Borgarráð 27. ágúst 2020

Bókun Flokks fólksins við lið 50 og 53 við fundargerð skipulags- samgönguráðs 26. 8. vegna ábendinga sem íbúar Breiðholts hafa tjáð sig um.

Tillaga Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld endurskoði strax þær ábendingar sem íbúar Breiðholts hafa tjáð sig um m.a. á samfélagsmiðlum hefur verið felld. Flestir virðast hafa áhyggjur af hvert stefnir í bílastæðismálum en víða er nú þegar skortur á þeim. Opnað er fyrir möguleika á að byggja 3000 íbúðir án þess að þeim fylgi bílastæði í sambærilegu hlutfalli. Íbúaeign án bílastæðis er ekki eins söluvæn og fylgdi henni bílastæði. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að með því að fella þessa tillögu séu það merki um að skipulagsyfirvöld ætli ekki að taka þessum ábendingum alvarlega. Jafnvel þótt heilu fjölskyldurnar muni fara um á hjólum þá fá flestir stundum til sín gesti. Í stað þess að sýna slíka stífni þegar kemur að einkabílnum væri nær að skipulagsyfirvöld styddu fólk með ýmsum hætti til að skipta yfir í raf- eða metanbíl. Enda þótt borgarlína sé fyrirhuguð í Mjódd mun fólk nota bíl áfram. Koma þarf börnum í leik- og grunnskóla ásamt að sinna öðrum erindum. Sumir verða að fara á bíl í vinnu og til að komast á borgarlínustöð. Tillaga Flokks fólksins um að fresta samþykktarferli hverfisskipulags Breiðholts vegna COVID aðstæðna þar til hægt verði að hafa íbúaráðsfundi í Breiðholti var einnig felld.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skóla- og frístundaráðs, dags. 18. ágúst 2020, liður 5

Á fundi skóla- og frístundaráðs var gerð breytingartillaga við tillögu Flokks fólksins um að skóla og frístundaráð í samvinnu við skólasamfélagið leiti leiða til að hvetja til aukinnar notkunar endurskinsmerkja og auka fræðslu til að tryggja enn frekari umferðaröryggi barna. Segir í bókun meirihlutans að ekki hafi verið hægt að samþykkja tillöguna þar sem í upprunalega tillögutextanum eru athugasemdir um núverandi stöðu á fræðslu sem ekki er hægt að taka undir. Ekki er hægt að skilja af hverju skólayfirvöld setja það fyrir sig að í tillögu Flokks fólksins sé hvatt til að auka fræðslu til að tryggja umferðaröryggi telji sig þess vegna ekki geta samþykkt tillöguna. Að öðru leyti er tillagan samþykkt, þ.e. lögð fram sem breytingartillaga og er því nú í nafni meirihlutans en ekki lengur Flokks fólksins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margtjáð sig um hvað þessi vinnubrögð eru hvimleið og hvati til sundrungar frekar en samvinnu. Til að loka fyrir samvinnu er ýmist brugðið á það ráð að finna að orðalagi tillagna eða vísað til reglna í stjórnkerfi borgarinnar. Skilaboðin hljóta einfaldlega að vera þau að meirihlutanum finnst erfitt að góðar tillögur frá Flokki fólksins séu ekki í nafni hans sjálfs. Þessu er vel hægt að breyta ef vilji er fyrir hendi.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 19. ágúst 2020 undir lið 7

