.“

ÞON (þjónustu- og nýsköpunarsvið)
Fjármálin

Á árinu 2022 eru útgjöld ÞON ætluð 4.5 ma.kr. Tekjur eru áætlaðar 1.5 ma.kr. Það eru því gríðarlegir fjármunir sem lagðir eru til sviðsins. Óhjákvæmilegt er að kjörnir fulltrúar séu vel upplýstir um þau verkefni sem unnið er að.

Það er síðan eðlilegur hlutur að þeir hafi sínar skoðanir á þeim áherslum og forgangsröðun fjármuna sem eiga sér stað í sambandi við þetta verkefni. Það er beinlínis skylda kjörinna fulltrúa að afla sér allra þeirra upplýsinga um ástæða þykir til. Það er rétt að beina athyglinni að tveimur atriðum í þessu sambandi.

Fleiri hafa stigið fram og gagnrýnt og rætt um aðferðarfræði ÞON t.d. Samtök iðnaðarins og Stafræna Ísland sem t.d. bíður upp á samvinnu og samtarf með fjölmargar rafrænar lausnir eins og Mínar síður.

Í fyrsta lagi er rétt að minna á að á fjarfundarráðstefnu hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þann 29. okt. sl. kom fram hjá einum fyrirlesaranna að við undirbúning stafrænnar umbreytingar væri eðlilegt vinnulag að kostnaðarmeta verkefnin og leggja mat á ávinning við hvert og eitt þeirra. Að því loknu væri þeim forgangsraðað þannig að tryggt væri að skattpeningar almennings myndu nýtast sem best skyldi.

Í því sambandi þykir rétt að spyrja hvort mat á fjárhagslegum ávinningi hvers og eins verkefnis liggi fyrir og hvort verkefnum hafi verið forgangsraðað í framhaldi af því.

29. september var haldinn fundur á vegum sambandsins. Þar héldu þau Elías Pétursson hjá Fjallabyggð og Þórhildur Gunnarsdóttir eigandi JÚNÍ erindi:

Það sem fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að segja samrýmist mörgu því sem sérfræðingar á þessu sviði segja.
Meðal þess sem fram kom að:

Sveitarfélög vinna undir sama lagagrunni, víða eru notuð áþekk forrit.
Stöðlun á söfnun upplýsinga og miðlun þeirra er lykilatriði.
Allar breytingar snúast um fólk en ekki tækni.
Sveitarfélög geta sameinast um sérfræðiþekkingu eða keypt þekkingu utan að frá hvar sem hún er staðsett.
Sveitarfélögin geta komið sér saman um þau grunnkerfi sem þau nota.
Skoða stóru kerfin sem sveitarfélögin vinna með s.s. skjalavistun. Leyfismál, skjalavistun og rafræn skil kosta mikið ef hvert og eitt sveitarfélög fara í slíkt verkefni eitt og sér. Samstaðan í samningum í þessu efni skiptir miklu máli.

Hér er hægt að deila kostnaði að sjálfsögðu með öðrum sveitarfélögum að mati fulltrúa Flokks fólksins.

Vakið hefur athygli fulltrúa Flokks fólksins að kostnaður við verkefni sem tengjast stafrænni umbreytingu á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar eru færður í eignasjóð (ES) þ.e. hann er eignfærður. Afskriftir eru síðan færðar sem kostnaður á rekstrarreikning.
Fulltrúi Flokks fólksins skilur ekki hvernig stendur á að 10 milljarða kostnaður við breytingar á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar er eignfærður í stað þess að kostnaður við verkefnið sé færður beint á rekstrarreikning.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst það sérstakt ef allur kostnaður við stafræna umbreytingu (10 milljarðar á þremur árum) er færður sem fjárfesting á eignasjóð. Margt af hinni stafrænu umbreytingu snýst ósköp einfaldlega um að það er verið að innleiða ný vinnubrögð og leggja af eldra vinnulag.

Taka má dæmi um skönnun á teikningum og tengdum skjölum hjá byggingarfulltrúa. Það er búið að vinna slíkt verk hjá sveitarfélögum víða um land. Það hefur engum dottið í hug að færa kostnað við það sem fjárfestingu og ætla síðan að afskrifa hann?

Eins og fulltrúi Flokks fólksins skilur þetta þá er í eignasjóð einungis færð verðmæti mannvirkja sem verða afskrifuð.
Fulltrúi Flokks fólksins hefur aflað sér upplýsingar um þessi mál og fengið t.d. að vita að það sé farið mjög varlega í að eignfæra tölvubúnað vegna þess hve hratt þarf að endurnýja hann. Hann er víðast hvar metinn sem rekstrarkostnaður og færður til gjalda á viðkomandi ári.

Fulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir að Reikningsskila- og upplýsinganefnd samgöngu– og sveitarstjórnarráðuneytisins skoði þetta.

Fátækt

Eitt af aðaláherslumálum Flokks fólksins er að útrýma fátækt eins og ég nefndi hér að ofan. Rannsóknir sýna vaxandi fátækt svo ekki er um að villast. Aðstæður fátækra eru bagalegar í Reykjavík og er sá fjöldi manns sem leitar eftir mataraðstoð til hjálparsamtaka lifandi merki þess.
Erfitt er fyrir fólk sem berst í bökkum, láglaunafólk, öryrkja með skertar bætur og aðra minnihlutahópa að eiga fyrir mat allan mánuðinn. Þeir sem eru á leigumarkaði greiða margir um 70% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og þá er oft ekki mikið eftir til að lifa af.

Nýlega lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að Reykjavíkurborg gerði sérstaka úttekt á fátækt í Reykjavík sambærilega þeirri sem gerð var 2008. Tillögunni var vísað frá með þeim rökum að margar slíkar úttektir hafi verið gerðar og að ekki væri þörf á annarri. Þessu er Flokkur fólksins ekki sammála. Staðan í dag er gjörbreytt eftir að COVID reið yfir og tími COVID er hvergi nærri liðinn. Fulltrúi Flokks fólksins vill fyrst og fremst að borgin sjái betur um þennan hóp en treysti ekki á að hann fái mat á diskinn annars staðar.

Við höfum lent í hremmingum áður, Hrunið 2008 og ættum að vita að það versta sem hægt er að gera er að leyfa vandanum að vaxa og stækka stjórnlaust.
Það þarf að grípa til sértækra úrræða til að auka jöfnuð en bil milli fátækra og ríkra hefur aldrei verið eins stórt. Hjálpa þarf sérstaklega þeim hópi sem er með lægstu tekjurnar, fólk sem við vitum að nær ekki endum saman eftir að búið er að greiða leigu.

Í Reykjavík leitar nú stækkandi hópur til hjálparsamtaka og félagsþjónustunnar, þetta er breiður hópur. Einnig leita ellilífeyrisþegar, láglaunafólk og fólk af erlendum uppruna til hjálparsamtaka.
Opinber framfærsla og lægstu laun standa ekki straum af grunnþörfum. Húsnæðiskostnaður er liður sem tekur stóran hluta af ráðstöfunartekjum heimila. Ef allt væri eðlilegt væri starfsemi hjálparsamtaka óþörf, við búum jú í velferðarsamfélagi. Úrræði Reykjavíkur duga ekki til en velferðarkerfið á að grípa þá sem höllum fæti standa.

Reykjavíkurborg þarf að endurmeta kerfið allt og hækka upphæðina til framfærslu. Fulltrúi Flokks fólksins er með tillögur í þessu sambandi, bæði að hækka fjárframlög, fresta hagræðingarkröfu, og gjaldskrárhækkunum sem bitna illa á þeim verst settu.
Borgin bendir stundum á ríkið í ýmsu samhengi m.a. að það vanti meira fjármagn s.s. í málaflokk fatlaðra. Ríkið greiðir lífeyri til öryrkja en ef tekjur eru undir viðmiði á borgin að taka við. Nýleg rannsókn Vörðu fyrir ÖBÍ 2021 sýndi sláandi niðurstöður.

Það ætti að vera sjálfsagt að þessi börn frá tekjulægstu heimilum njóti fyrirgreiðslu innan leikskóla, grunnskóla, skólamáltíða og frístundaheimila?.

Tillaga flokks fólksins við seinni umræðu
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki, að leik- og grunnskólabörn frá lágtekjuheimilum fá fríar skólamáltíðir.

Samtals er barnafjöldi yngri en 18 ára á landinu núna 82.436 eða 7.378 börn á lágtekjuheimilum ef miðað er við 8,95%.

Það er mat skóla- og frístundasviða  að tekjur af skólamáltíðum gætu lækkað um 160 m.kr. og er þá miðað við að fjöldinn sé tæplega 8,95% af barnafjölda árið 2019.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fjárheimildir til skóla- og frístundasviðs (SFS) hækki um 160 m.kr. og er þá miðað við að fjöldinn sé tæplega 8.95% af barnafjölda árið 2019.

