Borgarráð 21. júlí 2022

Bókun Flokks fólksins við bréfi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 18. júlí 2022, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki viðauka á samkomulagi um uppbyggingu á lóðinni Snorrabraut 54:

Fram kemur í viðauka að komi til uppbyggingar íbúða sbr. 3. gr. samkomulags, dags. 9. febrúar 2018, samþykkir Snorrabragur ehf. að Félagsbústaðir hf. hafi kauprétt á tveimur íbúðum í húsum á lóðinni í samræmi við samningsmarkmið Reykjavíkurborgar. Flokkur fólksins hefur lagt það til að samningsmarkmið Reykjavíkurborgar verði endurskoðað og að hlutfall íbúða sem kemur í hlut Félagsbústaða verði aukið. Það getur reynst vandkvæðum bundið ef Félagsbústaðir eiga aðeins lítið hlutfall íbúða ef upp koma vandamál í húsinu. Þá hefur atkvæði Félagsbústaða lítið vægi. Þetta hefur gerst t.d. í Ljósheimum 20 þar sem kona í hjólastól sem býr á 8 hæð getur ekki komist út úr húsi því hún getur ekki opnað lyftuna vegna þyngsla lyftuhurðarinnar. Húsfélagið neitar að fjárfesta í sjálfvirkum hurðaopnara og lyftufyrirtækið telur sig ekki ábyrgt eftir því sem Flokkur fólksins kemst næst. Konan hefur ekki komist út úr íbúð sinni á eigin spýtur í tvö ár. Vegna þess að Félagsbústaðir eiga aðeins tvær íbúðir í húsinu hefur fyrirtækið ekkert vægi í húsfélaginu.

 

Bókun Flokks fólksins bréfi skrifstofu borgarstjóra og borgarritari, dags. 18. júlí 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við kaupsamning vegna Gufunesvegar 34 og Þengilsbáss 1:

Verið er að samþykkja mál sem hefur verið erfitt og sorglegt mál. Um er að ræða Þengilsbás 1 og Gufunesveg 34, Loftkastalamálið. Á eigendum hefur Reykjavíkurborg brotið og dregið fólkið á asnaeyrum í þrjú ár, látið sem verið sé að vinna í þessu en ekkert hefur gerst í þeim efnum. Nú er þess vænst að Reykjavíkurborg sjái sóma sinn í að viðurkenna mistök sín í þessu máli og ná lendingu við eigendur sem þeir geta sætt sig við eftir þriggja ára þrautagöngu. Mistökin fólust í að borgin útfærði ekki í deiliskipulagi það sem þó ber að gera skv. skipulagsreglugerð, afstöðu gatna og jarðvegs við gólfhæð 1. hæðar húsa miðað við hæð landslags á lóðum. Þetta er ákveðið og gert án vitundar aðila. Eigendur hafa ekki getað nýtt byggingarréttinn vegna mistakanna. Ennþá er ekki ljóst af hverju lóðin er ekki tilbúin og ekki liggur fyrir hvað Reykjavíkurborg hyggst gera til að leiðrétta þessi mistök. En fyrst er að viðurkenna mistökin og sýna hógværð og lítillæti gagnvart eigendum sem keyptu byggingarréttinn í ákveðnum tilgangi, fullir af trausti til borgaryfirvalda. Ljóst er að þessi mistök þarf að leiðrétta og ljúka málinu á þann veg að eigendur geti við unað. Vonandi ber Reykjavíkurborg gæfa til þess.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 18. júlí 2022 um að sameina menningar- og ferðamálasvið og íþrótta- og tómstundasvið:

Hér eru reyndar um frekar ólík svið að ræða en vissulega má finna sameiginlega fleti. Ef þetta verður til þess að ná hagkvæmni og skilvirkni er Flokkur fólksins sáttur við sameininguna. Markmiðið með sameiningunni er að styrkja málaflokka menningar, íþrótta og skipulagðra tómstunda af fjölbreyttu tagi með því að nýta samlegð í innviðum og miðlægri stjórnsýslu ásamt því að kortleggja sameiginleg sóknarfæri til framtíðar eins og segir í skilgreiningu. Ekki er nú líklegt að sameiningin styrki málaflokkanna neitt sérstaklega að mati Flokks fólksins ef horft er til fyrri skipunar þar sem hvor málaflokkur hafði sitt eigið ráð. Skipa á starfshóp embættismanna sem heldur utan um verkefnið. Spyrja má af hverju hópurinn er aðeins skipaður embættismönnum og hvort einhver aukakostnaður fylgi vinnu hópsins. Flokkur fólksins mun leggja fram formlega fyrirspurn um þessi atriði.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögum um að auglýsingu um starf sviðsstjóra menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs:

