Borgarráð 26. mars 2020

Tillaga Flokks fólksins að fundargerðir nefnda og ráða borgarinnar verði komnar á innri og ytri vef Reykjavíkurborgar eigi síðar en sólarhring eftir að fundi er slitið

Flokkur fólksins leggur til að fundargerðir nefnda og ráða borgarinnar verði komnar á innri og ytri vef Reykjavíkurborgar eigi síðar en sólarhring eftir að fundi er slitið. Dragist það af einhverjum orsökum sé nefndarmönnum og öðrum borgarfulltrúum send drög í pósti innan sólarhrings frá fundarslitum. Borið hefur á því að það dragist von úr viti að fundargerðir birtist á netinu. Þetta hefur skapað mikil óþægindi fyrir nefndarmenn og aðra borgarfulltrúa sem þurfa að yfirfara fundarefni af ýmsum ástæðum. Þessi seinkun eða töf á að fundargerðir birtist opinerlega  er engum boðleg. Dæmi eru um að líði 2 vikur og jafnvel meira að fundargerð komi inn á vefinn.

Tillaga Flokks fólksins að Félagsbústaðir skoði að veita aukna greiðslufresti og jafnvel fella niður leigu í tvo til þrjá mánuð vegna Covid- 19.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Félagsbústaðir skoði að veita aukna greiðslufresti og jafnvel fella niður leigu í tvo til þrjá mánuð vegna Covid- 19.
Fordæmi um aðgerðir af þessu tagi eru nú þegar til hjá öðru leigufélagi. Reikna má með að fjölmargir eigi eftir að verða fyrir barðinu af veiruvánni og þá ekki síst fjárhagslega. Fólk verður fyrir tekjumissi á næstu vikum og mánuðum vegna ástandsins. Hjá Félagsbústöðum leigir viðkvæmur hópur og margir berjast í bökkum fjárhagslega. Í þeim aðstæðum sem nú ríkja er mikilvægt að létt verði áhyggjum af fólki eins og hægt er.

Tillaga Flokks fólksins að skóla- og frístundaráð taki ákvörðun um að innheimta ekki gjöld fyrir skóla- eða frístundavist eða nokkuð annað sem börn hafa ekki getað mætt í að fullu vegna komu kórónaveirunnar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð taki ákvörðun um að innheimta ekki gjöld fyrir skóla- eða frístundavist eða nokkuð annað sem börn hafa ekki getað mætt í að fullu vegna komu kórónaveirunnar. Borgarfulltrúi telur að skóla- og frístundayfirvöld borgarinnar eigi að taka sjálfstæða ákvörðun um að innheimta ekki gjöld fyrir skóla- eða frístundavist án tillits til hvað álit eða skoðun Samtök Sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur á því eða önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ef því er að skipta. Reykjavíkurborg er stærsta sveitarfélagið og eiga yfirvöld að hafa kjark til að ríða á vaðið með ákvörðun eins og þessa og gefa þar með gott fordæmi. Börn eru ekki að fullnýta pláss sín vegna samkomubanns. Í leikskólum er tekið á móti helming barna á hverri deild daglega og barn kemur í leikskólann tvo daga aðra vikuna og þrjá daga hina. Hér á að taka af skarið í stað þess að vera að skoða málið eða bíða eftir áliti Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Borgarfulltrúa finnst Reykjavík oft vera ansi háð áliti og handleiðslu Samtakanna þegar kemur að mikilvægum málum sem varða borgarbúa. Vel kann að vera að málið sé flókið í útfærslu en það á varla að hindra yfirvöld að gera það eina sem rétt er í þessum efnum.

Tillaga Flokks fólksins að Félagsbústaðir falli alfarið frá því að senda leiguskuldir leigjenda, stórar eða smáar til lögfræðinga í innheimtu og frysti þær sem nú eru komnar í innheimtuferli um ókominn tíma.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Félagsbústaðir falli alfarið frá því að senda leiguskuldir leigjenda, stórar eða smáar til lögfræðinga í innheimtu og frysti þær sem nú eru komnar í innheimtuferli um ókominn tíma. Sú aðgerð stjórnar Félagsbústaða að beina öllum ógreiddum leigugjöldum til innheimtufyrirtækis var vond ákvörðun og sársaukafull fyrir marga. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í kjölfar þess að ákvörðunin var kynnt á fundi velferðarráðs að fallið yrði frá þessari ákvörðun hið snarasta og að Félagsbústaðir haldi sjálfir utan um greiðsludreifingu leiguskulda hjá leigjendum sínum og semdi sjálft við þá sem komnir eru í skuld eins og áður var gert. Það skýtur skökku við að borga innheimtufyrirtæki fyrir að innheimta skuld af fólki sem berst í bökkum fjárhagslega og margir ná engan vegin endum saman um mánaðamót. Öll vitum við að þegar skuld er komin í innheimtu hjá lögfræðingum þá leggjast frekari innheimtugjöld ofan á skuldina. Nú ríkir erfitt ástand hjá mörgum vegna Covid-19 og sýnt þykir að einhverjir munu missa vinnu sína eða mæta öðrum erfiðleikum sem veiruváin veldur fólki og samfélaginu. Nú þurfa allir, einstaklingar og fyrirtæki að sýna sveigjanleika, lipurð og mannlegheit og umfram allt að taka mið af þessum erfiðu aðstæðum sem nú ríkja.

