Velferðarráð 19. ágúst 2020

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu er varðar nýja þjónustuþætti eins og þjónustu við hár og neglur.

Tillaga fulltrúa Flokks fólksins er varðar nýja þjónustuþætti eins og þjónustu við hár og neglur. Til þess að það geti verið raunverulegur kostur fyrir eldri borgara að vera sem lengst heima þá er mikilvægt að taka inn þjónustuþætti eins og aðstoð við hár og neglur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að þeir eldri borgarar sem búa einir fái aðstoð, óski þeir þess, með hár og neglur og fleira ámóta sem fólk þarfnast í sínu daglega lífi.  Sumir eldri borgarar eiga ekki ættingja til að sinna þessum þáttum eða hafa fjármagn til að kaupa þjónustuna sérstaklega. Enn aðrir hafa auk þess ekki þrek til að sækja sér svona þjónustu utan heimilis þar sem þeir einfaldlega treysta sér ekki út. Mannlegi þátturinn má aldrei gleymast þegar verið er að hanna og skipuleggja þjónustu fyrir eldri borgara hvort sem þeir búa heima eða í þjónustukjarna. Hafa þarf fullt samráð við þjónustuþegann og hugsa hvert skref út frá þörfum hans. Lagt er til að tillögunni verði vísað í starfs- eða vinnuhóp til frekari meðferðar og að gert verði kostnaðarmat.

Felld með 5 atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillögunni er hafnað á grundvelli samkeppnissjónarmiða og með tilvísun í gildandi stefnu.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins er ósáttur við að þessi tillaga hefur verið felld. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar.  Um var að ræða tillögu er  varðar nýja þjónustuþætti eins og þjónustu við hár og neglur. Ekki er skilningur á að eldri borgarar þurfi að fá þjónustu sem þessa. Til þess að það geti verið raunverulegur kostur fyrir eldri borgara að vera sem lengst heima þá er mikilvægt að taka inn þjónustuþætti eins og aðstoð við hár og neglur. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að þeir eldri borgarar sem búa einir fái aðstoð, óski þeir þess, með hár og neglur og fleira ámóta sem fólk þarfnast í sínu daglega lífi.  Sumir eldri borgarar eiga ekki ættingja til að sinna þessum þáttum eða hafa fjármagn til að kaupa þjónustuna sérstaklega. Enn aðrir hafa auk þess ekki þrek til að sækja sér svona þjónustu utan heimilis þar sem þeir einfaldlega treysta sér ekki út. Mannlegi þátturinn má aldrei gleymast þegar verið er að hanna og skipuleggja þjónustu fyrir eldri borgara hvort sem þeir búa heima eða í þjónustukjarna. Hafa þarf fullt samráð við þjónustuþegann og hugsa hvert skref út frá þörfum hans.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu um breytingar á verklagsreglum og framkvæmdaferil Vitatorgs varðandi matarsendingar til eldri borgara í heimahúsi

Tillögur Flokks fólksins um breytingar á verklagsreglum og framkvæmdaferil Vitatorgs varðandi matarsendingar til eldri borgara í heimahúsi. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til eftirfarandi breytingar er lúta að framleiðslu matarins, umbúðum og tímasetningu afhendingar hans: Að maturinn sé sendur út sama dag og hann er framleiddur. Það gerir matinn girnilegri til neyslu og hjálpar þjónustuþegum að viðhalda eðlilegri matarlyst. Að umbúðum verði breytt til að auðvelda þjónustuþegum að opna þær. Eins og umbúðir eru nú er erfitt að rífa plastið af bakkanum. Lagt er til að skoðað verði að nota lok í stað þess að líma plast yfir matarílátið. Lagt er til að maturinn komi ávallt á sama tíma eða því sem næst, með að hámarki 30 mín. skekkjumörkum. Fram hefur komið hjá fólki að tímasetningar séu ekki nægjanlega nákvæmar hjá Reykjavíkurborg. Því nákvæmari sem tímasetning er því auðveldara eiga þjónustuþegar með að undirbúa móttöku hans. Það skiptir marga eldri borgara máli að hlutir séu í föstum skorðum til að þeir geti sjálfir haldið rútínu. Það er á ábyrgð velferðarsviðs að ofangreindir þættir komist hið fyrsta í betra horf og leggur fulltrúi Flokks fólksins til að tillögunum verði vísað í starfshóp til frekari úrvinnslu og að gert verði á þeim kostnaðarmat.

Vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað frá á grundvelli þess að verklagsreglur og framkvæmdaferill eru settar af starfsmönnum velferðarsviðs en ekki í velferðarráði og með vísan í samþykkta stefnumörkun og aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara og matarstefnu.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins er ósáttur við að þessari tillögu var vísað frá. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um  breytingar á verklagsreglum og framkvæmdaferil Vitatorgs varðandi matarsendingar til eldri borgara í heimahúsi. Velferðarráð virðist ekki hafa skilning á að það þurfi að laga þessa hluti. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til eftirfarandi breytingar er lúta að framleiðslu matarins, umbúðum og tímasetningu afhendingar hans: Að maturinn sé sendur út sama dag og hann er framleiddur. Það gerir matinn girnilegri til neyslu og hjálpar þjónustuþegum að viðhalda eðlilegri matarlyst að umbúðum verði breytt til að auðvelda þjónustuþegum að opna þær. Eins og umbúðir eru nú er erfitt að rífa plastið af bakkanum. Lagt er til að skoðað verði að nota lok í stað þess að líma plast yfir matarílátið. Lagt er til að maturinn komi ávallt á sama tíma eða því sem næst, með að hámarki 30 mín. skekkjumörkum. Fram hefur komið hjá fólki að tímasetningar séu ekki nægjanlega nákvæmar hjá Reykjavíkurborg. Því nákvæmari sem tímasetning er því auðveldara eiga þjónustuþegar með að undirbúa móttöku hans. Það skiptir marga eldri borgara máli að hlutir séu í föstum skorðum til að þeir geti sjálfir haldið rútínu.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu ásamt greinargerð um breytingar á verklagsreglum sendils við afhendingu matar til eldri borgara:

Tillögur Flokks fólksins er lúta sérstaklega að verklagsreglum sendils við afhendingu matar til eldri borgara. Taka þarf tillit til margra þátta þegar reglur um verklag þjónustu við eldri borgara sem búa heima eru hannaðar. Staða eldri borgara er ólík. Það eiga t.d. ekki allir ættingja sem geta hlaupið undir bagga og það búa ekki allir í íbúðum hannaðar með hliðsjón af skertri færni og/eða hreyfigetu.  Lagt er til eftirfarandi verklag við afhendingu/móttöku matar: Þjónustuþegar láta þjónustumiðstöð vita ef þeir vilja ekki fá matarsendingu þann daginn eða til lengri tíma. Ef engin fyrirmæli eru um að matarsending eigi ekki að berast eða skuli afhendast með öðrum hætti  á að gera ráð fyrir að þjónustuþegi opni til að taka við matnum. Dæmi um önnur fyrirmæli gætu verið að viðkomandi óskar eftir að maturinn sé settur inn fyrir hurðina og hefur þá hurðin verið tekin úr lás eða að matur sé skilin eftir fyrir utan hurð. -Ef dyrabjöllu er ekki svarað þrátt fyrir að henni hafi verið hringt nokkrum sinnum þá ætti að hringja í síma þjónustuþega. Ef ekki er svarað í síma ætti sendill að hringja í ættingja (þjónustumiðstöð) sem tekur ákvörðun um framhaldið.

Greinargerð:

Heimilisaðstæður eru mismunandi. Ekki eru allir sem búa heima í þjónustuíbúð heldur eru í sínum vistarverum sem eru ekki endilega hannaðar með þarfir eldri borgara í huga. Sumar  íbúðir eru með þröskuldum sem hindra að viðkomandi komist hratt um ef hann er t.d. með skerta hreyfigetu og notast við göngugrind.

Í greinargerð þessari er nánar kveðið á um verklagsreglur sendils eins og Fulltrúi Flokks fólksins leggur þær upp eftir að hafa haft samráð við eldri borgara sem búa heima og aðstandendur.

Verklagsreglur sendils:

  1.     Ef enginn skilaboð eru um annað sbr. ofangreint þá er gert ráð fyrir að móttakandi matarins taki við honum úr hendi sendils
  2.     Ef enginn svarar dyrabjöllu, ætti sendill hinkra við og reyna að hringja í síma (þjónustuþegi gæti     mögulega ekki hafa heyrt í bjöllunni eða skroppið á salernið).
  3.     Sé síma ekki heldur svarað ætti sendill hringja í ættingja (símanúmer sem hann hefur tiltækt hjá öllum þjónustuþegum sem þiggja matinn heim) og upplýsa ættingja um stöðu mála sé ættingi til staðar en að öðrum kosti sé þjónustumiðstöð upplýst.
    Ættingi tekur ákvörðun um hvað skuli gera í stöðunni. Ættingi gæti beðið sendil um að hringja aftur eftir stutta stund (sinna öðrum matarsendingum á milli).

Með símtali sendils til ættingja (eða þjónustumiðstöð) er ættingi einnig kominn með upplýsingar um að þjónustuþegi svari hvorki dyrabjöllu né síma þrátt fyrir að hann viti að matarsending er væntanleg.
Slíkt gæti verið vísbending um að þjónustuþegi sé í vanda og kalla þurfi á lögreglu umsvifalaust.
Með þessu fyrirkomulagi er sendillinn einnig öryggisnet.
Þegar eldri borgarar eru annars vegar eru allir þeir sem hafa við þá samskipti hluti af öryggisneti.
Safnist sem dæmi matur upp hjá þjónustuþega sem óskað hefur eftir að hann sé skilinn eftir fyrir utan dyr hlýtur sendill að verða að láta ættingja eða þjónustumiðstöð vita sem myndu í framhaldi leita orsaka.

Í öllu falli þarf matarsendingin að komast til skila enda vara sem búið er að greiða fyrir. Ekki er boðlegt eða réttlætanlegt að fara aftur til baka með matarsendinguna og ætlast til að þjónustuþegi sæki hana sjálfur, sendi leigubíl eftir henni eða fái hana daginn eftir eins og hugmyndir velferðarsviðs ganga m.a. út á. Þegar ekki er komið til dyra til að taka við matnum er ekki réttlætanlegt að skilja matinn eftir á hurðarhúninum nema fyrirmæli hafi komið um slíkt.

Ef sendill lendir oft í því að koma matarsendingunni ekki til skila eins og tilætlað er að beiðni þjónustuþega eru það vísbendingar um að finna þarf aðrar leiðir við afhendingu matarins í samráði við þjónustuþegann. Sú staða gæti verið uppi að þjónustuþegi sem er eldri borgari heyri t.d. verr en haldið var og/eða áttar sig verr á hvað tímanum líður.  Eldri borgarar eru eðli málsins samkvæmt stundum svifaseinir og sumir notast við göngugrind.

Það er ábyrgð velferðarsviðs að ofangreindir þættir komist hið fyrsta í betra horf og leggur fulltrúi Flokks fólksins til að tillögunni verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu og að gert verði auk þess kostnaðarmat.

Vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað frá á grundvelli þess að verklagsreglur og framkvæmdaferill eru settar af starfsmönnum velferðarsviðs en ekki í velferðarráði og með vísan í samþykkta stefnumörkun og aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara og matarstefnu.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins er ósáttur við að þessari tillögu var vísað frá. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um   breytingar sem lúta að verklagsreglum sendils við afhendingu matar til eldri borgara. Taka þarf tillit til margra þátta þegar reglur um verklag þjónustu við eldri borgara sem búa heima eru hannaðar. Staða eldri borgara er ólík. Það eiga t.d. ekki allir ættingja sem geta hlaupið undir bagga og það búa ekki allir í íbúðum hannaðar með hliðsjón af skertri færni og/eða hreyfigetu.  Lagt var til eftirfarandi verklag við afhendingu/móttöku matar: Þjónustuþegar láta þjónustumiðstöð vita ef þeir vilja ekki fá matarsendingu þann daginn eða til lengri tíma. Ef engin fyrirmæli eru um að matarsending eigi ekki að berast eða skuli afhendast með öðrum hætti  á að gera ráð fyrir að þjónustuþegi opni til að taka við matnum.

Ef dyrabjöllu er ekki svarað þrátt fyrir að henni hafi verið hringt nokkrum sinnum þá ætti að hringja í síma þjónustuþega. Ef ekki er svarað í síma ætti sendill að hringja í ættingja (þjónustumiðstöð) sem tekur ákvörðun um framhaldið.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu er varða matseðilinn, framleiðslu matarins og næringargildi.

