Staða mála á velferðarsviði
Frávik eru mikil á sviðinu, mismikil eins og gengur. Þeir flokkar sem fara umfram eru m.a.
Rekstur þjónustumiðstöðva, samningar, framlög og styrkir, búsetuúrræði fyrir fatlað fólk, félagsmiðstöðvar, dagþjónusta fyrir fatlað fólk og heimaþjónusta. Margt má rekja til Covid -19 segir í gögnum. Heimahjúkrun er umfram vegna lyfja- og læknakostnaðar.
Hér eru nefnd brot af umframkeyrslu. Þá má spyrja af hverju eru þessar umframkeyrslur? Er hægt að kenna rekstri um? Nei það heldur fulltrúi Flokks fólksins ekki. Þessi málaflokkur hefur ekki verið í forgang. Hann fær ekki nægt fjármagn til að geta sinnt bundinni og annarri þjónustu. Af mörgum ástæðum er líðan fólks að versna, beiðnum hefur fjölgað, þörfin er að verða æ meiri. Og af hverju? Það er vegna þess að það ríkir ójöfnuður sem hefur farið vaxandi. Ójöfnuður var tilkominn fyrir Covid-19. Veita þarf meira fjármagni í málaflokkinn ekki síst vegna áhrifa og afleiðinga Covid-19. Ríkið er ekki að svara kalli með alla þá málaflokka sem það ætti að taka þátt í. Þar mun verma stóla næstu 4 árin flokkar sem ekki hafa áhuga á þessum málaflokk svo lítils er líklega að vænta frá þeim bæ.
Bókun Flokks fólksins við kynningu ársskýrslu velferðarsviðs:
Eins og fram kemur í ársskýrslunni er kallað eftir meiri þjónustu úr öllum áttum. Af hverju? Svör við þeirri spurningu eru sennilega mörg og margvísleg. Fólk kallar ekki eftir þjónustu að ástæðulausu. Fulltrúi Flokks fólksins hugsar fyrst og fremst til þeirra verst settu og barnanna. Í nýlegri skýrslu Barnaheilla er það staðfest að fátækt fer vaxandi í Reykjavík. Ójöfnuður hefur aukist. Hér á landi eiga um 12,7% á hættu að búa við fátækt. Hættan leggst mismunandi á fjölskyldur en verst á börn einstæðra foreldra, börn foreldra sem eru á örorkubótum, börn með fötlun, börn innflytjenda og börn sem tilheyra fjölskyldum með erfiðar félagslegar og efnahagslegar aðstæður. Samhliða versnandi stöðu hefur orðið fjölgun beiðna til skólaþjónustu. Í lok árs 2020 biðu 1175 eftir skólaþjónustu og nú bíða 1464 börn. Það sýnir glöggt aukninguna og hefur ekki verið tekið skref til að mæta þessari aukningu að heitið geti. Árið 2020 bárust 473 tilvísanir vegna málþroskavanda, 445 vegna einbeitingarvanda, 280 vegna tilfinningalegra erfiðleika, 240 vegna hegðunarerfiðleika og 101 vegna slakrar félagsfærni. Gera má ráð fyrir að allar þessar tölur hafi hækkað til muna. Börn sem glíma við vanda eiga erfitt með að einbeita sér að námi og að nýta greind og getu sína. Vanlíðan hefur áhrif á allt í lífi þeirra.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Umsóknum um skólaþjónustu hefur fjölgað hratt undanfarið í tengslum við COVID-faraldurinn. Til að bregðast við þessu samþykkti borgarráð 140 milljón króna fjárheimild í júlí á þessu ári til að fara í sérstakt átak í að styðja við börn sem leitað hafa eftir þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga skólaþjónustunnar. Með því framlagi verður hægt að veita allt að 650 börnum þjónustu sálfræðinga eða talmeinafræðinga á næstu 12 mánuðum. Nú þegar má sjá þess merki ef skoðuð eru virk mál í lykiltölum velferðarsviðs.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúi Flokks fólksins veit að samþykkt var í borgarráði 140 milljón króna fjárheimild í júlí á þessu ári til að ráða sálfræðinga og talmeinafræðinga skólaþjónustunnar. Fulltrúi Flokks fólksins samþykkti þessa viðbót með ánægju. En samt sér ekki högg á vatni. Á upplýsingavef borgarinnar um fjölda á biðlista er ekki séð að nein breyting hafi orðið á biðlistum. Er kannski ekki búið að ráða neina sálfræðinga og talmeinafræðinga fyrir þessa 140 milljóna viðbótarfjárheimild?
