Borgarráð 19. október 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samningi við Móðurmál – samtök um tvítyngi og Vinasamtök pólska skólans með vísan í hjálagt minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. september 2023:

Hjálögð eru drög að samningi við Móðurmál – samtök um tvítyngi og Vinasamtök pólska skólans sem hefur það að markmiði að gera þjónustu þeirra gjaldfrjálsa. Rannsóknir hafa sýnt fram á að það sé mjög mikilvægt að börn læri móðurmál sitt og það hjálpar þeim að læra nýja málið. Nú á þjónustan að verða gjaldfrjáls. Þetta er gott skref. Foreldrar 150 barna sem ekki ná endum auðveldlega saman hafa þurft að nýta frístundakort barna sinna til að greiða íslenskukennsluna og þar með hafa börnin ekki geta notað kortið til að taka þátt í öðrum íþróttum og tómstundum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 17. október 2023, varðandi næstu skref vegna lífsgæðakjarna:

Mikilvægt er að taka næstu skref af hverfum eða svæðum sem þessum. Öll svæði eiga vissulega að vera lífsgæðasvæði/-kjarnar. Þessi hugmynd er í samræmi við tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram árið 2021 um skipulagða byggð fyrir eldra fólk víðs vegar í Reykjavík. Tillagan fékk þá engan hljómgrunn hjá meirihlutanum. Samráð og samtal við fjölmarga eldri borgara og hagsmunasamtök hefur leitt í ljós að fjölmargir vilja einmitt að íbúðasvæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þjónustu við eldra fólk og þeirra þarfir. Gera þarf jafnframt ráð fyrir dagdvöl og þjónustuíbúðum. Horfa þarf til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu og fleira. Á svæði sem þessu er í raun ekki þörf fyrir uppbyggingu leik- og grunnskóla. Einblína ætti frekar á fjölbreytt úti- og innisvæði til afþreyingar og skemmtunar. Aðkoma Félags eldri borgara yrði hér afar mikilvæg. Hugsa mætti sér ólík íbúðaform, t.d. minni sérbýli sérhönnuð fyrir þarfir eldri borgara með miðlægum þjónustukjarna. Gönguleiðir og strætisvagnaleiðir yrðu vel hugsaðar með upphituðum skýlum. Gæta yrði að öryggismálum í hvívetna. Þegar horft er til framkvæmdarinnar skiptir máli hverjir annast hana, hverjir byggja, hverjir eru verktakar og hvort þetta verður óhagnaðardrifið. Ætla einhverjir að græða á þessu sérstaklega?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki afgreiðslu velferðarráðs frá 4. október um fjölgun NPA samninga um 14 frá og með 1. nóvember 2023. Kostnaður hefur verið endurmetinn frá fyrri samþykkt velferðarráðs:

Þegar lögin um notendastýrða persónulega aðstoð voru sett grunaði engan að þau yrðu ekki fjármögnuð eins og þurfti. Þess má minnast að allir fögnuðu og glöddust að nú skyldi eiga að taka utan um fatlað fólk. Notendastýrð persónuleg aðstoð byggir á hugmyndafræði um sjálfstætt líf og að hafa val um hvernig aðstoðinni við það er háttað. En Adam var ekki lengi í Paradís. Fjármagn hefur ekki fylgt svo ekki er hægt að virkja alla samninga. Búið er að leggja til 14 nýja samninga en nú þegar hafa 44 manneskjur fengið samþykkta umsókn um NPA-þjónustu. Þannig að 30 einstaklingar þurfa að bíða lengur eftir þjónustu. Réttindi fatlaðs fólks eru ekki virt í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er siðlaust að samþykkja lög sem síðan verða aðeins orð á blaði. Vandinn er að þarfir öryrkja eru sjaldnast í forgangi hjá löggjafanum. Fólk sem fær þessu þjónustu er virkara í samfélaginu en áður. Það er biturt að öll umræða um NPA snúist um að fjármagna málaflokkinn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögu um umgjörð á geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu eða aðra sértæka þjónustu fyrir fyrrum vöggustofubörn. Áætlaður kostnaður er í fyrstu um 10 m.kr. og er lagt til að kostnaðurinn verði tekinn af liðnum ófyrirséð og falli að mestu til á árinu 2024.

