Bókun Flokks fólksins við framlagningu árshlutareiknings Reykjavíkurborgar fyrir janúar-september 2021 ásamt greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja:
Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er óviðunandi. Gert er ráð fyrir 7 milljörðum í halla hjá A-hlutanum. Veltufé frá rekstri er neikvætt sem þýðir að tekjur A-hlutans nægja ekki til að greiða útgjöld hans. Málaflokkur fatlaðra er ekki fullfjármagnaður og ekki séð að það breytist. Reykjavíkurborg þarf að finna leið til að vinna í kringum það. Mikilvægt er að sinna grunnþjónustu borgarinnar vel og frekar bæta þar í til að bæta og auka þjónustu. Vísbendingar eru um að skerða eigi þjónustu. Fjármagn er til, því þarf bara að deila út með öðrum hætti. Alltof mikið fjármagn fer í óþarfa hluti sem hvorki eru nauðsynlegir né kallað er eftir. Skóla- og frístundasvið rær lífróður og sama gildir um velferðarsvið. Frávik eru m.a. vegna COVID-19 en ekki einungis. Þörfin fyrir meiri þjónustu var tilkomin fyrir COVID-19. Þetta eru þau svið borgarinnar sem eru mikilvægust þegar kemur að grunnþjónustu við fólkið. Staða Strætó er alvarleg og framundan eru lántökur upp á 700 m.kr. Það er áhyggjuefni hvað afkoma Strætó er slæm. A-hlutinn er fjárhagslegur bakhjarl fyrirtækja borgarinnar ef í harðbakka slær. Ítrekað hefur verið óskað eftir því að borgarráð samþykki veð í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar til tryggingar á ábyrgð m.a. fyrir Strætó.
Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 18. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja innkaupaferli vegna endurnýjunar á miðlægum netinnviðum á starfsstöðum borgarinnar:
Verið að óska eftir heimild til uppfærslu á tækjabúnaði sem þarf að gera fyrr eða síðar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt meðhöndlun fjármagns og eyðslu í tilraunastarf á stafrænum lausnum í stað þess að leita til þeirra sem komnir eru lengra. Verkefnum var í upphafi ekki forgangsraðað eftir mikilvægi heldur ráðist í ótal verkefni, mörg sem ekki lá á og enginn beið eftir. Fyrir stuttu lá fyrir boð Ríkiskaupa um að Reykjavíkurborg myndi fara með ríkinu í tilboðsleit vegna hugbúnaðarleyfa Microsoft. Því var hafnað. Ríkiskaup hafa áratuga reynslu af innkaupum fyrir ríkið og allar undirstofnanir og búa án efa þarna yfir meiri þekkingu en Reykjavíkurborg. Sagt er nú að samstarf sé í gangi en það fór af stað of seint, milljarðar eru flognir út um gluggann. Þjónustu- og nýsköpunarvið vildi geta státað sig af því að vera „fremst og leiðandi“ sem hefur ekki skilað miklu enn í formi stafrænna lausna. Ríkiskaup hafa einnig verið að kaupa inn tölvubúnað í stórum stíl og þess vegna telur fulltrúi Flokks fólksins að leita hefði átt til þeirra vegna endurnýjunar miðlægra innviða Reykjavíkurborgar. Um almannafé er hér að ræða sem sviðið sýslar með og þess vegna ætti alltaf að leita bestu leiða. Það hefur ekki verið gert.
