Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. mars 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. mars 2021 á kynningu á lýsingu að deiliskipulagi Arnarnesvegar, ásamt fylgiskjölum:
Skýrsla um lokaáfanga Arnarnesvegar er miklum annmörkum háð. Hér er ekki fjallað um valkosti heldur er einum kosti stillt upp. Annar augljós kostur er að leggja veginn í Tónahvarf og tvöfalda veg þaðan að Breiðholtsbraut og gera stórt hringtorg á mótum þeirra vega. Hvers vegna eru mismunandi kostir ekki bornir saman? Á síðustu 18 árum hefur margt breyst. Umferðarlíkanið sem stuðst var við í upphaflega matinu er úrelt. Umferðin á fyrsta áfanga Arnarnesvegar hefur nú þegar náð efri mörkum umferðar í matinu og ætlar Vegagerðin samt að tengja Salahverfi við Breiðholtsbraut með tilheyrandi stofnbrautarumferð. Endurmeta þarf áhrif stóraukinnar umferðar með tilliti til mengunar og fleiri þátta, í návígi við fjölmenn íbúðahverfi. Ný hverfi í nánd við veginn hafa verið byggð eftir að umhverfismat var gert og gert er ráð fyrir vetrargarði í Vatnsendahvarfinu. Byggja á í Kópavogi 4.000 manna byggð efst á Vatnsendahvarfi næstu ár sem ekki hefur verið tekið með inn í reikninginn. Meirihlutinn hefur ekki gert neitt til að reyna að fá nýtt umhverfismat og ætlar að bjóða börnum upp á að leika sér í vetrargarði og á skíðum í mengunarskýi. Það er erfitt að sjá að vetrargarðurinn geti þróast þar sem svo mjög er þrengt að honum.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. mars 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. mars 2021 á deiliskipulagi fyrir Skerjafjörð:
Hér er verið að fara gegn áliti fjölda manna enda má segja að níðst sé á náttúrunni. T.d. er fjaran í Skerjafirði ein af örfáum ósnertu fjörum borgarinnar. Tilslakanir ná skammt. Fermetrum í byggingum hefur jú verið fækkað smávegis og örlítið dregið úr landfyllingu. Engu að síður gætu t.d. framkvæmdir vegna undirbúnings leitt til óafturkræfanlegra mistaka á náttúru og svæðinu öllu svo ekki sé minnst á kostnað. Skemmdar verða náttúrulegar fjörur. Bæta á fyllingu meðfram flugvellinum, setja á landfyllingarkant. Fram kemur að endurbyggja á náttúrulega strönd sem verður þá ekki náttúruleg lengur. Hér er valin steypa á kostnað náttúru eins skipulagsyfirvöld hafa gert víða í Reykjavík. Líkur hafa aukist á að Hvassahraun verði ekki kostur fyrir flugvöllinn þar sem Hvassahraun stendur á hættusvæði nú þegar gos er hafið í Geldingadal. Í Skerjafirði er mengun í jörðu og hávaðamengun af flugvélum sem hefur áhrif á svæðið sem íbúðasvæði. Hvort tveggja er raunveruleiki þótt reynt verði að milda áhrifin. Þess utan mun viðbót, um 1100 íbúðir, væntanlega leiða til mikillar umferðir sem ekki er séð hvernig verður leyst. Kemur ekki til greina að hætta við að byggja í Skerjafirði og bíða eftir því að flugvöllurinn fari ef hann þá fer einhvern tímann?
Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 22. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja verkefnaklasa í stafrænum umbreytingum:
Byrjað er að fara fram á að fá strax þrjá milljarða sem var samþykkt 2020. Fullyrt er að Reykjavíkurborg sé komin einna lengst af opinberum aðilum á Íslandi enda lagt í þessa vegferð strax árið 2016. Og borgin á í reglulegu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Borgin hefur þegar afhent kóða sem er tilbúinn og kominn í rekstur til Sambands sveitarfélaga til afnota og aðlögunar. Er hér ekki verið að segja að Reykjavík leiði verkið, en er það kostur að frumherjinn beri kostnaðinn? Svo eiga nágrannasveitarfélögin að fá lausnirnar fyrir lítið eða ekki neitt? Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður tjáð sig um gríðarleg útgjöld sviðsins og fengið bágt fyrir. Í varnarskrifum formanns mannréttindaráðs hefur fulltrúi Flokks fólksins verið sakaður um að vera illa að sér í þessum málum. Í reglum borgarinnar ber sviðsstjóra og stjórnendum að innleiða og bæta þjónustu, auka skilvirkni og lækka kostnað. En hjá þjónustu- og nýsköpunarsviðinu hækkar kostnaður um milljarða. Reykjavík er ekki einkafyrirtæki á alþjóðamarkaði heldur sveitarfélag sem ber skylda til að sinna grunnþörfum og lögbundinni þjónustu við borgara. Á biðlista eftir sálfræðihjálp eru tæplega þúsund börn. Það er deginum ljósara hvernig forgangsröðin er hjá þessum meirihluta.
