Skipulags- og samgönguráð 1. desember 2021

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Landfylling í Nýja Skerjafirði, frummatsskýrsla, kynning:

Þetta viðaukahefti styður það sem fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að segja undanfarin ár sem er að það á alls ekki að fylla upp í fjörur þegar eitthvað á að gera við ströndina. Þrátt fyrir hagstæð skilyrði fyrir landfyllingu á þessum stað kemur í ljós að tjónið fyrir lífríki fjörunnar er mikið og óvissa um árangur mikil.

Í rammaskipulagi Skerjafjarðar er lögð áhersla á að leitast verði við að líkja eftir náttúrulegri strönd með notkun grjóts af sömu stærðargráðu og fjölbreytileika eins og er nú í fjörunni. Þetta er augljóslega ekki hægt samkvæmt þessari skýrslu:

Um 2,7 ha af 3,7 ha núverandi fjöru sem geymir fínefni munu hverfa undir landfyllinguna og fláa hennar. Niðurstöður greininga sýna að varnargarðar munu aðeins veita staðbundið skjól fyrir öldu. Verulega stóran varnargarð þyrfti því til að skapa almennar skjólaðstæður við landfyllinguna. Þessi ,,tilbúna” þyrfti að vera í gjörgæslu um aldur og ævi. Hafa mætti í huga að núverandi fjörur hafa myndast á löngum tíma og þróast við staðbundnar aðstæður. Verkfræðingar geta engu við það bætt. Engar mótvægisaðgerðir mun duga til hér. Skaðinn er óafturkræfur. Miklu er fórnað fyrir lítið þegar heildarmyndin er skoðuð.

Bókun Flokks fólksins við: Hverfisskipulag, Breiðholt 6.1 Neðra Breiðholt, tillaga:

Í þessum gagnapakka er að finna bréf frá Vegagerðinni og Kópavogsbæ um Arnarnesveginn. Athugasemdir beggja aðila valda áhyggjum. Vegagerðin bendir á að skv. Vegalögum nr. 80/2007 er veghelgunarsvæði stofnvega 30 m til hvorrar handar frá miðlínu vega en 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega. Framkvæmdir innan veghelgunarsvæða eru háðar leyfi frá Vegagerðinni. Hér er líklega verið að hnýta í fyrirhugaðan Vetrargarð og þetta segir að Arnarnesvegurinn mun skerða þróunarmöguleika hans. Og svo er athyglisvert að Kópavogur vill einnig hafa áhrif á skipulagið við Arnarnesveg og heimtar óbeint að sá vegur eigi að geta stækkað verulega frá núverandi meingölluðu skipulagi. Er það eðlilegt að annað sveitarfélag sé að stýra skipulagi í Reykjavík? Verður Arnarnesvegurinn að umferðarþungri umferðaræð sem hindrar útivist, rústar Vatnsendahverfinu og efsta hluta Elliðaárdals? Kópavogur ætlar sér að stýra hvernig svæðum umhverfis Arnarnesveg verði ráðstafað í skipulagi „svo áframhaldandi afkastageta vegarins verði tryggð“ eins og segir í þeirra umsögn. Vegurinn eins og hann er skipulagður í dag mun fara yfir mörkin í umferðarspá í umhverfismatinu frá 2003. Verður ekki að gera nýtt umhverfismat? Einnig má spyrja af hverju það hafi aldrei verið skoðað að leggja veginn í göng eða stokk til að vernda umhverfi, náttúru og útivistarmöguleika svæðisins?

Bókun Flokks fólksins við: Hverfisskipulag, Breiðholt 6.2 Seljahverfi, tillag:

Nú blasir við að Arnarnesvegurinn verði umferðaræð með miklum umferðarþunga sem er líkleg til að hindra að nokkur útivist verði á svæðinu. Þessi framkvæmd eyðileggur náttúru í Vatnsendahvarfinu og efsta hluta Elliðaárdals. Fulltrúi Flokks fólksins er slegin yfir að sjá bréf frá Vegagerðinni og Kópavogsbæ sem viðkemur Arnarnesveginum. Kópavogur vill stýra hvernig svæðum umhverfis Arnarnesveg verði ráðstafað í skipulagi „svo áframhaldandi afkastageta vegarins verði tryggð“ eins og segir í þeirra umsögn. Áhersla Vegagerðarinnar er að Arnarnesvegurinn geti stækkað og beri fleiri bíla í framtíðinni. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að ef veghelgunarsvæði verði stórt og það svæði verði að fullu nýtt, mun það hafa slæm áhrif á íbúa og hindra þróunarmöguleika Vetrargarðsins. Kópavogur vill hafa áhrif á skipulagið og virðist hugsa einungis um eigin hagsmuni. Reykjavík leyfir hagsmunum þeirra að vera í fyrirrúmi. Engin virðing er borin fyrir umhverfinu þarna í upphæðum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst slæmt að Reykjavíkurborg skuli ekki taka þetta fastari tökum, ekki síst vegna Vetrargarðsins sem Kópavogsbúar munu eflaust nota líka. Eru skipulagsyfirvöld virkilega sátt með það í allri sinni umræðu um grænar áherslur? Af hverju er ekki hægt að skoða að leggja veginn í göng eða stokk til að vernda umhverfi, náttúru og útivistarmöguleika svæðisins?