Borist hefur svar frá framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits borgarinnar við tillögu Flokks fólksins að innheimtu árlegs hundeftirlitsgjalds verði frestað þar til stýrihópur sem endurskoðar reglur um dýrahald hefur lokið störfum. Margsinnis hefur komið fram hin megna óánægja sem ríkir með árlegt hundaeftirlitsgjald. Flokkur fólksins hefur ítrekað spurt um hvernig þessum gjöldum er varið í ljósi fækkun verkefna. Fram kemur hjá framkvæmdarstjóra heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að búið er að senda út innheimtuseðla fyrir hundaeftirlitsgjaldi 2020. Í svari er vísað í tölur heilbrigðiðseftirlits Reykjavíkur sem sýnir glöggt að verkefnum hefur fækkað mjög. Ekki er því skilið hvernig það má vera að þörf sé á að innheimta sama gjald og þegar verkefnin voru fleiri. Fulltrúi Flokks fólksins vill taka fram að hann er að vinna fyrir stóran hóp dýraeigenda sem kallar eftir skýringum þar sem útilokað er að sjá hvernig hundaeftirlitsgjaldið er nýtt í þágu dýraeigendanna og hunda þeirra. Sífellt er einnig ýjað að því að einhverjar órökstuddar staðhæfingar séu í fyrirspurnum og tillögum fulltrúa Flokks fólksins. Vísað er í heimasíðu heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og sagt að allar upplýsingar séu þar. En það er sama hvaða reikningskúnstir eru notaða þá skýrir það ekki af hverju gjaldið hafi ekki verið lækkað umtalsvert eða lagt af.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð velferðarráðs frá 19. ágúst 2020 undir 25. – 28. liðum fundargerðarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram 14 tillögur sem sneru að bættri þjónustu við eldri borgara í heimahúsum og fjölgun þjónustuþátta. Öllum nema fjórum var hafnað. Frávísun var m.a. á grundvelli þess að verklagsreglur og framkvæmdaferill væru settar af starfsmönnum velferðarsviðs en ekki í velferðarráði.

Hvatinn að gerð tillagnanna voru fréttir um að matarsending til eldri borgara hefði verið skilin eftir á hurðarhúni. Ljóst er að breyta verður verkferlum við matarsendingar og hlutverki sendils til draga úr hættu á misskilningi milli þjónustuveitanda og þjónustuþega. Útvíkka þarf einnig ákveðna þjónustuþætti og bæta fleirum við þann þjónustupakka sem nú býðst þessum hópi til að auka möguleikana á að geta búið lengur heima. Létta þarf fjárhagslega undir með mörgum eldri borgurum. Lagt var til að þeir sem búa í öðru húsnæði en þjónustuíbúð ættu að fá niðurgreiðslur á þeim þáttum sem eru að jafnaði innifaldir í þjónustuíbúð s.s. rafmagn, húsgjald og þrif í görðum. Einnig var lagt til að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnað við öryggishnapp. Rök fyrir að fella þá tillögu var að „að það sé varasamt að setja það fordæmi að borgin fari að fyrra bragði og óumbeðin inn á verksvið ráðuneytis og sendi þar með þau skilaboð að kostnaðarþátttaka ráðuneytis sé óþörf“.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu borgarstjóra varðandi þriggja ára tilraunaverkefni um frístundir í Breiðholti, ásamt fylgiskjölum.

Fulltrúi Flokks fólksins hefur barist lengi fyrir að frístundakortið verði notað samkvæmt sínu upphaflega tilgangi en ekki til að greiða með frístundaheimili eða setja upp í skuld foreldra sem þarfnast fjárhagsaðstoðar fyrir börn sín. Þessi og síðasti meirihluti hafa gengisfellt frístundakortið og höfðu þar með af fátækum börnum tækifæri til að velja sér tómstund og námskeið. Þess utan voru skilyrði fyrir að nota kortið óraunhæf fyrir mörg börn og foreldra. Námskeið þurfti að vera heilar 10 vikur til að hægt væri að nota kortið. Ekki allir foreldrar hafa ráð á að greiða mismuninn. Nánast öllum tillögum Flokks fólksins um lagfæringar var hafnað. Settur var á laggirnar stýrihópur til að endurskoða reglur um frístundakortið en sá hópur hefur enn ekki skilað niðurstöðum. Nú fyrst á að gera bragarbót og er lagt til að sett verði á laggirnar verkefnið „Frístundir í Breiðholti“ sem þriggja ára tilraunaverkefna. Eins og marg sinnis kom fram í tillögum Flokks fólksins er þátttaka í íþrótta- og frístundastarfi og nýting frístundakorts í hverfi 111 í Breiðholti lægri en í öðrum hverfum. Flokkur fólksins barðist í á annað ár fyrir jafna þennan mun því að í þessu hverfi búa flest börn af erlendum uppruna og börn sem búa við fátækt.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að samþykkt verði að stofna opinbert hlutafélag, Betri samgöngur ohf., um uppbyggingu samgönguinnviða með aðild ríkissjóðs og nágrannasveitarfélaganna:

Tillaga liggur fyrir um stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu Betri samgöngur ohf. Tilgangur félagsins er sagður vera að hrinda í framkvæmd uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. fjármögnun á borgarlínu. Ekki er betur séð en að þetta félag verði sömu annmörkum háð og byggðasamlög. Reynslan hefur sýnt að þetta form er ekki heppilegt form. En auðvitað getur þetta gengið vel, en í kerfi sem þessu er auðvelt að fela mistök og stjórnendur eru ekki fulltrúar kjósenda. Er þetta ekki frekar tilefni fyrir sveitarfélögin að sameinast? Öll vitum við að aðkoma eigenda er ekki nógu góð að svona kerfi og minnihlutafulltrúar eru með öllu áhrifalausir. Þetta hefur verið margrætt og Flokkur fólksins hefur verið með tillögur til úrbóta en engum úrbótum hefur verið hrint í framkvæmd. Reykjavík sem stærsti hluthafinn mun alltaf koma illa út úr þessu sér í lagi ef mistök verða eða eitthvað klúður sbr. sjá mátti hjá SORPU bs. Ókostir samkrulls eins og þessa komu skýrt í ljós þegar bakreikningur barst vegna mistaka hjá Sorpu. Reykjavík ber hitann og þungan af þeim bakreikningi og öðrum sem kunna að koma í framtíðinni vegna borgarlínu. Smærri sveitarfélögin borga minnst en ráða hlutfallslega mestu.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu að gjald skólamáltíða í leik- og grunnskólum borgarinnar verði lækkað.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gjald skólamáltíða í leik- og grunnskólum borgarinnar verði lækkað. Nú eiga margir foreldrar um sárt að binda vegna COVID, margir hafa misst vinnuna. Ljóst er að skóla- og frístundayfirvöld ætla ekki að bjóða börnum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir á þessu kjörtímabili. Tillaga þess efnis hefur verið lögð a.m.k. tvisvar fram og hefur henni verið hafnað jafn oft. Gjald skólamáltíða í Reykjavík er í dýrari kantinum ef samanborið við sum önnur sveitarfélög. Í Reykjavík greiða foreldrar jafnaðargjald 10.050 krónur sem þýðir að hver máltíð kostar 528 krónur en verð á hverri máltíð rokkar milli mánaða. Eins og fram kom í Fréttablaðinu 26.ágúst sl. þá eru skólamáltíðir umtalsvert ódýrari á landsbyggðinni. Á Akranesi kosta þær 379 krónur, 315 á Hornafirði og aðeins 150 krónur í Fjarðabyggð. Sums staðar eru þær algerlega gjaldfrjálsar, til dæmis í Rangárþingi ytra. Reykjavík sem stærsta og öflugasta sveitarfélag landsins getur ekki verið þekkt fyrir að gera ekki betur en önnur smærri sveitarfélög fyrir foreldra skólabarna og hvetur fulltrúi Flokks fólksins skóla- og frístundayfirvöld að skoða lækkun skólamáltíða af alvöru. R20080159

Frestað.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu að fulltrúar umhverfis- og skipulagssviðs sem annast viðhald fasteigna kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. þjóðverjum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í húsnæði:

Tillaga Flokks fólksins að fulltrúar umhverfis- og skipulagssviðs sem annast viðhald fasteigna kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. þjóðverjum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði. Loftgæðamál vegna rakaskemmda og annara ástæðna er stórt vandamál í sumum skólum og vinnustöðum Reykjavíkurborgar og fer stækkandi. Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir marga. Víða í þeim löndum sem náð hafa hvað mestum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir t.d. í Þýskalandi eru notuð sérhæfð loftefnahreinsitæki til að bæta loftgæði tímabundið í skólastofum og öðrum rýmum sem eru loftmenguð og þegar verið er að vinna í menguðum rýmum við hlið rýma sem eru í notkun, til þess að bæta líðan nemenda og starfsfólks og gefa sérfræðingum meira svigrúm til að meta skemmdir og grípa til aðgerða. Þá eru menguðu rýmin innsigluð og aðskilin frá öðrum rýmum og loftefnahreinsitækin notuð til aðstoðar. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg skoði þessar aðferðir með opnum hug. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur kynnt sér þá var þessi leið farin í einum af skólum borgarinnar og tókst vel til. Loftefnahreinsitækin virkuðu og ættu því að virka samhliða viðgerðum í öðrum skólum Reykjavíkurborgar til að bæta líðan og minnka kostnað.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Loftgæðavandinn í skólum og öðrum byggingum í eigu borgarinnar er ekki nýr. Vandinn er mikið tilkominn vegna áralangrar vanrækslu borgaryfirvalda að viðhalda húsakosti skóla og fleiri bygginga borgarinnar. Afleiðingar hafa verið slæmar fyrir fjölda nemenda og starfsfólks. Nemendur hafa mátt dúsa of margir í litl­um loft­gæðum og jafnvel þótt skólastjórnendur hafi ítrekað kvartað hefur verið brugðist seint og illa við í mörgum tilfellum. Nemendur og starfs­fólk hafa kvartað yfir slapp­leika, höfuðverk, auknu mígreni og ann­arri van­líðan vegna ástands­ins í sumum skólum. Spurning er hvort bestu aðferðum hafi verið beitt í glímunni við raka og myglu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fulltrúar umhverfismála borgarinnar kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum  sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði.
Hér er um að ræða aðferðir sem skilað hafa góðum árangri í öðrum löndum eins og Danmörku og Þýskalandi. Einnig hafa þessar aðferðir verið notaðar hér á landi í öðrum sveitarfélögum og á vegum Ríkiseigna eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Ekki þarf að rýma heilu byggingarnar, heldur er hægt að einangra ákveðin skemmd svæði og halda starfsemi áfram með sem minnstu raski. Þessar aðferðir bæta líðan nemenda og starfsfólks á undan og á meðan framkvæmdatíma stendur auk þess að geta minnkað kostnað.

Auðvitað koma loftefnahreinsitæki aldrei í staðinn fyrir viðgerðir en virka vel sem aðstoð á framkvæmdatíma og einnig fyrir mjög næma einstaklinga þó loftgæði teljist almennt í lagi. Sérfræðingar borgarinnar á þessu sviði þurfa endilega að kynna sér aðferðir í öðrum leiðandi löndum og ekki trúa í blindni á aðferðir einstaka verkfræðistofa hér á landi. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að borgaryfirvöld skoði þetta með opnum hug. Hér eru á ferðinni aðferðir sem virðast skila árangri og kosta minna.

Tillögunni er vísað frá.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun og lýsir óánægju vegna frávísunar án raka eða nokkurra skýringa

Tillaga Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagssvið kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði hefur verið vísað frá á fundi borgarráðs án nokkurra raka. Staðgengill formanns borgarráðs segir við frávísun tillögunnar að henni beri ekki skylda til að rökstyðja eitt eða neitt. Af einhverjum ástæðum virðist málið ofurviðkvæmt og eldfimt, svo eldfimt að ekki er einu sinni hægt að senda tillöguna til frekari skoðunar eða umsagnar hjá umhverfissviði?