Bókun Flokks fólksins við svari Vegagerðarinnar/Borgarlínu, dags. 15. mars 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um skýrslu um frumdrög að fyrstu lotu borgarlínu, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. febrúar 2021:
Í svari Vegagerðarinnar kemur fram sundurliðun á undirbúningskostnaði, sem er mikill. Vaknað hafa upp spurningar hvort Vegagerðin sé rétti aðilinn til að stjórna uppbyggingu borgarlínunnar. Sérþekking hennar liggur ekki í að hanna almenningssamgöngukerfi, heldur í því að hanna umferðarmannvirki svo sem mislæg gatnamót og hraðbrautir.
Bókun Flokks fólksins við svari skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. mars 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um rýmingu Fossvogsskóla og framhald kennslu, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. mars 2021:
Lítið var sennilega hægt að gera nema að loka Fossvogsskóla tímabundið og flytja nemendur í Korpuskóla. Allt myglumálið sýnir fram á að ef eitthvað fúsk er í vinnu verktaka þá kostar það alvarlegar afleiðingar og það víti ber að varast. Hins vegar er það óheppilegt að hugsanlega er einhver mygla í Korpuskóla, en vonandi ekki í skaðlegum mæli. Þetta mál er allt hið erfiðasta. Sárast er hvað lengi tók að ná eyrum borgaryfirvalda og setja viðbrögð í gang sérstaklega þegar í ljós kemur að einhver mygla/gró var enn að grassera. Seint gleymist svar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 28. febrúar 2020 við fyrirspurn Flokks fólksins þegar fulltrúi Flokks fólksins leitaði upplýsinga eftir að hafa fengið tölvupósta frá foreldrum um að leki hafði aftur komið upp í nóvember og börn væru að veikjast. Í svarinu er fulltrúi Flokks fólksins vændur um vanþekkingu og fullyrt að Fossvogsskóli væri í góðu ásigkomulagi. Fulltrúi Flokks fólksins lagði einnig til að gerð yrði faglegri úttekt á loftgæðum skólans og fékk við þeirri tillögu ámóta viðbrögð sem voru uppfull af hroka og yfirlæti. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hafði áhyggjur af ástandinu þarna og hvað skóla- og frístundaráð og Heilbrigðiseftirlitið voru lengi að taka við sér og létu um tíma eins og vandinn væri jafnvel bara léttvægur eftir því sem virtist.
Bókun Flokks fólksins við svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 16. mars 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stafræna þróun á þjónustu borgarinnar, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. mars 2021:
Þau svör sem hér eru birt eru af sama meiði og svör við fyrirspurnum fulltrúa Flokks fólksins um í hvað þessir milljarðar fara og hvernig þeir nýtast borgarbúum. Þarna er verið að segja frá tíu milljarða útgjöldum sem fara að mestu til ráðgjafafyrirtækja erlendis og hérlendis. Fólk hefur verið rekið úr störfum sínum á þjónustu- og nýsköpunarsviði og verkum útvistað sem allir vita að er dýrara auk þess sem fátt mun sitja eftir af þekkingu og reynslu í borgarkerfinu. Ekki er verið að amast yfir þeirri ábyrgð sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur sem er að bera ábyrgð á upplýsingatækni borgarinnar og umbótum á þeim sviðum. Hvergi er hins vegar að sjá þær umbætur að heitið geti. Önnur fyrirtæki eins og Vinnumálastofnun státar af snjallmenninu Vinný sem liðkað hefur mikið fyrir þjónustu. Fram kemur aftur að reglulegir stöðufundir eru á milli þjónustu- og nýsköpunarsviðs og Stafræns Íslands og borgin hefur afhent kóða sem er tilbúinn og kominn í rekstur til Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hver borgar annar en Reykjavík? Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið sagður óupplýstur og að hann sé að ráðast á starfsfólk þegar spurðar hafa verið áleitnar spurningar um þessi mál. Slíkar eru varnirnar.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 24. mars 2021:
Í umsögn við fyrirspurn um Hafnartorg sem þykir óaðlaðandi og sérlega vindasamt, m.a. vegna þess að byggingar þar eru eins og kassar en mjókka ekki upp sem myndi milda áhrif vinda þannig að ekki koma eins stífir vindstrengir við jörð. Með skreytingum er vissulega hægt að gera Hafnartorg meira aðlaðandi er erfiðara er að leiðrétta form bygginga sem þegar hafa verið byggðar. Segir í svari að notast er við tölvulíkan og skoðanir veðurfræðinga sem er ekki það sama og rannsóknir. Almennt er erfitt að meta hvernig loftstraumar leggjast og sveiflast þótt hægt sé að giska á það með rökrænum hætti. En af hverju eru loftför prófuð í vindgöngum og af hverju eru hafnarmannvirki prófuð í straumlíkani þótt mikil reynsla sé af því að byggja út í sjó? Skýringin er að við slíkar tilraunir fæst miklu nákvæmari niðurstaða en með útreikningum. Þetta mættu skipulagsyfirvöld íhuga og losna þar með við verulegt vandamál, svo sem vindstrengina við Höfðatorg og Hafnartorg. Fólk hefur lent í beinni hættu þegar vindstrengur kemur af sjó t.d. við Höfðatorg með þeim afleiðingum að ekki er hægt að standa í lappirnar í orðsins fyllstu merkingu.
