Borgarráð 23. janúar 2020

Tillaga Flokks fólksins að stjórnarmaður Reykjavíkur í Sorpu víki sæti úr stjórn og ætti í raun öll stjórnin að segja af sér.

Flokkur fólksins leggur til að stjórnarmaður Reykjavíkur í Sorpu víki sæti úr stjórn og ætti í raun öll stjórnin að segja af sér. Henni hefur mistekist hlutverk sitt. Enn ein svört skýrsla innri endurskoðunar hefur birst á þessu kjörtímabili sem varla er hálfnað og snýr nú að stjórnarháttum Sorpu. Í skýrslunni koma fram  ástæður fram­úr­keyrslu sem varð á áætl­uðum fram­kvæmda­kostn­aði vegna bygg­ingar gas- og jarð­gerð­ar­stöðvar í Álfs­nesi og mót­töku­stöðvar í Gufu­nesi. Framkvæmdarstjórn, undir stjórn stjórnar Sorpu hafði lagt til að tæpum 1,4 millj­örðum króna yrði bætt við fjár­hags­á­ætlun fyr­ir­tæk­is­ins vegna næstu fjög­urra ára.  Innri end­ur­skoðun Reykja­vík­ur­borgar gerði jafn­framt úttekt á stjórn­ar­háttum félags­ins og fann þar margt athugavert og jafnvel ámælisvert. Að sögn fram­kvæmda­stjóra höfðu hvorki stjórn­ar­for­maður né aðrir stjórn­ar­menn frum­kvæði að því að afla upp­lýs­inga um heild­ar­kostnað á hverjum tíma til að gera við­eig­andi sam­an­burð við áætl­an­ir. Í kjölfari áfellisdóms sem stjórnin fær hlýtur stjórnarmaður Sorpu að víkja úr stjórn? Það er varla hægt að henda allri ábyrgðinni á framkvæmdarstjórann? Ábyrgðin hlýtur fyrst og fremst að vera stjórnarinnar í þessu máli. Stjórn Sorpu reynir að fría sig ábyrgð m.a. með því að segja að hún hafi kallað eftir úttekt innri endurskoðunar.

Greinargerð

Í skýrslunni eru marg­hátt­aðar athuga­semdir. Á meðal þess sem fram kemur í skýrsl­unni að stýri­hópur eig­enda­vett­vangs og rýni­hópur stjórnar Sorpu, sem áttu að hafa eft­ir­lit með verk­efn­inu, hafi reynst lítt virk­ir. Þá hafi fram­vindu­skýrslur fram­kvæmda­stjóra til stjórnar vegna bygg­ingar GAJA verið ómark­vissar og stundum með röngum upp­lýs­ing­um, auk þess sem skýrslu­gjöf hefði átt að vera reglu­bundn­ari. Í skýyrslu innri endurskoðunar segir m.a.: „Full­nægj­andi upp­lýs­inga­gjöf og mis­vísandi orða­notkun í skýrslum til stjórnar var sér­stak­lega óheppi­leg þar sem stjórn Sorpu var að meiri­hluta skipuð nýjum full­trúum eftir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar 2018 auk þess sem nýr for­maður stjórnar hafði ekki verið áður í stjórn.“

Varla er búið að gleyma því að stjórn Sorpu óskaði nýlega eftir að Reykjavík veiti samþykki sitt fyrir lántöku vegna mistaka sem gerð voru hjá Sorpu. Sótt var um 990 milljóna króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Engar haldbærar skýringar voru gefnar fyrir því að það vantaði rúman 1.6 milljarð inn í rekstur Sorpu. Stjórnarmeðlimur borgarinnar í Sorpu var bara pirruð á minnihlutanum að samþykkja þetta ekki möglunarlaust í borgarstjórn. Meirihlutinn í borginni spurði einskis, gekk bara þegjandi í ábyrgð fyrir láni af þessari stærðargráðu. Reykjavík sem meirihlutaeigandi situr í súpunni þegar kemur að þessum byggðasamlögum. Borgin tekur mesta skellinn á meðan hin sveitarfélögin sigla lygnari sjó. Flokkur fólksins bar fram tillögu um að borgin skoði fyrirkomulag byggðasamlaga með tilliti til lýðræðislegra aðkomu borgarbúa að þeim. Hún var ekki samþykkt. Í ítrekuðu klúðri Sorpu kristallast þetta. Ef borgin ætlar að halda áfram að vera „mamman“ þarf fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga þá á Reykjavík jafnframt að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá ábyrgð. Stjórnarmaður borgarinnar þarf einnig að vera manneskja sem er laus við meðvirkni og er tilbúin að spyrna við fótum sé eitthvað rugl sýnilega í gangi.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra að veita Main Course ehf vegna Food og Fun 5 milljóna króna styrk:

Reykjavík vill styrkja Food and Fun til tveggja ára um fimm milljónir. Samkomulag þetta gildir fyrir árin 2020 og 2021 og greiðir Reykjavíkurborg Main Course ehf. 2.500.000 kr. í styrk á ári til að standa straum af kostnaði vegna kynningar hátíðarinnar. Flokkur fólksins heldur að það sé engin þörf á að borgin setji þetta fé í hátíðina þar sem hún mun án efa vera bæði metnaðarfull og glæsileg án þessa framlags borgarinnar. Hátíðina sækja auk þess kannski bara afmarkaðir hópar, efnameira fólk þ.e. þeir sem hafa efni á að fara á þessa veitingastaði. Vel má vera einnig að hátíðin sé að miklu leyti hugsuð til að laða að ferðamenn.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs vegna breytingar sem nær eftir Tryggvagötu frá gatnamótum Grófar og Pósthússtrætis:

Flokkur fólksins lýsir furðu sinni á að í nýju skipulagi við Tryggvagötu á að þurrka út 40 til 50 bílastæði og með því skerða aðgengi almennings að þeim stofnunum og öðrum þjónustuaðilum sem eru við götuna, þá sérstaklega eldri borgara. Aðeins er gert ráð fyrir þremur bílastæðum fyrir fatlað fólk. Sífellt er bent á bílastæðakjallara sem Reginn rekur. Það hefur ekki verið mikið auglýst. Meirihlutinn neitar að horfast í augu við þá staðreynd að það treysta sér ekki allir í bílastæðakjallara jafnvel þótt þeir séu vel hannaðir. Bent skal á að stæðaleiga í þessum bílastæðageymslum er há og fælir borgara annarra hverfa frá að sækja í miðbæinn hvað þá að nýta sér þá þjónustu sem þar er í boði. Það er verulega leiðinlegt hvað íslendingar sem koma lengra frá og fatlað fólk er gert erfitt fyrir með aðgengi.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs þar sem óskað er eftir að heimila útboð vegna mötuneyta:

Fyrir liggur beiðni um útboð vegna endurnýjunar mötuneyta og taka á mið af aðstæðum í skólum. Þetta er hið besta mál enda eru aðstæður í sumum skólum slæmar. Flokkur fólksins vill nefna í þessu sambandi ólík rekstrarform sem eru í gildi í mötuneytum skólanna. Sennilega eru einar 3-4 útfærslur á rekstrarformi/fyrirkomulagi mötuneyta og þar að leiðandi lítið um samræmi. Fram hefur komið í athugunum að matarsóun er víða mikil í skólum. Það er mat Flokks fólksins að skilgreina þurfi þjónustusamninga upp á nýtt og bjóða rekstur skólaeldhúss og mötuneytisreksturs þeirra út. Það mun auka gæði mötuneytisfæðis og líkur eru á að það fyrirkomulag sem verður ofan á verði það sem er hagkvæmast.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að útvíkka starfsemi Afleysingastofu:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi hugmynd um Afleysingastofu góð. Einkennilegt er engu að síður hvað há upphæð er áætluð í veikindi og þjálfun afleysingafólks eða samtals 4.5 m.kr. Stærsti hluti upphæðarinnar eru víst þjálfunarkostnaður. Í þessu sambandi hefði maður haldið að eðlilegrar væri að gera verktakasamninga við afleysingafólkið. Vissulega á fólk sinn veikindarétt sé það ráðið sem launþegar samkvæmt ákvæðum kjarasamninga um veikindarétt. Fulltrúi Flokks fólksins taldi það víst þegar umræðan um Afleysingastofu hófst að afleysingafólk yrði ráðið sem verktakar. Slíkt fyrirkomulag á betur við í þessu tilliti. Hér um að ræða afleysingarfólk sem leysir öllu jafnan af í stuttan tíma og því alls ekkert óeðlilegt við að verktakafyrirkomulagið sé haft þar á. Í verktakasamningi má skilgreina og skýra allt sem skýra þarf í tengslum við starfið. Gera ætti verktakasamninga við afleysingafólkið án milligöngu einhvers fyrirtækis enda myndi slíkur milliliður aðeins flækja málið.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að gera jafnréttismat vegna ákvörðunar um styttingu opnunartíma leikskóla:

Það er ámælisvert að enginn fulltrúi foreldra sat í hópnum og enginn fulltrúi foreldra sat á þeim fundi sem ákvörðunin var tekin. Nú skyndilega á að gera jafnréttismat. Hefði ekki verið eðlilegt að byrja á því? Nú er talað um mótvægisaðgerðir til að koma til móts við þá foreldra sem þetta kemur illa við. Hvernig mótvægisaðgerðir eru það. Á að finna millivistun? Er það gott fyrir barn að fara af leikskóla sínum í aðra vistun áður en það kemst heim til sín? Grunnvandinn er mannekla/undirmönnun og þá er gripið til þess ráðs að stytta opnunartíma. Á sama kannski að gilda um dagvistun aldraðra, þar er líka mannekla og álag. Nú var verið að samþykkja að útvíkka Afleysingastofu. Samt er ekki gert ráð fyrir að það fólk geti komið inn nema í langtímaveikindum starfsfólks. Hér var ekki hugsað um afleiðingar fyrir þá foreldra sem eru fastir í vinnu samkvæmt ráðningarsamningi til kl. 16.30. Almennt eru börn í leikskóla í sínu hverfi. Foreldrar vinna kannski sjaldnast í sínu hverfi heldur jafnvel langt frá og margir sitja einmitt á þessum tíma fastir í umferðarteppum. Í öllu þessu máli finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins einnig vera gert lítið úr foreldrum. Foreldrar þekkja börn sín, líðan þeirra og þarfir og bregðast við þörfum þeirra t.d. ef í ljós kemur að níundi tíminn á leikskóla sé barninu erfiður.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu erindisbréfs starfshóps um viðbrögð við bótakröfum á hendur Reykjavíkurborg:

Starfshópur um meðferð bótakrafna á að taka til starfa. Borgin hefur undanfarin ár þurft að greiða fjárfúlgur í bótakröfur af alls kyns orsökum, sumar tilkomnar vegna brota starfsmanna í starfi eða gagnvart öðrum starfsmönnum. Dæmi hafa komið upp þar sem mætti halda að borgaryfirvöld vilji bara greiða bæturnar og gleyma svo málinu, láta sem ekkert sé og viðkomandi starfsmaður heldur áfram sinni vinnu eins og ekkert hafi í skorist. Þetta hefur í það minnsta stundum verið upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins. Í tilfellum sem þessum mætti spyrja hvort sá sem skapi bótakröfu á borgina ætti ekki að axla einhverja ábyrgð, hvort ekki ættu að vera einhverjar afleiðingar t.d. að viðkomandi starfsmaður greiðir sjálfur bæturnar, alla vega hluta þeirra. En þessi vinkill er svo sem ekki hluti af verkefnum þessa starfshóps sem hér er lagt til að verði settur á laggirnar.

Bókun Flokks fólksins við svari skóla- og frístundarráðs við fyrirspurn um sérskólaúrræði fyrir börn í vanda:

Fulltrúi Flokks fólksins veit að í ýmsum skjölum borgarinnar, minnisblöðum og stefnum eru fögur fyrirheit um að laga stöðu barna í borginni sem glíma við vanda og vanlíðan. Enn einn stýrihópurinn er að taka til starfa til að skoða m.a. þessi mál. Vandinn er kannski sá að of mikið er talað og of lítið er framkvæmt. Hvorki skrif né tal um áætlanir og aðgerðir skilar barni bættri líðan og/eða aðstæðum. Staðreyndir tala sínu máli og þær hafa komið fram í viðtölum við foreldra sem segja farir sínar ekki sléttar í samskiptum sínum við skólayfirvöld í borginni. Borgarfulltrúi hefur auk þess rætt við marga foreldra sem segja að börn sín séu í aðstæðum þar sem styrkleiki þeirra fá engan vegin notið sín og þar sem þeim líður illa. Kennarar í þessum tilfellum er settir í ólíðandi aðstæður enda brenna margir hreinlega út. Það mæðir mest á kennurum þegar ótal margir foreldrar spyrja um hvenær barn fái aðstoð sem e.t.v. er búið að bíða eftir sérfræðiþjónustu eða öðru skólaúrræði í á annað ár. Ráðgjafarteymi- og svið Brúarskóla eru sannarlega að bjarga miklu en ná kannski aðeins að sinna alvarlegustu tilfellunum.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um greiðslur til EFLU sem nema á 4. milljarð á 10 árum:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst sérstakt að borgin hafi greitt á 10 árum tæpa 3.7 milljarðar til eins fyrirtækis, EFLU. Þetta gerir að meðaltal 300 milljónir á ári sem samsvarar árslaunum 6-10 sérfræðinga. Fulltrúi Flokks fólksins stóð í þeirri meiningu að í borginni starfi hópur af sérfræðingum sem gætu sinnt eitthvað af þessum verkum sem EFLU er falið að sinna. Er vandamálið það að það skorti sérfræðinga hjá borginni? Ef svarið við því er nei þá læðist að sú hugsun hvort þetta sé merki um slaka og jafnvel vanhæfa stjórnsýslu. Það væri klárlega mun ódýrar að einfaldlega ráða hæfa verkfræðinga til borgarinnar sem sinnt gætu þessum verkum sem keypt er af EFLU eða alla vega stórum hluta þeirra.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn er varðar skilamat vegna framúrkeyrsluverkefna:

Flokkur fólksins vill bóka við svar borgarinnar við fyrirspurn um skilamat vegna framkvæmda við Gröndalshús, Braggans, Hlemm, Mathallar og fleiri framúrtökuverkefni. Fram kemur að ekki á að gera skilamöt vegna þeirra verkefna sem tilgreind eru í fyrirspurninni. Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju ekki? Hvað er verið að fela? Það nægir ekki að vísa einungis til úttekta innri endurskoðunar. Í þessum málum sem voru háalvarleg er mikilvægt að upplýsa um allt sem óskað er eftir að verði upplýst og þar með talið að gera skilamat. Sífellt er talað um að auka gegnsæi og skýrleika en þegar á reynir er því einmitt hafnað. Nú er liðinn talsverður tími síðan braggamálið kom upp og mikilvægt að leggja öll spil á borðið sem tengjast því vandræðamáli og hinum málunum einnig.

Tillaga Flokks fólksins að skóla- og frístundarsvið í samvinnu við skólasamfélagið leiti leiða til að auka notkun endurskinsmerkja þar sem öryggi barna er ábótarvant í umferðinni m.a. vegna umferðaröngþveitis

Flokkur fólksins var nýlega með tillögu þess efnis að Reykjavíkurborg gefi grunnskólabörnum í Reykjavík endurskinsmerki. Með slíkri gjöf væri borgin að stuðla að auknu öryggi barna í umferðinni. Einstaklingur með endurskinsmerki sést fimm sinnum fyrr þegar það lendir í ljósgeisla bíls miðað við þann sem er ekki með endurskinsmerki. Tillagan var felld. Flokkur fólksins leggur til í framhaldinu að skóla- og frístundarráð í samvinnu við skólasamfélagið leiti leiða til að hvetja til aukinnar notkunar endurskinsmerkja og auka fræðslu til að tryggja enn frekari umferðaröryggi barna. Öryggi barna í umferðinni er víða ábótavant í borginni og kemur m.a. til vegna þess að skipulagsyfirvöld vilja ekki lagfæra umferðaragnúa þar sem þeir eru verstir og skapa mögulega slysahættu. Sem dæmi mætti öryggi með bættari ljósastýringu og fjölgun göngubrúa þar sem þeim verður við komið. Umferðarmannvirki í borginni hafa tekið litlum sem engum breytingum um árabil og engan vegin verið tekið nægjanlegt tillit til aukinnar umferðar ásamt fjölgun íbúa. Það þolir enga bið að hugað verði að velferð gangandi vegfarenda. Börnin eru í sérstakri hættu, þau sjást verr og skynjun þeirra á umhverfinu ekki fullmótuð. R19110131

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Fyrirspurnir Flokks fólksins til stýrihóps sem lagði til að stytta opnunartíma leikskóla og til skóla- og frístundarsviðs m.a. vegna jafnræðismats og vinnu stýrihópins:

Flokkur fólksins sér margar mótsagnir í málflutningi um opnunartíma leikskólanna. Grundvallarvandinn er mannekla og undirmönnum sem meirihlutinn hefur ekki viljað leysa málið. Til að leysa málið þarf að setja fjármagn í málaflokkinn svo hægt sé að ráða fólk. Talað er um álag og að það minnki mikið álag að stytta tímann en samt sagt að aðeins örfá börn séu fyrsta og síðasta hálftímann? Hér slær nokkuð úr og í og eru ekki allir leikskólakennarar á sama máli. Af hverju má ekki nota Afleysingastofu til að dekka þennan tíma? Verið var að samþykkja að víkka út Afleysingastofuna og er því vel hægt að fá afleysingu á dag basis eftir þörfum en ekki að afleysing sé aðeins notuð til að leysa af í veikindum. Sagt að þeir foreldrar sem þetta kemur illa við fái aðlögunartíma, en hvað gerist eftir að sá tími er liðinn? Sumir leikskólar eru með styttri opnunartíma, hvað gera foreldrar þar sem þurfa lengri tíma? Talað er um mótvægisaðgerðir, hvernig eiga þær að vera? Á að finna millivistun fyrir barnið, ætlar félagsþjónustan að reyna að semja við atvinnurekanda fyrir þessa foreldra sem lenda í vanda? R20010252

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar m.a. vinnu stýrihóps um styttingu opnunartíma leikskóla

Það er mat Flokks fólksins að stýrihópurinn hefur verið leiddur í gildru. Spurt er hvort þeim hafi ekki fundist vanta að heyra rödd foreldra, hafa þá með í ráðum? Gerði hópurinn ekki athugasemdir við það? Treystir meirihlutinn og skóla- og frístund ekki foreldrum til að mæta þörfum barna sinna t.d. ef barni líður illa síðasta klukkutímann? Margir foreldra biðja t.d. ömmur og afa að grípa inn í séu þau til staðar til að sækja barn sem er leitt og þreytt á leikskólanum síðasta klukkutímann? Ætlar meirihlutinn að leysa mannekluvandann og undirmönnun á leikskólum með því að ráðast að rót vandans en rót mannekluvanda eru lág laun í leikskólum? Þetta er allt spurning um launin og starfsmenn leikskóla eru á launum sem ekki er hægt að lifa af enda á leið í verkfall. R20010252

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar m.a. jafnréttismat:

Gera á jafnréttismat í tengslum við ákvörðun um styttingu opnunartíma leikskólanna. Það er afar mikilvægt í öllum málum þar sem það á við að gera jafnréttismat. Flokkur fólksins hefur áhuga á að fræðast meira um slíkt mat og spyr eftirfarandi: hver verður kostnaður við þetta jafnréttismat? Hefði það ekki átt að vera gert áður en þessi ákvörðun var tekin? Hvernig mun jafnréttismat fara fram? Eftir að jafnréttismati er lokið, hvað á að gera fyrir þá foreldra sem geta alls ekki sótt börn sín á leikskólann fyrr en kl. 17? R20010252.
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Fyrirspurnir Flokks fólksins er varðar skil upplýsinga um niðurstöður skoðunar heilsugæslu til skóla í þeim tilfellum sem niðurstöður gefa sterkar vísbendingar um að barn muni eiga við lestrar- og lesskilningsvanda:

Fulltrúi Flokks fólksins fýsir að vita hvernig skilum á upplýsingum um niðurstöður skoðunar heilsugæslu er háttað til skólanna í Reykjavík um börn sem við skoðun á heilsugæslu greinast í áhættuhópi barna sem munu eiga í erfiðleikum með lestur- og lesskilning. Það er mikilvægt að skólar fái strax þessar upplýsingar, með leyfi foreldra að sjálfsögðu, til að hægt sé að veita börnunum snemmtæka þjónustu. Sé það ekki gert eiga þau á hættu að þróa með sér djúpstæðan vanda í lestri og lesskilningi með tilheyrandi vanlíðan. Eins og allir vita þá er ekki nóg að kunna tæknilega að lesa ef lesskilningur fylgir ekki með. Að þessu þarf sérstaklega að huga að ef í ljós kemur að barn á í vanda með lestur. Þau börn þarf að halda sérstaklega utan um. Spurt er einnig: 1. Fá kennarar tækifæri til að sinna þessum börnum sérstaklega? 2. Fá þessi börn forgang í sérkennslu? 3.Hvernig er árangur mældur? 4. Fá foreldrar verkfæri til þess að styðja við börnin sem metin hafa verið í áhættu af heilsugæslunni á að vera með lesvanda? R20010302