Forsætisnefnd 31. janúar 2020

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um framsetningu lista fyrir móttökur, sbr. 21. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 30. ágúst 2019.
Samþykkt.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þakkar jákvæða umsögn um tillöguna. Markmið Flokks fólksins með fyrirspurnum sínum og tillögu eins og þessari er að auka gegnsæi við móttökur. Með auknu gegnsæi aukast líkurnar á frekari hagræðingu og sparnaði á þessu sviði. Hagræðing og sparnaður á þó aldrei að verða til þess að fólk fái færri tækifæri til að koma saman og fagna. Það sem slíkt kostar oftast ekki neitt og sé um vettvang/staðsetningu í eigu borgarinnar sem ella stendur jafnvel autt þá er hægt um vik að fagna sem mest og oftast. Oft er ekkert um að vera í Höfða sem dæmi og því sjálfsagt að nota það hús sem mest og eins borgarstjórnarsalinn. Kostnaður er mestur í veitingum og þar er mikilvægt að skoða hagræðingu og sparnað. Flokkur fólks hefur beðið um að sjá sundurliðaðan kostnað yfir móttökur og væntir þess að sundurliðaðar kostnaðarupplýsingar verði lagðar fram næst þegar yfirlit yfir móttöku/viðburði verður lagt fyrir forsætisnefnd.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að ferðakostnaður og kolefnisfótspor kjörinna fulltrúa verði birtur opinberlega:

Borgarfulltrúar meirihlutans, borgarstjóri og embættismenn fara mikið til útlanda. Kostnaður skiptir milljónum á ári. Flokkur fólksins hefur gagnrýnt þetta harðlega sér í lagi þegar hópur fólks fer frá sama sviði, ráði/flokki. Það væri mikill ávinningur að draga verulega úr ferðum erlendis. Fjárhagslegur ávinningur væri mikill og einnig umhverfisávinningur. Þær ferðir sem farnar eru og allur kostnaður í sambandi við þær er sjálfsagt að setja á vef borgarinnar. Samkvæmt umsögn er því lýst að mikill kostnaður verði við að sundurliða þessar upplýsingar og koma þeim á vefinn. Halda mætti að hægt væri að yfirstíga hindranir í þessu sambandi bæði tæknilega og aðrar án mikillar fyrirhafnar eða stórkostlegs kostnaðar.  Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að gegnsæi eigi að vera í öllu sem borgin er að gera, stjórnsýslunni og starfsfólki í samræmi við reglur um persónuvernd að sjálfsögðu. Það er ekki einungis launin sem þurfa að vera opinber heldur annað sem tengist starfi borgarfulltrúa. Ferðir og dagpeningar er hluti af þeim upplýsingum sem á að vera aðgengilegar á vef Reykjavíkurborgar. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að borgarfulltrúar kolefnisjafni ferðir sínar til útlanda og skráningar í því sambandi verði einnig á vef borgarinnar. Sú tillaga var reyndar felld.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tilmæla forsætisnefndar, dags. 31. janúar 2020, vegna borgarstjórnarfunda:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur margar af þessum reglum óþarflega stífar. Talað eru um að láta ritara vita hitt og þetta í tölvupósti t.d. frekar en að ganga að borðinu en upplifun er stundum sú að t.d. forseti fylgist ekki stöðugt með tölvupóstum. Einnig nægir vel að ávarpa aðra borgarfulltrúa með titli og eiginnafni. Einn helsti vandi á fundum borgarstjórnar að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins er stundum hvísl forseta borgarstjórnar við ritara á meðan fluttar eru ræður. Þetta er reyndar mis slæmt en afar truflandi fyrir þann sem flytur ræðuna. Eins er oft erfitt að ná athygli forseta borgarstjórnar til að fá sig setta á mælendalista. Forseti borgarstjórnar þarf að líta oftar yfir salinn. Þá þurfa borgarfulltrúar ekki að berja í borð eða slá í tölvur til að ná athygli hans. Eins þarf forseti borgarstjórnar að tala skýrar en hann gerir og hægar. Flokkur fólksins vill að fólk sem kemur á pallana  finni sig velkomið. Borgarstjórn ætti að finna leiðir til að bjóða fólki að koma sem oftast. Einnig á gestum að vera sjálfsagt að klappa, finni einhver þörf og löngun til þess.