Borgarráð 9. september 2021

Bókanir vegna tillögu borgarstjóra að samþykkja tilboð að nafnvirði 1.980 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 4,16%, í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1, sem eru 1.629 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 1.420 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 0,90%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, en það eru 1.410 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 8. september 2021. 

Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R20120178

Hér er verið að taka tveggja milljarða lán og bætist enn í skuldsetningu borgarinnar, en skuldir samstæðu borgarinnar stefna í 400 milljarða, en þær voru komnar í 397 milljarða í júní síðastliðnum. Vextir fara hækkandi og mun það hafa áhrif á greiðslubyrði borgarinnar á næstu árum.

Bókun vegna sex mánaða árshlutauppgjörs 

Það er tvennt sem vekur mesta athygli við lestur uppgjörs Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Í fyrsta lagi veldur mjög erfið afkoma A-hlutans áhyggjum. Veltufé frá rekstri er neikvætt um 3.2 milljarða eða um 4,7% af heildartekjum. Það er mjög alvarleg staða. Hluta af þessum mikla rekstrarhalla á rætur að rekja til Covid 19. Veltufé frá rekstri fyrstu sex mánuði ársins 2020 var hinsvegar jákvætt um 1,9 ma.kr. þrátt fyrir Covid 19. Afkoman hefur því versnað um fimm milljarða milli ára. Fram kemur að ný langtímalán að fjárhæð 12.1 ma.kr. eru tekin á fyrstu sex mánuðum ársins. Það samsvarar 66,6 m.kr. á hverjum degi.

Í öðru lagi er rétt að benda á hvernig afkoma samstæðunnar er blásin upp. Til tekna á samstæðureikningi eru færðir 11,1 ma.kr. sem eru tilkomnnir vegna þess að matsverð fasteigna Félagsbústaða er uppreiknað með hliðsjón af verðbreytingum á almennum fasteignamarkaði. Fasteignir Félagsbústaða eru ekki markaðsvara. Hér er því um að ræða tekjufærslu án allrar innistæðu sem hefur þann eina tilgang að sýna afkomu samstæðunnar betri en hún er í raun. Slík froða á ekki að sjást í bókhaldi opinberrar stjórnsýslu.

Þjónustu- og nýsköpunarsvið:

Í reikningsyfirliti því sem lagt hefur verið fram fyrir rekstur Þróunar- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar fyrstu sex mánuði ársins 2021 kemur fram að laun fara um 18% fram úr áætlun og annar rekstrarkostnaður hefur farið 7,3% fram úr áætlun. Samtals fór rekstur skrifstofunnar 211 m.kr. fram úr áætlun eða um 11,5%.
Mikilvægt er að gerð sé glögg grein fyrir hver er ástæða fyrir þessari framúrkeyrslu. Voru samþykktir viðaukar vegna hennar. Ekki er hægt að kenna Covid 19 um þessa framúrkeyrslu þar sem allar forsendur vegna hennar lágu fyrir við gerð fjárhagsáætlunar, þar á meðal að það þyrfti að leggja í aukakostnað við þrif.
Þar sem tekjur stofunnar  byggja að mestu leyti á þjónustu við aðrar rekstrareiningar borgarinnar þá er ekki um að ræða tekjur sem skila sér inn í borgarkerfið, heldur er um að ræða millifærslur milli einstakra rekstrareininga hjá borginni.
Eins og áður hefur komið fram þá er mikilvægt að glögg yfirsýn sé til staðar um rekstur skrifstofunnar þar sem mikil hætta er á að yfirsýn skorti þegar starfsemi hennar vex mikið á skömmum tíma.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. ágúst 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning um atvinnuhúsnæði á 1. hæð:

Óskað er eftir samþykki fyrir viðbótarrými fyrir umhverfis- og skipulagssvið. Ekki kemur fram í gögnum hver þörfin sé en nú hefur sviðið yfir að ráða einni og hálfri hæð í Borgartúni. Sviðið hefur þanist mikið út á þessu kjörtímabili, ráðningum á fólki fjölgað án þess að útskýra hvað orsakar þensluna. Hér er um ótímabundinn samning að ræða sem gefur vísbendingar um að umsvifin eru komin til framtíðar. Þörfin á viðbótarrými er einnig sérkennileg í ljósi þess að sviðið kaupir óhemju mikla og dýra ráðgjöf og vinnu frá utanaðkomandi aðilum, verkfræðistofum og arkitektastofum.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 7. september 2021, varðandi líkan til úthlutunar á fjárheimildum grunnskóla, grunnskólalíkanið Edda:

Hið plástraða reiknilíkan til að reikna út fjárframlag til skóla fer nú loks, vonandi, að heyra fortíðinni til og nýtt að líta dagsins ljós. Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að nú sé að koma nýtt og betrumbætt reiknilíkan skólanna. Ef það gengur eftir mun ávinningurinn vera sá að forsendur fyrir fjárhagsáætlun verða gegnsærri og skýrari og að áætlanir samræmdari milli skóla. Þetta allt hlýtur að leiða til jákvæðra hluta. Í fjölda ára hefur úrelt reiknilíkan sem lifað hefur sjálfstæðu lífi stýrt fjármagni til skólanna. Lýsing á hinu plástraða reiknilíkani eins og hún birtist í skýrslu innri endurskoðunar fyrir tveimur árum var hreint ótrúleg og sætti það furðu að ekki hafi verið gengið í að uppfæra svo mikilvægt líkan fyrir lifandis löngu, reiknilíkan sem hreinlega leiddi til þess að skólar, sumir hverjir allavega, liðu svelti.

Bókun Flokks fólksins við tillögu starfshóps um verkferil vegna rakaskemmda eða myglu í húsnæði sem hýsir starfsemi Reykjavíkurborgar:

Mygla hefur verið alltof algeng í húsnæði borgarinnar. Orsakir eru án efa ekki einsleitar en sú stærsta er viðhaldsleysi til margra ára og er það viðurkennt. Þekking um að raki í timbri megi ekki fara yfir 20%, sem er ávísun á rakaskemmdir, virðist hafa minnkað. Til að draga úr þessum vanda þarf að huga að mörgu, ekki síst hönnun bygginga. Þessar tillögur um upplýsinga- og samskiptaferli eru til bóta, en ekki má gleyma rótinni, sem er hvernig byggingar eru gerðar og þeirri staðreynd að halda þarf við húsum. Myglumál Fossvogsskóla sem olli alvarlegum veikindum barna þurfti til að meirihlutinn ákvað að fjárfesta í nýjum verkferli. Í þennan brunn þurfti barnið að detta áður en hann var byrgður. Nú á að taka þetta alla leið og búa til ferli innan borgarinnar þegar grunur vaknar um grunsamlegar rakaskemmdir og léleg loftgæði í húsnæði sem hýsir starfsemi borgarinnar. Búið er að stofna starfshóp til að skilgreina verkferla um rakaskemmdir og léleg loftgæði í húsnæði borgarinnar. Vonandi verður þetta til þess að aldrei aftur verði börn skikkuð til að stunda nám í heilsuspillandi húsnæði né nokkur annar sem starfar hjá Reykjavíkurborg.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Brúum bilið tillaga um ungbarnaleikskóla við Vörðuskóla

Meirihlutinn leggur til að setja upp húsnæði fyrir ungbarnaleikskóla í færanlegum einingum á lóð Vörðuskóla við Barónsstíg. Þessu ber að fagna. Verkefnið Brúum bilið er langt á eftir áætlun og hafa fjölmargir foreldrar lent í vandræðum vegna brostinna loforða þessa meirihluta. Ástæðan er fyrst og fremst sú að í þetta metnaðarfulla verkefni var ekki sett nægt fé til að það gangi upp eins og lagt var upp með. Gert var ráð fyrir 700-750 nýjum leikskólaplássum fram til 2023 en nú kemur í ljós að 400 ný pláss vantar til viðbótar. Spá um fjölgun var ekki nákvæmari en það. Í þeim ungbarnaleikskóla sem hér um ræðir er gert ráð fyrir 600 fermetra leikskóla sem geti rúmað um 60 börn. Stofnkostnaður er 95 milljónir og leigukostnaður 32,4 milljónir á ársgrundvelli. Hér er um mjög dýrt tímabundið úrræði að ræða með háum stofnkostnaði kannski í mesta lagi til þriggja ára. Þriggja ára kostnaður er því um 200 milljónir eða 65 milljónir á ári fyrir 60 börn. Þetta er afleiðing þess að málaflokkurinn hefur ekki fengið það vægi sem þurfti í ljósi fjölgunar sem var fyrirsjáanleg. Nú er komið að skuldadögum sem birtast í að grípa þarf til rándýrra  bráðabirgðaúrræða.  Samkvæmt síðustu tölum voru 740 börn á biðlista en þess utan er fjöldi barna sem sækja leikskóla í öðru hverfi en sínu eigin.

