Skipulags- og samgönguráð 18. nóvember 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Svæðisbundin náttúruvernd í Reykjavík, kynning:

Þessi kynning gefur góða mynd af því sem er að gerast á sviði umhverfismála með tilliti til skipulags. Galli er þó að lítill munur er gerður á ,,manngerði náttúru” og þeirri sem hefur að mestu þróast á sínum hraða án mikilla afskipta mannsins. Alveg ósnortin náttúra er varla til í borginni eða í umhverfi hennar.

Elliðaárdalurinn telst varla náttúrulegt svæði, heldur er hann frekar garður þar sem framandi og stórvöxnum trjám hefur verið plantað. Tala ætti frekar um hann sem mikið raskað svæði frekar en náttúrulegt svæði. Gildi hans er þó vissulega mikið engu að síður. Náttúruleg þróun hans mun taka mið af þeim gróðri sem þar hefur verið plantað.

Það sama gildir að verulegu leyti um önnur svokölluð náttúruleg svæði í borginni. Meira að segja hefur flestum fjörum verið spillt. Áberandi dæmi er Geirsnef. Þar hefði verið hægt að halda í lítt snortna náttúru. En það voru líf-fæðu-auðugar leirur eyðilagðar með landfyllingu. Fuglar sem þar höfðust við eru horfnir.

Við framtíðarskipulag ætti því áfram að hugsa um svæðin í borginni sem ,,borgargarða” sem þarf að sinna og þá fer best á því að miða við þarfir borgarbúa. Hætta ætti að tala um ósnortna náttúru og líffræðilega fjölbreytni. Það á ekki við.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Elliðaárdalur, deiliskipulag:

Elliðaárdalurinn er mörgum afar kær jafnvel þótt varla sé hægt að tala um hann sem ósnortna náttúru lengur. Hann er manngerð náttúra. Þar með er þó ekki sagt að gildi hans sé ekki mikið, þvert á móti. En náttúruleg þróun hans mun taka mið af þeim gróðri sem þar hefur verið plantað. Furur og greni munu sá sér út og barrskógur verður líklega ríkjandi ef ekki verður að gert. Útsýni verður þá takmarkað við næstu metra. Kvartað hefur verið yfir ýmsu í ferlinu t.d. að áform voru ekki öll kynnt í vor þegar deiliskipulag í dalnum var kynnt. Mikil umræða hefur verið um lónið sem er greinilega mörgum kært. Um það vilja margir standa vörð. Tappann skal taka úr vegna þess að ein stofnun sagði að það væri gott fyrir lífríkið. En fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um stífluna sem er friðlýst og ekki verður átt við hana án leyfis. Stíflan rífur sjónlínu milli efri og neðri hluta dalsins. Hún liggur yfir ána, bakka á milli og klýfur dalinn- farveginn- í tvennt sjónrænt séð. Tilgangur þessa mannvirkis er lokið. Með því að rífa hana er farið í átt að upprunalegu ástandi Elliðaárdals sem hlýtur að vera jákvætt.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Umferðarskipulag Kvosarinnar, tillaga

Um er að ræða Kvosina sem einkennist af þrengslum. Fulltrúi Flokks fólksins minnir á rétt allra til að hafa aðgengi. Þá er átt við þá sem ýmist koma akandi, gangandi, hjólandi, í almenningssamgöngum og fatlað fólk og þeir sem losa vörur. Stór hluti svæðisins er nú þegar göngugötur eða vistgötur. Fyrst á að gera vistgötur og svo göngugötur? Stæðum mun fækka verulega.

Væri ekki nær að leyfa vistgötum að vera áfram vistgötur og veður þá vissulega að merkja stæði íbúum og gestastæði auk stæða fyrir P merkta bíla? Best væri ef vistgötur væru fleiri og göngugötur færri þar sem gildandi umferðarlög setja veghaldara þröngar skorður um hvaða umferð er heimil á göngugötum. Með vistgötum helst þó aðgengi íbúa óbreytt frá því sem er í dag svo fremi sem stæði séu merkt þeim. Ekki liggur fyrir með hvaða hætti hægt er að tryggja íbúum innan göngugötusvæða áfram aðgengi að eignum sínum noti þeir bíl.