Bókun Flokks fólksins við 4. lið embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 18 mál:
Loksins er tillaga Flokks fólksins að fá meðhöndlun en hún var lögð fram í kjölfar hins hræðilega bruna sem varð á Bræðraborgarstíg 1 í fyrra. Tillagan var um að borgaryfirvöld grípi strax til aðgerða sem miða að því að finna öruggt húsnæði fyrir þann hóp fólks sem býr í ósamþykktu/óleyfisíbúðarhúsnæði. Óljóst er hvað margir búa í ósamþykktu húsnæði í borginni, atvinnuhúsnæði eða öðru óleyfishúsnæði. Í sumum tilfellum er aðbúnaður í þessu húsnæði ekki í samræmi við öryggiskröfur. Grípa þarf strax til aðgerða sem miða að því að finna öruggt húsnæði fyrir þann hóp fólks. Óttast er þessi hópur sem leitar í óleyfis- eða ósamþykkt húsnæði hafi stækkað. Nú er vaxandi atvinnuleysi vegna faraldursins og því eiga einhverjir ekki annarra kosta völ en að búa í óleyfishúsnæði. Fulltrúi Flokks fólksins vonast til að borgarstjóri og meirihlutinn gangi nú þegar í þessi mál. Dýrmætur tími hefur tapast og málið þolir enga bið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að hundar verði leyfðir í anddyri eða afgreiðslurými borgarþjónustufyrirtækja í stað þess að eigendur þeirra þurfi að festa þá utandyra meðan þeir ganga erinda sinna hjá borginni:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að hundar verði leyfðir í anddyri eða afgreiðslurými borgarþjónustufyrirtækja í stað þess að eigendur þeirra þurfi að festa þá utandyra meðan þeir ganga erinda sinna hjá borginni. Eins og kunnugt er greiða hundaeigendur sérstakan skatt fyrir að fá að halda hund. Inn í þeim skatti er trygging innifalinn, samkvæmt Dýraþjónustu Reykjavíkur (DÝR), geri hundurinn eitthvað af sér. Hundar eru óvelkomnir á flesta staði innanhúss í opinberu rými borgarinnar og í borginni. Engin ástæða er til að banna eigendum að taka hundinn sinn með inn í það minnsta í anddyri eða afgreiðslurými/sal borgarfyrirtækja í stað þess að eigendur þurfi að skilja dýrið eftir úti á meðan þeir rétt skreppa inn. Heimilishundar bera yfirleitt með sér sama örverulíf og eigendur þeirra. Hundar eru einnig tengdir eiganda með traustum taumi og eigandinn hefur fullt vald á dýrinu. Rök fyrir því að banna að taka hunda með sér inn í anddyri opinberra stofnanna í Reykjavík eru því veik.
Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að borgarráð beini því til umhverfis- og heilbrigðisráðs ásamt Dýraþjónustu Reykjavíkur (DÝR) að senda út tilmæli til kattaeigenda að þeir setji bjöllur, a.m.k. tvær, á ketti sína við upphaf varptíma fugla í maí:
Lagt er til að borgarráð beini því til umhverfis- og heilbrigðisráðs ásamt Dýraþjónustu Reykjavíkur (DÝR) að senda út tilmæli til kattaeigenda að þeir setji bjöllur, a.m.k. tvær, á ketti sína við upphaf varptíma fugla í maí. Fulltrúi Flokks fólksins er mikill kattavinur en einnig mikill fuglavinur. Kattahald er útbreitt í borginni og þeir kettir þurfa ekki að veiða sér til matar. Kettir ganga flestir lausir og fara sínar ferðir. Kettir er mikilvæg gæludýr í borgum, en kettir höggva stór skörð í stofna smáfugla með ungaveiðum. Flestum finnst mikilvægt að standa vörð um fuglalíf enda lífgar fuglalíf upp á umhverfið í borginni. Spörfuglar gera garðræktendum gagn með því að halda meindýrum á trjám í skefjum. Ábyrgir kattaeigendur draga mikið úr veiðiárangri katta með því að setja bjöllur eða/og litsterk hálsskraut á ketti sína. Tvær til þrjár bjöllur í hálsól katta sem klingja við samslátt valda því að köttur á erfitt með að koma bráð á óvart. Ein bjalla hefur takmarkað gildi. Fulltrúi Flokks fólksins vill með þessari tillögu leggja sitt af mörkum til að fleiri fuglsungar í Reykjavík komist á legg og umhverfisgæði batni.
Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að ráðist verði í endurskoðun á reglum og samþykktum borgarinnar með það að markmiði að koma í veg fyrir rekstur spilakassa og skaðlegar afleiðingar slíks reksturs:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að ráðist verði í endurskoðun á reglum og samþykktum borgarinnar með það að markmiði að koma í veg fyrir rekstur spilakassa og skaðlegar afleiðingar slíks reksturs. Spilafíkn veldur miklum samfélagslegum skaða. Þrátt fyrir það eru reknir spilakassar á Íslandi, bæði í sjoppum og á veitingastöðum og einnig í sérstökum spilasölum. Ekki þarf að leita lengra en á Lækjartorg til að finna slíkan. Undanfarið hefur skapast mikil umræða um rekstur spilakassa og hvort rétt sé að banna slíkan rekstur. Sú umræða hefur skapast fyrir tilstilli Samtaka áhugafólks um spilafíkn sem hafa staðið fyrir átakinu Lokum.is, en frekari upplýsingar má finna á vefsíðu með sama nafni. Samtökin hafa dregið fram reynslusögur spilafíkla og aðstandenda þeirra sem sýna svart á hvítu hve miklum skaða spilafíkn veldur samfélaginu.
Greinargerð
Spilafíkn veldur miklum samfélagslegum skaða eins og allir vita og margsinnis hefur verið sýnt fram á með rannsóknum. Engu að síður er rekstur spilakassa löglegur. Undanþágur voru á sínum tíma veittar til að liðka fyrir fjáröflunartækifærum og fengu Happdrætti Háskóla Íslands og Íslandsspil (í eigu Rauða Krossins, Landsbjargar og SÁÁ) heimild til reksturs spilakassa. Þrátt fyrir að ágóðinn eigi að renna til góðgerðamála er ljóst að einkaaðilar hagnast einnig á þessum ósóma. Algengt er að rekstrinum sé útvistað til einkaaðila og varla rennur ágóðinn óskipt til HHÍ og Íslandsspila. A.m.k. gefa upplýsingar í fyrirtækjaskrá það til kynna að rekstur spilakassa og spilasala skili þessum einkaaðilum reglulegum og umtalsverðum hagnaði. Það er kominn tími til að banna þennan ósóma í eitt skipt fyrir öll. Þó starfsemin sé heimil lögum samkvæmt þarf hún að uppfylla ýmsar kröfur reglna og samþykkta sem settar eru af borgaryfirvöldum. Sækja þarf um leyfi fyrir fyrirhuguðum rekstri hjá skipulagsyfirvöldum, heilbrigðiseftirliti, matvælaeftirliti og lögreglu. Þá þarf lögregla að leita umsagnar velferðasviðs fyrir leyfisveitingu vegna rekstri spilasala. Það þarf að grípa til heildstæðrar endurskoðunar þar sem skoðað verði hvaða leiðir séu færar til að koma í veg fyrir rekstur spilakassa í borginni og draga úr spilafíkn. Nauðsynlegt er að sérfræðingar leggi mat á það hvaða leiðir skili bestum árangri, enda ljóst að svara þarf ýmsum álitamálum þegar ráðist er í breytingar á reglugerðum og samþykktum borgarinnar. Með því að kortleggja hvaða leiðir eru færar er hægt að grípa til aðgerða sem skila markvissum árangri og draga úr skaðlegum áhrifum spilafíknar.
Frestað