En hvar á að taka fjármagni?
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fjárfestingaráætlun vegna fjárfestinga í áhöldum, tækjum og hugbúnaði þjónustu- og nýsköpunarsviðs verði lækkuð um 2 ma.kr. og hluti af þeim sparnaði verði veitt m.a. í að auka fjárheimildir til SFS til að mæta lækkun tekna vegna frírra skólamáltíða fyrir börn frá lágtekjuheimilum. Einnig veri hluti af þessum sparnaði veittur til velferðarsviðs til að eyða biðlistum barna sem bíða eftir fagþjónustu.

Þannig er lækkun á fjárheimilum ÞON nýtt til að mæta tekjutapi SFS vegna frírra máltíða og til að auka fjárheimild til velferðarsviðs svo eyða megi biðlistum.

Biðlistar

Biðlistar er eitthvað sem ég er ekki að ræða hér í fyrsta né heldur síðasta sinn. Ekki hefur tekist að stytta biðlista að heitið geti og það sem verið er að reyna er sennilega bara kropp. Hvert kropp er fulltrúi Flokks fólksins þakklátur fyrir. Þessi mál eru ekki flókin en þau þarfnast þess að hægt sé að ráða fagfólk af öllu tagi. Nauðsynleg þjónusta við börn hlýtur að vera metin hærra en hönnun og tilraunir á sérhæfðum stafrænum hugmyndaverkefnum.)
Biðlistar eru enn í sögulegu hámarki. Fjölgun er á beiðnum sem ekki á að nota sem afsökun fyrir ástandinu heldur sem ástæðu til að gera betur og gera vel.
Bið og það löng bið er svo sem í alla þjónustu borgarinnar. Oft heyrist hjá meirihlutanum að í skóla- og frístund fari gríðarlegt fjármagn. Ég segi, en ekki hvað. Í þessi tvö svið skóla- og frí og velferð á að fara mikið fé, eins mikið og þarf eftir því hvað þörfin er mikil hverju sinni og hvernig. Bið eftir hentugu skólaúrræði í þeim tilfellum sem barn þarf sérúrræði er ekki síður ferleg og erfið barni og foreldrum.
Allra verst er þó óvissan sem þessu fylgir.

Við eigum að geta gert kröfu um að börn hafi gott aðgengi að allri þjónustu borgarinnar og að foreldrar geti valið það skólaúrræði sem talið er að henti börnum þeirra best að mati foreldra og fagaðila. Krafan er að hvert einasta barn fái þjónustu við hæfi. að hvert barn sé metið á einstaklingsgrunni. Barn sem þarf að bíða lengi eftir þjónustu fagaðila eða fær ekki aðstoð við hæfi er í mun meiri áhættu með að grípa til örþrifaráða eins og sjálfsskaða eða þaðan að enn verra. Bið getur kostað líf og hefur jafnvel gert það
Biðlistar í húsnæði hafa ekki styttist nógu hratt. Öryrkjar eru á annað hundrað að bíða eftir sértæku húsnæði og mikil vöntun er á húsnæði fyrir eldra fólk, þ.m.t. þjónustuíbúðir. Verði Flokkur fólksins í næsta meirihluta borgarstjórnar mun hann vilja tryggja stöðugt framboð á lóðum og auka lóðaframboð á reitum sem ekki eru þegar byggðir. Hér er ótalið bið í alls konar annað, nauðsynleg fræðslunámskeið, þjálfunarnámskeið og fleira.

Tillögurnar í fyrri umræðu eru eftirfarandi og voru þær allar felldar

Fyrsta tillagan
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega hækki um 6% milli ára og verði:
1. Réttur til 100% lækkunar:
a. Einstaklingur með tekjur allt að 4.650.000 kr.
b. Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 6.500.000 kr.

2. Réttur til 80% lækkunar:
a. Einstaklingur með tekjur á bilinu 4.650.001 til 5.330.000 kr.
b. Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 6.500.001 til 7.200.000 kr.

3. Réttur til 50% lækkunar:
a. Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.330.001 til 6.200.000 kr.
b. Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 7.200.001 til 8.600.000 kr.