Óttast er að þessi óvissa fæli fólk frá að vilja fjárfesta á þessu svæði og rekstraraðila að opna verslanir þar. Stæðum fyrir hreyfihamlaða á að fjölga sem er gott. Skipulagsyfirvöld sendu minnisblað til Alþingis og vildu ráða hvaða göngugötur P merktir bílar megi aka um. Svar hefur ekki borist og mun sennilega ekki gera.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir er varða Arnarnesveg.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Reykjavíkurborg er með áætlanir um Vetrargarð fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis, við skíðabrekkuna í Jafnaseli.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir svörum við eftirfarandi fyrirspurnum

  1. Vatnsendahvarf þar sem nýr Vetrargarður á að rísa er einn besti útsýnisstaður borgarinnar og býður upp á möguleika á heillandi útsýnishúsi eða útsýnispalli ásamt viðeigandi þjónustu. Hversu mikið telja skipulagsyfirvöld að hraðbraut, sem kljúfa á Vatnsendahvarf að endilöngu, dragi úr framtíðarmöguleikum Vetrargarðsins og svæðisins í heild?
  2. Hver munu áhrif hraðbrautar svo nálægt fyrirhuguðum Vetrargarði verða?
  3. Hvernig verða mengunarmál leyst þegar stór gatnamót verða alveg upp við leik og útivistarsvæði sem er að mjög miklu leyti notað af börnum?
  4. Umhverfismat fyrir 3. áfanga Arnarnarnesvegar er eldra en 10 ára gamalt, eða frá 2002, og í ljósi þess er ekki enn útséð hvort Skipulagsstofnun fari fram á nýtt mat. Stendur til að fresta útboði þar til niðurstaða um það liggur fyrir?
  5. Tenging við Breiðholtsbraut er nú áætluð með ljósastýrðum gatnamótum en ekki mislægum eins og upphaflega umhverfismatið gerði ráð fyrir. Þessi gatnamót munu tefja verulega umferð inn og úr Breiðholti, sem liggur um Breiðholtsbraut. Hvernig hyggjast skipulagsyfirvöld bregðast við því?
  6. Vatnsendahvarfið, sem þessi 3. áfangi Arnarnesvegar á að liggja um, er mun grónara en fyrir 18 árum og virði þess sem útivistarsvæðis meira. Þar vex fjölbreyttur gróður og ýmsar tegundir farfugla, svo sem lóur, hrossagaukar og spóar verpa þar á hverju ári. Hvernig hyggjast skipulagsyfirvöld standa vörð um náttúru- og dýralífið á meðan á framkvæmdum stendur og í kjölfar þeirra?

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðismann um að fara skuli í heildarendurskoðun skipulags í Mjódd.:

Hinn 23 júlí lagði Flokkur fólksins fram tillögur er lúta að Mjódd og voru þær felldar. Lagt var til að skipulagsyfirvöld leggi sitt að mörkum til að efla starfsemi í Mjódd og endurgerð bílastæða í Mjódd. Til ársloka 2018 var í gangi samningur milli Reykjavíkur og Svæðisfélags v/ göngugötu í Mjódd. Sá samningur var þá fallinn úr gildi og hefur ekki verið endurnýjaður. Ekki er vitað til þess hvort hann hafi verið endurnýjaður nú. Jafnframt var lagt til að horft yrði til þess að gera svæðið nútímalegra umhverfis Mjódd og að það verði fært í nútímalegra horf sem henta hagsmunum borgarbúa í dag. Aðgengi er erfitt og oft er á bílastæðinu eitt kraðak, bílar að komast inn og út og reyna að sæta lagi til að komast út á götuna. Öryggi er ábótavant. Lagt var einnig til að snyrta grænu svæðin í kringum Mjódd með það að leiðarljósi að laða að þeim fólk. Einnig að hlutast til um uppsetningu hjólastæða fyrir rafhjól og hefðbundin hjól, setja upp hleðslustöðvar fyrir bíla og koma því húsnæði sem er í eigu borgarinnar á svæðinu í notkun. Ekkert af þessum tillögum náðu eyrum skipulagsyfirvalda.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um skaðabætur til rekstraraðila sem fóru illa út lokun umferðar á Laugavegi og nágrenni:

Nú eru mál Laugavegur sem göngugata, nýtt deiliskipulag og nærliggjandi reitir lokið í borgarstjórn. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að spyrja hvort borgaryfirvöld hyggjast bæta þeim rekstraraðilum sem urðu fyrir rekstrarlegu áfalli í kjölfar lokunar bílaumferðar á svæðinu? Minnt er á að yfirvöld ætluðu að opna aftur götur fyrir umferð eftir sumarlokun en það loforð var svikið.

Allt þetta mál hefur verið erfitt og greiddi fulltrúi Flokks fólksins atkvæði gegn því, ekki vegna þess að hann er á móti göngugötum sem slíkum heldur vegna þeirrar aðferðafræði sem skipulagsyfirvöld í borginni hefur notað við að keyra áfram deiliskipulagið þrátt fyrir mótmæli stórs hóps hagaðila og einnig margra borgarbúa. Skipulagsyfirvöldum hefði verið í lófa lagið að hafa samstarf við hagaðila varðandi hugmyndir um göngugötur, lokun umferðar og hvort, hvenær og með hvaða hætti þessar breytingar gætu orðið þannig að þær myndu ekki skaða rekstur verslana á svæðinu eins og raun bar vitni. Bjóða hefði átt hagaðilum að vera þátttakendum í ákvarðanatöku og ferlinu frá byrjun enda miklir hagsmunir í húfi. Það sem eftir situr er galtómur miðbær með tugi lausra rýma. Aðeins brot af lausum rýmum má rekja til COVID-19.

Fyrirspurninni er vísað frá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Fyrirspurnum er ætla að afla svara við spurningum um hluti sem varða stjórnkerfið en ekki um áform kjörinna fulltrúa. Spurningum um meinta skáðabótaábyrgð er ekki hægt að svara í skriflegri fyrirspurn, auk þess sem reynsla annarra borga gefur til kynna að þær framkvæmdir sem átt hafa sér stað í miðbænum verði virðisaukandi fyrir svæðið í heild.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort skipulagsyfirvöld muni bæta þeim rekstraraðilum skaðann sem urðu fyrir tjóni vegna lokunar bílaumferðar á Laugavegssvæðinu hefur verið vísað frá. Rökin eru m.a. þau „að spurningum um meinta skaðabótaábyrgð er ekki hægt að svara í skriflegri fyrirspurn“. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að skipulagsyfirvöld hefðu verið maður að meiri að viðurkenna mistök í máli Laugavegs/göngugötur gagnvart rekstraraðilum. Hinn 27. október 2015 leituðu Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir málsmeðferð Reykjavíkurborgar við ákvörðun um svokallaðar „Sumargötur 2015“. Í áliti hans er kveðið á um að tryggja skuli samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana og að tryggja eigi að skoðanir og sjónarmið þeirra komi fram þannig að þau liggi ljós fyrir áður en sveitarfélög samþykkja viðkomandi skipulagsáætlun. Áhersla er lögð á að auka aðkomu almennings að gerð skipulags og að samráðsaðilar komi að skipulagsferlinu eins snemma og unnt er. Með því er ætlunin að vanda gerð skipulags og tryggja að hagsmunaaðilar hafi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarfélögin þannig að þau geti tekið upplýsta ákvörðun um skipulagsáætlun.“ (Alþt. 2009-2010, 138. löggj.þ., þskj. 742.) “Álit Umboðsmanns Alþingis er áfellisdómur fyrir skipulagsyfirvöld borgarinnar.