Bókun Flokks fólksins við bréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki leigusamning um hluta af húsnæði að Hagatorgi 1:
Það er vont til þess að vita hvernig komið er fyrir Hagaskóla en kemur ekki á óvart. Málið er ekki nýtt. Viðhald skólabygginga hefur ekki verið nægjanlega gott á undanförnum árum og mygla í húsnæði hrekur starfsemina úr skólahúsnæðinu. Fulltrúi Flokks fólksins ræddi málefni Hagaskóla ítarlega frá júní til september 2019 og bókaði þá um skýrslu innri endurskoðanda þar sem fram kom að viðhaldi hefur ekki verið sinnt sem skyldi sl. 10 ár vegna niðurskurðar. Fjárveitingavald borgarinnar virðist ekki hafa skilið að sinna þarf húsum ef þau eiga ekki að grotna niður. Á þessum tíma var ákveðið að setja 300 milljónir í viðhald sem var eins og dropi í hafið ef tekið er mið af ástandi skólabygginga. Þetta sýnir að yfirvöld tóku þessi mál ekki mjög alvarlega 2019. Fulltrúi Flokks fólksins var með umræðu um ástand skólabygginga í borgarstjórn á þessum tíma. Þar var sérstaklega rakið ástandið m.a. í Hagaskóla. Minnt var á hina svokölluð fimm skóla skýrslu sem borgarfulltrúi hefur óskað eftir að verði gerð opinber en án árangurs. Reynt var ítrekað að fá þessa skýrslu upp á borð. Fulltrúi Flokks fólksins bókaði að gera þurfti stórátak í þessum málum og verja í málaflokkinn 1-2 milljörðum. Þetta var 2019!
Bókun Flokks fólksins við framlagningu ársfjórðungsskýrslu græna plansins fyrir júlí til september 2021:
Það er dálítið mikið bara „allt“ sett undir græna planið, sem gerir kannski þetta hugtak „grænt“ svolítið ruglingslegt. Þetta er mikið tískuhugtak og orðið ofnotað orð. Það er tímabært að kjarna hvað átt er við með grænu og um hvað það hverfist helst. Eiginlega eru lítil takmörk á því hvað sett hefur verið undir græna planið hjá meirihlutanum. Því er slegið fram í tíma og ótíma og þá eiga allir að hugsa að á ferðinni sé „eitthvað gott“. Ef litið er á aðgerðaáætlun í ársfjórðungsskýrslunni má sjá t.d. virkniúrræði. Lýsing: Er í endurskoðun með áherslu á virkni. Staða verkefnis: Í vinnslu. Stöðulýsing: Verið er að leita að húsnæði. Þá spyr fulltrúi Flokks fólksins, hvar er þetta „græna“ í þessu? Þessi skýrsla er því ekkert frekar ársfjórðungsskýrsla „græna plansins“ heldur er hún stöðuskýrsla fjölda verkefna sem eru flest enn í vinnslu. Þetta eru tæplega 40 verkefni sem þarna eru nefnd og 9 af þeim eru merkt sem lokið.
Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 22. nóvember 2021, um starfshóp um græna plan Reykjavíkurborgar:
Ágætt að skipa starfshóp um framgang grænna mála. Til skamms tíma hefur ekki verið vel skilgreint hvað átt er við með grænum verkefnum, sjálfbærri þróun og líffræðilegum fjölbreytileika. Vonandi verður bætt úr því. Best væri ef hópurinn myndi reyna að flokka verkefni, draga þau fram sem ættu raunverulega heima undir grænum hatti.
Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 23. nóvember 2021 að hefja endurskoðun á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðisúrræðis fyrir fatlað fólk til 2030:
Lagt er til af meirihlutanum að borgarráð samþykki að velferðarsvið og umhverfis- og skipulagssvið hefji endurskoðun á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðisúrræðis fyrir fatlað fólk til 2030 með það að markmiði að fjölga sértækum húsnæðisúrræðum. Loksins! Hér hefur dropinn holað steininn en fulltrúi Flokks fólksins hefur frá upphafi kjörtímabils ávarpað skort á sértækum húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk. Í áætlun til 2030 var naumt skammtað. Þannig hefur það alltaf verið. Þessi hópur og aðrir viðkvæmir hópar mæta afgangi, eru aldrei í forgangi. Staðan þann 1. september sl. var að fjöldi umsækjenda sem bíður eftir fyrsta húsnæði er 136 og fjöldi sem bíður eftir milliflutningi 32. Það gerir samtals 168 einstaklinga og hafa 40 einstaklingar beðið lengur en 5 ár. Biðlistatölur hafa lítið breyst síðustu ár. Árið 2019 biðu 145 einstaklingar eftir sértæku húsnæði í 1. til 3. flokki. Árið 2014 voru tölurnar þær sömu. Sumir hafa beðið í fjöldamörg ár, fatlað fólk sem er orðið rígfullorðið og býr enn hjá foreldrum sínum. Foreldrarnir eru jafnvel orðnir aldraðir og veikir vegna álags svo ekki sé minnst á álag þeirra sem eru á biðlistanum.
Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 23. nóvember 2021, vegna fyrirhugaðrar ferðar staðgengils borgarstjóra, Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, til Þórshafnar í Færeyjum, dagana 26. nóvember til 29. nóvember n.k. þar sem hún mun færa Þórshafnarbúum jólatré frá Reykjavíkurborg og taka þátt í hátíðardagskrá við tendrun þess:
Þriggja daga ferð, en er ekki möguleiki á að nota fjarfundabúnað?
Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 19. nóvember 2021, vegna fyrirhugaðrar þátttöku borgarstjóra í ráðstefnunni International Congress for the Prevention of Addiction í Mexíkó, dagana 30. nóvember til 3. desember:
Er ekki alveg rakið að notast hérna við fjarfundarbúnað? Eru ekki bæði Reykjavík og Mexíkó borgir með þróaðan fjarfundabúnað? Fundir í gegnum netið kosta minna en að fara á staðinn svona langan veg.
Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs, dags. 22. nóvember 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 17. nóvember 2021 á tillögu um samþykki samnings um neyslurými:
Þessu er fagnað. Fulltrúi Flokks fólksins lagði þann 20. nóvember 2018 fram tillögu um að borgarstjórn samþykkti að setja á laggirnar rými fyrir vímuefnaneytendur í Reykjavík í samvinnu við verkefnið Frú Ragnheiði hjá Rauða krossinum. Þá hafði heilbrigðisráðuneytið eyrnamerkt 50-60 milljónir í uppsetningu á rými af þessu tagi fyrir vímuefnaneytendur í Reykjavík og er hlutverk Reykjavíkurborgar að finna húsnæði. Nú er þetta loksins að verða að veruleika. Fulltrúi Flokks fólksins telur að sú skaðaminnkandi hugmyndafræði sem neyslurými er byggt á sé eina nálgunin sem er mannréttindamiðuð og sem bæði byggist á að draga úr skaða og aðstoða einstaklinga á þeirra eigin forsendum. Um leið og dregið er úr skaðlegum afleiðingum sem fylgja neyslu ávana- og fíkniefna er ekki aðeins verið að hjálpa einstaklingunum sjálfum heldur einnig aðstandendum og nærsamfélaginu. Í þeim löndum sem neyslurými eru til og eru vel nýtt hefur dauðsföllum sem rekja má til notkunar vímuefna í æð fækkað. Í framtíðinni er mikilvægt að úrræði sem þetta verði staðsett á nokkrum stöðum og opið allan sólarhringinn.
Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. nóvember 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tímarit varðandi húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2021:
Í svari frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara kemur skýrt fram að fólk vill búa í Reykjavík. Að mati Flokks fólksins er fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar óviðunandi og ekki farið nægjanlega vel með fé skattgreiðenda. Mikilvægt er að sinna grunnþjónustu borgarinnar vel og frekar bæta þar í þjónustu til að minnka biðlista. 11 milljón króna lóðabæklingur sem líklegt má telja að fari beint í ruslið hjá mjög mörgum borgarbúum er að mati Flokks fólksins dæmi um illa meðferð fjár og óumhverfisvænt verkefni sem rímar ekki við grænar áherslur og grænt plan. Flokkur fólksins vill húsnæðisúrræði fyrir alla og þá sérstaklega ódýrt húsnæði og ekki síst fyrir þá sem minna mega sín. Samkvæmt fréttum er ungt fólk að snúa aftur í foreldrahús þar sem það ræður ekki við það dýra húsnæði sem nú er í boði. Flokkur fólksins vill breyta þessu. Ekki er hægt að lækka íbúðaverð með því að bjóða eingöngu íbúðir á þéttingarsvæðum. Bæta þarf við nýjum hagkvæmum byggingarsvæðum þar sem ekki þarf að kaupa upp lóðir og rífa eldra húsnæði. Meirihlutinn talar um græn svæði og grænt samfélag. Spyrja má hvort sú mikla þétting sem nú á sér stað sé græn og veiti íbúum aðgang að útivistarsvæðum, birtu og fuglasöng.