Tillögur er varða matseðilinn, framleiðslu matarins og næringargildi.  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að matseðill eldri borgara verði endurskoðaður hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Gerðar hafa verið kannanir um marga þætti þessu tengdu en einhverjum þykir sem niðurstöður og óskir eldri borgara hafi ekki verið virtar. Lagt er til að næringardrykk sé bætt við matarsendinguna. Ef litið er yfir matseðla má sjá að all oft er maturinn kolvetnaríkur en minna er um prótein. Eldra fólk þarf á góðri næringu að halda til að geta haldið heilsu og þrótti til að það geti búið sem lengst heima hjá sér. Dæmi eru um að eldri borgarar sem búa heima hafi þurft að fara á sjúkrahús vegna næringarskorts og uppþornunar. Auk þess er lagt til að fólki sé boðið upp á eitthvað val með matinn sinn, t.d. geti valið meira eða minna grænmeti. Fulltrúi Flokks fólksins leggur auk þess til að þessi atriði verði skoðuð af næringarráðgjöfum borgarinnar og að aukin verði eftirfylgni með að farið sé eftir matarstefnu borgarinnar að öllu leyti. Lagt er til að tillögunni verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu og að gert verði á tillögunni kostnaðarmat.

Vísað til stýrihóps um innleiðingu á matarstefnu Reykjavíkurborgar.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað til meðferðar stýrihóps um forgangsröðun og innleiðingu matarstefnu

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu að eldri borgarar sem búa í sínum eigin íbúðum, ekki í þjónustukjarna, geti sótt um niðurgreiðslu á þeim þáttum sem eru að jafnaði innifaldir í þjónustuíbúð

Tillaga Flokks fólksins um að eldri borgarar sem búa í sínum eigin íbúðum, ekki í þjónustukjarna, geti sótt um niðurgreiðslu á þeim þáttum sem eru að jafnaði innifaldir í þjónustuíbúð. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að eldri borgarar sem búa í eigin húsnæði sem ekki er hluti af þjónustukjarna eða skilgreint sem þjónustuhúsnæði geti sótt um niðurgreiðslur á þeim þáttum sem eru innifaldir í þjónustuíbúð. Hér mætti nefna afslátt af fasteignagjöldum, rafmagni og þátttöku velferðaryfirvalda í húsgjaldi blokkarinnar sem snýr að íbúð viðkomandi. Einnig að þeir fái aðstoð eða niðurgreidda þjónustu varðandi þrif í görðum sínum, flokkun á sorpi og sorphirðu. Sumir eldri borgarar treysta sér einfaldlega ekki út úr húsi með sorpið og allra síst ef hálka er og ófærð. Fjárhagur sumra eldri borgara er þröngur. Þeir sem búa í eigin íbúðum sem ekki eru skilgreindar þjónustuíbúðir  eru að mæta annars konar hindrunum en þeir sem búa í þjónustuíbúð. Má sem dæmi nefna þrengsl á baðherbergi og í eldhúsi, dyraop eru þrengri og víða eru þröskuldar. Fyrir þá sem notast við göngugrindur eða hækjur/staf getur verið erfitt um vik. Lagt er til að þessari tillögunni verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu og að gert verði kostnaðarmat.

Felld með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillagan er felld með vísan í stefnu í málefnum eldri borgara og aðgerðaáætlun sem er í innleiðingu. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga er sveitarfélögum heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Er sveitarfélögum skylt að setja sér reglur um beitingu heimildarinnar og það hefur Reykjavíkurborg gert í borgarráði.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins er ósáttur við að þessi tillaga var felld. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um  að eldri borgarar sem búa í sínum eigin íbúðum, ekki í þjónustukjarna, geti sótt um niðurgreiðslu á þeim þáttum sem eru að jafnaði innifaldir í þjónustuíbúð. Fulltrúi Flokks fólksins lagði  til að eldri borgarar sem búa í eigin húsnæði sem ekki er hluti af þjónustukjarna eða skilgreint sem þjónustuhúsnæði geti sótt um niðurgreiðslur á þeim þáttum sem eru innifaldir í þjónustuíbúð. Hér mætti nefna afslátt af fasteignagjöldum, rafmagni og þátttöku velferðaryfirvalda í húsgjaldi blokkarinnar sem snýr að íbúð viðkomandi. Einnig að þeir fái aðstoð eða niðurgreidda þjónustu varðandi þrif í görðum sínum, flokkun á sorpi og sorphirðu. Sumir eldri borgarar treysta sér einfaldlega ekki út úr húsi með sorpið og allra síst ef hálka er og ófærð.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Nú þegar er heimild til að lækka slík gjöld vegna fjárhagslegra aðstæðna, en ekki er lagaheimild til að útvíkka hana eingöngu á forsendum aldurs.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að eldri borgarar fái þjónustu sjúkraþjálfara tvo daga í viku í stað eins og að heimahjúkrun verði veitt í ríkari mæli en nú er í boði:

Tillaga um að eldri borgarar fái þjónustu sjúkraþjálfara tvo daga í viku í stað eins og að heimahjúkrun verði veitt í ríkari mæli en nú er í boði. Með aukinni sjúkraþjálfun fyrir eldri borgara sem búa einir heima og geta ekki farið mikið út úr húsi eru meiri líkur á að viðkomandi geti viðhaldið þrótti sínum og verið lengur heima. Með aukinni þjálfun og fjölbreyttri hreyfingu eru líkur á að losa megi um stirðnun eða í það minnsta tefja fyrir henni. Með aukinni hreyfigetu nær viðkomandi að halda líkamanum í meira jafnvægi sem eykur sjálfstraust og þor til að geta gert þá nauðsynlegustu hluti eins og að klæða sig án erfiðleika. Með aukinni hreyfingu og hreyfigetu eykst einnig matarlyst og líkamsstarfsemin helst betri. Það hefur verið sannað að það fólk sem getur hreyft sig á efri árunum líður betur andlega og líkamlega. Í ljósi þessa leggur fulltrúi Flokks fólksins til að eldri borgarar sem búa heima fái þjónustu sjúkraþjálfara tvo daga í viku í stað eins og að heimahjúkrun verði veitt í ríkari mæli en nú er í boði. Lagt er til að tilögunum verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu og að gert verði á þeim kostnaðarmat.