 

Bókun Flokks fólksins við drög að lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030: Heilsuborgin Reykjavík:

Þau drög sem hér eru lögð fram, Heilsuborgin, Lýðheilsustefna, eru full af fögrum fyrirheitum. Fulltrúi Flokks fólksins vill draga úr draumsýn og sjá frekar skýrar línur um hvenær og hvernig á að framkvæma hlutina. Það er verk að vinna enda hefur margt sem snýr að lýðræði og heilsu setið á hakanum hjá þessum og síðasta meirihluta í borgarstjórn, hlutir sem hefði átt að vera fyrir löngu búið að koma í fullnægjandi horf. Heilsa og hamingja byggir á svo mörgu, t.d. að eiga fæði, klæði og húsnæði og þurfa ekki að hafa áhyggjur af börnum sínum. Nú fer fátækt vaxandi, biðlistar barna eftir nauðsynlegri aðstoð í sögulegu hámarki og samkvæmt nýjum könnunum hefur andleg heilsa barna versnað. Viðvörunarljós loga á rauðu en engin viðbrögð eru af hálfu borgarmeirihlutans. Umferðartafir valda mengun þar sem ljósastýringar eru í ólestri. Ekkert af þessu tengist góðri heilsu og hamingju. Þetta hefði fulltrúi Flokks fólksins vilja sjá nefnt í stefnunni og hvenær ætti að bæta þessa hluti. Hver er tímalínan og hvaðan kemur fjármagnið? Víða þarf að taka til hendinni og er það alfarið á valdi meirihlutans í borgarstjórn. Góð stefna er fín byrjun en það gengur ekki að láta síðan þar við sitja.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  velferðarsviðs, dags. 6. september 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 1. september 2021 á tillögu um þjónustusamning við Ás styrktarfélag til 2025:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þjónustusamningi við Ás styrktarfélag. Ás styrktarfélag er sjálfseignarstofnun sem sinnir margvíslegri þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík. Í dag veitir Ás styrktarfélag um 240 Reykvíkingum þjónustu í formi búsetu, sérhæfðrar þjónustu við börn og vinnu- og virknimiðaðrar stoðþjónustu. Starf styrktarfélagsins er ómetanlegt.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgerðir til að fækka nemendum í grunnskólabekkjum, kennslu í heimahúsum og vægi tækni- og listaverkefna í grunnskólum, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. febrúar 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn um hvað verið sé að gera til að fækka nemendum í bekkjum og um fjölda barna sem fá kennslu í heimahúsi. Einnig var spurt um vægi tækni- og listverkefna í grunnskólum borgarinnar. Í svörum kemur fram að meðalfjöldi nemenda á hvern umsjónarkennara í grunnskólum borgarinnar fjölgaði úr 22,1 nemanda í 22,7 síðustu 5 ár. Sambærileg fjölgun er á aðra kennara. Aðeins einn nemandi stundar heimanám. Hlutfall list- og verkgreina á að vera 15,48% af kennslutíma og hlutfall upplýsinga- og tæknimenntar 2,68%. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort farið sé eftir þessu viðmiði í öllum skólum borgarinnar. Nýlega birtist í fréttum að ekki er vitað hvort eða hvar að minnsta kosti 279 börn á skólaskyldualdri stunda nám. Flest þeirra eru af erlendum uppruna og sveitarfélögin telja líklegt að flest þeirra séu búsett erlendis jafnvel þótt þau séu skráð til heimilis á Íslandi samkvæmt Þjóðskrá. Vitað er að umrædd börn voru flest í fjölmennustu sveitarfélögunum. Í Reykjavík reyndust þau 80. Ekki er vitað hvort skóla- og frístundasvið er að leita að þessum börnum til að kanna stöðu þeirra og líðan.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gagnsæja ruslapoka, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júlí 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvort gjald yrði líka lagt á þá sem koma með sorp í pappírspokum eða taupokum. Vissulega eru þeir ekki gegnsæir. Í svari kemur fram að mikilvægt sé að sjá í gegn, sjá hvað er í pokanum (því að þannig er hægt er að ná betri skilum á endurvinnsluefnum í rétta gáma eins og segir í svari). En hafa skal í huga að eitt af markmiðum okkar sem viljum bæta umhverfið er að hætta notkun plasts og plastpoka og þess vegna skýtur það skökku við að aðeins megi koma með sorp í plastpokum, glærum plastpokum nánar tiltekið. Hér er kannski spurning um meiri hagsmuni fyrir minni, með því að draga úr plasti á kostnað þess að sjá ekki alltaf sorpið í pokanum. Strigapokar eru t.d. ekki úr plasti. Ættu þeir ekki að vera „gjaldgengir“? Með því að skilyrða fólk að koma með sorp í „glærum“ plastpokum er verið að ýta undir notkun plasts sem gengur þvert gegn umhverfissjónarmiðum. Vissulega er gegn- og gagnsæi ávallt af hinu góða í sinni víðustu merkingu. Víða má finna stóra pappírspoka og ef þörf er á fleiri og stærri slíkum pokum má framleiða meira af þeim.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um leiðrétt gjöld vegna þjónustuskerðingar vegna COVID-19, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. maí 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvort Reykjavík hafi nú þegar leiðrétt gjöld vegna niðurfellingar eða skerðingar þjónustu leik- og grunnskóla og frístundaheimila í COVID-19 aðstæðunum. Fyrirspurnin var lögð fram fyrir meira en ári og loks berst svar. Viðauki hefur verið samþykktur um að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um sem nemur 14.100 þ.kr. vegna viðbótarframlagsins til samræmis við aðgerðir vegna borgarrekinna leikskóla. Ekki kemur fram hvernig þessar upphæðir eru fengnar eða útreiknaðar, s.s. fjöldi þeirra sem fengu leiðréttingu o.s.frv. Hins vegar er vitað að Reykjavík var ansi sein að taka við sér með þessar greiðslur og eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst mun seinni en önnur sveitarfélög sem gerðu leiðréttingarnar fljótt og vel. Minnst er á að þessi fyrirspurn var lögð fram af ástæðu, þ.e. foreldrar í Reykjavík voru orðnir langeygir eftir leiðréttingunni. Má sem sagt ganga út frá því sem vísu að allir hafi fengið leiðréttingu?