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag, Breiðholt 6.3 Efra Breiðholt, tillaga:

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hefur hug á því að bjóða upp á nám í ræktun og sjálfbærni og segist vinna þannig að heimsmarkmiðum um loftslagsmál með beinum hætti. Til þess þarf skólinn landsvæði fyrir skógræktarkennslu og matvælarækt. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur til að þetta verði kannað. Það virðist vera nauðsynlegt að slíkt svæði verði í nálægð við skólann. Hér er enn verið að fjalla um nágrenni Arnarnesvegarins sem er ekki góð framkvæmd fyrir Reykvíkinga. Hentar kannski hagsmunum og kosningaloforðum bæjarráðs Kópavogs, en framkvæmdin mun koma sér illa fyrir íbúa Breiðholts. Samkvæmt nýju hverfisskipulagi Breiðholts sést einnig vel að Arnarnesvegur mun liggja þétt upp við fyrirhugaðan Vetrargarð. Sleðabrautin, sem líklegt er að yngstu börnin muni nota mest, mun liggja næst fjögurra akreina stofnbrautinni og tvöföldu hringtorgi. Ekkert umhverfismat um það liggur fyrir, því ekki var gert ráð fyrir Vetrargarðinum í fyrra umhverfismati sem er nær tveggja áratuga gamalt. Vegurinn eins og hann er skipulagður í dag er ekkert annað en óafturkræf skipulagsmistök. Vegalagningunni hefur verið mótmælt af íbúum á öllum skipulagsstigum undanfarin 40 ár. Íbúaráð Breiðholts og fjölmargir fleiri hafa kallað eftir að nýtt umhverfismat verði gert fyrir þessa framkvæmd. Breiðholtsbrautin er þegar sprungin sem umferðaræð og Arnarnesvegur mun auka á vandann.

Bókun Flokks fólksins við Vesturgata 64, Fjölbýlishús – mhl.01: tveir liðir

Fulltrúi Flokks fólksins hafði þá og hefur enn nokkrar efasemdir um að mótvægisaðgerðir nái að milda ásýnd þessara stóru bygginga. Búið er að rannsaka birtu og skuggavarp í inngörðum og gera breytingar sem eru af hinu góða. En dugar það til til að gera þetta aðlaðandi og hlýlegt?

Minnumst þess að íslensk sumur eru stutt og svöl og flestum plöntum og gróðri veitir ekki af þeirri sól sem þau geta fengið sem og fólki. Um er að ræða mikið byggingarmagn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur einnig áhyggjur af umferðinni á þessu svæði sem nú þegar er mikil.

Bókun Flokks fólksins við níu mánaða uppgjör í aðal- og eignasjóði umhverfis- og skipulagssviðs 2021:

Umhverfis- og skipulagssvið 9 mánaða uppgjör lagt fram. Það sem fulltrúi Flokks fólksins finnst eftirtektarvert er „leiga gatna“. Fulltrúi Flokks fólksins veltir vöngum yfir hvers vegna sá rekstrarliður hefur farið nokkur hundruð milljónir fram úr áætlun? (Tilvitnum: Leiga gatna var 396 m.kr. umfram fjárheimildir, einkum vegna verðbótaþáttar leigunnar.) Verðbótaþátturinn skýrir þetta alls ekki út. Umframkeyrslan á liðnum í heild sinni er yfir 11%. Á ekki að reikna verðbótaþáttinn inn í fjárhagsáætlun? Er það ekki gert? Verðbótaþátturinn á ekki að koma neinum á óvart. Verðbólgan á árinu er 3-4%. Það sést ekki hvað grunnfjárhæð fyrir „leigu gatna“ er hár liður og því ekki hægt að reikna út hvað umframkeyrsla upp á 396 milljónir króna er hátt hlutfall af grunnfjárhæðinni.