Flokkur fólksins telur að bíða ætti með þessa ráðningu þar til búið er að ræða málið í borgarstjórn. Hér þarf að vanda til verka

 

Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. júlí 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað Reykjavíkurborgar vegna borgarlínu, sbr. 69. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. mars 2022:

Flokkur fólksins spurði um kostnað Reykjavíkur við borgarlínuverkefnið. Reykjavík hefur nú þegar greitt rúmlega 1,7 milljarð í borgarlínu. Í svari segir að ef tekið er mið af íbúafjölda þann 1. desember 2021 er hlutur Reykjavíkurborgar í þeirri fjárhæð 8,46 ma.kr. eða 56,4%. Segir enn fremur í svari að ekki sé fyrirsjáanlegt að borgarlína bæti samgöngur á næstu árum því verkefninu er frestað nú um eitt ár og frekari frestanir eru líklegar. Flokkur fólksins vill benda á að 8,46 milljarðar í borgarlínuverkefnið er ekki lítil upphæð þótt það slái ekki við útgjöldum vegna stafrænna tilrauna og uppgötvunarvinnu en nú þegar hafa 13 milljarðar farið í stafræna umbreytingu og hvergi er lát á enda þótt fáar stafrænar lausnir séu komnar í virkni og farnar að skila sér til borgarbúa að heitið geti. Það kom sennilega fæstum á óvart að borgarlínuverkefnið standi ekki undir væntingum hvað tímalínu varðar. Skipulagsyfirvöldum í borginni þykir þessi seinkun „hundleiðinleg“ eins og það er orðað og þar við látið sitja. Flokkur fólksins telur óvissuþætti þessa verkefnis marga og eftir því sem tíminn líður verði þeir jafnvel fleiri. Ekki tókst að leggja af stað með raunhæfar áætlanir sem lofar ekki góðu og er ekki beinlínis til að auka tiltrú á verkefnið sem hefur verið afar umdeilt frá byrjun.

 

Bókun Flokks fólksins undir 1. lið fundargerðar innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 14. júlí 2022:

Undir þessum lið er lagt til við innkaupa- og framkvæmdaráð að gengið verði að lægsta gilda tilboði sem er frá KPMG að fjárhæð kr. 15.587.400 Enn og aftur kemur fram að þegar fjallað er um stafræna tækni er alltaf um himinháar upphæðir að ræða. Verðskynjun verður kannski lítil við slíkar aðstæður. Ráðgjafafyrirtæki stýra orðið þessum málum í borginni eftir því sem næst er komist þar á meðal fjármálum og starfsmannamálum. Flokkur fólksins veltir því upp hvort verið sé að reka þennan málaflokk í borginni á sem hagkvæmasta hátt og af skynsemi.

 

Bókun Flokks fólksins við  fundargerð stafræns ráðs frá 29. júní 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur lengi gagnrýnt forgangsröðun og verklag þjónustu- og nýsköpunarsviðs í stafrænni umbreytingu Reykjavíkurborgar. Bent hefur verið á mörg atriði sem ekki virðast hafa verið í takti við nútímakröfur um árangursstjórnun. Háum fjárhæðum hefur verið sóað í botnlausar uppgötvanir og tilraunir sem ekki hafa skilað þeim árangri sem lagt var upp með. Þrátt fyrir metnaðarfullar glærukynningar þar sem öllu virðist tjaldað til í glæsileika er ekki til að dreifa í sama mæli nothæfum afurðum eða lausnum sem gætu liðkað fyrir þjónustu eða létt undir með starfsfólki. Dæmi um þetta er að finna í niðurstöðum könnunar á vegum Borgarskjalasafns. Þar segir: „Niðurstöður könnunarinnar sýna að enn er skjalastjórn stofnana og starfseininga Reykjavíkurborgar ábótavant og litlar breytingar hafa orðið til batnaðar frá síðustu könnun árið 2017.“ Flokki fólksins finnst það undarlegt að mikilvægir þættir eins og bætt skjalastjórnun skuli ekki vera lengra á veg komin en raun ber vitni. Vísað er aftur í glærukynningar þar sem ekki voru spöruð stór lýsingarorð á verkefnum nýstofnaðrar Gagnaþjónustu sviðsins. Það er með öllu óásættanlegt að meirihlutinn í Reykjavík skuli ekki gera meiri kröfur um virka árangursstjórnun og raunhæfa forgangsröðun þjónustu og nýsköpunarsviðs en raun ber vitni.