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Ef skoðaðar eru lykiltölur má sjá að virkum málum skólaþjónunstu hefur fjölgað milli ára. Í janúar – september 2020 voru virk mál 2.901 en árið 2021 eru þau 5.061. Það er því augljóst að fleiri börn eru nú að fá skólaþjónustu en áður.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars sviðsstjóra, dags. 17. nóvember 2021, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um árskort og önnur tímabilskort fyrir notendur akstursþjónustu fatlaðs fólks:
Fram kemur í þessu svari að árskort hefði verið hagkvæmara fyrir 501 einstakling af þeim 874 einstaklingum sem nýttu sér ferðaþjónustu fatlaðra árið 2019. Ef allir þeir einstaklingar hefðu farið þá leið að kaupa árskort hefði það kostað um 36 m.kr. á ári. Hér er ekki um stórar upphæðir að ræða í heildarsamhenginu að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta er pólitísk ákvörðun og ekki séð að þetta sé neitt forgangsmál. Sé vilji til að fatlað fólk hafi það betra en það hefur það núna þá er hægt að gera það t.d. með þessari aðgerð. Þegar á allt er litið og horft til þessara mála þykir fulltrúa Flokks fólksins það ósanngjarnt að fólki sé nánast refsað fyrir að vera fatlað. Fötlun er ekki á óskalista neins. Reykjavíkurborg, meirihlutinn sem nú ríkir, þarf að skoða menningu og viðhorf til þessara mála og gæta þess í hvívetna að fatlað fólk njóti jafnræðis og réttlætis.
Bókun Flokks fólksins ivð svarisviðsstjóra, dags. 17. nóvember 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um aldur og aðstæður þeirra sem bíða eftir sértæku húsnæði:
Fulltrúi Flokks fólksins bað um upplýsingar um aldur og aðstæður þeirra sem bíða eftir sértæku húsnæði. Það sem fulltrúi Flokks fólksins óttaðist mest er hér staðfest. Langflestir búa heima hjá foreldrum/foreldri eða 85 einstaklingar af 136. Hér er í mörgum tilfellum um að ræða einstaklinga sem komnir eru vel á þrítugs- og jafnvel fertugsaldur. Margir hafa beðið í mörg ár eftir húsnæði. Dæmi eru um að álagið sé svo mikið að foreldrar séu komnir á tímabundna örorku svo ekki sé minnst á það álag sem þetta er á umsækjendur sjálfa. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort nægur skilningur sé innan borgarkerfisins á aðstæðum þeirra sem glíma við þroskahömlun og aðstandenda þeirra?
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Núverandi meirihluti hefur sett búsetumál fatlaðs fólks í forgang. Á kjörtímabilinu hefur samtals 120 einstaklingum verið úthlutað íbúð í sértækum búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk og heldur uppbyggingin áfram fullum fetum. Eins og fram kemur í svari sviðsins eru flestir sem bíða eftir húsnæði fyrir fólk með þroskahömlun á aldrinum 18-24 ára auk þess sem 78% þeirra fá aðra þjónustu frá velferðarsviði meðan beðið er. Það er áfram forgangsmál að halda áfram öflugri uppbyggingu í þágu fatlaðs fólks í Reykjavík.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúi Flokks fólksins sagði ekki að ekkert hafi verið gert, það sem gert er, er bara ekki nóg. Á annað hundrað einstaklingar bíða enn eftir sértæku húsnæði. Það er miður að vita til þess að þessir einstaklingar, meirihlutinn býr hjá foreldrum sínum sem eru margir að niðurlotum komnir. Mest er álagið á umsækjendurna sjálfa.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um 400 börn sem bíða eftir þjónustu talmeinafræðings:
Hinn 1. nóvember 2021 voru 400 börn á biðlista, á bið eftir þjónustu talmeinafræðings.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir nánari sundurliðun á þessum vanda barnanna og greiningu á tilvísunum eftir alvarleika.
Það er sérlega bagalegt að öll þessi börn séu að bíða eftir svo mikilvægri þjónustu. Ef horft er til þeirra barna sem glíma við málþroskavanda þá hafa rannsóknir sýnt að börn og unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í félagslegum aðstæðum og eru þau einnig berskjaldaðri fyrir tilfinningalegum erfiðleikum. Á unglingsárunum eykst þörf einstaklinga fyrir náin félagsleg samskipti við jafningja. Slök máltjáning og slakur orðaforði er ein aðalástæða þess að unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í tengslamyndun við félaga sína vegna þess að tímabil unglingsára er talið eitt það mest krefjandi tímabil í lífi fólks þar sem á þeim árum eiga miklar breytingar sér stað, bæði líffræði-, vitsmuna-, félags- og tilfinningalega.