Bókun Flokks fólksins við bréfi við svari skóla- og frístundasviðs, dags. 16. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað við breytingar á skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. nóvember 2019:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Við lestur þess fæst sú upplifun að allir séu ánægðir með þetta fyrirkomulag og breytingar hafi heppnast vel. Stærsti kostnaðurinn eru laun verkefnastjóra en annan kostnað er ekki svo gott að reikna út svo sem tíma og laun við að bregðast við kvörtunum, svara skeytum og síma og sitja fundi. Reyndar kemur hvergi fram og hvergi hefur það sést með skýrum hætti hvað breytingar á mannvirkjum og umferðarmannvirkjum kostuðu vegna sameiningarinnar. Ástæða spurningarinnar var m.a. að talað var um að hafa þetta fyrirkomulag til 10 ára og að hagræðing með því yrði um 2 milljarðar. Starfshópurinn taldi mikið tækifæri í þessu t.d. að venja börnin á að taka strætó en ekki láta skutla sér. Það er ljóst að starfshópurinn var einhuga um að breytingarnar yrðu farsælar. Þetta birtist eins og allt sé í blússandi blóma. Ef rétt er munað gekk alltof hægt að fá samgöngurnar í lag. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir foreldrana að horfa upp á börn þeirra keyrð úr hverfinu og börn úr 108 keyrð í hverfið. Borgin þykist vera að draga úr umferð og mengun, svo þetta er mjög mikil þversögn.
Bókun Flokks fólksins við 2. lið fundargerðar íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 15. nóvember:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að skipulagsyfirvöld beittu sér með ákveðnari hætti í að gera Úlfarsárdal sjálfbært hverfi eins og til stóð að það yrði og lofað var. Tillögunni er vísað frá með þeim rökum að verslun komi í Rökkvatjörn 1 og að tillagan geymi ekki raunhæfar lausnir. Í umsögn er viðurkennt að eitthvað hefur farið úrskeiðis við uppbyggingu þessa hverfis sem „af mörgum ástæðum“ eins og það er orðað, hefur tekið langan tíma. Á öllum þessum tíma hefur ekki tekist að byggja upp nauðsynlega innviði til að hægt sé að mæta daglegum þörfum íbúanna innan hverfisins. Verið er að byggja glæsilegt mannvirki í Dalnum, skóla, íþróttaaðstöðu og sundlaug. Það eru aðrir hluti sem vantar, s.s. almennar þjónustuverslanir. Ekki er hægt að kaupa neinar vistir í sjálfu hverfinu enn sem komið er. Sé farið í næsta hverfi eftir föngum þarf bíl, og það er ekki í samræmi eða í takt við hugmyndafræði skipulagsyfirvalda. Hér eru því heilmiklar mótsagnir.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 24. nóvember 2021:
Lögð eru fram 5 mál sem snúa að athugasemdum vegna hverfisskipulags Breiðholts. Í þessum gagnapakka er að finna bréf frá Vegagerðinni og Kópavogsbæ um Arnarnesveginn. Athugasemdir beggja aðila valda áhyggjum. Vegagerðin bendir á að skv. vegalögum nr. 80/2007 er veghelgunarsvæði stofnvega 30m til hvorrar handar frá miðlínu vega en 15m frá miðlínu annarra þjóðvega. Hér er líklega verið að hnýta í fyrirhugaðan Vetrargarð og þetta gefur þá vísbendingu að Arnarnesvegurinn mun skerða þróunarmöguleika hans. Kópavogur heimtar óbeint í bréfi að sá vegur eigi að geta stækkað verulega frá núverandi slæmu skipulagi. Er það eðlilegt að annað sveitarfélag reyni að stýra skipulagi í Reykjavík? Verður Arnarnesvegurinn að umferðarþungri umferðaræð sem hindrar útivist, rústar Vatnsendahverfinu og efsta hluta Elliðaárdals? Kópavogur ætlar sér að stýra því hvernig svæðum umhverfis Arnarnesveg verði ráðstafað í skipulagi „svo áframhaldandi afkastageta vegarins verði tryggð“ eins og segir í þeirra umsögn. Þegar á allt þetta er litið má spyrja af hverju hafi aldrei verið skoðað að leggja veginn í göng eða stokk til að vernda umhverfi, náttúru og útivistarmöguleika svæðisins.
