Borgarráð 2. apríl 2020

Tillaga áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins að dagforeldrar fái fulla niðurgreiðslu ef það þarf að loka vegna sóttkvíar, af völdum þeirra, foreldra, barnanna eða annarra sem koma með og/eða sækja börnin hjá þeim:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að dagforeldrar fái fulla niðurgreiðslu ef það þarf að loka vegna sóttkvíar hvort sem er að völdum þeirra sjálfra, foreldra barnanna, barnanna eða annarra sem koma með og/eða sækja börnin hjá þeim. Við aðstæður sem þessar þarf að tryggja dagforeldrum óskert laun. Dagforeldrar starfa nú sem framlínustarfsmenn en ennþá hefur ekkert verið rætt um úrræði ef upp kemur smit á heimili barns í gæslu sem kallar á sóttkví og þ.a.l. lokun daggæslu. Dagforeldrar eru því óvissir um sína stöðu og óöruggir um starfsöryggi sitt. Dagforeldra er farið að lengja eftir að fá upplýsingar frá borgaryfirvöldum um hvernig málum skuli háttað, hvort borgin greiði ekki örugglega tekjutapið og hvernig verður með endurgreiðslur til foreldra ef dagforeldrið verður veikt og/eða verður að loka daggæslunni vegna sóttkvíar. Hver verður launatrygging dagforeldra? Margir dagforeldrar sem starfa tveir saman eru hjón. Ef fjölskylda eins barns er smitað eða grunur leikur á að sé mögulega smitað verða allir að fara í sóttkví. Það hefur eðli málsins samkvæmt áhrif á alla, dagforeldra, foreldra barnanna og börnin. R20040019

Frestað.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins að ekki verði reiknaðir dráttarvextir eða annar aukalegur innheimtukostnaður vegna greiðslufalls fasteignagjalda mars með eindaga 1. apríl.

Flokkur fólksins og Miðflokkurinn leggja til að ekki verði reiknaðir dráttarvextir eða annar aukalegur innheimtukostnaður vegna greiðslufalls fasteignagjalda mars með eindaga 1. apríl. Ljóst er að margir rekstraraðilar, sérstaklega í miðbænum, þar sem meðal annars er mikið af veitingastöðum, kaffihúsum og gististöðum, hafa orðið illa úti í því samgöngubanni og fækkun ferðamanna vegna COVID-19 veirunnar. Auk þess hefur greiðslukeðjan rofnað þar sem greiðslur til rekstraraðila hafa ekki borist frá greiðslumiðlunarfyrirtækjum. Þess vegna er því beint til borgaryfirvalda að reikna ekki dráttarvexti eða annan innheimtukostnað vegna greiðslufalls fasteigngjalda mars 2020 með eindaga 1. apríl. Nú hefur samgöngubannið verið framlengt og víst að margir munu berjast í bökkum meira en nokkru sinni. Flestir rekstraraðilar eiga i vandræðum núna. Þeir leita eftir þeim lausnum sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á í samstarfi við sinn viðskiptabanka. Úrræði Reykjavíkurborgar um að létta af rekstraraðilum fasteignagjöldum frá og með gjalddaga í apríl nýtist ekki eins vel og halda mætti því greiðslufallið er staðreynd. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn beina því til Reykjavíkurborgar að ekki verði reiknaðir dráttarvextir eða innheimtukostnaður vegna fasteignagjalda er gjaldfalla frá og með gjalddaga mars 2020 með eindaga 1. apríl 2020. R20040012

Frestað.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um öðruvísi upplegg en það sem kynnt hefur verið til að vinna úr þeim COVID-19 viðspyrnutillögum sem lagðar hafa verið fram af borgarfulltrúum/flokkum:

Tillaga Flokks fólksins um öðruvísi upplegg en það sem kynnt hefur verið til að vinna úr þeim COVID-19 viðspyrnutillögum sem lagðar hafa verið fram af borgarfulltrúum/flokkum. Borgarfulltrúi leggur til að það upplegg sem notað verður til að vinna úr tillögum verði með þeim hætti að unnið verði í smærri hópum sem dregið verði í og að dregið verður einnig hvaða tillögur hóparnir vinna með. Með þessum hætti verður hægt að tryggja aðkomu minnihlutans að málum og möguleikum þeirra að hafa eitthvað um þau að segja og yfir höfuð hafa einhver áhrif á viðspyrnuna og mótvægisaðgerðir. Markmiðið er að ná sem breiðustu sátt til að mæta þörfum fólksins í þessum aðstæðum. Hér er tækifæri til að leggja völd og allt valdabrölt til hliðar og prófa nýjar leiðir, leiðir það sem unnið er saman og aðra leið en að minnihlutinn leggi fram tillögur sínar sem flestum er síðan vísað frá eða þær felldar. Við svoleiðis aðstæður er ekki von á að borgarfulltrúar minnihlutans upplifi að þeir séu að taka alvöru þátt í vinnunni. R20040014

Frestað.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu (M) um kaup Strætó bs á metanvögnum:

Tillaga um kaup Stætó á metanvögnum er vísað frá. Hér er við hæfi að rekja tilraunir Flokks fólksins að benda á vanhugsun meirihlutans og SORPU að koma ekki metani í notkun og velja frekar að sóa því. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur, fyrirspurnir og fjölda bókana í þessu sambandi. Hinn 18. juní 2019 lagði Flokkur fólksins til að SORPA hætti brennslu á metani og það yrði nýtt sem eldsneyti á metanvagna Strætó bs. Viðbrögð meirihlutans voru að „stjórn Strætó meti hvaða leiðir eru hagkvæmastar til að nýta vistvæna orkugjafa”. Í júlí 2019 lagði Flokkur fólksins fram fyrirspurn um hvort Strætó hyggðist skoða metan sem orkugjafa í vagnanna. Í svari segir að „til stæði að fá ráðgjafa til að greina mismunandi orkugjafa”. Í september 2019 lagði Flokkur fólkisns fram fyrirspurn um hvað eigi að gera við metan þegar offramboð verði með nýrri stöð í Álfsnesi. Í svari segir „að SORPA hafi innt sveitarfélögin eftir áætlunum um nýtingu á metani.” Á fundi 3. mars lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að selja ætti metan á kostnaðarverði. Í bókun meirihlutans var sagt að „tillagan væri vanhugsuð og myndi setja samkeppni í uppnám”. Hinn 12. mars var lögð fram fyrirspurn um hvort ekki eigi að kaupa fleiri metanvagna til að nýta allt það metan sem Sorpa framleiðir.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu (M) um að Laugavegur og Skólavörðustígur verði opnaðir að nýju fyrir umferð:

Í ljósi þess ástands sem þjóðin er nú að fara í gegnum er allt breytt þ.m.t. aðstæður á Laugavegi og Skólavörðustíg. Spurning er hvernig þróunin verður og má ætla að langt verði þar til sjá má til lands hvað verður um þessar gömlu, grónu götur. Það sem lifir nú helst í hugum fólks er hversu harkalega var gengið gegn óskum og vilja rekstraraðila sem þrábáðu um að haft yrði samráð við sig. Það var hunsað. Staðreyndin er sú að við lokun þessara gatna fyrir umferð allt árið um kring hrundi verslun hjá stórum hluta verslunareiganda. Aðeins þær sem höfða til ferðamanna lifðu. Nú eru ekki ferðamenn lengur og verða sennilega ekki meira þetta árið. Umræðan um lokun gatna hefur því tekið á sig aðra mynd enda hvorki gangandi né akandi fólk lengur á ferð, alla vega ekki um sinn. Hreyfihamlaðir hafa einnig látið í sér heyra. Þeim hefur ekki bara fundist erfitt að komast að búðarhurð heldur að komast í bæinn og finna sér stæði nálægt þeim stað sem þeir eiga erindi. Kolaportið var einn þeirra staða sem barðist orðið í bökkum, markaður sem áður var fullur af fólki og lífi. Með því að þverkallast með þessu hætti við að hlusta á borgarbúa var staðan orðin slæma áður en veiruváin skall á.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að fundargerðir verði birtar eigi síðar en sólarhring eftir að fundi er slitið:

Flokkur fólksins lagði til að fundargerðir nefnda og ráða borgarinnar verði komnar á vefi borgarinnar eigi síðar en sólarhring eftir að fundi er slitið. Það er mikilvægt að koma fundargerð í hendur borgarfulltrúa sem fyrst eftir fund hvernig svo sem það verði gert og fyrir borgarbúa er sjálfsagður réttur þeirra að geta lesið fundargerðir á vef borgarinnar sem fyrst eftir að fundi lýkur. Tillagan er lögð fram að gefnu tilefni þar sem borgarfulltrúi hefur a.m.k. í tvígang kallað eftir fundargerð tæpri viku eftir fund. Tölfræðin sem birt er í svari segir að langflestar fundargerðir séu birtar samdægurs eða næsta dag eftir að fundargerð berst skrifstofunni. En hvenær berast þá fundargerðir skrifstofunni? Sú tölfræði er ekki birt i svari. Það er alveg ljóst að tafir hafa verið í að senda fundargerðir til skrifstofunnar. Borgarfulltrúi skal ekki taka óþarfa tíma starfsmanna í að safna saman þeirri tölfræði. Staðreyndin er sú að það hefur verið einhver losaragangur á þessu t.d. hjá mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Verði tafir á að senda út fundargerð af einhverjum orsökum væri gott að fá að vita það. Sé ekki hægt að fullklára fundargerðina væri líka í lagi að fá send drög í netpósti

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu íþrótta- og tómstundasviðs um að gera samning við Farfugla vegna langtímastæðisins í Laugardal:

Nú hefur fulltrúi Flokks fólksins ekki fengið upplýsingar lengi um hvernig þetta hefur gengið í Laugardalnum með stæði fyrir húsbíla og hvernig fólkinu þar líður. En fram kemur að þetta hafi gengið vel. Nú er lagt til að haldið verður áfram með sama fyrirkomulag. Þetta er skammtímalausn. Best væri að finna aðstöðu fyrir húsbíla í langtímastæði sem fyrst og hefur verið bent á ýmsa staði í borginni. Þetta þarf að vinnast vel með þessum hópi og í breiðri og góðri sátt. Vissulega kostar meira að setja upp nýtt svæði. Í því ástandi sem nú ríkir er ekki að vænta að Laugardalurinn verður mikið nýttur enda engir ferðamenn. Í því ljósi er e.t.v. ekki skynsamlegt að byrja á að byggja eitthvað nýtt.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra um tímabundna breytingu á innheimtureglum Reykjavíkurborgar vegna C-19:

Flokkur fólksins þakkar kynningu fjármálastjóra og vill bæta við mikilvægi þess að komið verði á móts við alla, heimilin og fyrirtæki. Flokkur fólksins sér fyrir sér að bæði þurfi almennar- og sértækar reglur/aðgerðir. Þróun mála er ekki ljós á öllum sviðum, rennt er blint í sjóinn með sumt. Borgarfulltrúi telur að sumar tilslakanir megi vera afturvirkar um mánuð enda er Covid ekki að byrja núna. Sértækar reglur eru í gildi inn á sviðum. Það er ásættanlegt. Flokkur fólksins fagnar því að innheimta eigi ekki gjöld fyrir skóla- eða frístundavist eða nokkuð annað sem börn hafa ekki getað mætt í að fullu vegna komu Covdi-19. Þetta var ein af Covid-tillögum Flokks fólksins. Að öðru leyti hljóma breytingarnar vel sem fjármálaskrifstofan hefur kynnt. Þegar litið er til borgarstjórnar leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins áherslu á að allir fái að vera með í þeirri vinnu sem framundan er og þegar rætt er við sviðin þá sé rætt líka við fulltrúa minnihlutans. Markmið borgarstjórnar ætti ávallt að vera að ná sem breiðustu sátt til að mæta þörfum fólksins í þessum sem öðrum aðstæðum. Allir borgarfulltrúar eiga að fá að vera með enda erum við öll saman í þessu og kosin til að sinna þessu hlutverki sem og öðru í þágu borgarbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs vegna samþykktar skipulags- og samgönguráðs á umsókn um breytingu á deiliskipulagi Esjumela vegna lóða 6-8 við Koprarsléttu:

Við lestur á athugasemdum húsfélagsins telur fulltrúi Flokks fólksins að hér sé um að ræða réttmæta gagnrýni íbúanna. Um er að ræða að nýta Koparsléttu 6-8, Reykjavík, undir malbikunarstöð. Húsfélagið Koparslétta 10 er hins vegar ekki skilgreint sem atvinnuhúsnæði en eigendur að húsnæðinu eru fjölskyldufólk sem notar eignina sem geymslu fyrir húsbifreiðar, fellihýsi og sambærilegt, bifreiðar og fleiri muni. Hér er um málefnalega gagnrýni að ræða sem hlusta þarf á. Íbúum þykja mótvægisaðgerðir ófullnægjandi og illa skilgreindar. Hér telur Flokks fólksins mikilvægt að staldra við og hlusta á íbúanna. Flokkur fólksins hefur oft tjáð sig í bókunum um að viðleitni Reykjavíkurborgar til að veita hagsmunaaðilum andmælarétt sé stundum meira í orði en á borði.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs á umsókn um breytingu á deiliskipulagi reits á Frakkastíg vegna lóða við Laugaveg og Vatnsstíg:

Hér er um stóra aðgerð að ræða, breyting á deiliskipulagi reits 1.172.1, Frakkastígsreits, vegna nokkra lóða við Laugaveg og 4 við Vatnsstíg. Mikil röskun myndi fylgja þessari aðgerð. Spurningin er hvort íbúðir standi undir þessu, þetta eru jú bara venjulegar gistiíbúðir. Í ljósi COVID-19 má einnig spyrja hvort fólk vilji fara út í að byggja íbúðahótel. Staðan er viðkvæm og ekki ætti að veita framkvæmdarleyfi fyrr en ljóst er að framkvæmdin er fjármögnuð að fullu. Flokkur fólksins hefur lengi haft áhyggjur af miðbænum eins og hann stefndi í áður en COVID-19 skall á. Eftir COVID-19 er ekki gott að sjá hver þróunin verður, hvernig verslun sem dæmi eigi eftir að þróast. Tugir verslunareigenda höfðu þá þegar flúið miðbæinn áður en faraldurinn skall á. Íbúasamtök miðborgarinnar vara jafnframt við fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi svæðisins. Stefna borgarinnar er aukið íbúalýðræði og því hvetur Flokkur fólksins skipulagsyfirvöld til að vanda sig í samskiptum við fólk og minnir á að í meirihlutasáttmála stendur að vinna á með fólkinu í borginni en ekki á móti því.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu synjunar skipulags- og samgönguráðs á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts 1 um flutning grenndargáma:

Fram kemur í gögnum málsins að í ljósi athugasemda sem komu fram við auglýstri tillögu þá sé lagt til að skipulagstillagan um færslu á núverandi grenndarstöð verði felld niður. Þessu ber sannarlega að fagna enda var hugmyndin slök og olli fólki í hverfinu miklu uppnámi, svo miklu að 60 manns skrifuðu undir í mótmælaskyni. Kannski hjálpaði umsögn íbúaráðsins til hér en þar kemur fram að tillagan hafi verið illa unnin og í henni hafi verið rangar upplýsingar varðandi staðhætti og þær breytingar á deiliskipulagi sem voru fyrirhugaðar.

 

Bókun Flokks fólksins undir framlagningu kjarasamninga, Eflíngar, Rafiðnaðarsambandsins, Sambands stjórnendafélaga og Sameykis Stéttarfélags til samþykktar:

Kjarasamningar Reykjavíkurborgar og Eflingar stéttarfélags sem og fleiri samningar eru hér lagðir fram til afgreiðslu. Eftir langan og strembinn leiðangur tókst að landa samningum. Mest um vert var að lægstlaunaði hópurinn og Efling stéttarfélag sem og hin stéttarfélögin voru sátt með samningana. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að þetta samningsferli hafi verið lengra en það þurfti að vera. Ekkert ferli sem þetta er svo sem auðvelt, en þarna var gengið óþarflega langt í að halda að sér höndum svo stundum virtist jaðra við stífni og ósveigjanleika af hálfu borgarinnar. Borgin var einfaldlega lengst af ekki að bjóða nógu vel. Um þetta hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins tjáð sig áður. Áhrif verkfallsins voru víðtæk og þeir sem fundu mest fyrir þeim voru án efa leikskólabörn og foreldrar en einnig margir fleiri. Árangri má fyrst og fremst þakka þrautseigu og heiðarleika stéttarfélagana eins og Eflingarfólks, sem aldrei kvikuðu frá sannfæringu sinni um að kröfur þeirra voru réttmætar og eðlilegar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Embættisafgreiðslur liður 10 og 11:

Hér er verið að vísa tveimur COVID-19 viðspyrnutillögum áfram til afgreiðslu. Nú reynir á að Félagsbústaðir geri það eina rétta sem er að fella niður leigu í t.d. 3 mánuði og frysta skuldir fólks. Það síðasta sem fólk þarf nú á að halda eru fjárhagsáhyggjur og leigjendur hjá Félagsbústöðum eru afar viðkvæmur hópur. Nú senda Félagsbústaðir allar skuldir í innheimtu hjá lögfræðingum. Flokkur fólksins hefur áður lagt til að Félagsbústaðir falli frá þessu og gefi fólki aftur tækifæri til að semja um skuldir sína á skrifstofunni. Sú ákvörðun að beina öllum ógreiddum leigugjöldum til innheimtufyrirtækis var vond og sársaukafull fyrir marga. Vitað er að þegar skuld er komin í innheimtu hjá lögfræðingum þá leggjast innheimtugjöld ofan á skuldina. Nú ríkir erfitt ástand hjá mörgum vegna COVID-19 og sýnt þykir að einhverjir missa vinnu sína eða mæta öðrum erfiðleikum sem veiruváin veldur fólki og samfélaginu. Margir leigjendur eru öryrkjar. Síðustu vikur hafa reynt á og það myndi hjálpa mikið að fella niður leigu í 2-3 mánuði. Mikilvægt er að fyrirtæki eins og Félagsbústaðir sýni sveigjanleika, lipurð og mannlegheit og umfram allt taki mið af þessum erfiðu aðstæðum sem nú ríkja.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð Sorpu frá 23. mars, undir lið 1:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þetta eigi að kallast fundargerðir og hvort enginn í stjórn hafi skoðanir á málum sem rædd eru á stjórnarfundum? Það vantar efni í fundargerðirnar annað en upptalningu á málum. Stjórnarmenn eru á launum og þess er vænst að þeir vinni fyrir launum sínum. Í lið 1 í fundargerð 23. mars er sagt frá því að Þröstur Guðmundsson hafi gefið álit sitt á stöðu verkefna í Álfsnesi og á móttökustöð. Hvert var sem dæmi álit Þrastar? Einnig kemur fram að farið er yfir tilllögur stjórnenda SORPU til hagræðingar og málið sé rætt. Borgarfulltrúi spyr hvaða tillögur eru það? Til hvers er að leggja fram fundargerðir þegar ekkert efnislegt kemur fram í þeim er spurning borgarfulltrúa Flokks fólksins?

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skóla- og frístundaráðs, undir lið 2:

Flokkur fólksins leggur áherslu á að auka þjónustu leikskólanna þannig að foreldrar hafi fullt val þegar kemur að leikskólavist barna þeirra á sumrin. Nú verða aðeins 6 leikskólar opnir í ákveðnar vikur í sumar á meðan allir aðrir loka. Einhver börn þurfa að færast á milli leikskóla. Sum börn eru viðkvæm fyrir slíku raski. Sumarlokanir leikskóla eru að verða barn síns tíma. Að loka leikskólum í ákveðnar vikur á sumrin samræmist ekki því þjónustustigi sem væntingar standa til í dag. Lokanir sem þessar koma illa við sumar fjölskyldur og kannski helst einstæða foreldra sem ekki allir fá frí frá vinnu sinni á sama tíma og leikskóli barns lokar. Það sumar sem nú gengur í garð verður án efa óvenjulegt vegna aðstæðna COVID-19 og einnig vegna nýafstaðinna verkfalla. Mikilvægt er að taka sérstaklega mið af ólíkum þörfum íbúa borgarinnar á komandi sumri. Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði grundvallarbreytingar á þessu fyrirkomulagi fyrir sumarið 2020. Þá ætti markmiðið að vera að bjóða fjölskyldum borgarinnar upp á fulla þjónustu og sveigjanleika og að foreldrar hafi þá val um hvenær þeir taka sumarleyfi með börnum sínum. Samhliða verður mannekluvandi leikskólanna vissulega að vera leystur.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 1. apríl, undir lið 37:

Fulltrúi Flokks fólksins í skipulags- og samgönguráði óskaði eftir á fundi ráðsins 1. apríl að fyrirspurnir sem höfðu verið lagðar fram í framhaldi af bókun meirihlutans í borgarstjórn þann 3. mars við tillögu Flokks fólksins um að selja metan á kostnaðarverði yrðu dregnar til baka. Við því var ekki orðið. Ástæða beiðninnar er að á fundi ráðsins 11. mars breytti meirihlutinn í skipulags- og samgönguráði orðalagi þeirra í inngangi í trássi við fulltrúa Flokks fólksins þannig að efni fyrirspurnanna slitnaði úr samhengi. Hér hefur gróflega verið brotið á minnihlutafulltrúa í skipulags- og samgönguráði. Flokkur fólksins líður ekki vinnubrögð sem þessi eða framkomu gagnvart áheyrnarfulltrúa og telur að það stríði gegn samþykktum að fikta í eða breyta framlögðum málum án samþykkis þess sem leggur þau fram. Hér er freklega gengið fram með aðgerðum sem eru til þess fallnar að skerða tjáningarfrelsi minnihlutafulltrúa. Borgarfulltrúi Flokks fólksins í borgarráði sá þann eina kost að leggja fyrirspurnirnar aftur fram ásamt inngangi þeirra í borgarráði 12. mars og hefur þeim þannig verið vísað til stjórnar SORPU.

 

Gagnbókun meirihlutans:
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Framsetning þessara fyrirspurna í fundargerð skipulags- og samgönguráðs var í fullu samráði við áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins i ráðinu. Áheyrnarfulltrúinn lagði hvorki fram athugasemdir né bókun vegna málsins né er nokkuð að finna í fundargerðinni sem rennir stoðum undir fullyrðingar um skerðingu tjáningarfrelsis.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs, undir 3. lið fundargerðarinnar:

Tillagan fjallaði um að gerðar yrðu viðeigandi breytingar á fyrirhuguðu deiliskipulagi við Laugaveg og nærliggjandi götur til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks þegar kemur að aðgengi. Tillögunni var vísað frá og ekki sögð vera á verksviði mannréttindaráðs. Enda þótt breyting á deiliskipulagi er ekki á verksviði mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs er það engin afsökun fyrir ráðið að líta fram hjá mögulegum mannréttindabrotum sem kunna að koma upp við gerð skipulags. Með því að hunsa þetta er sjálft mannréttindaráð ekki að axla ábyrgð. Öryrkjar og eldri borgarar hafa upp til hópa tjáð sig um erfitt aðgengi og þær hindranir sem þau mæta þegar kemur að miðborginni. Auka þarf möguleika bæði hreyfihamlaðra og eldri borgara á að njóta umræddra gatna og gera þeim kleift að sækja sér þá þjónustu sem þar er í boði án vandkvæða þegar lífið kemst í sinn vanagang eftir COVID-19. Ekkert bolar á að meirihlutinn virði ákvæði nýrra umferðarlaga sem tekið hafa gildi. Í þeim kveður á um að ökumenn P-merktra bíla geti ekið göngugötur og lagt á þeim. Til þess þarf að fjarlægja hindranir sem loka göngugötum fyrir umferð. Með áætlun meirihlutans að loka fyrir umferð ökutækja um Laugaveg, Skólavörðustíg og Vegamótastíg er verið að brjóta á réttindum fatlaðra.