Borgarráð 2. júlí 2020

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna byggðar í Skerjafirði:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af mengun í jörð og hávaðamengun af flugvelli fyrir komandi íbúa í Skerjafirði. Mengun er í jörðu og hávaðamengun af flugvélum. Hvorutveggja er raunveruleiki þótt reynt verði að milda áhrifin. Flytja þarf uppgrafinn mengandi jarðveg í burtu en engin getur svarað hvernig á að gera það. Ekki er vitað hvort flugvöllurinn verði í 15 eða 50 ár enda engin niðurstaða komin í Hvassahraunið sem verðandi flugvallarsvæði. Lýsing á hverfunum gefur einnig til kynna að þetta hverfi er ætlað afmörkuðum hópi, þeim sem eiga ekki heimilisbíl þar sem engin bílastæði eru við hús heldur er aðeins einn stór sameiginlegur bílakjallara. Talað er um blandaða byggð, „coliving“ sem er einhvers konar sambýli margra. Ekki hefur þó verið minnst á íbúðir fyrir fatlaða, smáhýsi fyrir heimilislausa, hjúkrunarrými eða heilsugæslu. Áhyggjur eru af einangrun en spáð er að bílum fari fjölgandi úr 2000 bíla í 7000 samkv. gögnum. Um er að ræða 1300 íbúðir. Það munu ekki allir starfa nærri heimili sínu enda á að draga úr byggingarheimildum iðnaðarhúsnæðis. Umferð um Hringbraut er löngu sprungin og ekki má aka Fossvogsbrúna. Flokkur fólksins er einnig alfarið andvígur því að landfyllingar séu gerðar í þeim tilgangi að búa til land fyrir nýbyggingar.

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna sértækra búsetuúrræða og landnotkun:

Markmiðið er að auka möguleika á að setja niður t.d. smáhýsi fyrir heimilislausa og er í því samhengi jákvæð breyting. Breytingin snýst um að rýmka það svæði sem hægt er að setja upp skammtímahúsnæð. svo sem: verslunar- og þjónustusvæða, miðsvæða, athafnasvæða, hafnarsvæða, iðnaðarsvæða, opinna svæða og landbúnaðarsvæða enda byggingar einkum staðsettar innan þegar skilgreinds byggingarreits eða lóðar samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagi og í samráði við lóðarhafa eða landeiganda. Þessi breyting ætti að skýra betur heimildir um mögulega staðsetningu þessara húsnæðislausna innan mismunandi landnotkunarsvæða aðalskipulagsins. Nægur sveigjanleiki þarf að vera til að hægt sé að koma fyrir fjölbreyttum húsnæðisúrræðum eftir því sem þörf krefur hverju sinni.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna stefnu um íbúðabyggð í Breiðholti:

Við stækkun kjarnans í Arnarbakka þarf að huga að samgöngum við kjarnann. Núverandi bílvegur liggur framhjá skóla og er þröngur. Í núverandi standi ber hann ekki mikla umferð. Skýra þarf því hvernig almenningssamgöngur, bíla og hjólaumferð tengist áformunum. Núverandi staða hjólastíga gefur færi á að auka virkni þeirra t.d. með því að lagfæra legu að hluta og fjarlægja óþarfa hindranir svo sem tröppur og þröngar 90 gráðu beygjur. Svipað gildir um hina kjarnana í Breiðholtinu og að frekari uppbygging þeirra kallar á þægilegar vistvænar samgöngur. Stígarnir í Breiðholti henta eins og er miklu frekar gangandi umferð en umferð á hjólum. Venjuleg hjól, rafknúin hjól, hlaupahjól og sambærilegt önnur rafknúin tæki eru og munu vera hluti af samgöngukerfi borgarinnar. Þess vegna þarf að bæta núverandi göngustígakerfi með tilliti til þess

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46:

Skipulagsyfirvöld leggja fram nýja tillögu að skipulagslýsingu fyrir Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga. Einnig er lögð fram umsókn THG Arkitekta um nýtt deiliskipulag fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhagi 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Í tillögunni elst m.a. niðurrif og uppbygging á loð nr. 18-20 við Dunhaga. Andmæli við fyrirhugaðar breytingar hafa verið miklar og djúpstæðar og kemur fram að andmælendur hafa tvívegis unnið mál fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála. Auglýsing að skipulagslýsingu var ekki send hagsmunaaðilum á skipulagsreitnum. Eftir því sem skipulagsyfirvöld segja nú hafa eigendur fengið frest og umbeðinn aukafrest til að skila athugasemdum. Komi frekari ábendingar og athugasemdir eftir auglýsingu er það von fulltrúa Flokks fólksins að tekið verði vel í þær og þeim mætt eins og framast er unnt.

 

Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. synjun skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 20 við Bólstaðarhlíð:

Hér er lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 20 við Bólstaðarhlíð, Ísaksskóla, vegna battavallar. Svona völlur er sannarlega mikilvægur og börnum til gleði en hann má ekki vera þar sem hann veldur öðrum ólíðandi ama og truflar heimilislíf eins og lýst er í þessu máli. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að hlusta á á raddir fólks í þessu máli og ganga í það að lagfæra og minnka umfang battavallarins eða finna aðrar lausnir sem eru ásættanlegri fyrir alla aðila, fullorðna sem börnin.  Framkvæmdin var gerð í óleyfi eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilst þar sem ekki lá fyrir heimild frá skipulagsyfirvöldum. Völlurinn er á vegum skólans en ábyrgðin engu að síður nokkuð óljós.

 

Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar:

Skipulagsyfirvöld hafa samþykkt breytingu á deiliskipulagsmörkum flugvallarins í Vatnsmýri. Færa á flugvallargirðingu til austurs til móts við Nauthólsvík vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú. Reisa á 1300 íbúðir á svæði sem er í raun frekar klesst upp að flugvellinum. Fylla á fjörur fyrir skólabyggingar. Sagt er að þetta sé óveruleg tilfærsla á flugvallargirðingu en tillagan ber með sér að nota þarf hvern blett/rými á svæðinu til að koma þessu öllu fyrir. Þrengt er að flugvellinum sem mögulega verður þarna í 15 ár eða 50 ár. Framtíð þessa svæðis er með öllu óljós en ljóst er að skipulagsyfirvöldum liggur mikið á að byggja þarna þrátt fyrir að ekki er fyrirséð hvernig mæta á umferðaraukningu.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á breytingu á deiliskipulagi fyrir athafnasvæði við Esjumela á Kjalarnesi:

Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu um breytingar, Kjalarnes, Esjumelar, breyting á deiliskipulagi. Í breytingunum felst m.a. að skipulögð er um 5 hektara lóð fyrir Malbikunarstöð Höfða þar sem fyrirtækið hyggst flytja starfsemi sína á Esjumela. Það er mat Flokks fólksins að þær athugasemdir sem borist hafa séu réttmætar enda varða þær allar neikvæð umhverfis- og sjónræn áhrif sem breytingin hefur í för með sér og sem munu skerða gæði útivistar fyrir nærliggjandi svæði. Hér er verið að búa til stóra lóð undir malbikunarstöð, sem óhjákvæmilega mun hafa áhrif á umhverfið. Flokkur fólksins hefur oft tjáð sig í bókunum um hvort viðleitni Reykjavíkurborgar til að veita hagsmunaaðilum andmælarétt sé heil og sönn. Það er afar mikilvægt að hlustað verði á þá sem hafa sent inn athugasemdir og lýst yfir áhyggjum sínum.

