Borgarstjórn 3. september 2019

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að borgarstjórnarfundir verði túlkaðir á táknmáli.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að borgarstjórnarfundir verði túlkaðir á táknmáli. Borgarstjórnarfundir eru tvisvar í mánuði að meðaltali 6-7 klukkustundir hver. Hér er um mannréttindamál að ræða og með því að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar er borgarstjórn að framfylgja lögum. Tillagan er liður í að rjúfa enn frekar einangrun heyrnarskertra og heyrnarlausra einstaklinga. Þessi hópur á rétt á því að fá upplýsingar úr samfélaginu og þ.m.t. að geta fylgst með umræðu á sviði stjórnmálanna. Íslenska og táknmál heyrnarlausra eru jafn rétthá. Talið er að um 350-400 einstaklingar reiða sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta. Að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar er vel gerlegt. Hægt er að sjá fyrir sér að túlkunin yrði í útsendingunni frá fundinum, þ.e. sér myndavél væri á túlkinum og túlkunin í glugga á skjánum. Þá getur fólk farið inn á útsendinguna hvar sem það er statt í borginni. Kostnað við að táknmálstúlka borgarstjórnarfundi er lagt til að verði tekið af liðnum „ófyrirséð“. Verkið yrði boðið út samkvæmt útboðsreglum borgarinnar. Í útboði þarf að tryggja að þeir sem gera tilboð í verkið séu með menntun á sviði táknmálstúlkunar. Þær tæknilegu breytingar sem þyrftu að koma til færu einnig í útboð.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19090030 (sjá neðar undir Forsætisnefnd).

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar forsætisnefndar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Hér er um mannréttinda- og réttlætismál að ræða og á meirihlutinn ekki að sjá eftir fé sem fer í að túlka borgarstjórnarfundi. Íslenska og táknmál eru samkvæmt lögum jafn rétthá. Borgarfulltrúa þykir miður að hlusta á viðbrögð meirihlutans en borgarfulltrúi Samfylkingar í ræðu sinni talaði strax tillöguna niður og vildi meina að túlkun eins og þessi kostaði mikið álag, mikið fé og að ekki hafi heyrst háværar raddir eftir þessari þjónustu o.s.frv. Það er ekki borgarfulltrúa að meta hvort táknmálstúlkun er erfið eða flókin eða kalli á mikinn undirbúning heldur þeirra sem ráðnir yrðu til að túlka. Að öðru leyti fagnar borgarfulltrúi Flokks fólksins að tillögunni var alla vega vísað áfram en hvorki felld né vísað frá á þessu stigi.

Skýrsla innri endurskoðunar um úthlutun og fjárhagsramma  til grunnskóla Reykjavíkur
Gagnbókun Flokks fólksins  undir 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst:

Skýrsla innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma og reksturs til grunnskóla Reykjavíkur barst borgarfulltrúum öðrum en þeim sem sitja í skóla- og frístundarráði fyrst til eyrna í fjölmiðlum. Þetta sætir furðu. Þessa skýrslu hefði átt að senda öllum borgarfulltrúum um leið og hún kom út. Á þessu er óskað skýringa. Efni skýrslunnar kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Lengi hefur verið vitað að skólakerfi borgarinnar hefur verið svelt árum saman. Hver ætlar að taka ábyrgðina á því? Er ekki alveg ljóst að þeim sem vermt hafa formannssæti skóla- og frístundarráðs sl. 10 ár hafi mistekist? Þessum formönnum hefur mistekist að glíma við fjármálaöfl borgarinnar, fjárveitingarvaldið (FMS) eins og vísað er í í skýrslu IE. Það er hópurinn sem ákveður upphæðirnar og í hvað átt peningar borgarbúa fara en aðeins eftir atvikum fer skjalið til skoðunar hjá meirihlutanum og borgarstjóra. Síðan er það hið ótrúlega plástraða úrelta excel skjal sem virðist lifa sjálfstæðu lífi í borgarkerfinu. Skólastjórar fá enga aðkomu að ákvörðun um ramma sinnar stofnunar. Þeir mega bara senda inn óskalista og fá aðeins brot af þeim óskum uppfylltum eins og segir í skýrslunn: Skólarnir standa almennt frammi fyrir því að nánast allir rekstrarliðir fá of knappt fjármagn.

Lokanir Laugavegar og Skólavörðustígs.
Bókun  Flokks fólksins undir 12. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí:

Nú hefur þessi skipulagslýsing verið samþykkt þrátt fyrir að ekkert samráð hafi verið haft við þá sem þessar breytingar snerta mest. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur ákveðið að hunsa skoðanir fjölda fólks, rekstraraðila og aðra hagsmunaaðila sem hrópa á hlustun. Engu breytir þótt glæný könnun sýni með afgerandi hætti að meirihlutinn í borginni er á móti þessum breytingum. Það sem meirihlutinn kallar samráð er að bjóða fólki til fundar, leyfa því að blása út en ekkert er síðan gert með óskir þeirra hvað þá kröfur. Ekki er einu sinni reynt að mæta borgarbúum á miðri leið. Þetta er taktík sem meirihlutinn í borginni bregður fyrir sig og þetta kallar „mikið og gott samráð“. Nýjustu viðbrögð meirihlutans í borgarstjórn er að segja að „Flokkarnir sem mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur höfðu allir þá stefnu að gera Laugaveg að varanlegri göngugötu og umboð kjósenda því skýrt“. Öll vitum við að umboð þessa meirihluta er tæpt og stendur hann því á brauðfótum. Að vísa í eitthvað umboð er því túlkað sem örvæntingarviðbragð. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að í þessu máli stígi meirihlutinn aftur á bak um nokkur skref og byrji á byrjuninni sem er að hafa alvöru samráð.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins um snjallvæðingu í umferðar- og ljósastýringu 2020

