Borgarráð 28. maí 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra dags. 26. maí 2020, varðandi greiðslur til samgöngusáttmála:

Hér er verið að tala um háar fjárhæðir og verkefnið komið í ,,bs.” kerfi sem er fyrirkomulag þar sem „minnihlutar“ í sveitarfélögunum hafa enga aðkomu að auk þess að í þessu fyrirkomulagi, bs., er mikill lýðræðishalli.  Þar sem sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins vilja ekki sameinast verður að finna leiðir til að draga úr lýðræðishalla í kerfi sem þessu. Ein leiðin er að fjölga fulltrúum í stjórn í hlutfalli við kjósendur og veita fulltrúa frá minnihluta aðkomu að stjórn og myndi hann hafa atkvæðisrétt.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs um rammaskipulag fyrir Austurheiðar:

Ljóst er að mikill metnaður er lagður í verkefnið. Fulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á að hagsmunaaðilar verði hafðir með frá upphafi, haldnir hafa verið fundir en mikilvægt er að fundargerðir séu aðgengilegar til að hægt sé að hafa samráðið gegnsætt. Öllu máli skiptir að þetta sé unnið í sátt frá upphafi og að hagsmunaaðilar fái að koma að undirbúningsvinnu og upplýstir um í hvaða átt er stefnt en þeir ekki aðeins upplýstir um það eftir á og þá boðið að ákveða um einhver smærri atriði. Flestar lóðir við Langavatn eru eignarlóðir. Gott væri að fá yfirlit yfir stöðu annara lóða, er um eignarlóðir að ræða, erfðafestulóðir sem renna út á einhverjum tíma o.s.frv. Ræktun gamalla lóða verður vonandi nýtt í stórum stíl. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að, eins og svæðið er skipulagt, að nóg ætti að verða af bílastæðum við aðkomuleiðir.

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs við auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Eiðsgranda vegna lóðarinnar nr. 14 við Rekagranda, ásamt fylgiskjölum:

Fram kemur í greinargerð með deiliskipulagsbreytingum að fækka á bílastæðum um fjögur. Skortur er á bílastæðum fyrir utan suma leikskóla í Reykjavík. Áhyggjur vakna vegna stefnu meirihlutans að fækka bílastæðum fyrir utan leikskóla þar sem erfitt er að lifa bíllausum lífstíl í Reykjavík. Foreldrar koma með börn sín á bíl nema þeir búi skammt frá og geta gengið með þau eða hjólað. Þegar komið er með börnin í leikskóla á álagstímum eru stundum engin stæði laus og þarf þá að bíða í götunni þar til stæði losnar, aðstæður sem geta skapað hættu. Í gögnum segir einnig að leggja á af snúningsreit eða snúningsás. Að leggja af snúningsás er ekki til bóta fyrir þá sem koma á bíl. Ef reglur um fjölda bílastæða í Reykjavík eru skoðaðar segir að gera eigi ráð fyrir 0,2 – 0,5 bílastæði á starf, og gera þarf ráð fyrir mun fleirum stæðum þ.m.t. sleppistæðum við leikskóla og lægri deildir grunnskóla þar sem meiri líkur eru á að börnum í neðri deildum er skutlað í skólann. Mælt er með því að helmingur stæða séu yfirbyggð. Fjöldi stæða skal vera 0,4 stæði/starfsmann og 20 stæði/100 nemendur. Við grunnskóla eiga að vera stæði fyrir starfsmenn plús sleppistæði allt að 60 á 100 nemendur samkv. reglum.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. maí 2020 um lengingu starfstíma 10. bekkinga hjá Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2020, ásamt fylgiskjölum:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að lengja eigi starfstíma 10. bekkinga hjá Vinnuskóla Reykjavíkur 2020. Tímabilið er lengt úr þremur vikum í fjórar sumarið 2020. Vonandi er þessi lenging komin til frambúðar enda rík þörf fyrir því. Huga þarf einnig að lengingu starfstíma fyrir 8.- 9. bekkinga sem virkilega þurfa einnig að fá lengri tíma í Vinnuskólanum. Börn eru að koma úr afar sérkennilegum aðstæðum eftir COVID-19 með skertu skóla-, íþrótt- og tómstundastarfi. Almennt má segja að starfstími Vinnuskólans hefur verið of stuttur. Í það minnsta ættu unglingar að eiga þess kost að vera lengur í Vinnuskólanum en venja hefur verið, óski þau þess.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi skóla- og frístundasviðs, dags. 14. maí 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 12. maí 2020 á tillögu um aðgreiningu Háaleitisskóla í tvo grunnskóla:

Þetta mál lyktar af klúðri enda hætta á slíku þegar ráðist er í framkvæmdir án þess að hugsa þær til enda. Allt of mikið er af slíku hjá þessum og síðasta meirihluta í borgarstjórn. Í þessu máli var reynt á sínum tíma að hafa vit fyrir meirihlutanum en án árangurs. Í umsögnum skólaráða beggja skólanna þá var ekki mælt með sameiningu skólanna en engu að síður var hún keyrð í gegn þrátt fyrir hávær mótmæli foreldra, fagfólks og starfsmanna. Ef þá hefði verið hlustað þá hefði mátt spara fjármuni og ómæld vonbrigði. Svo virðist sem meirihlutinn læri ekki af reynslunni og er það alvarlegast. Tekið hefur borgina 8 ár að horfast í augu við þessi mistök. Skemmst er að minnast aðgerða meirihutans í Staðahverfi en þar var ráðist í að sameina skóla í norðanverðum Grafarvogi í óþökk foreldra, íbúa og barna með margs konar neikvæðum afleiðingum sem ekki sér fyrir endann á.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 26. maí 2020, varðandi viðbótarframlag til sjálfstætt rekinna leikskóla og frístundaheimila vegna lækkaðrar gjaldtöku af völdum COVID-19:

Dregið var úr þjónustu leikskóla vegna COVID-19 eins og alþekkt er. Það tók að mati Flokks fólksins allt of langan tíma að fá svör um hvort gjöld yrðu leiðrétt vegna niðurfellingu eða skerðingar þjónustu sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla og frístundaheimila í COVID-19 aðstæðunum. Einhver sveitarfélög afgreiddu sambærilega tillögu fljótt, alla vega voru foreldrar og leikskólar upplýstir um leiðréttinguna. Í Reykjavík voru foreldrar hins vegar uggandi yfir hvað meirihlutinn í borginni myndi gera og skapaði það ákveðið óþarfa álag og misskilning. Það er mikilvægt að stjórnsýslan veiti ávallt skýrar upplýsingar og það fljótt. Bið og óvissa fer illa með fólk sérstaklega í erfiðum aðstæðum eins og COVID aðstæðunum.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  velferðarsviðs, dags. 22. maí 2020, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 20. maí 2020 á tillögu um reglur um akstursþjónustu fatlaðs fólks, ásamt fylgiskjölum:

Tillaga meirihlutans er að sameiginlegar reglur um akstursþjónustu fatlaðs fólks sem hafa verið samþykktar gildi áfram en núverandi reglur falli úr gildi. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort búið sé að reyna allt til að mæta þeim ábendingum sem fram eru settar í minnisblaði starfshóps Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Enn má sjá að einhverjum atriðum er ólokið eða eru í bið. Í fyrri bókun Flokks fólksins um þessi mál var lögð áhersla á samráð og jafnræði. Það er fólkið sjálft sem segir til um hverjar þarfir þeirra eru og óskir. Það á eftir að finna lausn á akstri utan höfuðborgarsvæðis. Það er einnig áhyggjuefni að fólk sem orðið hefur fyrir slysum eða er í endurhæfingu fellur ekki endilega undir lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Hér er sagt „ekki endilega“ sem þýðir án efa að sveitarfélag getur ráðið þessu ef það vill. Huga þarf áfram að þessum og fleiri atriðum þegar reglurnar verða endurskoðaðar. Flokkur fólksins leggur áherslu á sveigjanleika í öllu tilliti og að ávallt sé hægt að finna leiðir til að leysa sérþarfir fólks. Þriggja mínútna biðin má t.d. aldrei vera þannig að hún stressi fólk eða valdi álagi.

