Borgarráð 20. júní 2019

Bókun Flokks fólksins við veitingu vínveitinga á Secret Solstice

Flokkur Fólksins​ lagði til styttingu á vínveitingaleyfi hátíðarinnar til klukkan 23 í stað 23:30 en tillagan var felld af meirihlutanum. Í bókun er vísað til þess að foreldrar í hverfinu séu kvíðnir fyrir hátíðinni í ljósi neikvæðra reynslu af hátíðinni frá því í fyrra.
Hér er bókunin í heild sinni“:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til í borgarráði 20. júní styttingu á áfengisleyfi á Secret Solstice Festival. Lagt var til að áfengisleyfi verði til 23:00 en ekki 23:30 eins og stefnt er að. Tillagan var felld af meirihlutanum.
Ástæðan fyrir þessari tillögu er að margir foreldrar í hverfinu eru kvíðnir fyrir hátíðinni í ljósi neikvæðra reynslu af hátíðinni frá því í fyrra sem tengist börnum og neyslu áfengis- og vímuefna. Hátíðin er umdeild ekki síst vegna staðsetningar hennar þ.e. inn í miðju íbúðarhverfi. Kvartað hefur verið yfir hávaða og látum langt fram á nótt. Flokkur fólksins hefur áður rætt og bókað um umsagnir foreldrafélaga sem hafa lýst áhyggjum sínum af hátíðinni og eru óánægðir með að hún skuli haldin aftur í Laugardalnum. Þegar kemur að vínveitingaleyfi þá munar um hvern hálftíma og líklegt að ró myndi komast fyrr á ef leyfið væri stytt.

Tillaga Flokks fólksins um styttingu vínveitingaleyfis um hálftíma

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til styttingu á áfengisleyfi á Secret Solstice Festival. Lagt er til að leyfi til að veita/selja áfengi sé til 23:00 í stað 23:30 eins og til stendur alla daga.

Tillaga felld af meirihlutanum

Bókun Flokks fólksins við svari um umfang vinnu trúnaðarmanns dómnefndar við vali á listaverki í Vogabyggð

Svar hefur borist við fyrirspurn Flokks fólksins um launakostnað dómnefndar um listaverk í Vogabyggð. Spurt var um umfang vinnu trúnaðarmanns í dómnefndinni. Erfitt er að meta þetta svar, greinilegt að allt er týnt til í því skyni að sýna fram á mikilvægi starfsins. Það leiðir hugann að öðrum þáttum þessum tengdum og það er hvaða launaviðmið er notast við í slíkum verkefnum og á hvaða forsendum viðkomandi er valinn?

Fyrirspurn til að skerpa á fyrirspurn um umfang og laun trúnaðarmanns dómnefndar
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nú spyrja, hvaða launaviðmið er notast við í slíkum verkefnum?
Á hvaða forsendum er viðkomandi valinn?
Hvað þarf viðkomandi að hafa að bera til að sinna því sem lýst er?

Bókun Flokks fólksins við kynningu starfshóps á tilraunarverkefni við styttingu vinnuviku

Það er ánægjulegt að sjá hvað stytting vinnuviku hefur góð áhrif á fjölmarga þætti. Stytting vinnuviku (styttri vaktir og færri vinnuklukkustundir fyrir sömu laun) gæti verið nýtt sem hvatningarþáttur í að laða að fólk til að sinna félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun. Eins og vitað er þá hefur mannekla verið mikil í þessum störfum í mörg ár sem hefur komið illa niður á þjónustuþegum og aðstandendum. Nú er enn eitt sumarið þar sem skera þarf niður þjónustu af þessu tagi og aðeins er hægt að sinna þeim allra veikustu. Að stytta vinnuviku þeirra sem sinna félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun gæti leitt til þess að fleiri sýni þessum mikilvægu en krefjandi störfum áhuga.  Þessi störf og mörg önnur aðhlynningarstörf eru afar illa launuð, sennilega ein lægstu laun sem boðið er upp á og má gera því skóna að það sé ein helsta ástæða að ekki tekst að manna þessa stöður betur en raun ber vitni. Eitthvað fleira og annað þarf því að koma til og „stytting vinnuvikunnar“ er hvatningarþáttur sem vel mæti nýta í þessum tilgangi. Það væri ánægjulegt ef þessi hópur sem haldið hefur utan um þetta verkefni myndi leggja til við borgarstjóra að skoða þennan möguleika. Enda þótt þessi mál komi til með að vera hluti af kjarasamningum getur borgarstjóri engu að síður beitt sér í þessa átt með ýmsu móti.

