Borgarráð aukafundur 19. apríl 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að samþykkt verði heimild til hækkunar hlutafjár Ljósleiðarans ehf. um allt að kr. 3.250.000.000,- að nafnverði, (þrír milljarðar tvöhundruð og fimmtíu milljónir króna), þ.e. 33,33% af heildarhlutafé félagsins, eða þannig að eignarhlutur Orkuveitu Reykjavíkur í félaginu verði aldrei minni en 66,67% af heildarhlutafé Ljósleiðarans ehf. Fjárhæðin byggir á sviðsmynd A hybrid og tekur mið af ítarlegu áhættumati sem lagt var fyrir rýnihóp borgarráðs.

Flokkur fólksins átti sæti í rýnihópi um málefni Ljósleiðarans og skilaði sérályktun: Slæm staða Ljósleiðarans hefur legið fyrir hjá Orkuveitu Reykjavíkur frá 2019 og jafnvel fyrr. Félagið er í dag skuldsett og er eiginfjárhlutfall hættulega lágt. Eigendur, sem að stærstum hluta til er Reykjavíkurborg, voru ekki upplýstir um slæma stöðu fyrirtækisins þegar hún lá fyrir. Fulltrúa Flokks fólksins var boðið að sitja í þverpólitískum rýnihópi sem hafði það hlutverk að leggja mat á umsögn borgarlögmanns og fjármálastjóra um heimild til hækkunar hlutafjár félagsins. Í rýnihópnum hafa ýmsar sviðsmyndir verið skoðaðar en engin þeirra er án óvissu og allar krefjast einhverrar frekari skuldsetningar félagsins, þó mismikillar. Erfitt er að spá fyrir um breytur eins og markaðsvirði, þjónustustig og samkeppni. Allan þann tíma sem rýnihópurinn hefur fundað hefur ríkt leynd yfir gögnum. Flokkur fólksins ætlar ekki að taka ábyrgð á málum sem fóru úrskeiðis, hvorki á vakt síðasta né þessa meirihluta, og tekur því ekki afstöðu um „heimild til hækkunar hlutafjár félagsins“ eins og lagt er til í umsögn borgarlögmanns og fjármálastjóra. Framtíð Ljósleiðarans er alfarið á ábyrgð meirihlutans. Það er hlutverk meirihlutans að finna út hvað ber að gera í þeirri slæmu stöðu sem Ljósleiðarinn er í og undir öllum kringumstæðum að standa vörð um hagsmuni borgarsjóðs og borgarbúa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 13. apríl 2023:

Flokkur fólksins fagnar innilega þeirri ákvörðun að lausaganga hunda verði leyfð á afmörkuðu svæði á Klambratúni. Enda þótt um sé að ræða tilraunarverkefni þá eru bundnar vonir við að hér sé um framtíðarfyrirkomulag að ræða. Allt of mikil stífni og hræðsla hefur ríkt hjá stjórnvöldum þegar kemur að mörgu sem snýr að hundum, hundaeigendum og ýmsu sem varðar gæludýraeigendur yfir höfuð.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Fundargerð Öldungaráðs: Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:

Lagt fram svar menningar- og íþróttasviðs dags.10. mars 2023, við fyrirspurn öldungaráðs um styrki tengda heilsueflingu eldra fólks, sbr. 5. lið fundargerðar öldungaráðs frá 11. janúar 2023. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun þar sem lýst er undrun á að tölulegar upplýsingar um þátttöku meðal eldra fólks séu ekki aðgengilegar þegar um er að ræða fjármuni borgarbúa. Það vill oft bregða við að þessi aldurshópur er látinn sitja á hakanum, skilinn eftir í m.a. ýmsum tölfræðigreiningum. Í það minnsta er þessi hópur ekki oft settur í forgang. Til þess að geta skipulagt fullnægjandi þjónustu og tilboð í virkni þarf að vita hverjar þarfirnar eru sem og óskir og væntingar eldra fólks í Reykjavík.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið yfirlitsins:

Umsögn Reykjavíkurborgar um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024-2028. Vísað er í margt sem kemur fram í umræddri þingsályktunartillögu, m.a. að það sé í samræmi við áherslur Reykjavíkurborgar sem koma fram í stefnu um málefni eldri borgara í Reykjavík 2018-2022, að gera eldra fólki kleift að búa sem lengst heima. Í Reykjavík þarf þó ýmislegt að breytast til batnaðar, bæði fjölga þjónustuþáttum og dýpka aðra ef gera á fólki kleift að vera eins lengi heima og það mögulega getur. Nefnd er góð samvinna milli borgar og ríkis. Mörgum finnst þeir ekki sjá nógu skýr merki þess og oft bendir hvert á annað. Allir eru þó sammála um að fjölga þarf úrræðum, t.d. úrræðum sem eru á milli heimilis og hjúkrunarheimilis. Tekið er undir að verkefnið SELMA hefur verið farsælt. SELMA er teymi hjúkrunarfræðinga og lækna, sem hefur það markmið að efla heilbrigðisþjónustu við fólk sem notar heimahjúkrun og verður fyrir skyndilegum veikindum eða versnandi heilsu. Einnig er tekið undir lokaorð umsagnarinnar. Gera þarf raunhæft kostnaðarmat og ráðstafa fjármagni samkvæmt skýrri forgangsröðun. Aðalatriðið er samfelld og samþætt þjónusta og tækifæri til velja um fjölbreytt þjónustuúrræði eftir aðstæðum hvers og eins.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um af hverju er aðgengisstefna Reykjavíkur ekki kynnt og innleidd?:

Flokkur fólksins hefur fengið ábendingar, m.a. frá fólki með fötlun, um að aðgengisstefna Reykjavíkur sé ekki vel sýnileg. Aðgengisstefna Reykjavíkurborgar til 2030 hefur aldrei verið kynnt innan kerfis borgarinnar – svo sem í ráðum, deildum og stofnunum hennar. Hún virðist heldur aldrei hafa verið kynnt formlega fyrir borgarbúum. Flokkur fólksins spyr hver sé ástæða þess. Er eitthvað í stefnunni sem meirihlutanum þykir kannski ekki gott að komist fyrir augu borgarbúa? Það er víða pottur brotinn í þessum málaflokki og segja má að brotið sé á fötluðu fólki daglega. Starfsfólk hefur ekki einu sinni verið upplýst um hvernig hægt er að skila ábendingum um hvar aðgengi sé ábótavant innan starfsstaða borgarinnar. Stefnan er á ytri vef borgarinnar – en það eru ekki margir sem hafa vitneskju um hana þar.