Vísað til yfirstandandi samningagerðar Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað í yfirstandandi samningagerð Reykjavíkurborgar við Sjúkratryggingar Íslands til umfjöllunar og meðferðar.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu um að taka upp gjaldfrjálsar matarheimsendingar til þeirra eldri borgara sem mælast undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins.:

Tillaga Flokks fólksins um að taka upp gjaldfrjálsar matarheimsendingar til þeirra eldri borgara sem mælast undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði að taka upp gjaldfrjálsar heimsendingar á mat til eldri borgara sem mælast undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins. Sama gildir um þjónustu sjúkraþjálfara. Í þessu sambandi vill fulltrúi Flokks fólksins taka fram að kostnaður við sveitafélag er um 14 milljónir á skjólstæðing sem dvelur á dvalarheimili. Hægt er að helminga þann kostnað með því að hjálpa viðkomandi til að vera heima sem lengst með auknum fríðindum eins og þessum. Þá getur viðkomandi frekar borgað af eign sinni eða húsaleigu. Fyrir marga eldri borgara munar um hverja krónu. Lagt er til að tillögunni verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu  og að gert verði kostnaðarmat.

Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu um að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnaði við öryggishnapp og að þeir sem veita eldri borgurum þjónustu í heimahúsum s.s. taka lífsmörk komi með sín eigin tæki.

Tillögur Flokks fólksins um að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnaði við öryggishnapp og að þeir sem veita eldri borgurum þjónustu í heimahúsum s.s. taka lífsmörk komi með sín eigin tæki. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnaði við öryggishnapp. Öryggishnappur er þarfaþing hjá öllum þeim eldri borgurum sem búa einir. Það veitir líka aðstandendum öryggi. Þessi þjónusta er veitt af Securitas og Öryggismiðstöðinni. Hjá Öryggismiðstöðinni kostar hnappurinn í gegnum sjúkratryggingarnar um 2.520, en beint til þeirra er kostnaður um 6.440,-   Það má hugsa sér að öryggishnappur sé einn af kostnaðarþáttum heimahjúkrunar. Auk þess leggur fulltrúi Flokks fólksins til að þeir sem veita eldri borgurum þjónustu í heimahúsum s.s. taka lífsmörk komi með sín eigin tæki enda hafa ekki allir eldri borgarar ráð á að kaupa slík tæki t.d. blóðþrýstingsmæli. Lagt er til að tillögunni sé vísað í starfshóp til frekari meðferðar og að gert verði kostnaðarmat.

Felld með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistflokks Íslands sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tryggingastofnun sér um niðurgreiðslu öryggishnappa. Búnaður er til staðar hjá starfsmönnum ríkisins.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins er ósáttur við að þessi tillaga var felld. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um  að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnaði við öryggishnapp og að þeir sem veita eldri borgurum þjónustu í heimahúsum s.s. taka lífsmörk komi með sín eigin tæki. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnaði við öryggishnapp. Öryggishnappur er þarfaþing hjá öllum þeim eldri borgurum sem búa einir. Það veitir líka aðstandendum öryggi. Þessi þjónusta er veitt af Securitas og Öryggismiðstöðinni. Hjá Öryggismiðstöðinni kostar hnappurinn í gegnum sjúkratryggingarnar um 2.520, en beint til þeirra er kostnaður um 6.440,-   Það má hugsa sér að öryggishnappur sé einn af kostnaðarþáttum heimahjúkrunar. Auk þess leggur fulltrúi Flokks fólksins til að þeir sem veita eldri borgurum þjónustu í heimahúsum s.s. taka lífsmörk komi með sín eigin tæki enda hafa ekki allir eldri borgarar ráð á að kaupa slík tæki t.d. blóðþrýstingsmæli.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er mikilvægt að gæta að verkskiptingu og kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga og ríkisins og mjög varasamt að setja það fordæmi að borgin fari að fyrra bragði og óumbeðin inn á verksvið ráðuneytis og sendi þar með þau skilaboð að kostnaðarþátttaka ráðuneytisins sé óþörf, það gæti einnig sett í uppnám samskipti milli sveitarfélags og ríkis þar sem um mjög misvísandi skilaboð væri að ræða.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu að stöðumat á skjólstæðingi sem þiggur þjónustu frá Reykjavíkurborg verði tíðari en nú er og minna verði treyst á ættingja:

Tillaga Flokks fólksins um að stöðumat á skjólstæðingi sem þiggur þjónustu frá Reykjavíkurborg verði tíðari en nú er og minna verði treyst á ættingja. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að stöðumat verði gert oftar en nú er gert og ekki eingöngu þegar sótt er um þjónustuna. Einnig er lagt til að þjónustukerfi velferðarsviðs treysti minna á ættingja, séu þeir til staðar, heldur skipuleggi þjónustu við eldri borgara frá upphafi þannig að ekki eigi að setja verkefnin á herðar fjölskyldunnar eða þjónustuþegans sjálfs. Fulltrúi Flokks fólksins leggur einnig til að matið verði einfaldað þegar sótt er um á hjúkrunarheimili. Fólki er gert erfitt fyrir að komast ofarlega á lista, það þarf að krossa í öll boxin með rökstuðningi sem ekki er á færi allra að geta. Lagt er til að gengið verði í,  í kjölfar matsins, að laga það sem vantar upp á af þjónustuþáttum til að viðkomandi geti verið sem lengst heima hjá sér. Enn fremur leggur fulltrúi Flokks fólksins til að iðjuþjálfi komi árlega til að meta þörf einstaklingsins og jafnvel oftar sé viðkomandi með einhver hjálpartæki. Lagt er til að tillögunni sé vísað í starfs- eða vinnuhóp til frekari meðferðar og að gert verði kostnaðarmat.

Vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sita hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað frá á grundvelli þess að, heilsu og færnimat er ekki á vegum Reykjavíkurborgar heldur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins er ósáttur við að þessari tillögu var vísað frá. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um  að stöðumat á skjólstæðingi sem þiggur þjónustu frá Reykjavíkurborg verði tíðari en nú er og minna verði treyst á ættingja. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að stöðumat yrði gert oftar en nú er gert og ekki eingöngu þegar sótt er um þjónustuna. Einnig er lagt til að þjónustukerfi velferðarsviðs treysti minna á ættingja, séu þeir til staðar, heldur skipuleggi þjónustu við eldri borgara frá upphafi þannig að ekki eigi að setja verkefnin á herðar fjölskyldunnar eða þjónustuþegans sjálfs. Fulltrúi Flokks fólksins leggur einnig til að matið verði einfaldað þegar sótt er um á hjúkrunarheimili. Fólki er gert erfitt fyrir að komast ofarlega á lista, það þarf að krossa í öll boxin með rökstuðningi sem ekki er á færi allra að geta.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Svarið við þessari tillögu er að þessi þjónusta er ekki á vegum Reykjavíkurborgar, heldur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, enginn ágreiningur er um það og óþarfi að kalla á sérstaka úrvinnslu á sviðinu til að ítreka það.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu að velferðarsvið skipuleggi betur tímasetningar vinnu heimahjúkrunar og annarra þjónustu sem eldri borgarar fá í heimahús:

Tillaga Flokks fólksins um að velferðarsvið skipuleggi betur tímasetningar vinnu heimahjúkrunar og annarra þjónustu sem eldri borgarar fá í heimahús. Ef það á að vera raunverulegur kostur að geta búið sem lengst heima þá þarf að endurskipuleggja nokkra mikilvæga þjónustuþætti. Það eru eldri borgarar sem búa heima sem upplifa óöryggi varðandi ýmsa þjónustuþætti velferðarsviðs. Sumum aðstandendum finnst þeir vera í glímu við velferðarkerfið fyrir hönd þjónustuþegans. Enda þótt eldri borgarar séu mikið heima við þá vilja þeir eðlilega halda tímaplani og skipulagi. Fátt er meira þreytandi en að bíða eftir þjónustu. Starfsfólkið er í kapphlaupi við tímann sem fjölgar þeim tilfellum að tímasetningar raskast. Dæmi er um að þjónusta sem á að veita kannski kl. 13 er veitt kl. 15 eða seinna. Einnig eru dæmi um að verið sé að færa þjónustuna milli daga því ekki náðist að ljúka henni á tilsettum degi eða að tímar hafi riðlast yfir daginn. Lagt er til að tillögunni sé vísað í starfs- eða vinnuhóp til frekari meðferðar og að gert verði kostnaðarmat.

Vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað frá, verklagsreglur og framkvæmdaferill eru settar af starfsmönnum velferðarsviðs en ekki í velferðarráði. Þjónustumiðstöðvar hafa metnað til að halda tímaskipulag en reynist það flókið einhverra hluta vegna þá er sannarlega mikilvægt að vera í góðu samstarfi við þjónustuþega.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins er ósáttur við að  þessari tillögu var vísað frá. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um  að velferðarsvið skipuleggi betur tímasetningar vinnu heimahjúkrunar og annarra þjónustu sem eldri borgarar fá í heimahús. Í bókun meirihlutans segir  að rökin fyrir frávísun séu m.a að þjónustumiðstöðvar hafa metnað til að halda tímaskipulagi en reynist það flókið einhverra hluta vegna þá er sannarlega mikilvægt að og vera í góðu samstarfi við þjónustuþega.  Ef það á að vera raunverulegur kostur að geta búið sem lengst heima þá þarf að endurskipuleggja nokkra mikilvæga þjónustuþætti. Það eru eldri borgarar sem búa heima sem upplifa óöryggi varðandi ýmsa þjónustuþætti velferðarsviðs. Enda þótt eldri borgarar séu mikið heima við þá vilja þeir eðlilega halda  tímaplani og skipulagi. Fátt er meira þreytandi en að bíða eftir þjónustu. Starfsfólkið er í kapphlaupi við tímann sem fjölgar þeim tilfellum að tímasetningar raskast. Dæmi er um að þjónusta sem á að veita kannski kl. 13 er veitt kl. 15 eða seinna.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu um að starfsfólk sem þjónustar eldri borgara fái aukið svigrúm og sveigjanleika til að sinna því:

Tillaga Flokks fólksins um að starfsfólk sem þjónustar eldri borgara fái aukið svigrúm og sveigjanleika til að sinna því. Lagt er til að allt það færa fólk sem starfar í þessum geira fái aukinn sveigjanleika og svigrúm til að sinna starfi sínu með eldri borgurum. Þau störf sem hér um ræðir eru álagsstörf og launin eru lág. Til að geta sinnt starfi sem þessu þarf að hafa ríka þjónustulund. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna mikilvægi þess að starfsfólki sé veitt nauðsynlegt svigrúm í starfinu til að sinna eldri borgurum með ýmislegt sem er ekki endilega í verklýsingu. Þeir sem sinna þjónustunni eru jafnvel þeir einu sem sumir eldri borgarar sjá yfir daginn. Starfsfólk þarf að geta haft svigrúm og tíma til að hjálpa með ein og önnur erindi eins og t.d. ef hringja þarf fyrir eldri borgara og panta tíma hjá lækni eða annað sambærilegt. Hér er átt við að sá sem þjónustar gangi í verkefni sem augljóslega þarf að gera fyrir þjónustuþegann. Þetta auka svigrúm myndi einnig gefa nokkrar mínútur til að spjalla aðeins saman. Lagt er til að tillögunni verði vísað í sérstakan starfshóp til frekari úrvinnslu og að gert verði kostnaðarmat.

Frestað og vísað til umsagnar velferðarsviðs.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur að þjónustuþáttum sem flokkast undir heimilisþrif/heimilishjálp verði fjölgað.

Eldri borgarar eiga iðulega erfitt með þegar árin færast yfir að þvo þvottinn sinn, skipta á rúmi og annast flokkun sorps og sorphirðu. Þvotturinn er þungur og að skipta á rúmi og setja í þurrkara eða hengja upp þvott krefst ákveðinnar hreyfigetu. Þessari þjónustu verður velferðarsvið að koma á laggirnar. Aðstæður eldri borgara sem búa heima eru mismunandi. Sumir eldri borgarar sem búa einir eiga ekki ættingja eða vini sem þeir geta leitað til eftir aðstoð með þætti sem þjónusta velferðarsviðs býður ekki upp á.  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að velferðarsvið bjóði út tauþvott þeirra eldri borgara sem óska eftir aðstoð með þvottinn sinn og skuli hann vera gjaldfrjáls þeim sem mælast undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins. Slík þjónusta yrði þá þannig að óhreinn þvottur er sóttur og honum skilað hreinum. Annað sem er ekki nú þegar á lista heimilisþrifa verði bætt við s.s. skipti á rúmi, flokkun heimilissorps og sorphirða.