 

Bókun Flokks fólksins við svari Slökkviliðsins við fyrirspurnum áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um starfsánægjukönnun slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. maí 2021. Einnig lögð fram ítrekun á fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júlí 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur beðið lengi eftir svörum við fyrirspurnum Flokks fólksins sem lúta að niðurstöðum könnunar um líðan starfsfólks í slökkviliðinu. Spurt var m.a. um samskipti við yfirmenn, tilfelli um einelti, áreitni, hvernig hefur verið unnið með slík mál. Ástæða fyrir því að starfsfólk vildi fá utanaðkomandi aðila til að greina vandann er að ekki var trú á að stjórnendur myndu gera það eða geta. Í tilfellum sem stjórnendur eru hluti og e.t.v. orsök vandans segir það sig sjálft að þeir geti ekki verið hæfir til að meta sjálfa sig. Niðurstöður könnunarinnar voru rauðglóandi. Hvort næst að vinna einhverja úrbótavinnu er spurning. Stundum dugar ekki annað en að skipta um menn í brúnni. Í svörum er áberandi að reynt er að gera lítið úr vanlíðan fólks og skýla sér bak við „COVID“. Talað er um vísbendingar um vanlíðan en ekki raunverulega vanlíðan. COVID skall á fyrir einu og hálfu ári en eitrað andrúmsloft verður ekki til á einu ári heldur mörgum. Að öðru leyti eru þessi svör útúrsnúningar. Látið eins og þeir sem gerðu könnunina væru ekki meðvitaðir um hvernig starfsemi þetta væri. Fulltrúi Flokks fólksins spyr í framhaldi: Hefur mönnum verið sagt upp störfum og hafa málaferli orðið vegna starfsloka hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins?

 

