Velferðarráð
3. júní 2020
Bókun Flokks fólksins við kynningu á Bjarkarhlíð:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnaði stofnun Bjarkarhlíðar enda úrræði sem virkilega var þörf á. Bjarkarhlíð opnaði formlega í mars 2017 og hefur verið farsælt úrræði allar götur síðan. Fulltrúi Flokks fólksins veit að Bjarkarhlíð hefur sannað gildi sitt en þangað hefur mikill fjöldi af þolendum ofbeldis af öllu tagi lagt leið sína og fengið dýrmæta aðstoð. Öll þjónusta er undir sama þaki og auðveldar það mörgum fyrstu skrefin sem mörgum finnst erfitt að taka í leit að aðstoð. Fyrir þolendur eineltis er fátt eins erfitt eins og að vera í lausu lofti með ofbeldismál, fá e.t.v. enga svörun eða málalyktir og heldur enga hlustun eða skilning. Vonandi er Bjarkarhlíð komin til að vera til frambúðar til að geta veitt þolendum heildræna þjónustu í átt að betri líðan.
Bókun Flokks fólksins við kynningu á skýrslu um aldraða og heimilisofbeldi:
Ofbeldi gegn öldruðum er alvarlegt vandamál og því miður berast af og til fregnir af slíkum tilfellum. Yfir öldruðum, fötluðum og öðrum viðkvæmum hópum er mikilvægt að stjórnvöld og samfélagið allt standi saman vaktina. Öll eigum við eftir að verða öldruð, þ.e. lifum við nógu lengi til þess. Ef horft er til rannsókna má sjá að 2-10% aldraðra eru þolendur ofbeldis. Ofbeldi gegn öldruðum getur verið andlegt og líkamlegt og stundum er það í formi vanrækslu. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari skýrslu því mikilvægt er að safna gögnum með reglulegu millibili til að vera sífellt með puttann á þessum púlsi.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram ósk um að fá lista yfir þau úrræði/aðstoð sem eldri borgarar fengu í Covid aðstæðunum:
Flokkur fólksins óskar eftir að fá lista yfir þau úrræði/aðstoð sem eldri borgarar fengu í Covid aðstæðunum? Ástæða fyrirspurnarinnar eru m.a. sú að í miðjum Covid faraldri bárust tíðindi m.a. frá Félagi eldri borgara um að eldri borgarar í Reykjavík hefðu orðið útundan þegar kom að hjálparúrræðum m.a. fjárhagslegum á meðan faraldurinn gekk yfir og í kjölfar þess að náðist utan um hann. Margir eldri borgarar búa einir og voru fyrir þessar aðstæður þá þegar einmana og einangraðir og jafnvel fjárþurfi.
Vísað til umsagnar velferðarsviðs.