Flokkur fólksins þakkar hópnum sem óskaði eftir rannsókninni, þeim Árna H. Kristjánssyni, Fjölni Geir Bragasyni, Hrafni Jökulssyni, Tómasi V. Albertssyni og Viðari Eggertssyni. Fulltrúi Flokks fólksins er þakklátur fyrir að borgarstjórn hafi sameinast um að ráðast í athugun á starfsemi vöggustofa í Reykjavík. Nú þarf að vanda vel til framhaldsins og vinna það sem mest í samráði við þá sem málinu tengjast. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að frekari athuganir verði gerðar þannig að rannsóknin nái til ársins 1979. Skoða ætti einnig fleiri úrræði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um skilgreiningu á hugtakinu hagvæmt húsnæði, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. september 2023:

Í umsögn koma fram skilgreiningar á hagkvæmu húsnæði og vistvænu húsnæði. Ætla má að skilgreiningar séu ávallt í endurskoðun og þróun frá einum tíma til annars, allavega er sjálfsagt að skoða hvort þær geti orðið betri og nákvæmari. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir að það væri gagnlegt að birta skilgreiningu samkomulagsins á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Þessi hugtök sem um ræðir eru oft notuð með frjálslegum hætti sem gerir það að verkum að gengisfelling verður jafnvel á hugtakinu og það verður merkingarlítið. Niðurstaðan er því eftirfarandi: Til hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði teljast íbúðir sem eru byggðar án hagnaðarsjónarmiða, s.s. uppbygging sem nýtur stofnframlaga, húsnæði fyrir stúdenta, tiltekna hópa eldri borgara og öryrkja. Einnig íbúðir sem byggðar eru fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur sem falla undir hlutdeildarlán. Til vistvænna og hagkvæmra íbúða teljast þær íbúðir sem ná viðmiðum um vistvæna mannvirkjagerð, s.s. með BREEAM-vottun, lágmörkun kolefnisspors og bætta orkunýtingu og/eða staðsettar eru í grennd við hágæða almenningssamgöngur eða aðra vistvæna samgönguinnviði. Til félagslegra íbúða teljast m.a. þær íbúðir sem Félagsbústaðir hafa kauprétt á samkvæmt uppbyggingarsamningum við einstaka byggingaraðila.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. október 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um sölu byggingarréttar, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. maí 2023:

Svarið sem Flokkur fólksins fær er ekki trúverðugt. Í fyrra svari var sagt að afgangi sem ekki hefur tekist að nýta væri seldur áfram til bænda sem nýta þá í fóður og að „með því er nýting aðfanga hámörkuð, og magn lífræns úrgangs lágmarkað“. Við þetta svar brá fulltrúa Flokks fólksins því það er óheimilt að senda matarafganga aftur til bænda sem fóður fyrir búfé vegna hættu á útbreiðslu sjúkdóma og hringrásar smitefnis. Í nýju svari er þetta viðurkennt en vísað í að heimilt sé að nota slík dýraprótein til að framleiða fóður fyrir loðdýr og að afgangar fari til minkabænda. Fulltrúi Flokks fólksins veit að minkar éta hvorki brauð, kökur, sósur né salöt sem búast má við að séu í leifum frá mötuneytum. Loðdýrabændur eru fáir. Í samtali við forsvarsmann þeirra kom það skýrt fram að matarleifar úr borginni koma hvergi nærri loðdýrafóðri því loðdýr eru afar viðkvæm og stífar kröfur eru gerðar til fóðurs og fóðursamsetningar fyrir minka. Niðurstaðan af þessum tveimur svörum frá þjónustu- og nýsköpunarsviði er að þau er röng og afar óheiðarlegt er að spinna upp einhverja sögu til að reyna að villa um fyrir kjörnum fulltrúum Er ekki kominn tími á heiðarleika?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 12. október 2023.