 

Bókun Flokks fólksins við 3 lið. fundargerðar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 27. júní 2022:

Í þriðja lið fundargerðar er fjallað um launahækkun forstjóra, þar er fjallað um tillögu starfskjaranefndar dags. 13. júní 2022, um að laun forstjóra hækki um 5,5% frá 1. janúar 2022 að telja. Tillögunni fylgir greinargerð og minnisblað starfskjaranefndar. Tillagan var samþykkt. Laun forstjóra OR eru vel yfir 3 milljónum. Á meðan að manneskjur á lágmarkslaunum og undir því eiga ekki fyrir mat út mánuðinn er verið að hækka laun forstjóra sem er á ofurlaunum. Það er ljóst að launastefna borgarinnar og fyrirtækja í eigu hennar er í engu takti við veruleikann, þar sem launabilið á milli þeirra hæst launuðu og lægst launuðu er gríðarlegt í því stéttskipta samfélagi sem við búum í.

 

Bókun Flokks fólksins um ofurlaun forstjóra Orkuveitunnar undir  3. lið fundargerðar Orkuveitunnar:

Flokkur fólksins hefur áður bókað um laun forstjóra. Hér er lögð fram tillaga starfskjaranefndar, dags. 13. júní 2022 um að laun forstjóra hækki um 5,5% frá 1. janúar 2022 að telja. Athyglisvert er að í sömu fundargerð sé fjallað um hækkun launa forstjóra afturvirkt og bætur vegna ólögmætra uppsagna. Flokkur fólksins finnst þessi laun vera út úr öllu korti. Allir vita hvaða ástand ríkir nú í samfélaginu. Verðbólga hefur ekki verið eins há síðan fyrir hrun. Þurfa ekki forstjórar að axla einhverja ábyrgð eða eru þeir undanþegnir ábyrgð sem öðrum er gert að axla? Það er ekkert lögmál að forstjórar eigi að vera á ofurlaunum. Rökin fyrir svo háum launum forstjóra eru oft á þá leið að þeir séu að standa sig svo vel í starfi. Þetta eru undarleg rök, eins og það sé ekki beinlínis sjálfgefið að forstjóri standi sig vel. Forstjórar orkufyrirtækja eru sárafáir en þeir eru í höfrungahlaupi hver við annan og hækka á víxl í launum.

 

Bókun Flokks fólksins undir 11. lið embættisyfirlitsins um undirskriftarlista og erindi foreldra Leiknisiðkenda um afnot að Austurbergi:

Foreldrar í Leikni hafa lengi vonast til að börnin geti æft inni á veturna í Austurberginu þar sem Fellaskóli, núverandi innanhúsaðstaða er ekki nægilega oft laus. Æfingar eru oft seint og er aðstaðan ekki eins góð og í Austurbergi. Afar brýnt er að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar fyrir börn í Efra- Breiðholti. Flokkur fólksins hefur áður látið sig málefni Leiknis varða sem er lítið félag sem berst í bökkum í hverfi sem er mannmargt og þar sem býr einn mesti fjölbreytileiki mannlífs. Í þessu hverfi eru innflytjendur hlutfallslega flestir og í þessu hverfi er frístundakortið því miður langminnst nýtt. Hér er tækifæri til að gera vel við Leikni í þágu barna í Efra-Breiðholti. Leiknir á litla von á að stækka ef ekki er aðstaða til að reyna það. Félagið á undir högg að sækja vegna slakra innviða og báglegrar aðstöðu. Undirskriftarlisti foreldra var afhentur borgarstjóra rétt fyrir kosningar. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna borgarstjóra á þennan lista og hvetja meirihlutann til að taka þetta skref til að bæta ástundun og upplifun barna í Efra-Breiðholti. Það er afar brýnt að Leiknir fái tækifæri til að útvíkka starfsemi sína og bæta við íþróttagrein en þar er fyrir aðeins knattspyrna og blak.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að Reykjavíkurborg ákveði sveigjanleg starfslok fyrir þá sem náð hafa 70 ára aldri