Bókun Flokks fólksins við umsögn við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um nýbyggingar á árunum 2014 til 2021, umsögn:

Fyrirspurnin fjallar m.a. um að gengið sé á græn svæði þegar ákveðið er hvar á að byggja. Græn svæði hafa tapast samkvæmt svari og þau skuli bætt upp með grænu yfirbragði innan hinnar nýju byggðar, rúmgóðum og fjölbreyttum garðsvæðum, blágrænum ofanvatnslausnum, grænum húsþökum, grænum bílastæðum, gróðri í göturýmunum og almennt lausnum sem tryggja gegndræpi yfirborðsins. Þetta er auðvitað ekki það sama og “græn svæði” að mati fulltrúa Flokks fólksins. Tökum sem dæmi Hljómskálagarðinn og ef ákveðið yrði að byggja þar, hvernig yrði Hljómskálagarðurinn bættur upp með grænum bílastæðum, blágrænum ofanvatnslausnum eða grænum húsþökum? Einnig eru fjörur fylltar í gríð og ergð til að byggja á. Ekki er minnst á þá röskun í svarinu. Með því að taka fjörur borgarinnar undir steypu er eiginlega gengið eins langt og hægt er í að skemma náttúru. Um er að ræða aðgerðir sem eru með öllu óafturkræfanlegar.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um líffræðilegan fjölbreytileika og skilgreiningu á honum:

Borist hefur svar við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um notkun skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar á hugtakinu „líffræðilegur fjölbreytileiki“ og skilgreiningu þar á.

Spurt var vegna þess að embættismenn, ráðgjafar og þeir sem skrifa um breytingar á ræktun innan borgarinnar nota það hins vegar mest þegar áætlað er að planta í einstök beð eða einstaka garða. Það er misnotkun á hugtakinu að mati fulltrúa Flokks fólksins. Pínulítil svæði hafa ekkert með líffræðilegan fjölbreytileika að gera.

Í svarinu hins vegar er skilgreiningin sem birt er á líffræðilegum fjölbreytileika í nokkru samræmi við alþjóðlega skilning á hugtakinu sem er notað til að skilgreina margbreytileika lífríkisins bæði vistfræði- og erfðafræðilegs. Hugtakið er einmitt notað í víðu samhengi t.d. þegar talað er um líffræðilega fjölbreytni á stórum landsvæðum en ekki þegar planta á í einstök peð eða einstaka garða.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um 18 ára aldurstakmark vegna notkunar rafhlaupahjóla og akstur á götum:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að borgaryfirvöld beittu sér fyrir að 18 ára aldurstakmark sé sett til að aka um á rafmagnshlaupahjóli sem náð geta meira en 25 km hraða. Tillögunni er vísað frá með þeim rökum að aldursmörk vegna léttra rafknúinna farartækja þarf að skoða í samhengi við að aldursmörk bílprófs. Það er ábyrgðarhluti að hunsa þessa tillögu nú þegar sprenging hefur orðið í tíðni alvarlegra slysa á rafhlaupahjólum Reykjavíkurborg getur sent erindi til ríkisins og óskað eftir samvinnu um þessi mál hið snarasta enda líf í húfi.

Reykjavíkurborg verður að gera allt sitt til að draga úr slysum og beita sér fyrir að hjólin séu notuð með ábyrgum og öruggum hætti. Fram undan er hálkutíð og í hálku eru rafhlaupahjólin hættuleg. Það er ekki bara nóg að fagna þessum skemmtilega samgöngumáta heldur þarf að fræða um hvernig nota á þessi hjól “rétt” svo enginn hljóti skaða af. Reykjavíkurborg getur beitt sér fyrir því að efla vakningu meðal foreldra og fræðslu til barnanna um notkun hjólanna og um hætturnar í umferðinni. Annað vandamál er að dæmi eru um að hlaupahjól fari hraðar en leyfilegt sé, það er á 25 km hraða og eru þar með ólögleg.

Tillögunni er vísað frá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Aldursmörk vegna léttra rafknúinna farartækja þarf að skoða í samhengi við að aldursmörk bílprófs, en bílpróf veitir leyfi til aksturs talsvert þungra ökutækja frá allt að 17 ára aldri. Reykjavíkurborg hefur áður sent erindi ríkisins og beðið um breytingu á lögum til að heimila akstur léttra bifhjóla í flokki 1 á umferðarminni götum. Sú skoðun borgarinnar liggur fyrir og verður áréttuð í framtíðarvinnu við breytingar á umferðarlögum.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um kvöð um tímaramma þegar byggingaleyfi er veitt:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að veiti skipulagsyfirvöld byggingarleyfi fylgi því leyfi tímamörk sem viðkomandi hefur til að fullklára bygginguna. Útgefið leyfi þarf að leiða til þess að bygging rísi á viðkomandi lóð innan ákveðins tíma.

Um tímann má semja enda ýmislegt sem kemur til. Fram til þessa eru sum útgefin leyfi aðeins pappír um eitthvað sem kannski verður gert. Í einhverjum tilfellum eru engar sérstakar ástæður fyrir töfum nema kannski að það standi illa á hjá lóðarhafa, hann vilji jafnvel bíða og sjá hvert íbúðaverð er að þróast. Meirihlutinn segir nú vera metár í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis en það sárvantar enn húsnæði sem hefur leitt til þess að fasteignamarkaðurinn er ekki í jafnvægi. Skortur á lóðaframboði kemur í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu og hagkvæmt húsnæði verður ekki byggt á þéttingarreitum.

Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrum sinnum lagt fram fyrirspurnir um byggingarferli og tillögur um að einfalda ferlið en kvartað er yfir töfum og að flækjustig séu óþarflega mörg. Byggingarferli á nýjum íbúðum er tímafrekt við bestu aðstæður og enn tímafrekari þegar byggt er á þéttingarreitum. Verði Flokkur fólksins í næsta meirihluta borgarstjórnar mun hann vilja tryggja stöðugt framboð á lóðum og auka lóðaframboð á reitum sem ekki eru þegar byggðir.

Greinargerð

Meirihlutinn hefur ekki ljáð máls á mörgu öðru en að byggja á þéttingarreitum sem er flóknara vegna fleiri hindrana en þegar byggt er inni í miðri íbúðabyggð. Íbúðir á þéttingarreitum eru ekki eins hagkvæmar og í nýjum hverfum og henta því ekki þeim efnaminni.  Skortur er á hagkvæmum íbúðum og fjölbreyttu íbúðarhúsnæði. Þetta skýrir ma. fjölda vannýttra byggingarleyfa sem gefin hafa verið út af Reykjavíkurborg. Þetta er sérlega áberandi í Úlfarsárdal sem er 15 ára hverfi. Þessi staða er með öllu óþolandi. Það þarf land til að byggja á.
Nú eru háværar raddir um að brjóta þurfi nýtt land undir byggð.  Hópur fólks hefur gefist upp á að reyna að búa í borginni, slíkur er húsnæðisskorturinn.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, byggingarfulltrúa.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um álit umboðsmanns Alþingis um að hreyfihamlaðir megi leggja í almenn stæði á göngugötum

Fyrirspurn Flokks fólksins um viðbrögð skipulags- og samgönguráðs við áliti umboðsmanns Alþingis um að hreyfihamlaðir megi leggja í almenn stæði á göngugötum.

Hefur Reykjavík beint fyrirmælum til Bílastæðasjóðs um að breyta verklagsreglum í kjölfar álits Umboðsmanns Alþingis um að ekki væri heimilt að sekta vegna bifreiða sem lagðar eru í merkt stæði á göngugötum ef um er að ræða handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða?

Stendur til að bregðast við áliti Umboðsmanns með því að hætta að sekta fyrir slík tilvik eða verður brugðist við álitinu á annan hátt?

Greinargerð, nánar um álitið:

Í áliti umboðsmanns segir að í málinu hafi reynt á hvort framangreind afstaða Bílastæðasjóðs sé samrýmanleg lögum og þá þannig að heimilt hafi verið að sekta álitsleitanda, sem handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða, fyrir að leggja í göngu­götunni umrætt sinn. Í áliti sínu benti umboðsmaður á að í umferðarlögum væri gengið út frá því að umferð vélknúinna ökutækja um göngugötu væri bönnuð. Aftur á móti væru gerðar undantekningar frá því, þar á meðal hvað varðaði umferð handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða. Af orðalagi þeirra lagaákvæða yrði ekki annað ráðið en að heimilt væri að leggja ökutækjum, sem féllu undir framangreinda undanþágu, í göngugötu en þá skyldi þeim lagt í merkt stæði. Yrði þá að leggja til grundvallar að þar væri um að ræða öll merkt stæði við göngugötu. Þá yrði einnig að líta til þess að í umferðarlögum væru mælt fyrir um að handhafi stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða hefði annars vegar heimild til að leggja í bifreiðastæði, sem væri ætlað fyrir fatlað fólk, og hins vegar í gjaldskyld stæði, án sérstakrar greiðslu. Hvergi væri vikið að því í lögunum að annað ætti við þegar lagt væri í göngugötur.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, um hjólhýsa- og húsbíla mál:

Áhyggjur eru af orðum skipulagsfulltrúa í Reykjavík en hann segir í bréfi til íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur þar sem óskað er eftir viðræðum um mögulega staðsetningu á svæði fyrir langtímabílastæði fyrir húsbíla/hjólhýsi að „einkaaðilar á markaði gætu allt eins þjónustað þá gesti á sínu landi sem hafa nýtt sér Laugardalinn frekar en að borgin útvegi land og setji upp grunnþjónustu.“ Um málið var fjallað í fjölmiðlum.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort til standi hjá borginni að reka þennan hóp úr Laugardalnum án þess að finna varanlega staðsetningu fyrir langtímabílastæði fyrir húsbíla/hjólhýsi í borgarlandinu?

Ef á að reka þetta fólk úr Laugardal hvert á það þá að fara?

Og hvar eiga einkaaðilar að finna lóðir?

Frestað.