Bókun Flokks fólksins við 3. lið fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 29. október 2021:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst rosalegt að sjá hvað Strætó þarf að taka mikið af lánum. Fá á lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga upp á 400 m.kr. Lánið er til 8 ára, vextir eru fastir 4,5%. Einnig er búið að samþykkja lánasamning við Arion banka þar sem Strætó tekur rekstrarlán upp á 300 m.kr. Lánið er til 5 ára, vextir eru 2,5% álag á REIBOR vexti. Það er áhyggjuefni hvað afkoma Strætó er slæm. A-hlutinn er fjárhagslegur bakhjarl fyrirtækja borgarinnar ef í harðbakka slær. Um þetta liggja fyrir mörg dæmi. Ítrekað hefur komið inn á borð borgarráðs ósk um að borgarstjórn veiti veð í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar í Lánasjóði sveitarfélaga til tryggingar á ábyrgð á lántöku Félagsbústaða. Sama hefur gerst með Strætó og SORPU.
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að hönnun nýrra leikskóla byggi á hugmyndafræði um bæði algilda hönnun og hönnun sem hverfist um arkitektúrinn og rýmisgildi þannig að rými tengjast og tryggja sveigjanleika og fjölbreytni í notkun og rekstri:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að hönnun nýrra leikskóla byggi á hugmyndafræði um bæði algilda hönnun og hönnun sem hverfist um arkitektúrinn og rýmisgildi þannig að rými tengjast og tryggja sveigjanleika og fjölbreytni í notkun og rekstri. Einnig er lagt til að skoðað verði með hvaða hætti væri hægt að breyta eldri leikskólum með ofangreinda hugmyndafræði að leiðarljósi sem myndi stuðla að samnýtingu og samkennslu í auknum mæli. Leikskólar eru mismunandi í þessu tilliti. Algild hönnun og hönnun leikskóla almennt séð getur skipt máli fyrir ótal margt í starfi leikskólanna t.d. hvernig starfsfólk nýtir krafta sína í umsjón, eftirliti og leik með börnunum. Í leikskóla þar sem hönnun hefur tekist vel segir starfsfólk að áhrif undirmönnunar séu minni vegna þess hvernig rýmin eru uppbyggð og hægt er að hafa góða yfirsýn. Að vinna við krefjandi störf í illa hönnuðu húsi er mannskemmandi. Heilsu fólks er ekki aðeins ógnað heldur einnig góðum starfsmannaanda.
Greinargerð:
Dæmi um hönnun sem hér er lýst:
1) Öll starfsmannaklósett eru inni kennslustofum nemenda.
2) Fatahengi barna í inni kennslustofu barna.
3) Hver kennslustofa hefur sér útihurð til að komast að leikvellinum.
4) Sameign þarf að vera hönnuð þannig að starfsmenn hafi ávallt yfirsýn yfir börnin.