Flokkur fólksins leggur til að leitað verði leiða til að bjóða eldri borgurum upp á sveigjanlegri vinnulok. Tillagan nær til allra eldri borgara sem starfa á vegum Reykjavíkurborgar en nú er fólki gert að hætta störfum við sjötugsaldur hvort sem því líka það betur eða verr. Þessi tillaga hefur áður verið lögð fram af Flokki fólksins en ekki fengið skoðun heldur verið svarað með því að einhver hópur sé að skoða málið. Af þeim hópi hefur ekkert frést. Lengi hefur það gilt að opinberir starfsmenn láti af störfum sjötugir að aldri, sama á hvaða sviði þeir eru. Reykjavíkurborg getur tekið ákvörðun um sveigjanleg starfslok sé áhugi fyrir því. Hér er um pólitíska ákvörðun að ræða. Ýmist gæti viðkomandi haldið áfram vinnu á starfssamning sínum eða gert nýjan. Eðlilegt er að þeir sem starfa eftir sjötugt haldi sínum kjörum/njóti sömu kjara og þeir sem eru yngri. Það eru mannréttindi að geta tekið ákvarðanir um atvinnumál sín. Það hlýtur að vera réttur hvers og eins án tillits til hvort mannekla ríki í ákveðnum störfum eða hjá ákveðnum stéttum. Missir er fyrir samfélagið að sjá á eftir því fólki af vinnumarkaði fyrir þær einar sakir að ná sjötugsaldri. Um er að ræða dýrmætan mannauð.

Greinargerð

Sveigjanleg starfslok eru sjálfsögð mannréttindi. Ekki vantar störfin, en mikil vöntun er á vinnuafli nánast hvert sem litið er. Reykjavíkurborg hefur verið óvenju þversum þegar kemur að sveigjanlegum vinnulokum. Í stað þess að sjá ávinninginn svo ekki sé talað um réttlætið í frelsi einstaklings til að vinna eins lengi og hann vill og getur, hefur borgin sett skorður og girðingar. Það helsta sem boðið er upp á nú er heimild til að óska eftir undanþágu til eins árs hverju sinni. Ekki er vitað hversu auðfengin slík undanþága er. En betur má ef duga skal. Flokkur fólksins segir burt með girðingar og hindranir þegar kemur að aldri og atvinnumálum.

Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að minnisblað borgarlögmanns er snýr að gjaldi af handhöfum P-korta í bílatæðahúsum verði gert aðgengilegt almenningi:

Flokkur fólksins leggur til að minnisblað borgarlögmanns þar sem fram kemur sú niðurstaða að borgarlögmaður telur að Bílastæðasjóði hafi verið óheimilt að taka gjald af handhöfum P-korta verði gert opinbert almenningi. Flokkur fólksins gerir sér grein fyrir að efni minnisblaðsins er viðkvæmt fyrir meirihlutann enda eindæmi að borgarlögmaður taki stöðu gegn borgarmeirihlutanum. Flokkur fólksins krefst fulls gegnsæis eins og síðasti og þessi meirihluti boðar í sinni stefnu. Í skýringum frá borginni af hverju feluleikur ríkir í kringum umrætt minnisblað kemur fram að ekki hafi verið tekin afstaða af hálfu Reykjavíkurborgar hvort afhenda eigi minnisblaðið almenningi til skoðunar. Minnisblaðið hefur um tíma verið í umferð fjölmiðla sem fjallað hafa um efni þess en almenningi er ekki ætlað að sjá það. Það er sérkennilegt. Ekki þarf að hafa öflugt ímyndunarafl til að koma niður á skýringu af hverju Reykjavíkurborg vilji að sem minnst fari fyrir þessu minnisblaði. Verið er að taka gjald af öryrkjum með stæðiskort þegar ekki á að gera það. Hér er um skattheimtu að ræða, búið er að takmarka þau réttindi sem handhafar stæðiskorta njóta. Flokkur fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um málið og má bæta við einni spurningu í viðbót, hún er hvort Reykjavíkurborg ætli ekki að taka mark á borgarlögmanni?

Greinargerð

Árið 2019 voru ný umferðarlög samþykkt þar sem skýrt er kveðið á um að handhöfum stæðiskorta sé heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án greiðslu og einnig að handhafar stæðiskorta megi leggja í sérmerkt bílastæði í öllum göngugötum.