Bókun Flokks fólksins við svari Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dags. 2. september 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um verktöku í sjúkraflutningum, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júlí 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvort ekki væri tímabært að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hætti verktöku í sjúkraflutningum til þess að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Fram kemur í svari að þetta hafi verið svona lengi. Þótt þetta sé búið að vera lengi er þetta barns síns tíma. Nefna má að fyrir 30 árum voru sjúkraflutningar ekki svona stór þáttur í rekstri Slökkviliðs Reykjavíkur. Mjög litlar líkur voru þá á að einn maður kæmi á vettvang á slökkvibíl sem getur gerst í dag. Allt er stærra í dag en var, meiri menntun á báðum sviðum, menn sérhæfðari og krafist er viðamikillar þekkingar. Segir í svari að í dag sé hægt að boða um 200 manns í stórútköll. Það segir ekki allt. Eins og kemur fram í svari er varðlið um 160 manns. Þrátt fyrir allt þetta hefur þessi fjöldi ekki dugað sem segir að eitthvað er ekki að ganga upp í skipulaginu. Afleiðingar eru að viðbragð í slökkviþættinum getur verið takmarkað á sama tíma og álag er á sjúkraflutningum sem getur kostað mannslíf. Þetta eru tvö aðskilin störf og sjúkraflutningamenn eru heilbrigðisstarfsmenn og þurfa mikla sí- og endurmenntun reglulega til að getað viðhaldið þekkingu sinni.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands varðandi viðveru sálfræðinga í skólum borgarinnar, sbr. 67. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. júní 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt til að sálfræðingar hafi starfsstöð sína í skólunum sjálfum. Það útilokar ekki að þeir geti haft samráð og samstarf við þverfagleg teymi á þjónustumiðstöðum. Hér er verið að svara spurningum um í hvaða grunnskólum Reykjavíkurborgar sálfræðingar eru með fasta viðveru. Stöðugildi skólasálfræðinga á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar sem þjónusta 80 leikskóla og 44 grunnskóla eru 25,8. Meðtaldir eru einkareknir leik- og grunnskólar. Fæstir sálfræðingar eru með fasta viðveru. Við lestur svars virðist þetta tætingslegt. Fram kemur að aðstöðuleysi sé oft orsök þess að sálfræðingur geti ekki haft fasta viðveru. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þau mál sé hægt að leysa. Dæmi eru um að sálfræðingur noti herbergi hjúkrunarfræðings þegar hann er ekki í skólanum. Sálfræðingar eru vanir að vinna við alls konar aðstæður. Umfram allt þurfa þeir að vera nálægt börnunum og menningu skólans og vera til taks til að veita ráðgjöf og styðja við kennara og starfsfólk. Hluti þess að taka á hinum langa biðlista, 1474 börn, er að gera störf sálfræðinganna skilvirkari og að ekki fari tími í að ferðast milli skóla og þjónustumiðstöðvar.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Grafarvogs, 11 lið frá 1. september 2021.

Tillaga meirihlutans snýr að því að hefja undirbúning tilraunaverkefnis vegna leigu á rafskutlum sem sérstaklega verði ætlað að þjóna fólki sem á erfitt með að ganga lengri vegalengdir í miðbænum. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvaða hóps meirihlutinn er að vísa hér til. Fatlaðs fólks, fólks með skerta hreyfigetu eða þeirra sem eru með léttvægari fótameiðsl? Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til aðra lausn sem mætti skoða samhliða rafskutluleigu þess vegna og hún er sú að skutluvagn æki um göngugötur. Tillögunni var vísað frá með þeim rökum að ekki megi fjölga bílum á göngugötum og að á Hverfisgötu séu frábærar strætótengingar. Víða erlendis, á sólarströndum sem dæmi, má sjá fólk sem á erfitt um gang aka um á litlum rafskutlum, sennilega svipað því og meirihlutinn hefur í huga. Það fólk býr á hótelum á staðnum og rafskutlurnar eru til taks fyrir utan hótelin. Þegar reynt er að yfirfæra þetta yfir á miðbæ Reykjavíkur er fyrsta hugsunin að fólk sem ekki býr þar þarf að komast þangað sem rafskutlan er.

 

Bókun Flokks fólksins við 3 lið í lista um  embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 3 mál:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hvetur sveitarfélög til þess að hefja undirbúning innleiðingar laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Sérstaklega er tekið undir mikilvægi samhæfingar verklags þvert á svið og stjórnvalds, ríkis og sveitarfélaga. Ríki og sveitarfélög hafa engan veginn unnið nægjanlega vel saman í gegnum tíðina. Sem dæmi hefur skort á að skólar og heilsugæsla vinni saman og má nefna í þeim tilfellum þegar í ljós kemur í skoðun á heilsugæslu að barn þarf snemmtæka íhlutun þegar það hefur skólagöngu. Einnig skortir á samvinnu skólaþjónustu og stofnana ríkisins eins og BUGL og Þroska- og hegðunarstöð. Nánara samstarf myndi leiða til þess að hægt væri að draga úr biðlistum barna sem stundum bíða á tvöföldum og jafnvel þreföldum biðlistum eftir greiningu og meðferð. Barn bíður e.t.v. mánuðum saman á biðlista eftir sálfræðiþjónustu skóla, fer svo aftur á biðlista eftir greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð og þurfi það frekari aðstoð fer það á biðlista eftir þjónustu hjá barna- og unglingadeild.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um úttekt á fátækt í Reykjavík:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að framkvæma úttekt á fátækt í Reykjavík í samvinnu við mannréttinda, nýsköpunar- og lýðræðisráð. Vegna efnahagslegra áhrifa COVID má leiða líkur að því að fátækt hafi aukist meðal borgarbúa. Í ljósi þess þarf að kortleggja fjölda fólks sem lifir undir fátæktarmörkum og greina þarfir þessa hóps og hvort sú þjónusta sem borgin veitir sé að mæta þörfum þessa hóps og hvort þörf er á úrbótum.