Fulltrúi Flokks fólksins veit til þess að Kjalnesingar hafa barist fyrir því lengi að koma skotvöllunum í burtu vegna neikvæðra umhverfisáhrifa. Mikil óánægja hefur ríkt með að skotíþrótt skuli vera stunduð svo nærri byggð og viðkvæmu fjörulífríki svo ekki sé minnst á neikvæð umhverfisáhrif s.s. ónæði vegna hávaða og mengun af völdum blýhagla. Skotvellir eru starfsemi sem er mengandi skv. reglugerð 550/2018 um losun frá atvinnustarfsemi og mengunarvarnaeftirlit. Reyna á að draga úr áhrifum með mótvægisaðgerðum en ekki hefur verið skilgreint hver eigi að bera kostnað af þeim. Reykjavík hefur kostað uppbyggingu á skotveiðisvæðinu. Segir í gögnum að finna þurfi efni til að binda mengun. Er verið að ýja að því að borgin greiði fyrir að leysa mengunarvandamál vegna blýhagla?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. október 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt áherslu á að snjóhreinsun í húsagötum verði stórbætt og að ekki sé rutt upp á gangstéttir, göngustíga eða fyrir innkeyrslur/innganga híbýla. Ljóst er að aukin og betri vetrarþjónusta hefur í för með sér aukinn kostnað. Búið er að kostnaðarmeta tillögur stýrihóps um vetrarþjónustu. Einn hæsti kostnaðarliðurinn, 50 milljónir, er „eftirlit með vetrarþjónustu“ sem lagt er til að verði stóreflt. Ráða á starfsmenn í eftirlit með vetrarþjónustu til að tryggja framkvæmd hennar, fylgjast með verklagi og framgangi og tryggja að hún skili fullnægjandi þjónustu. Kostnaður við þennan þátt er vissulega hár en vera kann að svo mikið eftirlit sé ekki nauðsynlegt til frambúðar. Þess er vænst að eftir ákveðinn reynslutíma á framkvæmd tillagna vetrarþjónustuhóps megi kannski draga úr eftirliti enda á ekki að þurfa að vera eitthvað sérstakt eftirlit ef hægt er að treysta þeim sem hafa þessi verk með höndum. Klárt er að þessi mál verða að vera í lagi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 11. október 2023.

Einsemd eldra fólks var rædd undir þessum lið á fundi öldungaráðs. Það er ekki ásættanlegt að mati fulltrúa Flokks fólksins að Ísland sé að koma vel út í alþjóðlegum samanburði þegar um 5% telja sig einmana. Gera má ráð fyrir að þeir séu margfalt fleiri. Kannanir ná ekki til allra. Þeir sem eru einmana eru þeir sem ekki eiga fjölskyldu, þeir sem búa einir og þeir sem eru á hjúkrunarheimili. Það er sárlega vöntun á félagsskap fyrir þá sem komnir eru á hjúkrunarheimili. Starfsfólk er undir álagi og getur ekki varið tíma í að spjalla við fólkið. Það er áfall fyrir marga að vera komnir á hjúkrunarheimili og verður enn erfiðara ef einmanaleiki sest að. Það er átakanlegt að vita að inni á hjúkrunarheimilum eru allt of margir sem eru einmana. Meirihluti starfsfólks skilur ekki mikla íslensku og tala hana jafnvel takmarkað auk þess sem það er undir miklu vinnuálagi. Flokkur fólksins lagði til í febrúar 2023 í annað sinn að stofnað verði sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi. Tillagan var felld. Ekkert jafnast á við samtal, nálægð og snertingu. Það er ekki nóg að auka eingöngu velferðartækni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið yfirlitsins:

 

Finna má í færslulista embættisafgreiðslna verklagsreglur íbúaráða. Þær hafa þann tilgang að tryggja skipulögð og samræmd vinnubrögð og jafnræði í meðferð mála íbúaráða Reykjavíkurborgar. Í þeim má finna ýmislegt um hvernig ráðsmönnum er ætlað að bera sig að og hvað þeir mega gera og ekki gera. Færri orð eru um starfsmenn ráðanna. Gera má ráð fyrir að reglurnar hafi verið endurskoðaðar eftir leiðinlega uppgötvun sem átti sér stað á fundi íbúaráðs Laugardals þegar ráðsmenn heyrðu tal starfsmanna sem þeim var ekki ætlað að heyra. Á tali starfsmanna mátti heyra að þeir voru að reyna að villa um fyrir íbúaráðinu. Fyrir vikið gátu fundarmenn ekki innt hlutverk sitt af hendi með réttum hætti.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um aðgerðir gegn veggjakroti

Nú hefur veggjakrot aukist og er til mikillar óprýði í miðbæ Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að settur verði á laggirnar starfshópur sem hefur það hlutverk að leggjast yfir þetta vandamál og koma með tillögur um hvað hægt er að gera til að sporna við veggjakroti og hvernig skuli bregðast við þessum vaxandi vanda.