 

Bókun Flokks fólksins við minnisblaði mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 25. maí 2020, varðandi viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2020:

Lagðar eru fram niðurstöður viðhorfskönnunar. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar jákvæðum niðurstöðum sem koma fram í könnun á líðan starfsfólks í kjölfar COVID-19. Af öðrum þáttum sem fram koma í viðhorfskönnun meðal starfsmanna má sjá í töflu 3 að lægri tölur eru hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði en hjá öðrum sviðum. Meðaltöl eru lægst á þessu sviði og eru 12 þættir af 19 undir 4.17 (sem er meðaltal) og allt niður í 3.51. Hér er verið að sýna að starfsfólki líður verst á þessu sviði í samanburði við önnur svið borgarinnar. Undir öðrum lið viðhorfskönnunarinnar var spurt hvort fólk hafi orðið fyrir áreitni og einelti frá samstarfsfólki. Prósentutalan „Einelti frá samstarfsfólki“ hefur hækkað, var 2,8% árið 2019 en 3,4% í ár. Hvorutveggja er áhyggjuefni. Flokkur fólksins væntir þess að athugað verði hver sé vandinn hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði og að borgarfulltrúar verði upplýstir um þær niðurstöður.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um Græna plan Reykjavíkurborgar:

Allt grænt er gott. Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á Græna plan borgarinnar en finnst að sama skapi að meirihlutinn gæti gert betur til að flýta fyrir orkuskiptum svo draga megi hraðar úr losun gróðurhúsalofttegunda. Borgin á gnótt af grænum orkugjafa sem er metan og ef fólk gæti verið visst um að það fengi metanið á bíla sína á lágu verði næstu 10 árin myndu margir e.t.v. flykkjast til að kaupa sér metanbíl. Allir vagnar Strætó bs. gætu verið metanvagnar sem dæmi og þá sem viljja setja upp hleðslustöðvar hjá sér, á að styrkja. Svona hlutir skipta máli. Hvatning skiptir miklu máli. Nú er umferðarvandinn í algleymingi og er jafnvel meiri en fyrir COVID-19. Spáð er fjölgun bíla næstu árin. Það væri ljúft að hugsa til þess ef t.d. innan tíðar myndi meira en helmingur bílaflotans keyra á grænni orku. Allar ívilnanir s.s. frí stæði í 90 mín fyrir metan og rafmagnsbíla sem og tvískipta bíla er einnig heilmikil hvatning.

Lagðar fram viljayfirlýsingar um rafvæðingu hafna með landtengingum, sbr. 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. maí 2020 sem færðar voru í trúnaðarbók borgarráðs fram yfir undirritun þeirra þann 15. maí sl.:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði þá fram svohljóðandi bókun:

Nú liggur fyrir skýrsla starfshóps um rafvæðingu hafna og landtengingar í höfnum Faxaflóahafnar. Það er alveg ljóst að þetta er stórframkvæmd, sem mun hafa jákvæð áhrif á umhverfið og líklega skila hagnaði eftir áraraðir. En nú fækkar ferðum skemmtiferðaskipa sem lengir þann tíma þar til framkvæmdin borgar sig. En flutningaskipum fækkar ekki og þau koma reglulega og því er skynsamlegt að leggja áherslu á þjónustu við þau.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu fundargerðar íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 18. maí 2020, 13. lið:

Fulltrúi Flokks fólksins vill með bókun styðja við fyrirspurn íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals þar sem fram kemur að “borið [hafi] á verulegu jarðvegsfoki um hverfið frá framkvæmdasvæði við Leirtjörn með tilheyrandi óþrifnaði og óþægindum fyrir íbúa”. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis fengið sendar kvartanir og ábendingar frá íbúum þessa hverfis. 26. septembe 2019 lagði Flokkur fólksins fram fyrirspurnir um hvernig eftirliti og eftirfylgd er háttað með umhirðu verktaka Reykjavíkurborgar á vinnustað og hver viðurlögin eru séu reglur brotnar. Fyrirspurnum var vísað til umhverfis- og skipulagssviðs en fulltrúi Flokks fólksins minnist þess ekki að hafa fengið svör. Borgarfulltrúi hefur fengið sendar myndir af byggingarstöðum þar sem umhirðu er ábótavant. Þegar umhirðu er ábótavant eru meiri líkur á að slysahætta skapist. Borist hafa upplýsingar um að sums staðar ægir öllu saman, tæki, tólum og drasli. Þetta eru alla vega lýsingar sem borist hafa fulltrúa Flokks fólksins.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 12. maí 2020 8. lið:

Meirihlutinn lagði fram breytingartillögu við tillögu Flokks fólksins um „Að kerfisbundið verði farið yfir viðbrögð grunnskóla gagnvart einelti“ sem er orðrétt eins nema örlítið stytt og gerði þar með tillöguna að sinni. Hér hefði verið lag til einingar og samvinnu og einfaldast að samþykkja tillögu Flokks fólksins. Vel hefði mátt skerpa á henni í framhaldinu. Í það minnsta hefði mátt bjóða Flokki fólksins að vera með í breytingartillögunni sem væri þá lögð fram í nafni allra. Í borgarráði lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að breyta verklagi á meðferð og afgreiðslu tillagna frá minnihluta til að koma í veg fyrir höfnun tillagna minnihlutans sem síðan eru lagðar fram í nafni meirihlutans eingöngu. Sú tillaga var felld. Vilji til að breyta þessu úrelta verklagi er lítill ef marka má þessa reynslu. Það eru sífelld vonbrigði að horfa á fjölda mála, hugmynda í formi tillagna, ýmist vísað frá eða felld án þess að fá nokkra skoðun en mestu furðu vekur þegar meirihlutinn tekur mál minnihlutans og gerir að sínum eftir að hafa fellt eða hafnað þeim hjá þeim flokki sem lagði þau fram upphaflega.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 20. maí 2020 lið 1:

Skipulagsyfirvöld hafa það mikið í hendi sér hvernig gengur að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda t.d. með því að leggja meiri áherslu á að hraða orkuskiptum. Bílaflota borgarbúa er að fjölga. Orkuskiptum má hraða enn meira t.d. með því að bjóða áhugasömum að fá metan á kostnaðarverði og að verðið haldist óbreytt, t.d. næstu 10 árin, þ.e. sem nemur líftíma bíls. Því fleiri metan- og rafmagnsbílar sem koma á götuna því minni losun. Því fleiri metan bílar því minni sóun á metani. Fram kemur í svari Samkeppniseftirlitsins við fyrirspurn Flokks fólksins að draga á úr sóun á metani sem frekast er unnt. Meirihlutinn hefur nánast ekkert gert til að gera það, sofið hefur verið á þessum verði út í hið óendanlega. Nú er umferðarvandinn í algleymingi og er jafnvel meiri en fyrir COVID-19. Spáð er fjölgun bíla næstu árin. Það skiptir öllu máli að þeir bílar sem koma á götuna aki á grænni orku. Allar ívilnanir, s.s. frí stæði fyrir metan og rafmagnsbíla, er hvatning og styrkja á þá sem setja upp hleðslustöðvar með myndarlegum hætti.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 30. apríl og 8. maí 2020 undir lið 8.d:

Flokkur fólksins vill bóka við þennan lið í fundargerð Strætó bs. en hér er lagt fram erindi frá Neytendasamtökunum varðandi þjónustu Strætó og er hér án efa verið að vísa í þjónustu Strætó bs. í COVID-19 aðstæðunum. Ein af viðspyrnutillögum Flokks fólksins laut að framlengingu gildistíma allra strætókorta á sama tíma og fækkun varð á ferðum vegna COVID-19. Tillögunni var vísað frá án nokkurar skoðunar eða umræðu og ekki kom til greina hjá meirihlutanum að vísa henni til stjórnar Strætó eins og Flokkur fólksins þrábað um að yrði gert. Það er alveg ljóst að þetta mál hefur einnig verið á borði Neytendasamtakanna. Það liggur í augum uppi að skerðist þjónustan frá því hún er keypt og þar til hún er veitt, eins og í dæmi tímabilskorta Strætó, ber að bæta neytanda það, t.d með endurgreiðslu, afslætti eða framlengingu tímabils. Þetta er það sem t.d. líkamsræktarstöðvar og fleiri gera núna. Strætó bs. þurfti ekki að fækka ferðum enda ekki gerð krafa um það hjá heilbrigðisyfirvöldum. Hafa skal í huga að engin sóttvarnarrök voru fyrir að fækka ferðum. Þvert á móti hefði þurft fleiri ferðir þegar takmarkanir voru á farþegafjölda í hverjum vagni vegna tveggja metra reglunnar.

 

Bókun Flokks fólksins við 7. lið embættisafgreiðslna þar sem afgreiðsla tillögu Flokks fólksins um að kerfisbundið verði farið yfir viðbrögð grunnskóla gagnvart einelti er breytt í tillögu meirihlutans og þar með aftengd tillöguflytjanda:

Fulltrúi Flokks fólksins er ósáttur við afgreiðslu skóla- og frístundarráðs á tillögu Flokks fólksins um „að kerfisbundið verði farið yfir viðbrögð grunnskóla gagnvart einelti“. Í stað þess að samþykkja tillöguna lagði meirihlutinn fram lítið breytta breytingartillögu og samþykkti hana sem sína tillögu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta vond aðferðarfræði sem leiðir til sundrungar milli meiri- og minnihluta. Stundum gerist það að meirihlutanum hugnast vel tillögur minnihlutans og vilja nýta þær, gera þær að veruleika enda í þágu borgarbúa og hér í þágu skólabarna. Í svona tilfelli er ekkert eðlilegra og sanngjarnara en að samþykkja tillöguna og telji meirihlutinn hann þurfa að gera einhverjar orðalagsbreytingar eða stytta hana má gera þær breytingar í framhaldinu. Í þessu tilfelli var tillagan tekin orðrétt og efnislega var henni ekki breytt. Önnur leið væri að spyrja þann sem leggur tillöguna fram hvort meirihlutinn megi vera með í tillögunni og þannig að leggja hana fram í nafni fleiri flokka. Fulltrúi Flokks fólksins er hér að vísa til skynsemi og heilbrigðrar samvinnu þar sem pólitísk valdabarátta er lögð til hliðar. Mál sem almennt lúta að hagsmunum barna eins og í þessu tilfelli, viðbrögð við einelti, ættu að vera hafin yfir allt valdabrölt þess meirihuta sem ríkir hverju sinni.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu Covid-19 tillagna Flokks fólksins sem borgarráð samþykkir og eru sumar nú þegar komnar í framkvæmd. Atriðum sem þarfnast frekari vinnslu er vísað á viðeigandi staði innan borgarkerfisins:

Flokkur fólksins lagði til eftirfarandi tillögur sem hafa nú verið samþykktar efnislega í megindráttum enda allar nauðsynlegar og eðlilegur partur í viðspyrnu og viðbrögðum borgarstjórnar við þeim fordæmalausu aðstæðum sem hér skullu á vegna COVID-19: 1. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að innheimta gjalda vegna skóla- og frístundavistar barna verði frestað vegna COVID-19. 2. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að starfsfólk í skólum borgarinnar hugi sérstaklega að andlegri líðan barna vegna COVID-19. 3. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um greiðslur til dagforeldra. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að dagforeldrar fái fulla niðurgreiðslu ef það hefur þurft að loka vegna sóttkvíar hvort sem er að völdum þeirra sjálfra, foreldra barnanna, barnanna eða annarra sem koma með og/eða sækja börnin hjá þeim. Við aðstæður sem þessar eiga dagforeldrar að fá óskert laun hafi komið upp tilvik af þessu tagi. 4. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um trygga og örugga símsvörun á þjónustumiðstöðvum borgarinnar vegna COVID-19. 5. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að unnið verði með tillögur borgarráðsfulltrúa varðand COVID-19 í smærri hópum.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að minnihlutafulltrúar fái aðstoð fjármálaskrifstofu við að kostnaðarmeta tillögur eftir því sem þeir telja nauðsynlegt áður en tillaga er lögð fram:

Flokkur fólksins leggur til að minnihlutafulltrúar fái aðstoð fjármálaskrifstofu við að kostnaðarmeta tillögur eftir því sem þeir telja nauðsynlegt áður en tillaga er lögð fram. Stundum nægir gróft kostnaðarmat. Að hafa hugmynd um kostnað getur stutt málið og skipt sköpum við atkvæðagreiðslu þ.e. dregið úr líkum þess að tillögu verði vísað samstundis frá af meirihlutanum eða felld. Fulltrúi Flokks fólksins leggur þess vegna til, að til að tryggja að fulltrúi minnihlutans fái upplýsingar sem þessar, verði starfshlutfall starfsmanns á fjármálasviði eyrnamerkt til að sinna beiðni af þessu tagi. Vel kann að vera að starfsmenn fjármálasviðs telji það ekki skyldu sína að svara eða aðstoða fulltrúa minnihlutans almennt séð en eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst eru starfsmenn og embættismenn borgarinnar ekki síður til að aðstoða minnihlutann en meirihlutann. R20050311

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

 

Lögð fram að nýju tillaga Flokks fólksins að rekstraraðilar ráði sjálfir hvort götu sé lokað fyrir umferð eða ekki:

Flokkur fólksins leggur til sem tilraunaverkefni að rekstraraðilar við þær götur sem nú hafa verið gerðar að göngugötum varanlega eða tímabundið fá að ráða sjálfir hvort götu sé lokað fyrir umferð eða ekki. Skiptar skoðanir eru á þessum lokunum og fjöldinn allur er alfarið á móti þeim. Það hafa kannanir sýnt svo ekki verði um villst. Til að ná lendingu til bráðabirgða í það minnsta, væri hægt að prófa leið eins og þessa. Á sólardegi geta rekstraraðilar ákveðið að hafa opið að hluta til eða allan daginn og á öðrum dögum geta bílar ekið göturnar. Ákvörðun um þetta verði í höndum viðkomandi rekstraraðila.

Tillögunni er vísað frá með þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

 

Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins við frávísun tillögu um að rekstraraðilar ráði sjálfir götuopnunum: 