Greinargerð
Það er gömul saga og ný að fjárhæðir almannatrygginga hækka aldrei í réttu samræmi við kaupmáttarþróun. Öryrkjar og ellilífeyrisþegar fá sjaldan sambærilegar kjarabætur og fólk á almennum vinnumarkaði. Ríkið hefur í áraraðir hunsað lagaboð um að fjárhæðir almannatrygginga skuli taka breytingum til samræmis við launaþróun. Kjör öryrkja og eldri borgara hafa því ekki haldið við kjör almennings, heldur hefur myndast uppsöfnuð kjaragliðnun sem nú mælist í tugum prósenta.
Ofan á þetta bætist að verðbólga hefur nú mælst yfir 4% allt síðasta árið. Þetta þýðir ekki annað en það að öll sú kjarahækkun sem öryrkjar og eldri borgarar áttu að fá milli ára hefur þurrkast út og gott betur.
Það er ekki ofan á það bætandi að Reykjavík taki þátt í kjaragliðnuninni. Við erum að tala um fátækasta fólkið. 3,6% hækkun á afsláttarviðmiðunum dugar ekki til að halda í við verðbólgu. Því er lagt til að viðmiðin hækki um 6% milli ára.

Tillaga 2
Tillaga um að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjalds af hundaeigendum
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjalds af hundaeigendum. Tillagan felur í sér að fjárheimildir umhverfis- og skipulagssviðs verði hækkaðar um 33.300 þ.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Greinargerð
Flutningur þessa málaflokk hefur nú færst frá heilbrigðiseftirliti borgarinnar yfir til Íþrótta- og tómstundaráðs. Reykjavíkurborg hefur ákveðið að áfram skuli innheimt skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum þrátt fyrir að verkefni hundaeftirlitsmanna hafi snarfækkað.
Hundaeigendur eiga að halda uppi dýraþjónustu í borginni með gjaldtöku fyrir að eiga hund. Þeim er skylt að greiða skráningargjald, 11.900 kr., eftirlitsgjald, 9.900 kr., og handsömunargjald sleppi hundurinn, kr. 30.200. Enginn afsláttur er gefinn ef fólk á fleiri hunda og ekki er hægt að framselja leyfi.
Komið er inn ákvæði um refsingar sé samþykktinni ekki fylgt, allt að fjögurra ára fangelsi.
Hundaeigendur þurfa ekki á dýraþjónustu Reykjavíkur að halda. Hagsmunasamtök hundaeigenda sjá um flest allt, t.d. fræðslu. Matvælastofnun sinnir ábendingum ef grunur er t.d. um illan aðbúnað.
Áfram á að halda inni að birta lista yfir hvar hundar eiga heima. Fulltrúa Flokks fólksins finnst engin handbær rök vera fyrir því. Í lögum er það alveg skýrt að þjónustugjald má ekki innheimta umfram kostnað við þjónustuna en sá áskilnaður krefst ákveðins gegnsæis. Því miður hefur borgin ekki sinnt þeirri skyldu að veita upplýsingar um kostnað á bak við gjaldið þegar eftir því hefur verið leitað. Skráning á gæludýrum er mikilvæg sem og örmerkjaskráning sem er lögbundin skylda. Ef skráningargjald verður afnumið mun skráðum dýrum fjölga. Ef innheimta á skráningargjöld mun einfaldlega færri hundaeigendur skrá hunda sín. Gjaldtakan hefur fælingarmátt. Það ætti að vera markmiðið að sem flestir hundaeigendur skrái hunda sína. Hundaeftirlitsgjaldið er barn síns tíma og hefur aðeins verið innheimt af hundaeigendum. Sum önnur sveitarfélög hafa engin gjöld af þessu tagi.

Tillaga 3
Tillaga um að falla frá gjaldskrárhækkunum á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði sem snúa beint að gjöldum vegna þjónustu við fólk um eitt ár vegna aðstæðna þegar samfélagið er að vinna sig úr úr aðstæðum vegna COVID-19.

Breytingartillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins vegna gjaldskráa Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að falla frá gjaldskrárhækkunum á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði sem snúa beint að gjöldum vegna þjónustu við fólk um eitt ár vegna aðstæðna þegar samfélagið er að vinna sig úr úr aðstæðum vegna COVID-19. Lagt er til að fjárheimildir skóla og frístundasviðs verði hækkaðar um 75.244 þ.kr. og fjárheimildir velferðarsviðs verði hækkaðar um 18.113 þ.kr. Samanlagt lækki tekjur um 93.357 þ.kr. vegna þessa, sem verði fjármagnað af liðnum Ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Greinargerð:
Tillagan felur í sér að falla frá gjaldskrárhækkunum á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði sem snúa beint að gjöldum vegna þjónustu við fólk um eitt ár eða til 1.1. 2023 vegna ástands sem ríkir núna í samfélaginu í kjölfar kórónuveirunnar. Tillagan bætir hag barnafjölskyldna, aldraðra og fatlaðra sem njóta þjónustu borgarinnar