Borgarráð 24. september 2020

Bókun Flokks fólksins tillögu borgarstjóra, dags. 21. september 2020, um stofnun starfshóps og uppfærslu á stefnu um málefni miðborgar:

Það er sérstakt að lesa það sem fram kemur í gögnum þegar rætt er um framtíðarsýn borgarinnar í ljósi alls þess sem gengið hefur á þar s.l. 2 ár. Talað er um að miðborgin sé allra og þar eigi að ríkja jafnræði og að heyrast eigi rödd allra. Eiginlega kaldhæðnislegt er að lesa að hagaðilar eigi að hafa áhrif  á mótun miðborgarinnar, taka virkan þátt og bera ábyrgð á að rækta og móta miðborgina.

Samskipti skipulagsyfirvalda við hagaðila í miðborginni hafa verið til skammar. Fullyrt hefur verið að gott samráð og samtal hafi t.d. átt sér stað við aðila sem ekkert kannast við að við þá hafi verið rætt.  Þetta er hörmungarsaga og mestur ágreiningurinn hefur snúið að götulokunum. Það hefði mátt forðast öll þessi leiðindi ef skipulagsyfirvöld hefðu látið af yfirgangi eins og skipulagsyfirvöld ætti Reykjavík ein. Tillaga Flokks fólks um „Akureyraleiðina“ sem lögð var fram í maí hefði átt að samþykkja enda hefur sú leið gengið vel. Hún hljóðaði þannig að gera ætti tilraun um að rekstraraðilar stýri sjálfir hvort götu sé lokað fyrir umferð eður ei. Þá myndu þeir ráða sjálfir, koma sér saman um hvort götu sé lokað fyrir umferð þennan daginn eða hinn. Þetta hefði getað orðið farsæl lausn.

 

Bókun Flokks fólksins við svari Strætó bs. vegna strætisvagna:

Í svarinu frá Strætó kemur fram að aðeins eru tveir metanvagnar hjá Strætó. Þetta lýsir vel algjöru áhugaleysi á að nýta metan, sem eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur margoft vakið athygli á í borgarstjórn, er alveg verðlaust á söfnunarstað þar sem því er brennt á báli. Og reyndar í stórum stíl. Eins og líka hefur komið fram þá mun SORPA stórauka söfnun á metani á næstunni. Reykjavík á meirihluta bæði SORPU og Strætó eins og allir vita. Er í rauninni enginn möguleiki á að þessi tvö byggðasamlög geti unnið saman að því að nýta það metan sem er safnað til að minnka sóun á orku, bæta kolefnisfótspor og neikvæð umhverfisáhrif? Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað nefnt að þetta má gera m.a. með því að nýta metan á strætisvagna. Það þýðir ekki endalaust að koma með einhverjar vangaveltur um einhverja ókosti við að nýta metan, útreiknaða eða huglæga. Við eigum að huga að umhverfismálum. Er það ekki svo?

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs undir liðnum Fyrirspurnir um Arnarnesveg:

Formaður skipulags- og samgönguráðs hefur tvívegis neitað að taka inn á fund skipulagsráðs eftirfarandi fyrirspurnir: Hver er pólitísk afstaða skipulags- og samgönguráðs og Reykjavíkurborgar til lagningar Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi með mislægum gatnamótum við Breiðholtsbraut í nábýli við fyrirhugaðan Vetrargarð skv. nýju hverfisskipulagi í Breiðholti, með fyrirsjáanlegum landspjöllum á verðmætu útivistarsvæði? Telur Reykjavíkurborg lagningu Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi, á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs, forgangsverkefni í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu miðað við t.d. Sundabraut og Vesturlandsveg á Kjalarnesi? Rökin eru að kjörnir fulltrúar geti ekki krafið aðra kjörna fulltrúa um þeirra afstöðu í formlegum fyrirspurnum fagráða. Í öðru svari kemur fram að „ekki sé hægt að beina fyrirspurnum til fagráða.“ En hér er verið að spyrja skipulagsyfirvöld pólitískra spurninga en ekki persónur. Það er skylda stjórnvalds að svara fyrirspurnum sem kjörinn fulltrúi sendir inn með formlegum hætti. Fyrirspurnin kemur frá breiðum hópi sem óttast mjög að hinn græni meirihluti skipulags- og samgöngusviðs ætli að láta nágrannasveitarfélagið Kópavog þrýsta sér út í að gera stórmistök, valda skipulagsslysi sem eyðilegging Vatnsendahvarfs er með því að setja hraðbraut þvert yfir hæðina.