 

Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir nýja Skerjafjörð:

Áhyggjuefnin eru mörg varðandi uppbyggingu Skerjafjarðar eins og því er stillt upp. Mengun er í jörðu og hávaðamengun af flugvélum. Aðeins ein af merktum jarðvegsholum er skráð „í lagi“, 16 falla undir „slæmt og mjög slæmt“ af 96 alls. Flokkur fólksins er alfarið andvígur því að landfyllingar séu gerðar í þeim tilgangi að búa til land fyrir nýbyggingar. Þrátt fyrir minnkun á landfyllingu verður engu að síður um að ræða óafturkræfanlegar skemmdir á náttúrulegri fjöru. Fram kemur að ströndin sé röskuð hvort eð er en óþarfi er kannski að raska henni enn meira? Náttúrulegar fjörur í Reykjavík eru takmörkuð auðlind og eru mikilvægar fyrir lífríki svæðisins. Engin þörf yrði á landfyllingum í Skerjafirði ef byrjað er að byggja eftir að flugvöllurinn fer. Fari hann þá er hægt að skipuleggja byggðakjarna án landfyllinga. Því miður kom það ekki til greina hjá skipulagsyfirvöldum að fresta uppbyggingu þarna. Bílafjöldi um vestasta hluta Einarsness fer úr 2 þúsund á sólarhring í 7 þúsund samkvæmt spá. Íbúar á bíl sem starfa langt frá heimili þurfa að komast í og úr hverfinu. Hvernig leysa á umferðarmál er óljóst. Horfa þarf til samfellu í borgarlandinu og að flæði verði í samgöngum þar sem liðkað er fyrir öllum tegundum af ferðamáta.

 

Bókun Flokks fólksins við framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum vegna júlí, ágúst og september 2020 vegna COVID-19:

Hér leggur borgarstjóri til að borgarráð samþykki framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessu að sjálfsögðu. Fram kemur að nokkrir leigutaka hafa nýtt sér þetta ákvæði og er lagt til að heimilt verði að bæta við frestun greiðslna vegna júlí, ágúst og september 2020 til viðbótar.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu borgarstjóra, dags. 30. júní 2020, varðandi fjárhagsramma fyrir svið borgarinnar vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar 2021:

Fulltrúa Flokks fólksins þykir miður að sjá að skera á niður á velferðar- og skóla- og frístundasviði. Hér er verið að skera beina þjónustu til okkar viðkvæmustu hópa. Skorið er niður í velferðarmálum um 112 m.kr. og skóla og frístundarráði 86.371. Þess utan er þessum sviðum gert að hagræða um 0.5%. Á þessum sviðum ætti ekki að vera nein krafa um hagræðingu eins og nú árar. Nú er aldeilis ekki tíminn til að skera niður á þessum sviðum. Hér má sjá enn og aftur að fólkið er ekki í forgangi í þessari borg. Nær væri að auka í frekar en að draga úr því nú kemur kúfur af erfiðum málum. Það mun bæta verulega í biðlista barna eftir þjónustu bæði til fagaðila skólanna og einnig til Þroska- og hegðunarstöðar. Tilvísanir til skólasálfræðinga munu taka kipp í haust enda var snörp fækkun vegna röskunar á skólastarfi. Reiknað er með neikvæðum rekstri borgarinnar. Engu að síður er farið nú í ýmsar framkvæmdir sem vel geta beðið eins og endurgerð húsa og torga á meðan biðlistar barna eftir þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga og fleiri lengjast enn frekar og voru þeir nú langir fyrir.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs SORPU bs., dags. 25. júní 2020, vegna tillagna stjórnar byggðasamlagsins um fjármál SORPU bs., ásamt fylgiskjölum. Einnig lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. júní 2020, um tillögu SORPU bs. um greiðslur stofnframlaga frá eigendum:

Endurskoða á fjárfestingaráætlunina. Nú á að finna leiðir til að redda SORPU úr þeim ógöngum sem fyrirtækið hefur verið sett í. Í erindi SORPU til borgarráðs, er þess farið á leit að eigendur félagsins samþykki að greiða SORPU bs. stofnframlög að fjárhæð 1.000 m.kr. til að takast á við vanda vegna ófjármagnaðra fjárfestinga félagsins. Fjárfestingarnar sem um ræðir eru gas- og jarðgerðarstöðin (GAJA) og kostnaður vegna tækjabúnaðar í móttöku- og flokkunarstöð (MTFS) í Gufunesi. Heildarfjárfesting þessara verkefna er alls 6.145 m.kr. Kostnaður vegna verkefnanna hefur farið mikið fram úr áætlunum eins og segir í erindinu. Fjármálastaða SORPU er áfall fyrir alla borgarbúa enda mun framúrkeyrsla koma með einum eða örðum hætti við pyngju þeirra sem stærsta eiganda SORPU. Einhvers staðar koma peningarnir frá hvort sem það kallast stofnframlög eða lán. Gjaldskrárhækkanir eru handan við hornið. Með GAJU mun urðunarmál auðvitað breytast ef vel tekst til, þá mun henni að mestu hætt. En allt er enn óljóst með afurðir GAJA, metan og moltuna, nema metanið vill SOPRA áfram brenna og moltan verður gefin þ.e. ef einhver vill þiggja hana. Hvað verður um moltuna er háð gæðum hennar en SORPA hefur ekki sýnt heimaflokkun áhuga til að tryggja góð gæði hennar.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs menningar- og ferðamálasviðs um að gengið verði frá samstarfssamningi Reykjavíkurborgar og Bíó Paradís:

Spurt er hvort ekki sé rétt að hinkra með þennan samstarfssamning um sinn t.d. fram á haust þar sem sú staða er nú uppi að fólk getur ekki komið saman í stórum hópum vegna áhyggna að því að smitast af COVID-19. Fulltrúi Flokks fólksins vill þó árétta að Bíó Paradís er gríðarmikilvægt í lista- og menningarflóru borgarinnar og landsins alls. Nú er staðan þannig að borgarmeirihlutinn er að skera niður til velferðarmála og skólamála á sama tíma og mikil fjölgun er t.d. af tilvísunum barna og unglinga til fagfólks borgarinnar en fyrir eru langir biðlistar. Þegar líða tekur á árið liggur betur fyrir hvernig mál munu þróast og þá ætti borgin að koma sterkt inn með stuðning við Bíó Paradís. Standa þarf vörð um Bíó Paradís og sjá til þess að það standi styrkum fótum til langrar framtíðar. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ættu einnig að veita styrk til starfseminnar, enda sækja Bíó Paradís ungir sem aldnir íbúar þeirra.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra að auka fjármagn í menningarpott Reykjavíkurborgar vegna ársins 2020 um 30 m.kr.:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir mikilvægi þess að styðja við listamenn. Hins vegar verður að gera ráð fyrir skertu menningarlífi í ár vegna bakslags COVID smita. Horfast verður í augu við að það er margt breytt eftir veiruvágestinn og geta borgaryfirvöld ekki verið að hvetja til að fólk mæti á viðburði, heimsæki staði þar sem margir koma saman sér í lagi ef viðeigandi ráðstafanir, s.s. hólfun, hafa ekki verið gerðar. Horft er til miðborgarinnar í þessu aðgerðarplani en fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að það eru fleiri hverfi í borginni en miðbærinn eða kjarni miðborgarinnar. Það blasir við að meirihlutinn er afar stressaður yfir miðbænum og hversu mjög hann hefur dalað af ástæðum sem ekki eru raktar hér. Ofuráhersla er nú lögð í að redda málum í miðbænum, redda því að ekki hefur verið haft viðunandi samráð sem leitt hefur til stórtæks flótta verslana og fyrirtækja af svæðinu. Það er sannarlega vonast til að þrátt fyrir allt sem gengið hefur á muni bærinn einn góðan veðurdag skarta fólki.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf Arnarskóla, dags. 1. apríl 2020, varðandi beiðni um endurupptöku á ákvörðun borgarráðs frá 26. mars 2020 á tillögu um reykvíska nemendur í Arnarskóla:

Viðurkennt er af skóla- og frístundaráði að hnökrar voru á ferlinu og hefur synjun umsókna þriggja barna verið dregin til baka. Þessu ber að fagna. Nú skiptir hið svokallaða „ytra mat“ ekki eins miklu máli enda var það fyrirsláttur að mati fulltrúa Flokks fólksins. Í Arnarskóla fer fram ljómandi gott starf en vissulega er nauðsynlegt að gera faglegt mat. Þótt seinkun sé á því er engin ástæða til að loka fyrir umsóknir í Arnarskóla séu laus pláss í skólanum á annað borð. Að loka á umsókn barna í Arnarskóla var mikil ósanngirni þar sem Reykjavíkurborg getur ekki boðið börnum upp á sambærilegt úrræði. Hugsa þarf um hagsmuni barnanna fyrst og fremst og hafa það ávallt að leiðarljósi. Á meðan borgin leysir ekki vandann heildstætt og býður upp á sambærilegt úrræði skiptir máli að loka ekki fyrir umsóknir fyrir þau börn sem notið gætu góðs af úrræðinu. Klettaskóli er vissulega til staðar en hann er eftir því sem best er vitað oftast yfirfullur. Auk þess er hann heldur ekki alveg sambærilegt úrræði og Arnarskóli en sá síðarnefndi býður upp á heildstæða, samfellda þjónustu.

 

Bókun Flokks fólksins við breytingu á gjaldskrá velferðarsviðs um akstursþjónustu fatlaðs fólks, ásamt fylgiskjölum:

Í nýju gjaldskránni verður gerður greinarmunur á föstum ferðum og tilfallandi ferðum. Rukkað verður hálft strætógjald fyrir fastar ferðir, líkt og nú er gert fyrir allar ferðir, og síðan fullt gjald fyrir tilfallandi ferðir. Þetta er að mörgu leyti gjaldaukning fyrir notendur. Hér er verið að ýta á að fólk panti sér ferðir með fyrirvara enda sé það hagstæðara. Það væri ásættanlegra ef hægt væri að panta ferðir fyrirvaralaust, en það er ekki hægt enn. Áfram er miðað við a.m.k. 2 klst. fyrirvara. Þjónustan er því ekki sambærileg við strætó að þessu leyti, sem hún þó á að vera. Fulltrúa Flokks fólksins finnst gott að áfram er hægt að taka með sér farþega, sem greiða sitt fargjald. En helsti vandinn er þó að fólk sem á rétt á akstursþjónustu en getur líka notað strætó, a.m.k. við og við, þarf þá að borga tvöfalt gjald. Þetta er ósanngjarnt með meiru og er málið á borði umboðsmanns borgarbúa. Akstursþjónustan er ígildi strætó og það á ekki að fæla fólk frá því að reyna að nota strætó í bland. Er ekki gott að fækka ferðum akstursþjónustunnar? Þetta er alger bremsa og væntanlega brot á jafnræðisreglu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 30. júní 2020 um styrkingu á starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur um sjö stöðugildi vegna fjölgunar tilkynninga í kjölfar COVID-19:

Fulltrúi Flokks fólksins samþykkti tillögur er lúta að styrkingu barnaverndar á fundi velferðarráðs dags. 24. júní sl. enda gerir hann sér grein fyrir að barnaverndin þarf að hafa tryggan fjárhagslegan grunn og samþykkir því tillögu um styrkingu til barnaverndar. Varðandi barnaverndarmál þá liggur það þokkalega ljóst fyrir hvað málaflokkurinn þarf af fjármagni sem tryggja ætti þá í fjárhagsáætlun fyrir hvert ár svo ekki þurfi að kalla sífellt á aukingu eða viðauka. Málum fer ekki fækkandi, þeim fer fjölgandi og allar líkur eru á að þeim fjölgi áfram í framhaldi af COVID-19 og þeim áhrifum og afleiðingum sem veirufaraldurinn hefur og mun hafa til langs tíma. Tilkynningar munu jafnvel eiga eftir að taka enn meiri kipp í haust vegna áhrifa og afleiðinga COVID-19. Veirufaraldurinn hefur margs konar neikvæð andleg og fjárhagsleg áhrif á foreldra og foreldrar eru í afar misjafnri stöðu eins og gengur í fjölmenningarsamfélagi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs um þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 29. júní 2020, þar sem minnisblað um tímamót í rafrænni stjórnsýslu og rafrænni langtímavarðveislu gagna hjá Reykjavíkurborg er sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar öllum endurbótum hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði borgarinnar. Á þeim var sannarlega þörf og má í því sambandi vísa til mála eins og Nauthólsvegar 100 þar sem hnökrar skjalavörslumála og varðveislu gagna komu við sögu. Til upprifjunar þá samræmdust skjalavarsla og skjalastjórn vegna framkvæmda við braggann ekki í veigamiklum atriðum lögum um opinber skjalasöfn. Þetta kom fram í niðurstöðum frumkvæðisathugunar Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Ýmist var komist upp með að vista skjöl löngu síðar og mikill fjöldi skjala var vistaður í skjalavistunarkerfi eftir að Borgarskjalasafn hóf athugun sína. Skjöl voru ítrekað vistuð með þeim hætti að þau voru ekki aðgengileg í samræmi við kröfur laga um opinber skjalasöfn. Allt þetta sýnir í hversu miklum ólestri þessi mál voru. Nú heyrir þetta vonandi sögunni til. Þetta sem kallast Hlaðan og GoPro Foris mun nú varðveita og afhenda gögn á rafrænu formi til langtímavarðveislu hjá Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Fram kemur að undirbúningur hefur staðið lengi eða allt frá 2015. Auðvitað má spyrja af hverju þessi mál, eins mikilvæg og þau eru hafi verið látin sitja á hakanum.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 12. júní 2020, varðandi skipulag og stjórnarhætti byggðasamlaga á höfuðborgarsvæðinu:

Birtar eru tvær útgáfur af sviðsmyndum. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að mestu skiptir í þessu sambandi að fá fleiri mál bs-félaga inn á fundi með eigendum og að minnihlutafulltrúar hafi fulla aðkomu að málum. Reynslan er sú að byggðasamlögin hafa orðið ríki í ríkinu. Skipulag og stjórnunarhættir hafa leitt til þess að bs-kerfin hafa vikið verulega frá uppruna sínum og hafa lokað á kjörna fulltrúa og eigendur sína. Reynslan hefur ekki alltaf verið góð. Saga SORPU er kunn og stjórn bar ekki gæfu til að grípa í taumana. Eigendur hafa oft ekki hugmynd um hvernig verið er að sýsla með fé þeirra. Byggðasamlög eru flókið kerfi og boðleiðir því langar. Kjörnir fulltrúar eru brúin frá eigendum yfir til stjórnar. Reykjavík er langstærsti eigandinn og stærsti greiðandi skulda og taka stærstu ábyrgðina á óförum sem kunna að verða hjá byggðasamlagi. Þegar talað er um að bjóða fleirum að borðinu er ekki nóg að bjóða þeim sem áheyrnarfulltrúum heldur verða þeir að hafa atkvæðarétt. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ef ekki er hægt að laga byggðasamlögin til þannig að þau verði lýðræðisleg og fela í sér aðkomu allra pólitískra fulltrúa er tímabært að huga að sameiningarmálum.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 29. júní 2020, við fyrirspurn Sósíalistaflokks Íslands um hlutfall veikinda starfsmanna:

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að þetta séu mikil veikindi hjá Reykjavíkurborg sem sýndar eru í svari en í borginni starfa yfir 9000 starfmenn á hverjum tíma. Veikindahlutfall starfsmanna Reykjavíkurborgar var 6,7% árið 2017, 6,8% árið 2018 og 6,9% árið 2019. Hér er um fjölgun að ræða, jafna og þétta sem hlýtur að valda áhyggjum. Sama mátti sjá í þriggja mánaða uppgjöri velferðarsviðs janúar-mars 2020 þar sem fram kom að fjárheimildir voru 15 m.kr. umfram sem rekja má til langtímaveikinda. Ekki liggur fyrir nein marktæk skoðun á ástæðum eða hvort þetta sé í takt við það sem gengur og gerist annars staðar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvort meirihlutinn í borginni tengi þessa niðurstöður aldrei við vinnuaðstæður. Samkvæmt síðustu könnun um einelti hefur vanlíðan í starfi farið vaxandi. Lagðar voru fram niðurstöður viðhorfskönnunar starfsmanna á fundi velferðarráðs dags. 25. maí 2020. Spurt var um hvort fólk hafi orðið fyrir áreitni og einelti frá samstarfsfólki. Prósentutalan „Einelti frá samstarfsfólki“ hefur hækkað, var 2,8% árið 2019 en 3,4% í ár. Hvort tveggja er áhyggjuefni. Flokkur fólksins væntir þess að athugað verði hver sé vandinn hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði og að borgarfulltrúar verði upplýstir um þær niðurstöður.

