Borgarráð 19. mars 2020

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um fjölda utanlandsferða á vegum borgarinar sl. 2 ár:

Í svari kemur fram að ferðir erlendis á vegum borgarinnar sl. 2 ár eru 517, þar af 54 ferðir vegna funda.  Kostnaður var á þessum árum 10,6 milljónir, eða 7.1 milljónir árið 2018 og 3.5 milljónir árið 2019. Spurt var um fjarfundi  en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvers vegna ekki var notast við fjarfundarbúnað í stað ferðar eða mat á því hvort slíkt hefði verið mögulegt.  Galli er á verklagi Reykjavíkur að ekki liggi fyrir hvort mögulega hefði verið hægt að sækja fundi með fjarfundabúnaði. Það ætti því að vera áhersluatriði í þeim samstarfsverkefnum sem Reykjavík tekur þátt í á alþjóðavettvangi að reynt sé að takmarka fjölda flugferða og óþarfa flugferðir, vegna sparnaðar og umhverfissjónarmiða. Sagt er að Erasmus -ferðir séu ,,kostnaðarlausar“ en það kemur ekki fram á yfirlitinu. þar er getið um einn styrk. Verulegur kostnaður vegna ferða eru dagpeningar, þrátt fyrir ,,kostnaðarlausar“ ferðir. Meginhluti ferðakostnaðar er yfirleitt dagpeningar. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að notast verði við fyrirtækja-greiðslukort með skilgreindu hámarki, eins og nú er víða algengt.  Þá er raunkostnaður greiddur og ekkert umfram það. Þeirri tillögu var hafnað.

Fyrirspurnir í framhaldi af svari við fyrirspurn um fjölda utanlandsferða á vegum borgarinnar

Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um ferðir erlendis sl. tvö ár kemur fram að þær eru 517, þar af 54 ferðir vegna funda. Ferðirnar voru farnar af alls 34 starfsmönnum, 8 embættismönnum og 10 borgarfulltrúum. Nokkrir fóru fleiri en eina ferð vegna funda. Borgarfulltrúa finnst hlutfall fundaferða ansi lágt og vill því leggja fram framhaldsfyrirspurn.
Flokkur fólksins óskar eftir að fá  sundurliðun á 463 ferðum sem voru farnar vegna annarra ástæðna en fundahalds. Hversu margar ferðir voru námsferðir og í þeim tilfellum, var ekki mögulegt að stunda fjarnám?

Tillaga Flokks fólksins að komið verði á a.m.k. tímabundið sérstakri símsvörun hjá Reykjavíkurborg

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að komið verði á a.m.k. tímabundið sérstakri símsvörun hjá Reykjavíkurborg. Borið hefur á því að fólk nái ekki sambandi við þjónustumiðstöðvar borgarinnar. Á þessum óvissutímum er fólk með alls kyns spurningar meðal annars um þjónustu á vegum borgarinnar. Fréttir hafa auk þess borist af fólki í neyð, fólki sem treystir sér ekki út og á ekki mat.  Ákveðinn hópur fólks er ekki með tölvur og/eða netið og því þarf að tryggja að þessi hópur geti kallað eftir hjálp án vandræða og fengið nauðsynlegar upplýsingar um þjónustuna sem það þiggur eða annað sem tengist borginni án þess að ýmist þurfa á bíða á línunni eða ná ekki í gegn. Álagið er án efa mikið á þjónustumiðstöðvunum og hafa því ekki allir sem telja sig þurfa náð sambandi við félagsráðgjafa. Einnig getur fólk þurft á annars konar aðstoð að halda og vantar upplýsingar um hvert það geti leitað. Í rauninni er ómögulegt að vita allt um það sem mögulega gæti bjátað að hjá fólki á þessum tímapunkti.  Því er lagt til að gripið verði til frekari ráðstafana til að mynda örugga samskiptaleið og það er m.a. gert með því að koma á laggirnar tryggri og öruggri símsvörun.

 