Tillaga Flokks fólksins að þegar mældar eru  fjarlægðir frá upphafspunkti að stoppistöð séu þær mældar út frá gönguleiðum en ekki loftlínu.

Flokkur fólksins leggur til að þegar mældar eru  fjarlægðir frá upphafspunkti að stoppistöð séu þær mældar út frá  gönguleiðum en ekki loftlínu. Sú hugmynd kemur fram í nýju leiðarkerfi strætó sem er í mótun að mæla skuli fjarlægðir út frá loftlínu. Fjarlægðir frá heimili eftir stígum og götum að biðstöð eru alltaf talsvert lengri en loftlína. Bein loftlína á milli tveggja staða er ekki raunhæf mæling á fjarlægðum, t.d. þegar talað er um fjarlægðir á milli stoppustöðva strætó þar sem engar hindranir eru þá teknar með eðli málsins samkvæmt. Meðal markmiða þessa nýja leiðarkerfis er gera almenningssamgöngur aðgengilegar og mæta þörfum fólks með hreyfihömlun. Það er mikilvægt að viðmið um ásættanlega göngufjarlægð frá almenningssamgöngum sé ákveðið í samráði og sátt við hagsmunasamtök hreyfihamlaðra. Almennt er viðmið á bilinu 300-500m. Hér á viðmiðið að vera  400m og mæling á að miða við loftlínu. Raunveruleg göngufjarlægð er vissulega lengri  þar sem hún fer eftir tengingum við göngustíga og götur hverju sinni. Fyrir hreyfihamlaða er mikilvægt að mælingar séu eins nálægt þeim raunveruleika sem við blasir á jörðu niðri. Loftlínumælingar geta varla talist heppilegar enda er þar ávallt um beina línu milli tveggja punkta að ræða.

Tillaga Flokks fólksins að að innheimtu árlegs hundeftirlitsgjalds verði frestað þar  til stýrihópur sem endurskoðar reglur um dýrahald hefur lokið störfum

Flokkur fólksins leggur til að innheimtu árlegs hundeftirlitsgjalds verði frestað þar  til stýrihópur sem endurskoðar reglur um dýrahald hefur lokið störfum. Ítrekað hefur komið fram hin megna óánægja sem ríkir með árlegt hundaeftirlitsgjald. Flokkur fólksins hefur ítrekað spurt um í hvað þessi gjöld fara nákvæmlega. Svörin eru ekki fullnægjandi og finnst sem gæti varna í umsögnum og viðbrögðum Heilbrigðiseftirlitsins. Greiðendur hundaeftirlitsgjalds telja margir að dæmið gangi ekki upp sama hvaða reikningskúnstir eru notaðar. Hundaeigendur greiða um 35 milljónir á ári í hundaleyfisgjöld en samt er það staðfest að verkefni eftirlitsins hefur fækkað til muna og umfang starfs hundaeftirlistmanna þar með. Flokkur fólksins hefur óskað eftir að fá upp á borð vinnuskýrslur til að sjá verkefni og umfang verkefna þeirra. Fyrirsjáanlegt er að þær fáist ekki framlagðar. Ef litið er nánar á tölur frá HER  sést glöggt að verkefnum hefur fækkað mjög. Árið 2000 voru kvartanir um 1300. Árið 2012 milli 600 og 700, árið 2018 um 80 og árið 2019 um 84. Fjölda lausagönguhunda og hunda í hundageymslum hefur einnig fækkað. Frá 2010 var fjöldi hunda í hundageymslum 89 en árið 2016 11. Árið 2010 voru lausagöngumál 209 en árið 2016 vor lausagöngumál aðeins 62.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs mannréttindaráðs á tillögu um lýðræðisgáttir Reykjavíkurborgar:

Flokkur fólksins er sammála þeim tillögum er lagðar voru fram á fundi Mannréttindar-, nýsköpunar og lýðræðisráðs þann 27. febrúar s.l. sem snýr að auknu lýðræði til borgaranna m.a. hvað varðar vægi hverfaráða. Tekur fulltrúi Flokks fólksins undir þær tillögur hvað varðar breytingar á fyrirkomulagi verkefnisins Hverfið mitt. Það eru breytingar til batnaðar. Jafnframt vill Flokkur fólksins benda á að ávallt verði haft í huga lýðræðislegur réttur borgaranna í öllum hverfum borgarinnar. Nú er einnig verið að vinna að gerð lýðræðisstefnu. Í allri þessari vinnu vill Flokkur fólksins árétta að ávallt sé gætt að réttindum fatlaðs fólks í hverju því verkefni sem fer í framkæmd og haft í huga samþykktir Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur samþykkt. Leita þarf að þeim hópum sem sýnt er að taki minni þátt og hjálpa þeim að koma inn sem fullir þátttakendur.

 

Bókun Flokks fólksins um sumarlokanir leikskóla:

Flokkur fólksins leggur áherslu á að auka þjónustu leikskólanna þannig að foreldrar hafi fullt val þegar kemur að leikskólavist barna þeirra á sumrin. Nú verða aðeins 6 leikskólar opnir í ákveðnar vikur í sumar á meðan allir aðrir loka. Einhver börn þurfa að færast á milli leikskóla. Sum börn eru viðkvæm fyrir slíku raski. Sumarlokanir leikskóla eru að verða barn síns tíma. Það að fyrirskipað skuli að loka leikskólum samfellt í ákveðnar 4 vikur á sumrin samræmist e.t.v. ekki því þjónustustigi sem væntingar standa til í dag. Lokanir sem þessar koma illa við sumar fjölskyldur og kannski helst einstæða foreldra sem ekki allir fá frí í vinnu sinni á sama tíma og leikskóli barns lokar. Það sumar sem nú gengur í garð verður án efa óvenjulegt vegna aðstæðna Covid-19 og einnig vegna nýafstaðinna verkfalla. Mikilvægt er að taka sérstaklega mið af ólíkum þörfum íbúa borgarinnar á komandi sumri. Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði grundvallarbreytingar á þessu fyrirkomulagi fyrir sumarið 2021. Þá ætti markmiðið að vera að bjóða fjölskyldum borgarinnar upp á fulla þjónustu og sveigjanleika og að foreldrar hafi þá val um hvenær þeir taka sumarleyfi með börnum sínum. Samhliða verður mannekluvandi leikskólanna vissulega að vera leystur.

 

Bókun Flokks fólksins við samþykki á inngöngu 4ra barna í Arnarskóla og að ekki verði fleiri umsóknir samþykktar:

Það sem skipti máli er að öll börn séu í skólaúrræðum þar sem þeim líður vel, finna sig meðal jafningja og fá náms- félags- tilfinningalegum þörfum sínum mætt. Samþykkja á inngöngu fjögurra barna núna í Arnarskóla  en segir að ekki verði opnað á umsóknir vegna fleiri nemenda fyrr en ytra mat skólans liggur fyrir en um það hefur borgin ekkert að segja. Margir myndu túlka þetta sem fyrirslátt.  Arnarskóli býður upp á heildstæða skólaþjónustu sem er úrræði sem hentar sumum börnum betur en fyrirkomulag sem kallar á meiri þvæling milli staða. Það er tímabært að leysa sérskólamál öðruvísi en með skammtímalausnum. Langur biðlisti er í skólaúrræði eins og Klettaskóla og Brúarskóla. Báðir eru fullir og sá fyrri yfirsetinn.  Bregðast þarf við með varanlegum lausnum og ef vel ætti að vera ætti borgin að reka sjálf skóla eins og Arnarskóla. Flokkur fólksins hefur lagt til að fjölga þátttökubekkjum Klettaskóla, rýmka inntökureglur og stækka Brúarskóla. Í svörum og umsögnum við tillögu um stækkun Brúarskóla var beinlínis sagt að  ekki væri þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma. Samt eru 19 börn á biðlista þar.  Á meðan borgin leysir ekki vandann heildstætt skiptir máli að loka ekki fyrir umsóknir í Arnarskóla.

Bókun Flokks fólksins vegna svara við fyrirspurn um Grensásveg 12:

Í þessu máli, Grensásvegur 12, tapaði borgin milli milli 40 og 50 milljónum í samningum þegar riftunin var gerð. Mál af þessu tagi minnir alla á hvaða vanda þarf val á verktökum og að hafa ávallt allan undirbúning samkvæmt bókinni m.a. hvað varðar tryggingar þegar borgin hyggst fara í framkvæmdir. Málið hefði í raun átt að vera fyrir löngu komið inn á borð hjá innri endurskoðanda.