 

Bókun Flokks fólksins og Miðflokksins við afgreiðslu tillögu um frestun dráttarvaxta og innheimtukostnaðar vegna greiðslufalls fasteignagjalda, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. apríl 2020:

Tillögu Miðflokksins og Flokks fólksins hefur verið vísað frá en hún varðar að ekki verði reiknaðir dráttarvextir eða annar auka innheimtukostnaður vegna greiðslufalls fasteignagjalda og sagt er í umsögn að slíkt sé ekki löglegt en að lengt hafi verið í gjalddögum fasteignagjalda ársins 2020. Þess er vænst að áframhald verði á frestun gjalddaga enda ekki séð að rekstrargrundvöllur fyrirtækja lagist mikið á þessu ári vegna COVID-19. Telja má hins vegar að það ætti að vera auðsótt að fá undanþágu frá lögunum til að ýmist fella niður eða fresta gjalddögum sem dæmi út þetta ár. Hin miklu efnahagslegu áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru er rétt að byrja og mikilvægt er að létta á rekstraraðilum ekki síst þeim sem þjónustuðu ferðamenn.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Sósíalistaflokks Íslands, dags. 30. apríl 2020, um að borgarsjóður fjármagni niðurfellingu á leigu hjá leigendum Félagsbústaða:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins barðist fyrir því að komið yrði á móts við leigjendur Félagsbústaða þegar veirufaraldurinn skall á með því að fella niður leigu þó ekki væri nema í einn mánuð. Allt kom fyrir ekki og má segja að meirihlutinn hafi hneykslast á tillögunni eins og sjá má í einstaka bókunum þeirra. Að fella niður leigu hefði einfaldlega hjálpað mörgum og kemur í raun ekkert úrræði beinlínis í staðinn fyrir það. Vissulega hefði kostnaður verið talsverður en annað eins er nú greitt til einstaklinga og fyrirtækja vegna áfallsins sem kórónuveiran olli með tilheyrandi skaða. Þær tímabundnu breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð sem Félagsbústaðir buðu upp á náðu bara ekki nógu langt, alla vega ekki fyrir alla.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 25. júní 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að meirihlutinn sé að taka við sér og merkja nú handhöfum stæðiskorta sérstök stæði við göngugötur og eru þar með að fylgja lögum, þ.e. 10. grein nýrra umferðarlaga sem tóku gildi 1. janúar 2020. Í 10. greininni er kveðið á um að handhafar stæðiskorta megi aka göngugötur og leggja í þar til merkt stæði. Handhafar stæðiskorta hafa haft áhyggjur af þessu og óttast jafnframt að nýta þessa heimild m.a. vegna andstöðu meirihlutans við lagaheimildina. Það minnisblað sem sent var til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þar sem farið er fram á að fá þessu breytt liggur enn hjá Alþingi. Ekki eru miklar líkur á að þessu verði breytt enda hér um áralanga baráttu fatlaðs fólks að ræða sem loksins gekk í gegn.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um brunann á Bræðraborgarstíg 1-3:

Á fundi skipulags- og samgönguráðs 1. júlí lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Einnig var lagt til að slökkviliðsstjóri og byggingarfulltrúi skipuleggi og sjái um framkvæmd aðgerða. Harmleikurinn sem átti sér stað þegar kviknaði í illa búnu húsnæði á Bræðraborgarstíg átti sér aðdraganda. Aðbúnaður í húsinu hafði áður komið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Í þessu tilviki var um að ræða húsnæði sem nýtt var til útleigu umfram það sem eðlilegt getur talist þrátt fyrir að aðeins væri einn brunaútgangur á húsinu. Þá höfðu verið gerðar breytingar á húsinu án tilskilinna leyfa. Í slíkum tilvikum fer ekki fram skoðun eftirlitsmanna á fyrirhuguðum teikningum og öryggismat. Eftirlit með aðbúnaði og brunavörnum verður að vera virkt á framkvæmdarstiginu. Það þarf að efla frumkvæðiseftirlit slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa. Lagt er jafnframt til að fagaðilar greini hvað þarf að efla í eftirliti með brunavörnum og aðbúnaði mannvirkja og hvort þörf sé á frekari eftirlitsheimildum eða auknum mannafla eða fjármagni í verkefnið. Flokkur fólksins leggur einnig til að áhersla verði lögð á vitundarvakningu meðal almennings, sérstaklega fólks á leigumarkaði, um brunavarnir og aðbúnað.

 

Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Fulltrúum Vegagerðarinnar er þakkað fyrir að koma í borgarráð. Ljóst má vera að gera þarf allt til þess að koma í veg fyrir að svo hörmulegt slys eins og átti sér stað síðastliðinn sunnudag geti endurtekið sig. Aðstandendum og öðrum sem um sárt eiga að binda vegna slyssins eru sendar innilegar samúðarkveðjur.

 

Tillaga að  stýrihópar sem stefndu að því að skila af sér niðurstöðum fyrir sumarið en hafa ekki gert það, geri það hið fyrsta.

Tillaga Flokks fólksins að stýrihópar skili af sér fyrir sumarfrí. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að stýrihópar sem stefndu að því að skila af sér niðurstöðum fyrir sumarið en hafa ekki gert það, geri það hið fyrsta. Það er ótækt að vinna stýrihópa tefjist fram á haustið og mun slík töf geta haft áhrif á marga. Enn bólar sem dæmi ekkert á niðurstöðum starfshóps sem endurskoðar reglur um dýrahald en til stóð að hann lyki störfum á vordögum. Í gangi er einnig starfshópur „um frístundakort“ en ekki er vitað um framvindu þeirrar vinnu. Sá hópur átti m.a. að endurskoða reglur um frístundakort. Bundnar voru vonir við að börnum gæfist kostur á að nýta frístundakortið til þátttöku í sumarnámskeiðum sem nú eru í algleymingi. En reglan um að námskeið þurfi að vara í 20 vikur til að hægt sé að nota frístundakort hindrar það. R20070025

Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Starfshópar þeir sem nefndir eru í tillögunni þ.e. vegna dýrahalds annars vegar og frístundakort hins vegar, starfa á ábyrgð viðkomandi fagráða. Það er ekki hlutverk borgarráðs að ákveða skil þeirra hópa enda liggja engar upplýsingar fyrir í borgarráði um stöðu þeirrar vinnu né áætluð skil.

Gagnbókun Flokks fólksins:

Stýrihópar virðast hafa sjálfdæmi um hvenær þeir skila af sér vinnu og er það miður. Flokkur fólksins veit ekki hver í borginni hefur með það að gera að kalla eftir niðurstöðum stýrihópa. Það er t.d. miður að stýrihópur um endurskoðun frístundakorts skildi ekki hafa lokið störfum og verður það til þess mörg börn geta ekki notað frístundakortið í sumarnámskeið eins og vonast var til að þau gætu eftir endurskoðunina.

Bókun Flokks fólksins Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn er varðar breytingu á innheimtureglum.:

Í framhaldi af tillögu borgarstjóra að framlengja tímabundna breytingu á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum vegna júlí, ágúst og september 2020 vegna COVID-19 óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um hvað margir nýttu sér þetta ákvæði. R20030260

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.