Fulltrúi Flokks fólksins á því ekki annara kosta völ en að leggja tillöguna fyrir borgarstjórn. Tillagan var um að bæta loftgæðamál vegna rakaskemmda og annara ástæðna í skólum en það er stórt vandamál víða. Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir marga. Víða í þeim löndum sem náð hafa hvað mestum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir t.d. í Þýskalandi eru notuð sérhæfð loftefnahreinsitæki til að bæta loftgæði tímabundið í skólastofum og öðrum rýmum sem eru loftmenguð. Þessi tækni hefur ekki verið mikið notuð hér nema í kannski einum skóla og gafst það vel. Flokkur fólksins lagði til að umhverfisyfirvöld kynntu sér aðferðir í öðrum leiðandi löndum í stað þess að trúa í blindni á aðferðir einstakra verkfræðistofa hér á landi.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að skólayfirvöld breyti um aðferðarfræði þegar kemur að ráðningu kennara:

Á hverju hausti er sami vandinn uppi hjá skóla- og frístundasviði vegna þess að ekki hefur tekist að manna stöður. Enn er óráðið í 76 grunnstöðugildi í 63 leikskólum borgarinnar og um fjörutíu stöðugildi í 36 grunnskólum. Flokkur fólksins leggur til að skólayfirvöld breyti um aðferðarfræði þegar kemur að ráðningu kennara. Byrja á mikið fyrr að auglýsa og kynna laus stöðugildi. Sú vinna á að fara fram að vori. Reynslan hefur sýnt að breyta þarf um taktík þar sem sami vandinn er á hverju ári. Hér er spurning um að læra af reynslu. Ef eitthvað virkar ekki þá þarf að endurskoða aðferðarfræðina og gera á henni breytingar. Það er ekki nóg að vona og vona. Nú blasir við sú staða að ekki er hægt að ráða inn í tiltekna leikskóla getur það hægt á innritun í þá skóla. Erfiðleikar við að fá fólk í þessi störf eru ákveðnar upplýsingar um störfin og líðan fólks í þeim. Meira að segja nú þegar atvinnuástandið er slæmt er erfitt að fá fólk til starfa í skólanna. Skoða þyrfti hvað það er við þessu störf annað en álag og lág laun sem hefur svo mikinn fælingarmátt. Ekki er ósennilegt að mygluvandi í skólum sé hluti af vandamálinu.

Greinargerð fylgir tillögunni

Borgarmeirihlutinn getur gert betur í þessum málum. Biðlisti og tafir við inntöku í leikskóla er óverjandi..  Hægt er að fara ýmsar leiðir til að gera þessi störf aðlaðandi og eftirsótt og strax að vori þarf að fara af krafti í að laða fólkið að störfunum.  Ef horft er á málið í víðara samhengi t.d. í tengslum við kjaramálin þá er það borgin sem setur stefnuna og getur gert fjölmargt til að stuðla að því að störfin verði eftirsóttari. Eitt að því sem þarf að gera skruk í til að fá fólk til starfa í skólanum eru viðgerðir  á skólabyggingum vegna viðhaldsleysis og myglu. Ótal veikindatilfelli starfsmanna má rekja beint til myglu í skólabyggingum.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn er varðar kostnað vegna rakaskemmda, til hvaða aðgerðar hefur verið gripið og hversu stór vandinn er í dag

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá svör við spurningum er viðkemur loftgæðavandamálum.
Hversu mikið hefur kostnaður vegna rakaskemmda í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar aukist síðustu 20 ár?
Til hvaða aðgerða er gripið þegar upp kemur grunur um rakaskemmdir og börn og fullorðnir finna fyrir veikindaeinkennum sem líklega má rekja til rakaskemmda.
Hversu stór er vandinn í dag?
Hversu margir nemendur hafa veikst?
Hver er aukningin á milli ára eða áratuga?
Hvernig er brugðist við þegar vísbendingar eru um vanda? Er vandinn greindur strax og í framhaldi af greiningu farið í rýmingar á ákveðnum hluta húsnæðis eða er hreinlega allt húsnæði rýmt og hafist handa við viðgerðir? Í þeim tilfellum sem vandi sem þessi hefur komið upp í skólum hafa nemendur og starfsfólk unnið áfram í rakaskemmdu húsnæði meðan að leitað hefur verið leiða til úrbóta? Eða hefur húsnæðið, sá hluti sem talinn er vera sýktur verið rýmdur strax?
Hafa fulltrúar umhverfis- og skipulagssviðs kynnt sér hvernig starfsháttum sérfræðinga í rakaskemmdum er háttað í öðrum löndum í Evrópu, eins og t.d. í Þýskalandi?