Greinargerð

Ef heldur áfram sem horfir þá mun veggjakrot verða sem aldrei fyrr og hreinsun mun valda borginni  gríðarlegum kostnaði. Aldrei næst í skottið á þeim sem krota. Á meðan það eru ekki afleiðingar af eignaspjöllum sem þessum þá getur það virkað sem enn frekari hvati til að skemma meira. Í dag býður borgin upp á svokallaða fyrstu hreinsun en það úrræði dugar ekki þeim íbúum miðborgarinnar sem eru mest útsettir fyrir þessum skemmdarverkum. Enda þótt krot sé fjarlægt strax þá er því miður krotað aftur og aftur. Nú stendur vonandi til að auka  eftirlitsmyndavélar í borginni og hægt væri að setja þær upp á  útsettustu stöðunum. Ef einhverjir skemmdarvargar næðust eftir að þeir hafa verið myndaðir við iðju sína og krafðir um greiðslu fyrir  skemmdirnar má ætla að það hefði fælingarmátt.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um viðbrögð við eiturefnaárásum:

Í ljósi frétta um ofbeldi meðal barna þar sem notuð eru eiturefni óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um viðbrögð skóla- og frístundasviðs og Barnaverndar Reykjavíkur. Nú eiga flest stálpuð börn síma og hafa aðgang að internetinu. Á netinu er að finna mikinn fróðleik en einnig skaðlegt efni, þ.m.t. myndefni. Þar er ekki aðeins að finna gróft klámefni heldur einnig upplýsingar um hryðjuverk og hryðjuverkastarfsemi. Hægt er sem dæmi að finna leiðbeiningar um hvernig búa á til sprengjur og fleiri skaðleg drápstól.

Greinargerð

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt fram tillögur og hafið umræðu um að taka þurfi ofbeldi meðal barna alvarlega en fundist hann tala fyrir daufum eyrum. Ekki er lengur við það unað. Flokkur fólksins gerir þá kröfu til borgaryfirvalda að  þau beiti sér sem yfirvald og vinni  þétt með skólayfirvöldum í þessum þungu málum.

https://www.mbl.is/mogginn/bladid/innskraning/?redirect=%2Fmogginn%2Fbladid%2Fgrein%2F1846766%2F%3Ft%3D888724478&page_name=grein&grein_id=1846766

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs og Barnaverndarþjónustu Reykjavíkur.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um gjaldtöku í Vetrargarðinn:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort stefnt sé að gjaldtöku í fyrirhuguðum Vetrargarði í Jafnaseli. Borið hefur á umræðu þar sem það er jafnvel fullyrt að taka eigi gjald af þeim sem hyggjast njóta Vetrargarðsins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur miklar áhyggjur ef þetta verður raunin því gjaldtaka mun útiloka börn frá efnaminni og fátækum foreldrum. Gjaldtaka mun þannig stuðla að aðskilnaði barna í hverfinu, þ.e. þau sem geta heimsótt Vetrargarðinn og þau sem geta það ekki. Utanumhald á slíku fyrirkomulagi sem gjaldtaka er er auk þess kostnaðarsöm. MSS23100161

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um greiningu á stöðu Laugarnesskóla:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um skýrslu starfshóps um greiningu á stöðu Laugarnesskóla. Starfshópurinn átti að skila af sér 1. júní og svo hefur ekkert frést frekar. Hver er staðan á þessari skýrslu? Af hverju hefur henni seinkað? Hvenær verður hún opinber? MSS23020033

Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um upplýsingar um hvað margir búa í húsnæði sem ekki er skráð sem íbúðarhúsnæði:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað talið er að margir búi í húsnæði sem ekki er skráð sem íbúðarhúsnæði og standist því mögulega ekki öryggismat, Nýlega lést einstaklingur af sárum sínum í kjölfar bruna sem varð í atvinnuhúsnæði. Brunar í ósamþykktu húsnæði hafa færst í aukana síðustu misseri. Þessi mál hafa oft verið rædd í borgarstjórn sérstaklega eftir mannskæðan bruna á Bræðraborgarstíg. MSS23100165

Vísað til umsagnar slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.