Tillaga Flokks fólksins um tilraunaverkefni að rekstraraðilar taki sjálfir ákvörðun um hvort hafa eigi opnar eða lokaðar göngugötur sem meirihlutinn hefur ákveðið að séu varanlegar göngugötur eða tímabundnar hefur verið vísað frá í borgarráði. Hér er um góða málamiðlunartillögu að ræða sem væri vel þess virði að láta reyna á tímabundið. Þessi götulokunarmál hafa verið sérlega erfið og finnst mörgum sem meirihlutinn hafi beitt mikilli valdníðslu því í ljós hefur komið að meirihluti fólks þ.m.t. rekstraraðilar vilja þetta ekki og hafa í kjölfar lokunar flutt verslun sína í burtu af svæðinu. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta kaldar kveðjur frá skipulagsyfirvöldum til rekstraraðila. Treystir meirihlutinn þeim ekki til að stýra því sjálfir hvort sú gata sem þeir reka verslun við sé opin fyrir umferð eða ekki. Á góðviðrisdegi kann að vera sniðugt að loka götu fyrir umferð og gera hana að göngugötu en á köldum dögum að hafa þær opnar fyrir umferð. Það er vel þess virði að láta reyna á hvernig fyrirkomulag sem þetta myndi reynast. Þess utan á eftir að gera hlutlausar mælingar á hvort mannlíf og verslun hafi aukist með fleiri göngugötum eins og haldið er fram af meirihlutanum svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar sameiningu skóla í norðanverðum Grafarvogi:

Skemmst er að minnast aðgerða meirihutans í Staðahverfi en þar var ráðist í að sameina skóla í norðanverðum Grafarvogi í óþökk foreldra, íbúa og barna með margs konar neikvæðum afleiðingum sem ekki sér fyrir endann á. Fulltrúi Flokks fólksins óskar efir að leggja fram eftirfarandi fyrirspurnir:
1. Er ekki eðlilegt að vegna stöðu mála, vegna COVID 19, að seinka sameiningu skóla a.m.k. um eitt ár?
2. Er búið að útfæra samgöngubætur milli Staðahverfis og Engjahverfis annars vegar og Staðahverfis og Víkurhverfis hins vegar?
3. Verða slíkar samgöngubætur tilbúnar þegar skólarnir sameinast?
4. Hvenær er von á frekari upplýsingum um hverjir verða kennarar á hverjum stað?
5. Ef Hjallastefnan er áhugasöm um að opna skóla í húsnæði Korpuskóla mun skóla- og frístundaráð styðja frekari athugun á slíku fyrirkomulagi?
6. Hvað þarf að gerast til þess að Hjallastefnan geti opnað skóla í hverfinu?
7. Er búið að ráðstafa húsnæði skólans nú þegar? R20050314

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Sorpu og hver sé staðan í sölumálum moltunnar sem verður til í GAJA?:

Flokkur fólksins spyr hver sé staðan í sölumálum moltunnar sem verður til í GAJA?
Í blaðaviðtali við stjórnanda væntanlegrar Gas og jarðgerðarstöðvar Sorpu – Gaja fer hann með rangt mál og fullyrðir að mest allt metan hafi verið selt og að Strætó ætli að kaupa megnið af aukinni metansöfnun. Metan hefur ekki selst vel samkvæmt framkvæmdarstjóra Sorpu, sem upplýsti að brennt hefði verið um 1,6 milljónum rúmmetrum af metani 2019. Rangt er að Strætó ætli að fara yfir í metanbíla. Rangt er að reikna með að verulegar tekjur verði af metansölu á næstunni. Margt bendir til að væntanleg molta verði ekki söluvara. Plast og málma verður að hreinsa úr hráefninu. Sorpa ætlar ekki að leggja áherslu á flokkun við heimili og fyrirtæki heldur treysta á hreinsunartækni í jarðgerðarstöðinni. Samkvæmt þeim upplýsingum sem til eru um þá tækni sem á að nota í Gaja bendir margt til að þessi væntanlega verkun verði ekki nægjanlega góð og moltan því verðlaus. Innihald moltunnar verður í samræmi við það lífræna efni sem inn kemur og þar ræðst verðmæti hennar. Fosfór er verðmætasta efnið í moltunni. Nýting moltunnar sem jarðvegsbætir ræðst að miklu af innihaldi þess. Plastagnir mega ekki vera í moltunni. R20050316

Vísað til umsagnar stjórnar SORPU bs.