Flokkur fólksins hefur verið með fjölmargar tillögur sem miðast að því að létta á umferð og leysa verstu hnútana m.a. tillögu um ljósastýringu. Engin þeirra hefur svo mikið sem fengið vitsmunalega umræðu heldur afgreiddar með einhverri rakaleysu.  Þessi tillaga sem nú er lögð fram, að undirbúa útboð vegna ljósastýringar og snjallvæðingar í umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu ætti að vera fyrir löngu komin fram og auðvitað að frumkvæði meirihlutans.  Til áþreifanlegra ráða þarf að grípa enda er ástandið í umferðarmálum borgarinnar grafalvarlegt og varla um annað talað. Forstjóri Strætó hefur komið með þá hugmynd að vagnarnir aki á móti umferð til að komast aðeins hraðar en fetið þegar umferðarþunginn á morgnana og síðdegis í höfuðborginni er sem mestur. Þetta er örvæntingaróp stjórnanda um að fá einhverja lausn og það ber að virða þótt hugmyndin sé óraunhæf. Meirihluti borgarstjórnar, núverandi og fyrrverandi, hafa ekki tekið á þessum málum ella væri staðan ekki svona slæm. Viðbrögðin hafa verið meira í áttina að því að vilja strípa miðbæinn af bílum. Þeir sem þrjóskast við, þeim er hótað með tafagjöldum.  Ýmis inngrip meirihlutans ætluð til lausna hafa verið sérkennileg og jafnvel gert ástandið verra. Nærtækt dæmi er að hleypa umferð upp Laugaveginn eða loka fyrir beygur víðs vegar án skiljanlegra raka eða sjáanlegs ávinnings.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um innleiðingu matarstefnu

Af hverju framkvæmdarhluti stefnunnar er lagður fram akkúrat núna á fundi borgarstjórnar er kannski vegna sérkennilegs málflutnings oddvita VG í síðustu viku þar sem hún stökk fram og sagðist vilja draga úr dýraafurðum.  Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af þessum öfgum og á því erfitt með að treysta hvað verður í reynd þótt matarstefnuplaggið virðist frekar saklaust. Borgarfulltrúa hugnast engar öfgar í þessu frekar en öðru og óttast forræðistilhneigingu meirihlutans. Í skýrslu innri endurskoðunar kemur fram að „SFS telur að matarstefna borgarinnar setji skólasviðinu þröngar skorður hvað varðar valkosti m.a. með tillliti til frekari útvistunar á þjónustu skólamötuneyta“. Þetta er áhyggjuefni. Í tillögunni er talað um að það sé grundvallarmannréttindi að hafa aðgengi að heilsusamlegum og öruggum mat. Í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins minna á að 3700 manns fengu ekki að borða í sumar þegar góðgerðarsamtök lokuðu. Hvar eru mannréttindin fyrir þennan stóra hóp? Reykjavíkurborg ber sem sveitarfélag skylda samkvæmt lögum að sjá til þess að allir fái grunnþörfum sínum fullnægt. Á ekki borgarmeirihlutinn að byrja að tryggja að allir fái að borða áður en hann fer að koma með yfirlýsingar um hvað eigi að vera á diskunum okkar?

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um hönnunarsamkeppni um nýjan leik- og grunnskóla í Skerjafirði.

Flokkur fólksins veltir fyrir sér tímaásnum í þessu sambandi. Það er varla komin röðin að hönnunarsamkeppni þegar deiliskipulagið í Skerjafirði hefur ekki verið samþykkt? Þetta hefur ekkert að gera með að vera með eða á móti leikskólum. Vonandi rísa þeir upp hið fyrsta eftir að deiliskipulag í Skerjafirði hefur farið í umhverfismat og í kjölfar þess fengið samþykki. Á þessum sama fundi í dag er einmitt lagt til að Skerjafjörðurinn fari í umhverfismat.
Flokkur fólksins veltir líka fyrir sér kostnaði við hönnunarsamkeppni sem þessa. Eitthvað hlýtur svona ferli að kosta borgina og þess þá heldur skiptir máli að keppni af þessu tagi sé á eðlilegum tímapunkti. Í ljósi nýútkominnar svartrar skýrslu innri endurskoðanda um ástandið í skólakerfinu eftir langvarandi svelti skólakerfisins verður að huga að ráðdeild og hagkvæmni. Mikilvægt er að flýta sér hægt og tryggja með því auknar líkur á að fé borgaranna sé vel varið. Flokkur fólksins greiðir því atkvæði gegn tillögu um að efna til hönnunarsamkeppni sem snýr að Skerjafirði á þessum tímapunkti. Til stendur að fylla fjörur Skerjafjarðar á stóru svæði. Umhverfismat verður því að fara fram áður en farið er í svo viðamikla óafturkræfa framkvæmt þar sem dýrmætt landsvæði og einstakar fjörur eru undir.