Fulltrúi Flokks fólksins telur málið alvarlegt og óskar upplýsinga um hvort aðgengis- og samráðsnefnd Reykjavíkur muni ekki fjalla um málið og álykta um að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða skuli undanskildir gjaldskyldu í borgarlandinu, hvort sem er í bílastæðahúsum, bílskýlum eða á götum úti? Í meira en þrjú ár hefur bílastæðasjóður brotið á þeim sem aka á P-merktum bílum.  Spurning hlýtur að vera um að endurgreiða fólkinu til baka eða bjóða þeim aðrar skaðabætur.

Vísað til umsagnar borgarlögmanns.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnafulltrúa Flokks fólksins um að eldri búningsklefar Sundhallarinnar verði aðgengilegir á opnunartíma, allan daginn en ekki aðeins hálfan:

Flokkur fólksins leggur til að gamli kvennaklefinn í Sundhöll Reykjavíkur sem nú hefur verið gerður upp standi konum sem sækja Sundhöllina til boða allan opnunartíma Sundhallarinnar eins og rými leyfir en ekki aðeins hálfan daginn. Flokkur fólksins barðist allt síðasta kjörtímabil fyrir því að konur fengju, eins og karlar, aftur gamla búningsklefann sinn í aðalbyggingu Sundhallar Reykjavíkur að endurgerð lokinni. Rík áhersla var lögð á þetta ekki síst vegna þess að óvenju langur spölur utandyra er frá hinum nýju klefum og út í laug. Konur og stúlkum í skólasundi hefur verið gert að ganga þennan veg í hvaða veðri sem er í blautum sundfötum. Þessari kröfu Flokks fólksins í formi tillögu var hafnað. Undir lok síðasta kjörtímabils eftir að málið hafði verið ítrekað reifað og um það skrifað í fjölmiðlum var opnað fyrir aðgang að búningsklefum kvenna en aðeins hálfan daginn. Þetta nær engri átt. Þær konur sem óska eftir að nota gömlu endurgerðu búningsklefana eiga að hafa aðgang að honum þann tíma sem Sundhöll Reykjavíkur er opin. Annað er mismunum og ósanngirni. Körlum var aldrei úthýst úr gömlu búningsklefunum og hafa aldrei þurft að berjast fyrir neinu sambærilegu og þessu. Flokkur fólksins telur að hér sé verið að mismuna kynjum. MSS22070133

Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sölu á moltu og metani:

Flokkur fólksins hefur oft lagt fram fyrirspurnir um moltu og metan sem sendar hafa verið til SORPU til þess að fá svör. Svör hafa hins vegar borist seint ef þá nokkuð. 10. júní 2022 lagði Flokkur fólksins fram fyrirspurn um kaup á sorphirðubifreiðum og hvort skoðað hafi verið að kaupa metanbifreiðir. Engin svör hafa borist. Fram kemur hjá framkvæmdarstjóra SORPU í fjölmiðlum að metan sé notað til að knýja bíla á höfuðborgarsvæðinu og bíla í iðnaði. Flokkur fólksins spyr í hvað miklum mæli þetta er en talað er eins og þetta sé í miklum mæli. Sannarlega er ekkert lát á metanframleiðslunni en er það rétt að hún sé öll seld eins og fyrrum stjórnarformaður fullyrti fyrir kosningar? Fráfarandi stjórnarformaður SORPU fullyrti einnig í borgarstjórn að aldrei hafi staði til að selja moltu. Í viðtali við stjórnenda SORPU í Morgunblaðinu 21. júlí er hins vegar fullyrt að sala moltu muni gefa SORPU verulegar tekjur. Hvor fullyrðingin er rétt? Spurt er jafnframt um af hverju ekki komi ákall frá SORPU um að afhendingarstöðum fyrir metan á bíla á höfuðborgarsvæðinu verði fjölgað, en þær eru aðeins 7. Enda þótt þetta sé ekki á forræði SORPU, getur SORPU beitt sér af krafti. MSS22070134

Vísað til umsagnar SORPU bs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjárhagslegan ávinning sameiningar MOF og ÍTR:

Flokkur fólksins óskar upplýsinga um kostnaðarhagræðingu vegna sameiningar menningar- og ferðamálasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs. Einnig er spurt um hvort einhver annar aukakostnaður tengist þessari sameiningu og ef svo er hver hann er og hvernig til kominn. MSS22070137

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.