Greinagerð

Við vitum það vel hversu alvarlegar afleiðingar efnahagshrunið 2008 hafði. Afleiðingarnar elta fjölskyldur kynslóða á milli meira en áratug síðar. Við höfum lært af þeirri reynslu og helsta lexían er sú að byrja að sporna gegn áhrifum fátæktar strax. Því er mikilvægt að gera sem fyrst úttekt á því hvort fátækt hafi aukist Reykjavík vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19 og kanna jafnframt hvaða leiðir séu færar til að vinna gegn áhrifum fátæktar og styðja við borgarbúa sem lifa undir fátæktarmörkum. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 skipaði Reykjavík starfshóp um fátækt. Í kjölfar vinnu sinnar skilaði starfshópurinn skýrslu um stöðu fátæktar í borginni og kortlagði úrræði og gaf tilllögur um úrbætur. Þörf er á samskonar úttekt núna.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um framtíð skólamála í Laugardal:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af framtíð skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi. Margir deila þeim áhyggjum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að ræða við íbúa og starfsmenn skólanna í hverfinu vegna framtíðar skólamála í ljósi þess að næstu ár verður byggt mikið á svæðinu. Skólarnir eru hins vegar sprungnir og það þarf að gera eitthvað. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort verið sé að ræða þessi mál hjá borgaryfirvöldum og finna lausnir til framtíðar.  R21090084

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvað gengur á hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í ljósi niðurstaðna könnunarinnar um starfsánægju sem komu út rauðglóandi:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með fyrirspurnir um hvað gengur á hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Niðurstöður könnunarinnar um starfsánægju komu út rauðglóandi. Hvort næst að vinna einhverja úrbótavinnu er spurning. Stundum dugar ekki annað en að skipta um menn í brúnni. Í svörum er áberandi að reynt er að gera lítið úr vanlíðan fólks og skýla sér bak við „COVID“. Talað er um vísbendingar um vanlíðan en ekki raunverulega vanlíðan. COVID skall á fyrir einu og hálfu ári en eitrað andrúmsloft verður ekki til á einu ári heldur mörgum. Fulltrúi Flokks fólksins spyr í framhaldi: Hefur mönnum verið sagt upp störfum og hafa málaferli orðið vegna starfsloka hjá SHS? R21030227

Vísað til umsagnar Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu bs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort skóla- og frístundaráð er að kanna með virkum hætti stöðu og líðan um 80 barna á skólaskyldualdri sem eiga lögheimili í Reykjavík en sem eru ekki að stunda nám:

Fyrirspurn frá Flokki fólksins um hvort skóla- og frístundaráð er að kanna með virkum hætti stöðu og líðan um 80 barna á skólaskyldualdri sem eiga lögheimili í Reykjavík en sem eru ekki að stunda nám. Nýlega birtist í fréttum að ekki er vitað hvort eða hvar að minnsta kosti 279 börn á skólaskyldualdri stunda nám sem eru skráð til heimilis á Íslandi samkvæmt þjóðskrá. Í Reykjavík voru þau við fyrstu athugun 179 en eftir nánari eftirgrennslan reyndust þau 80. Minnt er á að það er m.a. á ábyrgð sveitarfélaga að tryggja að öll börn á skólaskyldualdri sæki grunnskóla og að gripið sé til viðeigandi ráðstafana ef í ljós kemur að svo er ekki. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um eftirfarandi: Er skóla- og frístundasvið að gera eitthvað til að finna þessi 80 börn sem eiga lögheimili í Reykjavík og kanna með líðan þeirra og af hverju þau eru ekki að stunda nám þótt þau séu á skólaskyldualdri og skráð í Reykjavík samkvæmt þjóðskrá? Ef svo er, hvað hefur verið gert? Hefur Reykjavíkurborg/skóla- og frístundasvið ráðlagt að koma á miðlægu skráningarkerfi svo að unnt sé að fylgjast með því hvort og hvar börn á skólaskyldualdri eru skráð í grunnskóla? R21090086

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.