Tillaga Flokks fólksins um að að skóla- og frístundaráð sem og velferðaryfirvöld beini þeim tilmælum til starfsmanna skóla og skólaþjónustu að huga sérstaklega að andlegri líðan barna í því ástandi sem nú ríkir vegna Covid-19.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð sem og velferðaryfirvöld beini þeim tilmælum til starfsmanna skóla og skólaþjónustu að huga sérstaklega að andlegri líðan barna í því ástandi sem nú ríkir vegna Covid-19. Mestar áhyggjur þarf að hafa af þeim börnum sem eru “lokuð”, og eiga erfitt með að tjá hugsanir og líðan. Þau kunna að hafa dregið rangar og skaðlegar ályktanir af umræðu um veiruna sem brýnt er að leiðrétta hið fyrsta til að þau geti fundið til öryggis og vissu um að ekkert slæmt muni koma fyrir þau eða þeirra nánustu. Auk aldurs og þroska hafa fjölmargar aðrar breytur ytri sem innri breytur áhrif á hvernig börn vinna úr upplýsingum. Orðræðan um faraldinn er í fjölmörgum birtingarmyndum og eðli málsins samkvæmt oft afar tilfinningaþrungin. Útilokað er að halda börnum frá umræðunni enda snýst samfélagið allt í kringum þennan vágest. Börn eru misviðkvæm að eðlisfari. Sum hugsa meira um hættur, sjúkdóma og slys á meðan önnur eru upptekin við annað. Börn með kvíðaröskun eru, í aðstæðum sem þessum, útsettari fyrir öðrum vandamálum t.d. ofsakvíða. Þessum börnum þarf því að veita sérstaka athygli. Börn sem eru lokuð, fámál um líðan sína og hugsanir geta auðveldlega falið vandamál sín það vel að fullorðnir verði þeirra ekki auðveldlega varir.

 

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg taki upp heimagreiðslur fyrir foreldra þeirra barna sem ekki eru á leikskóla eða hjá dagforeldri

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg taki upp heimagreiðslur fyrir foreldra þeirra barna sem ekki eru á leikskóla eða hjá dagforeldri. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað þetta eru mörg börn. Fáist hvorki dagforeldri eða leikskólapláss liggur það fyrir að foreldri eða ættingi þarf að annast um barnið á daginn. Þá er sjálfsagt að það foreldri fái einhverjar greiðslur. Nýlega var tekin svipuð ákvörðun hjá sveitarfélaginu Ölfusi. Reykjavík getur ekki verið eftirbátur smærri sveitarfélaga. Heimagreiðslur hafa oft komið til tals og þetta er ein leið til lausnar á vonandi tímabundnu ástandi. Mikill skortur er á dagforeldrum á vissum tímum árs. Bilið sem átti að brúa milli dagforeldra og ungbarnaleikskóla hefur ekki verið brúað. Reykjavíkurborg hefur ekki stutt við bakið á dagforeldrum og hafa margir hætt störfum, enda starfsöryggi þeirra ótryggt. Haustin eru sérlega slæm fyrir dagforeldrana og vorin fyrir foreldrana. Flokkur fólksins hefur lagt til að stutt verði fjárhagslega við bakið á dagforeldrum en þeim tillögum hefur verið hafnað. Reykjavíkurborg á að þjónusta foreldra sem best og tryggja að þau geti sótt vinnu að loknu fæðingarorlofi og þess vegna er sú tillaga lögð hér á borð að teknar verði upp heimagreiðslur fyrir foreldra þeirra barna sem hvorki fá dagforeldri eða leikskólapláss eftir að fæðingarorlofi líkur.

 

Bókun Flokks fólksins við Hlemm – deiliskipulagi:

Vel skipulögð almenningsrými þurfa að taka tillit til þarfa allra borgarbúa, ekki aðeins þeirra sem búa í næsta nágrenni við svæðið. Þær breytingar sem verða á Hlemmi eru m.a. annars þær að allri umferð verður beint frá svæðinu en hjólandi boðið að koma meðfram svæðinu þar sem hjólastígur tengir Hverfisgötu og Laugaveg upp að Bríetartúni. Aðgengi að Hlemmi hefur svo sem aldrei verið gott en Flokkur fólksins óttast að með breytingunni verði það enn verra. Borgarlínan verður ekki komin fyrr en eftir 10 til 15 ár og verður að huga vel að aðgengismálum fram að því. Ellegar er hætta á því að Hlemmur og nýja torgið gagnist aðeins þeim sem búa og vinna í næsta nágrenni, gangandi og hjólandi. Samkvæmt talningu í október 2019 kom fram að 70%, eða 17 þúsund manns, af heild­ar­fjölda veg­far­enda á Hlemmsvæðinu voru gang­andi. Nákvæm lýsing á svæðinu væri því ekki almenningsrými heldur frekar hverfisrými og kannski biðstöðvarrými. Ef við ætlum að kalla svæðið almenningsrými megum við ekki útiloka aðkomu bíla eða loka á aðgengi fyrir fatlaða. Því þarf að gera ráð fyrir einhverri umferð um Rauðarárstíg en sú gata er  þröng.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um stöðu efnahags- og fjármála vegna áhrifa Covid-19:

Í útvarpsviðtali við Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ og Ásdísi Kristjánsdóttur, hagfræðing SA, 19.3 þar sem þau ræddu aðgerðir yfirvalda, kom fram að það væri sérstakt að ekkert heyrðist í sveitarfélögum hvað varðar aðgerðir vegna Covid-19. Sögðu þau að það heyrðist í ríkisstjórninni og fleirum en ekki sveitarfélögum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju Reykjavík hefur ekki rakið aðgerðir, brýnar aðgerðir og lengri tíma aðgerðir? Hvernig á að hjálpa fólkinu í borginni núna? Hvernig á að koma á móts við fólk sem getur ekki greitt skuldir sínar við borgina? Sumt fólk er í mik­illi neyð, fólk sem var í neyð er í enn meiri neyð núna. Ástandið bitn­ar á öllum og þeir sem eru viðkvæmastir fyrir eiga erfiðast, fólk sem er veikt, öryrkjar og eldri borgarar. Huga þarf að öllu og öllum og tímabært að meirihlutinn leggi fram víðtækt aðgerðarplan í samráði við minnihlutann. Nákvæmlega núna er mikið af fólki sem er aflokað og einangrað vegna veirunnar, fólk sem er ekki endilega í sóttkví heldur loka sig inni vegna kvíða. Sumir eiga ekki mat og eiga ekki fyrir mat. Hjálp­ar­stofn­an­ir hafa þurft að loka. Það kem­ur hart niður á þess­um hópi og velferðarkerfið hefur ekki undan.

Bókun Flokks fólksins vegna tímabundinna heimildar Fjármála- og áhættustýringarsviðs til gerðar leigusamninga vegna COVID-19 veirunnar:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að nauðsynlegt er að hafa slíka heimild ef grípa þarf til skyndiákvörðunar á ögurstundum. Þessi heimildarbeiðni hefði þó mátt vera skýrari og skilgreindari. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að borgarráð eigi að fá upplýsingar um hvert skref sem tekið er innan heimildarinnar. Sjálfsagt er að boða borgarráð til fundar með örskömmum fyrirvara og mun ekki standa á borgarfulltrúa Flokks fólksins að mæta eins oft og þörf er talið á.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  um að reglum um fyrningartíma á ýmsum búnaði við útreikning innri leigu verði endurreiknaðar:

Flokkur fólksins þakkar svarið. Tillagan hefur verið felld.  Borgarfulltrúi vill engu að síður leggja áherslu á að búnaður eigi að endast eins lengi og hægt er. Þetta er spurning um að farið sé vel með hluti og þá verður færi á að breyta reglum um fyrningartíma, lengja hann. Nota má hluti lengur en 3 ár sem dæmi. Á okkar tímum skiptir máli viðhorf okkar til nýtinga hluta og að við nýtum allt eins lengi og hægt er, nóg er samt af sóun. Endurreiknað viðmið ætti að taka mið af að húsbúnaður og tæki “lifi” almennt lengur. Reikna má með að rafmagnsvörur hafi allt að 8 ára líftíma og húsgögn geta verið í góðu lagi í allt að 15 ár nema auðvitað að um sé að ræða lélega framleiðslu eða sérlega slæm umgengni.

Bókun Flokks fólksins vegna framlagningu bréfs Innri endurskoðunar um breytingu á verkefnaáætlun:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að viðhafa stöðugleika á þessum erfiðum og einmitt óútreiknanlegum tímum. Deildir og skrifstofur sem eru kjölfesta þurfa að halda sínu striki og vera áfram sama kjölfestan. Næg er óreiðan samt sem myndast vegna skyndiárásar Covid-19. Vissulega gæti þurft að endurforgangsraða einhverjum verkefnum. Nú vill innri endurskoðun sem er sjálfstæð eining og óháð setja verkefni sem eru á endurskoðunaráætlun 2020 í biðstöðu, hægja á verkefnum í vinnslu og jafnvel stöðva verkefnavinnu. Allt er gert í samráði við formann borgarráðs? Fyrir sjálfstæða einingu eins og Innri endurskoðun hljómar þetta sérstakt.  Að sjálfsögðu má reikna með að innri endurskoðun taki á sig ný eftirlitsverkefni eftir því hvernig framvindur. Nú var verið að samþykkja nýja heimild um húsaleigu og fleiri samningar verða gerðir sem fylgjast þarf með eftir atvikum og veita ráðgjöf með.  Á sama tíma er mikilvægt að skrifstofa IE haldi sínu striki, sinni helstu verkefnum sem mest ótruflað. Það sem borgarbúar þurfa nú er að upplifa að innviðum sé ekki hleypt í uppnám með grundvallarbreytingum og á sama skapi þarf fólk að vera fullvisst um að skrifstofa eins og innri endurskoðun sinni nýjum hlutverkum eftir því sem nauðsyn krefur.