Greinargerð

Eins og málum er háttað í dag er þjónusta velferðarsviðs við eldri borgara of takmörkuð. Engin þjónusta er í boði að annast þvotta og þurrkunar á þvotti hjá eldri borgurum. Þeir eldri borgarar sem það geta biðja ættingja sína að hjálpa sér með þessa hluti. En það eru ekki allir svo lánsamir að eiga einhvern að sem getur sinnt þjónustustörfum sem þessum. Það er því mikilvægt að fjölga þjónustumöguleikum „heimilishjálpar“. Sá eð sú sem sinnir heimilisþrifum setji t.d. einnig í þvottavél og þurrkara, brjóti saman og setji í skáp og skúffur.

Varðandi sorphirðu þá þurfa margir eldri borgarar sem búa einir heima aðstoð við að fara út með heimilissorp. Flokka þarf plast, pappír og lífrænan úrgang.  Jafnvel þótt ruslafötur séu á baði þá fyllast þær fljótt. Koma þarf uppsöfnuðu sorpi út úr húsi. Margir eldri borgarar sem búa í íbúðum sem ekki eru skilgreindar þjónustuíbúðir komast stundum ekki út úr íbúð sinni hjálparlaust. Þess vegna er ekki hægt að ætlast til þess að þeir sjái um þessa hluti sjálfir.
Lagt er til að tillögunni verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu og að gert verði kostnaðarmat.

Felld með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillagan er felld með vísan í að verið er að innleiða stefnu í málefnum eldri borgara og aðgerðaáætlun þar um. Þar er forgangsröðun samþykkt. Þess má geta að mörg af þessum verkefnum eru þegar innt af hendi s.s aðstoð við að skipta á rúmum, aðstoð við þvotta og sorphirðu en er það ákvarðað að grundvelli mats á hverjum tíma. Hinsvegar stendur ekki til að bjóða út tauþvott til eldri borgara sem búa í heimahúsum að þessu sinni.

 

Fulltrúi Flokks fólksin leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins er ósáttur við að þessi tillaga var felld. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um  að fjölgun þjónustuþátta sem flokkast undir heimilisþrif/heimilishjálp. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að verkefni þeirra sem sinna heimilisþrifum/hjálp nái til fleiri þátta, sem dæmi skipti á rúmum, þvotta og sorphirðu. Eldri borgarar eiga iðulega erfitt með þegar árin færast yfir að þvo þvottinn sinn, skipta á rúmi og annast flokkun sorps og sorphirðu.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á verkferlum sem lúta að aðstoð við böðun fólks sem þurfa aðstoð að því tagi:

Flokkur fólksins leggur til að þeir sem njóta aðstoðar við böðun fái aðstoðina þrátt fyrir að áætlaður baðdagur þeirra lendi á rauðum degi. Viðhalda þarf þessari þjónustu sama hvaða dagur er. Auka þarf mannskap svo hægt sé að viðhalda þjónustunni án tillits til hvort það er virkur dagur eða rauður dagur. Lagt er einnig til að baðdögum sé fjölgað úr einum í tvo á viku hjá þeim sem þess óska. Í verklagsreglum vegna böðunar þarf jafnframt að koma enn skýrar fram að fólk sé ekki skilið eftir í baðaðstæðunum þar sem það getur slasast. Aldrei má skilja við einstakling sem er orðinn óöruggur í hreyfingum fyrr en hann er kominn á öruggan stað í íbúð sinni. Sá vandi hefur verið reifaður að aðstoðarfólk sé oft undir álagi og hafi aðeins stuttan tíma eða kannski 40 mín. til að aðstoða við böðun. Sá tími dugar alls ekki í mörgum tilfellum.

Greinargerð

Allir eiga rétt á að vera baðaðir enda þiggja þeir þá þjónustu og því á að viðhalda henni sama hvaða dagur er. Til að létta á álagi þarf velferðarsvið að skipuleggja þessa þjónustu betur, bæta við starfsfólki eða semja við það starfsfólk sem er fyrir t.d. með því að bjóða þeim auka greiðslu eða frí í staðinn fyrir að vinna á rauðum dögum.

Með því að bjóða þeim sem þess þurfa og vilja upp á að fara í bað tvisvar í viku er dregið úr líkum þess að eldri borgarar fái sýkingar svo ekki sé minnst á hina auknu vellíðan sem fylgir. Ef það á að vera raunverulegur kostur að geta verið sem lengst heima þá þarf að endurskoða meðal annars þetta í þjónustuþáttum velferðarsviðs.  Mannlegi þátturinn má aldrei gleymast þegar verið er að hanna og skipuleggja þjónustu. Hafa þarf fullt samráð við þjónustuþegann og hugsa hvert skref út frá þörfum hans. Lagt er til að tillögunni verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu og að gert verði kostnaðarmat.

Samþykkt að vísa inn í yfirstandandi samningagerð Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað í yfirstandandi samningagerð Reykjavíkurborgar við Sjúkratryggingar Íslands til umfjöllunar og meðferðar.

 

Tillaga Flokks fólksins að efla og auka tengsl velferðarþjónustunnar við eldri borgara

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður tjáð sig um að velferðarsvið treysti of mikið á ættingja og tölvukerfið þegar kemur að samskiptum við eldri borgara. Dæmi eru um að fólk „detti út úr“ tölvukerfinu og fái þess vegna ekki matinn sendan heim þótt reynt sé að hringja og láta vita. Skemmst er að minnast eldri borgara sem kom heim eftir legu á sjúkrahúsi og hreinlega gleymdist í kerfinu Hann átti aðeins malt og lýsi í ísskápnum. Lagt er til að tengslakerfi við eldri borgara sem þiggja þjónustu frá Reykjavíkurborg verði eflt og notaðar verði fjölbreyttari leiðir í því sambandi. Þegar faraldurinn skall á var sett á laggirnar verkefni sem fól í sér að hringt var til Reykvíkinga sem fá heimaþjónustu, búa einir og eru eldri en 85 ára. Verkefnið gekk vel og lagði Flokkur fólksins til í júní 2020 að verkefninu yrði framhaldið. Nú eru ámóta aðstæður skollnar á aftur og brýnt að leitað verði allra leiða til að efla og dýpka tengsl við eldri borgara sem búa heima. Lagt er til að tillögunni verði vísað í starfs- eða vinnuhóp til frekari meðferðar og að gert verði kostnaðarmat.

Vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun

Tillögunni er vísað frá með tilvísun í gildandi stefnu í málefnum eldri borgara og aðgerðaáætlun sem verið er að innleiða.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins er ósáttur við að þessari tillögu var vísað frá. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar.  Um var að ræða að efla og auka tengsl velferðarþjónustunnar við eldri borgara. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður tjáð sig um að velferðarsvið treysti of mikið á ættingja og tölvukerfið þegar kemur að samskiptum við eldri borgara.  Dæmi eru um að fólk „detti út úr“ tölvukerfinu og fái þess vegna ekki matinn sendan heim þótt reynt sé að hringja og láta vita. Skemmst er að minnast eldri borgara sem kom heim eftir legu á sjúkrahúsi og hreinlega gleymdist í kerfinu Hann átti aðeins malt og lýsi í ísskápnum. Lagt er til að tengslakerfi við eldri borgara sem þiggja þjónustu frá Reykjavíkurborg verði eflt og notaðar verði fjölbreyttari leiðir í því sambandi. Þegar faraldurinn skall á var sett á laggirnar verkefni sem fól í sér að hringt var til Reykvíkinga sem fá heimaþjónustu, búa einir og eru eldri en 85 ára. Verkefnið gekk vel og lagði Flokkur fólksins til í júní 2020 að verkefninu yrði framhaldið. Nú eru ámóta aðstæður skollnar á aftur og brýnt að leitað verði allra leiða til að efla og dýpka tengsl við eldri borgara sem búa heima.

 

Fyrirspurnir sem lagðar eru fram á fundinum

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hækkun húsaleigu Félagsbústaða síðustu misserin:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá yfirlit yfir hækkun húsaleigu hjá Félagsbústöðum síðustu 2 ár.
Vísað til Félagsbústaða.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um ástandið á vinnumarkaði Reykjavíkurborga:

Fyrirspurnir um ástandið á vinnumarkaði Reykjavíkurborgar. Lögð er fram stöðuskýrsla teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19. Aðallega er fjallað um tillögur að vinnu markaðsaðgerðum, stöðu langtíma atvinnulausra og stöðu aðgerða í velferðarþjónustu auk húsnæðis- og skuldamála. Flest af því sem fram kemur í skýrslunni lýtur að aðgerðum stjórnvalda og ákveðin samstarfsverkefni stjórnvalda og Reykjavíkur. Það sem fulltrúi Flokks fólksins langar að vita er hver sé þróun verkefna sem Reykjavíkurborg stendur ein fyrir? Í framhaldinu eru lagðar fram fyrirspurnir: Hvernig er ástandið á vinnumarkaði borgarinnar? Hvernig hefur gengið að manna lausar stöður í Reykjavík og hvar er mesti vandinn vegna manneklu? Óskað er eftir yfirliti fyrir síðustu mánuði.

Vísað til velferðarsviðs.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á teymi um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19:

Lögð er fram stöðuskýrsla teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála, stöðu aðgerða í velferðarþjónustu auk húsnæðis- og skuldamála  í kjölfar COVID-19. Flest af því sem fram kemur í skýrslunni lýtur að aðgerðum stjórnvalda og ákveðnum samstarfsverkefnum stjórnvalda og Reykjavíkur. Fram kemur að ákveðið er að veita 600 milljónum króna til þess að auka jöfnuð í íþrótta- og tómstundastarfi barna. Styrkurinn miðast við heimili sem hafa tekjur undir 740.000 kr. á mánuði. Þessar upplýsingar leiða huga fulltrúa Flokks fólksins að frístundakortinu sem er á forræði skóla- og frístundaráðs og hefur einmitt þennan sama tilgang. Engar fréttir hafa borist frá þeim vinnuhópi sem endurskoðar reglur um frístundakortið og veltir fulltrúi Flokks fólksins hvort velferðarráð og skóla- og frístundaráð eigi ekki að eiga í meira samstarfi um frístundakortið og styrki sem hugaðir eru til að auka jöfnuð?  Það sem fulltrúi Flokks fólksins myndi vilja sjá er meira um þróun verkefna sem Reykjavíkurborg stendur ein fyrir í ljósi þess að aukning hefur orðið á umsóknum um fjárhagsaðstoð til framfærslu og framfærslulán hjá Reykjavíkurborg. Í framhaldinu eru lagðar fram fyrirspurnir sem eru sendar sérstaklega: Hvernig er ástandið á vinnumarkaði borgarinnar? Hvernig hefur gengið að manna lausar stöður í Reykjavík og hvar er mesti vandinn vegna manneklu?

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 19. ágúst, um rekstur Konukots:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að hægt er að tryggja rekstur Konukots. Tillaga sviðsstjóra er að velferðarsviði verði falið að stofna til viðræðna við Rótina (félag um konur, áföll og vímugjafa) um rekstur Konukots. Auglýst var í júní eftir áhugasömum rekstraraðilum og sendi Lausnin (fjölskyldu- og áfallamiðstöð) og Rótin inn upplýsingar. Rekstraráætlun Lausnarinnar var um 106 milljónir en Rótarinnar um 93 milljónir. Fulltrúi Flokks fólksins þekkir vel til Lausnarinnar sem leidd er af ráðgjöfum og þerapistum með mikla menntun og reynslu. Sem sálfræðingur hefur fulltrúi Flokks fólksins oft vísað á Lausnina og veit til þess að þar er veitt fagleg og góð þjónusta. Með þessu er ekki verið að segja að Rótin skarti ekki sambærilegum gæðum hvað varðar fagmennsku og hefur Rótin verið  leiðandi í þessum málaflokki um langt skeið.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu  Flokks fólksins um deilumál á milli leigjenda félagsbústaða.