Greinargerð er lögð fram með fyrirspurnunum

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá svör við  spurningum er viðkemur loftgæðavandamálum. Loftgæðamál  vegna rakaskemmda og annara ástæðna hafa verið stórt vandamál í sumum skólum og vinnustöðum Reykjavíkurborgar. Vandinn er tilkominn vegna áralangs vanrækslu borgaryfirvalda að viðhalda húsakosti skólanna og fleiri bygginga borgarinnar.

Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir fjölda nemenda og starfsfólk. Nemendur hafa mátt dúsa of margir í litl­um loft­gæðum og jafnvel þótt skólastjórnendur hafi ítrekað kvartað hefur verið brugðist seint og illa við í mörgum tilfellum. Nemendur og starfs­fólk hafa kvartað yfir slapp­leika, höfuðverk, auknu mígreni og ann­arri van­líðan vegna ástands­ins í sumum skólum

Í ljósi sögunnar óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að fá svör við nokkrum fyrirspurnum sem tengist  rakaskemmdum, viðbrögðum borgaryfirvalda og aðferðum sem notaðar eru til að finna lausn á málinu

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort hundaeftirlitsgjaldið sem innheimt er af hundaeigendum nýtt beint í þágu eigenda og hundanna:

Í ljósi þess hversu erfitt það er að fá skýr svör frá Heilbrigðiseftirliti borgarinnar er varðar hundaeftirlitsgjaldið sem hvorki hefur lækkað né verið afnumið þrátt fyrir umtalsverða fækkun á verkefnum hundaeftirlitsmanna vill fulltrúi Flokks fólksins freista þess að spyrja eftirfarandi spurninga:
Er hundaeftirlitsgjaldið sem innheimt er af hundaeigendum nýtt beint í þágu eigenda og hundanna og ef svo er þá hvernig? R20010132

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að farið verði í ítarlega greiningu á því hvaða mál flokkast undir trúnaðarmál og hvað ekki og að verklagsreglur verði settar um flokkun mála eftir niðurstöðu greiningarinnar

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í ítarlega greiningu á því hvaða mál flokkast undir trúnaðarmál og hvað ekki og að verklagsreglur verði settar um flokkun mála eftir niðurstöðu greiningarinnar. Svo virðist sem ákvarðanir um hvaða mál séu trúnaðarmál og hvaða gögn séu trúnaðargögn séu oft hipsum haps. Ef í gögnum mála birtast viðkvæmar persónulegar upplýsingar þá er engin vafi að um þau mál skuli ríkja trúnaður. Eins gildir um tölulegar upplýsingar sem eru á leið í Kauphöll. Flest önnur mál eiga að vera opinber og gagnsæ nema í algerum undantekningartilfellum. Þannig hefur það ekki verið. Alls kyns mál eru stimpluð trúnaðarmál án þess að nokkur skýr ástæða liggi að baki um nauðsyn þess. Sem dæmi hafa kynningar og skýrslur verið faldar fyrir almenning og jafnvel aldrei litið dagsins ljós. Einnig hugmyndir að deiliskipulagi sem ættu einmitt að koma sem fyrst fyrir augu sem flestra. Í þessum málum hafa ekki verið neinar persónulegar upplýsingar eða viðkvæmar fjárhagslegar upplýsingar. Það hefur stundum verið tilfinning fulltrúa Flokks fólksins að þetta sé gert í þeim tilgangi að fela óþægilegar upplýsingar og staðreyndir fyrir borgarbúum. Almenningur á rétt á því að hafa aðgang að upplýsingum um verkefni Reykjavíkurborgar og trúnaður á að vera undantekningin en ekki meginreglan. R20080155