Borgarráð 18. mars 2021

Bókun Flokks fólksins við fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 4. mars 2021 undir 4. lið fundargerðarinnar:

Umræða um rafhlaupahjól í borginni: Fulltrúi Flokks fólksins leggur áherslu á mikilvægi þess að spyrja leigusala rafhlaupahjóla í borginni um hvaða ráðstafanir þeir geri til þess að tryggja að frágangur á rafhlaupahjóli hindri ekki aðgengi annarra vegfarenda í borginni. Sjá má hjól stundum skilin eftir á óheppilegum stöðum sem skapar slysahættu. Hjól sem lagt er á gangstétt eru slysagildra eða hindrun fyrir fatlaðan einstakling, t.d. þann sem er í hjólastól eða er sjónskertur/blindur. Það vantar skýrar umgengnisreglur um hvernig megi og eigi að skilja við hjólin og þá þurfa vissulega að vera aðstæður (hjólastandar) til að leggja hjólunum. Gríðarleg fjölgun hefur orðið á notkun hlaupahjóla sem og rafskútna og rafhlaupahjóla á stuttum tíma. Enn skortir mikið á að innviðir í borgarlandinu geti tekið við þessari miklu fjölgun.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð öldungaráðs frá 3. mars 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar Félagi eldri borgara fyrir ábendingu félagsins sem lýtur að 6. gr. í drögum að reglum Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu sem birt er í fundargerð öldungaráðs. Bent er á í bókuninni að það sé ekki réttlætanlegt að skylda umsækjanda til að heimila þjónustumiðstöðinni að afla fjárhagslegra persónulegra gagna vegna þjónustunnar þar sem hún er vegna heilsufarslegra ástæðna og er ótengd fjárhagsstöðu fólks. Einu tilvikin sem slíkt gæti verið réttlætanlegt er þegar fólk býr við svo lök kjör að það gæti verið, eins og segir í 10. gr: „Undanþegnir gjaldskyldu hvað varðar stuðning við heimilishald eru þeir sem einungis hafa tekjur samkvæmt framfærsluviðmiði Tryggingastofnunar ríkisins eða þar undir.“ Það eru undantekningartilfelli og ætti ekki að gilda almennt um umsækjendur þjónustunnar. Fulltrúi Flokks fólksins væntir þess að tekið verði tillit til þessa og annars sem fram kemur í bókun öldungaráðs, s.s. að fara þurfi vel með persónuupplýsingar og gæta þess að fyllsta trúnaðar sé ávallt gætt.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. mars 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. mars 2021 að rammaskipulagi fyrir Austurheiðar:

Margar athugasemdir sem borist hafa vegna Austurheiða virðast eiga rétt á sér. Aðrar snúast um einkahagsmuni sem hafa vonandi líka verið skoðaðar með sanngjörnum og eðlilegum hætti. Í athugasemdum koma fram rök um að reiðstígar og almennir göngu- og hjólastígar fari illa saman. Gæta þarf því að skýrri aðgreiningu. Það ætti almennt ekki að vera vandamál enda rýmið mikið. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um mikilvægi þess að göngu- og hjólastígar séu með eins litlum brekkum og hægt er séu þeir hugsaðir sem hluti af samgöngukerfi borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. mars 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. mars 2021 á kynningu á lýsingu að deiliskipulagi fyrir Hólmsheiði, ásamt fylgiskjölum:

Fram kemur í gögnum að á þessu svæði á að fella lóðir, byggingarreiti og götur að landi og náttúrulegum staðháttum og taka á tillit til ræktaðra svæða. Mikill skógur er á svæðinu. Ræktun á svona svæðum, svo sem græna treflinum sem myndar umgjörð um borgina og skilgreinir mörk útmerkur og þéttbýlis, þarf að hugsa sem borgargarða en ekki náttúrulega vist. Einnig er álitamál hvort mikilvægt sé að halda í núverandi gróður. Uppstaða ríkjandi gróðurs er útplöntun trjáa á síðustu áratugum. Gróðurfar er ekki stöðugt og vel getur verið að allt annað gróðurfar sé betra en það sem nú er á svæðinu. Vel má því skipuleggja svæðið án tillits til núverandi gróðurs. Úrkomumagn skiptir litlu máli fyrir lífsgæði á svæðinu, úrkomutímarnir skipta meira máli. Litlu skiptir hvort það rignir 5 eða 10 mm á klst. Tíminn er sá sami.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. mars 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. mars 2021 á tillögu að deiliskipulagi fyrir Laugaveg sem göngugötu:

Of mikil óbilgirni og harka hefur einkennt aðgerðir skipulagsyfirvalda þegar kemur að þessu máli að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta fjallar ekki um hvort göngugötur séu skemmtilegar eða ekki. Þetta varðar það hvort meirihlutinn átti sig á mikilvægi tímasetninga og geti lesið í aðstæður, geti sett sig í spor og síðast en ekki síst noti sanngjarna aðferðafræði. Í þessari breytingu hefði mátt fara aðrar leiðir, fara hægar og hagaðilum hefði átt að bjóða að ákvörðunarborðinu á fyrstu stigum. Margir sakna Laugavegarins eins og hann var. Til stóð að opna fyrir umferð aftur eftir lokun um sumarið 2019. En við það var ekki staðið. Margir hagaðilar höfðu beðið óþreyjufullir eftir opnun þetta haust því verslun hafði dalað í kjölfar lokunar fyrir umferð. Það er vissulega rétt að flestar göngugötur eru að mestu ,,stétt“ með viðeigandi skreytingum. En nú er heimild í lögum að P-merktir bílar aki göngugötur og lögum þarf að fylgja. Enn vantar viðeigandi merkingar, skilti til að merkja þessa lagaheimild. Það hefur orðið til þess að fólk á P-merktum bílum hefur orðið fyrir aðkasti.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. mars 2021, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. mars 2021 á endurskoðuðum reglum um bílastæðakort íbúa í Reykjavík:

Um er að ræða að íbúar (á sérvöldum svæðum í miðbænum) fái aðgang að bílastæðum gegn gjaldi, sem getur verið mishátt, í stað þess að íbúar eigi sérbílastæði. En hvað með raf-, vetni- og metan bíla, er ekki rétt að skoða ívilnun fyrir þá? Í Osló þurfa eigendur rafbíla, vetnisbíla og fólk með hreyfihömlun ekki að kaupa kort. Í Drammen þarf að skrá rafbíla en ekkert að borga fyrir þá í stæði. Af hverju ættu ekki að vera sambærilegar reglur í miðbæ Reykjavíkur, ekki síst þar sem skipulagsyfirvöld taka nánast flest upp eftir skipulagsyfirvöldum í Osló? Miðbærinn er orðið svæði sem er dýrt að búa á og stefnir í að það verði hverfi fyrir efnameira fólk í framtíðinni. Útgjöld munu aukast og dýrt verður að koma sem gestur. Í raun stefnir í það að þeir sem ætla að búa í miðbænum muni einfaldlega þurfa að hugsa sig tvisvar um hvort þeir geti leyft sér að eiga bíl og gestir verði helst að koma gangandi eða hjólandi. Fyrir fjölskyldur er ekki ósennilegt að þetta hafi fælingarmátt þegar skoða á fasteign til kaups eða leigu á svæðinu og mun fólk kannski í æ meira mæli berjast um stærri eignir í úthverfum.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 10. mars 2021, þar sem er óskað eftir að borgarráð samþykki afnotasamning á spildu í Öskjuhlíð:

Afnotasamningur um spildu fyrir aparólu í Öskjuhlíð hefur verið samþykkt í borgarráði. Skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar hefur samt hafnað umsókn Perlu norðursins, rekstrarfélags Perlunnar, um að setja upp svokallaða zip-line, nokkurs konar risaaparólu, sem átti að ná um 235 metra ofan af Perlunni og niður í Öskjuhlíð. Segir í umsögninni að deiliskipulag borgarinnar geri ekki ráð fyrir slíkri línu eða rólu. Þá sé það heldur ekki vilji borgarinnar að skipulagi verði breytt svo hægt sé að setja slíkt upp. Umsókn Perlu norðursins var því hafnað. Fulltrúa Flokks fólksins finnst svona róla skemmtileg en þykir sérkennilegt að lesa umsögn skipulagsstjóra sem segir nei á sama tími og meirihlutinn í borgarráði segir síðan já við rólunni.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningU á skjólborgarverkefni Reykjavíkurborgar:

Þetta er verkefni um að bjóða listamönnum, rithöfundum, talsmönnum mannréttinda, blaðamönnum og tónlistarmönnum sem eru vegna tjáningar sinnar í hættu, skjól í Reykjavík, hið svo kallað skjólborgarverkefni Reykjavíkur. Þetta er sannarlega falleg hugsun en hér er verið að taka ákveðinn hóp út sérstaklega, fólk sem hefur borið gæfu til að verða þekkt fyrir list sína en er ógnað vegna tjáningar sinnar. Það hlýtur að vera vandmeðfarið að velja úr hverjir komast undir þennan verndarvæng enda þótt það sé ekki á forræði borgarinnar. Sú borg sem gerist aðili að skjólborgarverkefninu hjálpar þessu fólki að fá dvalarleyfi, aðstoð með tryggingar, séð um flutning og móttöku til borgarinnar, því er útvegað húsnæði, styrkur og aðstoð við aðlögun. Fulltrúa Flokks fólksins finnst alltaf erfitt þegar lagt er upp með verkefni eða aðstoð sem mismunar fólki með einhverjum hætti. Nú eru fjölmargir sem leita til landsins eftir hæli/skjóli, fólk sem er að flýja bráðahættu ýmist vegna stríðsástands í landinu eða því er hótað lífláti af sinni eigin fjölskyldu.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á könnun Gallup á trausti til Borgarstjórnar Reykjavíkur:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur litið til Gallup af ákveðinni virðingu, talið að þar væru gerðar alvöru kannanir. Gallup hefur verið að gera netkannanir sem varla geta verið mjög marktækar og ekki hvað síst þar sem svarhlutfall er stundum bara rétt rúmlega helmingur. Um 95% kannana eru gerðar á netinu. Ekki eru allir á netinu og þótt þeir séu á netinu dettur þeim ekki í hug að svara svona könnun. Fulltrúi Flokks fólksins telur engu að síður að það sé rétt að ekki margir beri traust til borgarstjórnar, sérstaklega nágrannasveitarfélögin og landsbyggðin en einnig fólk í úthverfum borgarinnar. Þegar talað er um traust til borgarstjórnar hlýtur að vera vísað til meirihlutans í borgarstjórn, þess hluta sem heldur á valdasprotanum. Minnihlutinn í Reykjavík ræður engu og hefur ekki komið í gegn 98% framlagðra mála sinna sem meirihlutinn hefur ýmist fellt eða vísað frá. Minnihlutinn í borgarstjórn er því nokkuð oft á sama plani og þeir sem eru óánægðir með „borgarstjórn“ þ.e. þá sem stýra skipinu, hafa völdin. Í svona könnun ætti því að spyrja öðruvísi, spyrja ætti líka um traust til meirihlutans í borgarstjórn en ekki til borgarstjórnar sem heild.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarráðs að fela sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, að vinna að tillögu að útvíkkun á starfsemi Verkefnastofu starfsmats og undirbúningi að stofnun sjálfstæðrar starfseiningar, Jafnlaunastofu, í þeim tilgangi að styðja stjórnendur sveitarfélaga með ráðgjöf og fræðslu á sviði jafnlaunamála til viðbótar við núverandi samstarf um þróun og rekstur starfsmatsins.

Nú leggur borgarstjóri til að borgarráð samþykki að sett verði á laggirnar Jafnlaunaskrifstofa, sérstök eining með öllu tilheyrandi í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Fram kemur að skipta á kostnaði jafnt. Þýðir það að Reykjavík greiðir helminginn og nágrannasveitarfélögin hinn helminginn? Ef svo er þá er samkrull borgarinnar við Sambandið enn og aftur að koma sér illa fyrir borgarbúa. Fjárhagsleg ábyrgð borgarinnar mest en stjórnunarleg minnst. Umfang virðist eiga að vera heilmikið. Stöðugildi eiga að vera 6 og allt kostar þetta sitt. Tilgangurinn er sagður að styðja stjórnendur sveitarfélaga með ráðgjöf og fræðslu á sviði jafnlaunamála, en hafa þeir beðið um þessa hjálp? Einnig má spyrja hvort þetta sé forgangsmál. Einmitt nú ríkja erfiðar aðstæður í borginni vegna m.a. COVID. Fátækt fer vaxandi og biðlistar barna eftir þjónustu borgarinnar eru í sögulegu hámarki. Nú þegar eru margir starfsmenn og deildir að sinna þessum málum enda má gera betur í að jafna laun kynjanna. Óþarfi er að opna enn eina skrifstofuna/eininguna með tilkostnaði. Kerfi Reykjavíkur er orðið alveg nógu stórt völundarhús nú þegar. Jafnrétti skiptir máli í öllu, ekki aðeins í launum heldur einnig að almennur jöfnuður ríki í Reykjavík. Langt er í land að því markmiði verði náð.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 4. mars 2021, þar sem óskað er eftir tilnefningu fulltrúa frá Reykjavíkurborg í stafrænan samráðshóp:

Tilnefna á í stafrænan samráðshóp. Tilnefna á tvo frá frá hverju sveitarfélagi, óháð stærð og verkefnum og er vægi Reykjavík lítið nú sem fyrr í samvinnu við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það er tímabært að öll sveitarfélögin á Íslandi, og jafnvel ríki og ráðuneyti, fari að vinna að sameiginlegum lausnum fyrir íbúa landsins. Spyrja má af hverju er ekki sett upp ákveðna allsherjar upplýsingagátt fyrir landsmenn (íbúa borgar og sveita) í gegnum island.is. Þá þarf fólk aðeins að skrá sig inn á island.is og þar væru allar gáttir opnar fyrir viðkomandi og hann gæti sinnt öllum sínum stafrænu málum þar. En að borgin, upplýsinga- og tækniþjónustan, leiði innleiðingu starfrænna umbreytinga á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er gríðarleg fjárútlát sem koma beint úr vasa borgarbúa. Önnur sveitarfélög, sum hver stöndug, eiga að sjálfsögðu að taka þátt í þeim kostnaði og í framhaldi geta þau haft bein áhrif á það hvert sú stafræna umbreyting skuli stefna svo hún þjóni best best þörfum allra. Svona stór mál eiga að vera í formi sameiginlegrar uppbyggingar með ríkinu á „raunverulegum“ stafrænum lausnum sem koma til með að þjóna öllum íbúum.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að gerð verði sérstök könnun á andlegri líðan þessara barna, tilfinningalegri líðan þeirra og félagslegri og í kjölfarið verði skoðað hvort hægt sé að koma inn með sértæk hjálparúrræði allt eftir því hvað niðurstöður könnunarinnar segja til um:

Mikið hefur gengið á í Fossvogsskóla undanfarin ár vegna mygluskemmda í húsnæðinu. Fulltrúi Flokks fólksins vill að hugað sé að börnunum í skólanum og hvernig þau eru að koma undan þessum ósköpum öllum. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerð verði sérstök könnun á andlegri líðan þessara barna, tilfinningalegri líðan þeirra og félagslegri og í kjölfarið verði skoðað hvort hægt sé að koma inn með sértæk hjálparúrræði allt eftir því hvað niðurstöður könnunarinnar segja til um. Í ljósi langs biðlista skólabarna eftir sálfræðingum skóla (957 börn bíða núna) er vont til þess að vita að þau börn í Fossvogsskóla sem eru nú þegar á biðlista eftir fagfólki skólaþjónustu þurfi að bíða mikið lengur núna þegar langvarandi álag vegna myglunnar í skóla þeirra bætist þar ofan á. Þess vegna telur fulltrúi Flokks fólksins það mikilvægt að taka stöðuna á líðan barnanna með kerfisbundnum hætti og skoða í framhaldinu hvort grípa þurfi til frekari hjálparúrræða, t.d. fjölgunar sálfræðinga eða annars fagfólks. R19020180

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að borgin standi straum af lækniskostnaði barna og starfsmanna Fossvogsskóla vegna veikinda sem hlotist hafa af raka- og mygluskemmdum í Fossvogsskóla:

 

Flokkur fólksins leggur til að borgin standi straum af lækniskostnaði barna og starfsmanna Fossvogsskóla vegna veikinda sem hlotist hafa af raka- og mygluskemmdum í Fossvogsskóla. Mál Fossvogsskóla er einsdæmi að því leyti að þarna hafa fengið að grassera raka- og mygluskemmdir árum saman. Eins er farið í fleiri skólum og byggingum borgarinnar vegna þess að þeim hefur ekki verið haldið við svo árum skiptir. Það sem einkennir þetta mál sérstaklega er að foreldrar, starfsfólk og börnin hafa reynt að ná eyrum borgaryfirvalda í þrjú ár. Yfirvöld brugðust illa og seint við, hafa verið með útúrsnúninga, og á tímabili var áberandi að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur reyndi jafnvel að þagga málið niður, í það minnsta brást ókvæða við þegar spurt var um stöðu þess. Fulltrúi Flokks fólksins vill í ljósi vanrækslu borgaryfirvalda og tregðu að taka ástand Fossvogsskóla alvarlega strax og kvartanir bárust leggja til að Reykjavíkurborg standi straum af öllum lækniskostnaði barna og starfsmanna skólans vegna veikinda sem hlotist hafa af menguninni. Þetta á við um kostnað vegna líkamlegra veikinda vegna myglunnar og einnig vegna andlegrar vanlíðunar sem ástandið kann að hafa skapað. R19020180

Frestað.