Tillögur  fulltrúa Flokks fólksins um frekari bjargir sem leigjendur Félagsbústaða geta gripið til ef upp koma erfið mál milli  leigjenda félagsbústaða og að stofnað verði teymi sem hægt er að kalla til utan opnunartíma hafa verið afgreiddar. Sú fyrri er felld en sú seinni er vísað til starfshóps. Tillögurnar voru lagðar fram vegna ábendinga um að skortur sé á úrræði og aðstoð við úrlausn komi upp ágreiningur milli leigjenda. Erfiðast er þegar slík mál koma upp utan opnunartíma.  Í svari kemur fram að vinnureglan sé sú að íbúi hringi í lögreglu og sé um ítrekaðan vanda sé það tilkynnt til Félagsbústaða. Vandamálið er að lögregla getur oft ekki leyst mál af þessu tagi utan opnunartíma og situr fólk oft eftir í erfiðum aðstæðum sem fólk hefur engar forsendur til að leysa úr. Um hátíðir getur þetta verið sérstaklega erfitt. Stundum eru aðstæður þannig að mál þolir ekki bið og þá hafa leigjendur lent í að fá enga aðstoð nema sagt að leita til síns ráðgjafa á opnunartíma. Á opnunartíma gilda önnur lögmál. Fram kemur að innan velferðarsviðs sé starfandi teymi sem tekur á slíkum málum. Eftir sem áður er vandinn enn til staðar komi upp erfið mál utan opnunartíma, ekki síst um hátíðir.

Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæða fulltrúa Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um teymi sem starfar utan opnunartíma:

Tillögur  fulltrúa Flokks fólksins um að stofnað verði teymi sem hægt er að kalla til utan opnunartíma  hefur verið vísað til starfshóps og fagnar Flokkur fólksins því. Tillagan var lögð fram vegna ábendinga um erfiðleika þegar vandi kemur upp utan opnunartíma. Í svari kemur fram að vinnureglan sé sú að íbúi hringi í lögreglu og sé um ítrekaðan vanda sé það tilkynnt til Félagsbústaða. Vandamálið er að lögregla getur oft ekki leyst mál af þessu tagi utan opnunartíma og situr fólk oft eftir í erfiðum aðstæðum sem fólk hefur engar forsendur til að leysa úr. Um hátíðir getur þetta verið sérstaklega erfitt. Stundum eru aðstæður þannig að mál þolir ekki bið og þá hafa leigjendur lent í að fá enga aðstoð nema sagt að leita til síns ráðgjafa á opnunartíma. Á opnunartíma gilda önnur lögmál. Fram kemur að innan velferðarsviðs sé starfandi teymi sem tekur á slíkum málum. Eftir sem áður er vandinn enn til staðar komi upp erfið mál utan opnunartíma, ekki síst um hátíðir.

Samþykkt að vísa inn í stýrihóp um stefnumótum í velferðarmálum.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að auka gegnsæi í þjónustu þjónustumiðstöðva:

Tillögunni er vísað í starfshóp og fær vonandi þar góða meðferð. Það er ánægjulegt að sjá að margt er í farvatninu sem auka myndi  gegnsæi og upplýsingagjöf til foreldra um þjónustu til barna og barnafjölskyldna á vegum þjónustumiðstöðva eins og tillaga Flokks fólksins fjallar um. Mestar áhyggjur hafa snúið að upplýsingagjöf til okkar viðkvæmustu hópa, fólks með fötlun og foreldra sem og eldri borgara og öryrkja. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar ekki hvað síst að texti verður auðlesnari og uppsetning aðgengilegri en áður og þar mun koma skýrt fram hvaða þjónusta er í boði, hvaða hópum hún er ætluð, hvernig hægt sé að sækja um hana og fylgjast með umsóknarferli. Allra leiða þarf að leita til að auka aðgengi foreldra að stuðningsþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þar sem unnið verður með alla verkferla og umsóknir. Í þessu öllu má ekki gleyma að vinna með borgarbúum, þjónustuþegum enda eru þeir þeir einu sem geta sagt hvað sé að virka og hvað virkar ekki eins vel eða alls ekki. Í svari/umsögn lítur út fyrir sem með þessum aðgerðum verði komið til móts við margar þeirra tillagna sem settar eru fram af fulltrúa Flokk fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa Flokks fólksins áframhaldandi ráðningu sumarstarfsmanna.

Flokkur fólksins lagði til að sumarstarfsmenn, sem eiga þess kost, fái áframhaldandi ráðningu því að COVID 19 er ekki búið og verður ekki búið fyrr en viðurkennt bóluefni kemur á markað. Einhver tími er í það. Nú  liggur fyrir að allir þurfi að aðlagast því að lifa með veirunni. Hér er því ekkert um on eða off að ræða. Það sem gafst vel í upphafi COVID heldur áfram að gefast vel ef vel er haldið á spilunum. Sumt af því sem fólk varð að tileinka sér út af COVID ástandinu var af hinu góða og verður væntanlega tekið upp sem hluti af daglegu lífi. Tillagan er felld með þeim rökum að þar sem ekki var gert ráð fyrir að átakið yrði framlengt gefi fjárhagsrammi velferðarsviðs ekki svigrúm til að bjóða þessu starfsfólki áframhaldandi störf. Enda þótt ekki hafi verið gert ráð fyrir að umrætt átak verð framlengt og ekki sé til peningur hjá sviðinu mun Flokkur fólksins engu að síður halda tillögunni til haga og minna á hana við næstu fjárlagagerð.

Felld fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna. gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

 

Bókun Flokks fólksins Flokks fólksins vegna þriggja mánaða uppgjör velferðarsviðs jan-mars:

Fulltrúi Flokks fólksins gerir sér  grein fyrir að taka þarf þriggja mánaða uppgjöri með fyrirvara. Það væri kannski gott að fá einfaldlega ítarlegri skýringar með yfirlitinu? Í svari kemur fram hjá sviðsstjóra að heimaþjónusta er ekki innan fjárheimilda vegna manneklu heldur vegna verkfalla í byrjun árs og vegna þess að ekki var hægt að ráða í þær stöður sem fjármagn var ætlað í vegna Covid.  Engu að síður stendur í yfirlitinu að heimaþjónusta og heimahjúkrun voru innan fjárheimilda af tveimur ástæðum, vegna verkfalla í byrjun árs  og að ekki náðist að manna í allar stöður. Mannekla kemur m.a. til vegna þess að þessi störf eru ekki talin mjög eftirsóknarverð mikið til vegna álags og lágra launa. Fulltrúi Flokks fólksins hefur oft rætt um mannekluvandann og tjáð sig um að velferðaryfirvöld nái ekki utan um þann vanda sem bitnar á þjónustuþegum. Vegna umfram fjárheimilda hjá barnavernd sem skýrast af vistgjöldum barna með fjölþættan vanda eru það sömu skýringar og oft áður. Börnum með fjölþættan vanda hefur verið að fjölga jafnt og þétt síðustu ár og telur fulltrúi Flokks fólksins að reyna mætti að gera nákvæmari áætlun fyrir barnavernd.