Fyrirspurnir Flokks fólksins um hver sé staðan í grunnskólum um aðgerðir sem lýst er í skýrslunum:
Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi og
Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi.

Í apríl 2018 kom út skýrsla með niðurstöðum starfshóps sem bar heitið Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Ári síðar kom út önnur skýrsla: Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi. Báðar fela í sér metnaðarfullar aðgerðir sem ýmist eru á ábyrgð ríkis, sveitarfélags eða samstarf beggja en sveitarfélögin fara m.a. með stjórnun leik- og grunnskóla, félagsþjónustu og sérfræðiþjónustu skóla.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hver staða ofangreindra aðgerða er, þeirra sem snúa að grunnskólum í Reykjavík.

Hver er almennt staðan á innleiðingu tillagna sem settar eru fram í skýrslunum?
1. Hver er staðan á innleiðingu þrepaskipts stuðnings í skólastarfi (e. multi-tiered systems of support) sem hluta af menntastefnu um skóla án aðgreiningar?
2. Hver er staða nýrrar Þekkingar- og þróunarmiðstöð áfalla-, ofbeldis- og sjálfsvígsforvarna?
3. Hver er staðan á tillögunni um að gera úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar? 4. Hver er staða á tillögunni um að þróa og innleiða markvissar aðgerðir til að draga úr brotthvarfi úr námi í ljósi þess að brýnt er að skólakerfið sé byggt upp með þeim hætti að markvisst sé unnið frá upphafi skólagöngu að því að hindra brotthvarf úr námi? R20090196

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Fyrirspurnir um samræmdar kennsluaðferðir í lestri, þjálfun og eftirfylgni:
Í hversu miklum mæli eru skólar að nota gagnreyndar kennsluaðferðir í lestri s.s. bókstafa-hljóða-aðferðina sem sérfræðingar eru sammála um að sé sú leið sem hafi gefið bestan árangur?

Eru skólar að huga sérstaklega að þeim börnum þar sem hefðbundnar aðferðir henta ekki, heldur t.d. frekar sjónrænar kennsluaðferðir?
Eru gerðar einstaklingsmiðaðar námsáætlanir um leið og kemur í ljós að barn hefur sérþarfir af einhverjum toga? Eru fyrir hendi samræmd árangursmarkmið í skólunum um að börn séu orðin læs eftir 2. bekk og að áherslan sé á þjálfun lesskilnings? Í hversu miklum mæli eru samræmdar aðgerðir milli skóla sem snúa að þjálfun sem eykur lesskilning, viðeigandi áskorunum og eftirfylgni?

Rannsóknir hafa sýnt að börn innflytjenda eru að koma verr út en í nágrannalöndum. Í

Í hversu miklum mæli eru samræmdar aðgerðir milli skóla í Reykjavík til að þjálfa tvítyngd börn í lestri, málkunnáttu og lesskilningi?

Ekki er hægt að líta fram hjá mælingum PISA þar sem ítrekað hefur komið fram að íslenskir nemendur standa sig marktækt verr í lestri og eru slakari í lesskilningi í samanburði við nágrannaþjóðir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt fram mál í borgarstjórn þar sem hvatt er til að nota ávallt gagnreynda lestraraðferð, að lögð sé áhersla á að lesskilningur sé þjálfaður frá byrjun og mikilvægi eftirfylgni enda er lestur og lesskilningur lykillinn að námi, þekkingarleit og þekkingarþróun.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.