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að bjóða skuli út úrgangsþjónustu Reykjavíkurborgar. Flokkur fólksins vekur athygli á því að Samkeppnisstofnun gaf út skýrslu þar sem bent er á að með vel skilgreindum útboðum á úrgangsþjónustu hafi sveitarfélög sparað 10-47% í kostnaði:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að bjóða skuli út úrgangsþjónustu Reykjavíkurborgar. Flokkur fólksins vekur athygli á því að Samkeppnisstofnun gaf út skýrslu þar sem bent er á að með vel skilgreindum útboðum á úrgangsþjónustu hafi sveitarfélög sparað 10-47% í kostnaði. Það ætti að vera hlutverk borgarfulltrúa að sjá til þess að úrgangsþjónusta sé sem hagkvæmust fyrir íbúa og fyrirtæki. Varla er rekstur SORPU undantekning frá þeirri reglu að sparnaður náist – eða hvað? Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna dæmi um árangur í útboði frá Osló enda skipulagsyfirvöld hrifin af mörgu því sem þar á sér stað: Eftir umfangsmikla undirbúningsvinnu, m.a. fundi með hagsmunaaðilum, var ákveðið að skipta útboðinu upp í nokkra þætti. Tilboðin sem bárust voru um 30-40% lægri en kostnaður í eldra kerfi (http://www.kretslopet.no/nyheter/497-kraftig-prisreduksjon-pa-innsamling…). Fulltrúi Flokks fólksins vill að úrgangsþjónusta verði eins hagkvæm fyrir íbúa og fyrirtæki og kostur er. Í sveitarfélögum þar sem horft er til árangurs í úrgangsmálum eru oft nefnd Akureyri og Stykkishólmur en þar er úrgangsþjónusta boðin út.
Greinargerð:
Samkeppniseftirlitið gaf út í febrúar 2016 skýrsluna „Competition in Waste Managment Sector, prepairing for a Circular Economy“ Tildrög skýrslunar voru aukin áhugi á samkeppni við meðhöndlun úrgangs og að úrgangur er ekki lengur aðeins vandamál heldur verðmætt hráefni. Niðurstaða skýrslunnar var að talsvert svigrúm væri til að auka samkeppni við meðhöndlun úrgangs á Norðurlöndunum. Mikilvægi virkrar samkeppni væru nýjar og skapandi lausnir, hagræðing, aukin verðmætasköpun og aukin skilvirkni. Tilmæli skýrsluhöfunda var að hvatt var til þess að fara í aukin útboð en að til þeirra yrði að vanda.
Ljóst má vera að kröfur til úrgangsmála munu aukast næstu árin og flækjustig þar með. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að fá fram sem flest sjónarmið og úrlausnir með útboðum. Hvernig væri moltugerð á höfuðborgarsvæðinu í dag ef að verkefnið hefði verið boðið út í stað þess að sveitarfélögin fóru sjálf í þetta?
Reynsla sýnir að sparnaður nemi frá 10 – 47% frá kostnaði við eldri kerfi. Margt er hægt að skoða hjá Reykjavíkurborg. Má þar nefna að Reykjavíkurborg er eitt fárra sveitarfélaga á landinu sem er með eigin sorphirðu frá heimilum. Hefur sorphirðu verið ábótavant þar sem að hún er á höndum einkaaðila? Hér ætti að vera einfalt að skipta henni upp og bjóða út t.d. sorphirðu í ákveðnum póstnúmerum. Skoða mætti hversu vel slíkt gefst og hvort að slíkt leiði til ódýrari eða betri þjónustu við íbúa. Sama gæti átt við fleiri þjónustur.
Í ljósi sögunnar er ekki að sjá að Reykjavíkurborg sé undanskilin því að geta náð fram sparnaði. Þau sveitarfélög sem eru nefnd sem fyrirmynd í úrgangsþjónustu eru mörg þjónustuð af einkaaðilum. Íbúar þar hafa ekki kvartað undan þeirri þjónustu og margir hverjir verið afar stoltir af því hve vel gengur.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins á hvernig standi á því að ekki hafi verið tekið tilboði Ríkiskaupa um þátttöku í innkaupum á hugbúnaðarleyfum frá Microsoft:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir skýringum á hvernig standi á því að ekki hafi verið tekið tilboði Ríkiskaupa um þátttöku í innkaupum á hugbúnaðarleyfum frá Microsoft. Einnig spyr borgarfulltrúinn af hverju þjónustu- og nýsköpunarsvið hafi ekki leitað til Ríkiskaupa vegna útboða um endurnýjun miðlægra innviða Reykjavíkurborgar. R21110273
Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.