Tillaga um að stytta vinnuviku þeirra sem sinna félagslegri heimaþjónustu og hjúkrun vegna gríðarlegs mannekluvanda og skerðingar á þjónustu

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að vinnuvika þeirra sem sinna félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun verði stytt. Vaktir verði styttri og færri vinnuklukkustundir fyrir sömu laun. Rökin fyrir því að þessir hópar væru teknir út sérstaklega og það sem fyrst væri einfaldlega sá að það er nánast útilokað að manna þessi störf á þessum launum. Nú þarf að skerða þjónustuna og mögulega setur það þjónustuþega í einhverja áhættu.
Hér er vissulega um kjarasamningsmál að ræða en borgaryfirvöld geta engu að síður beitt sér af krafti í þessa átt og tekið af skarið t.d. með því að byrja á þessum hópi sem hér er nefndur. Fleiri geta síðan komið í kjölfarið. Það myndi strax muna um að stytta vinnuskylduna um 2-3 tíma án þess að skerða launin. Finna mætti einnig fleiri hvata til að manna þessar stöður t.d. sem lúta að því að létta á álagi eða breyta vaktafyrirkomulagi.

Greinargerð

Nú er enn eitt sumarið þar sem skera þarf niður þjónustu af þessu tagi og aðeins er hægt að sinna þeim allra veikustu. Samkvæmt niðurstöðum skýrslu um 2. áfanga tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar hefur stytting vinnuvikunnar jákvæð áhrif á fjölmargt. Að stytta vinnuviku þeirra sem sinna félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun gæti leitt til þess að fleiri sýni þessum mikilvægu en krefjandi störfum áhuga. Þessi störf er afar illa launuð, sennilega ein lægstu laun sem boðið er upp á sem er helsta ástæðan þess að ekki tekst að manna þessa stöður betur en raun ber vitni. Eitthvað fleira og annað þarf því að koma til og „stytting vinnuvikunnar“ er hvatningarþáttur sem vel mæti nýta í þessum tilgangi. Borgarfulltrúi vill rifja upp að fyrir ári, á þeim degi sem meirihlutinn kynnti sáttmála sinn gaf borgarstjóri loforð um að taka ætti á biðlistum í heimaþjónustu og hjúkrun. Nú er liðið ár og en þarf að skerða þjónustu í sumar því ekki hefur tekist að manna stöður þrátt fyrir ítarlega leit að fólki. Það segir sig sjálft að það tekst ekki að manna störfin á meðan launin eru svo lág að ekki möguleiki er að lifa á þeim.  Það verður að koma til einhver frekari hvatning ef hægt á að vera að manna þessi mikilvægu krefjandi störf. Stytting vinnuvikunnar gæti verið sá hvati meðal annarra.  Þann 1. apríl 2019 voru alls 67 einstaklingar á biðlista eftir félagslegri heimaþjónustu. Af þeim voru 43 eldri en 67. Alls 80 einstaklingar bíða auk þess eftir frekari þjónustu. Af þeim eru 78 eldri en 67. Þetta er stór hópur og margir búnir að bíða lengi. Á biðlista eftir varanlegri vistun biðu í apríl 158 einstaklingar. Margir bíða á Landspítalanum vegna þess að ekki er hægt að útvega þeim félagslega heimaþjónustu. Þetta er gríðarlega kostnaðarsamt að ótöldu álagi sem lagt er á fólkið sjálft og aðstandendur þeirra. Að stytta vinnuvikuna fyrir þennan hóp sérstaklega er eitthvað sem borgarmeirihlutinn getur vel hrint í framkvæmt eða stuðlað að.

Bókun Flokks fólksins, Miðflokksins við svari við fyrirspurn um kostnað vegna ólöglegra ráðningar, brottreksturs ásamt dómsmálum.

Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins voru ekki að óska eftir stöðluðu svari um almennar reglur um starfslok eins svarið sem hér er lagt fram af hálfu borgarinnar. Vera kann að fyrirspurnin hafi ekki verið nægjanlega skýr. Í ljós þess möguleika leggja áheyrnarfulltrúarnir aftur fram fyrirspurn um hvað borgin hefur greitt til yfirmanna/embættismanna vegna ólöglegrar ráðninga,  brottrekstrar ásamt dómsmálum.

Fyrirspurn um kostnað við ólöglegra ráðninga, brottrekstra starfsmanna og dómsmála

Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt til yfirmanna/embættismanna varðandi ólöglegar ráðningar/brottrekstra starfsmanna hjá borginni auk dómsmála síðustu tíu ár?