Skipulags- og samgönguráð 28. apríl 2021

Bókun Flokks fólksins við liðnum Elliðaárvogur/Ártúnshöfði svæði 1, deiliskipulag, kynning. Athugasemdir eru gerðar af fulltrúa Flokks fólksins að engin gögn fylgdu málinu í dagskrá:

Þétting byggðar er að ganga of langt og farin að taka of mikinn toll af náttúru. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverð ósasvæði hennar. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Þetta er allt spurning um hugmyndafræði, stefnu og hvort virða eigi grænar áherslur. Sífellt er verið að fikta í einstakri náttúrunni, pota í hana og mikil tilhneiging að móta og manngera og þar með búa til gerfiveröld. Ekkert fær að vera ósnortið, ekki einu sinni fágætir fjörubútar en ósnortnar fjörur eru ekki orðnar margar í Reykjavík. Með þessu er gengið á lífríkið. Bakkarnir til sjávar með fram Sævarhöfða eru þegar manngerðir og varað við að sækja lengra í þá átt. Best væri ef þessir bakkar fengju að vera sem mest í friði og setja þar ekki stór mannvirki. Hætta ætti við áfanga 2-3 í landfyllingu . Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á Borgarlína að skera Geirsnef í tvennt. Eins og með Vatnsendahvarfið sem kljúfa á með hraðbraut á borgarlína að skera Geirsnefið. Skipulagsyfirvöld láta aðeins of mikið glepjast af rómantískum tölvumyndum arkitekta að mati fulltrúa Flokks fólksins.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Aðgerðir til að bæta aðgengi fyrir alla á strætóstöðvum 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar öllum lagfæringum sem auðveldar aðgengi en verkið gengur of hægt. Í heild eru 556 strætóstöðvar í Reykjavík sem þarfnast lagfæringa. Hér er óskað heimildar til að halda áfram undirbúningi lagfæringa á 18 strætóstöðvum. Segir í greinargerð að ekki sé gert ráð fyrir að fara í lagfæringar á þeim stöðvum sem fyrirhugað er að detti út/færist í nýju leiðarneti Strætó eða verða endurgerðar í tengslum við uppbyggingu fyrsta áfanga Borgarlínu, sem saman eru 206 stöðvar. Þá eru eftir 332 stöðvar sem á eftir að lagfæra. Hvenær á að gera það?

Nú er einmitt tíminn til að spýta í lófana í framkvæmdum til að skapa atvinnu. Þetta þarf að gera og sjálfsagt er að setja þetta í meiri forgang, ella mun það taka borgina undir stjórn þessa meirihluta a.m.k. 10 ár að bæta aðgengi allra strætóstöðva í borginni sem þarfnast lagfæringa. Kalla þarf eftir meira fjármagni úr borgarsjóði í verkefnið enda brýnna en margt annað sem meirihlutinn er að leggja fjármagn í.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Breytt akstursfyrirkomulag í Reykjavík:

Tekið er undir að sumar götur er til þess fallnar að vera svokallaðar vistgötur ekki síst vegna þess að þær eru þröngar. Einnig er möguleiki á að gera þröngar götur að einstefnugötu. Erfiðustu götur borgarinnar eru tvíakstursgötur þar sem bílar geta ekki mæst. Nefna má Bjarkargötu sem er tvíakstursgötur þar sem útilokað er fyrir bíla að mætast. Ef talað er um hlýlegar götur þarf að huga að fleiri þáttum. Varla verða hlýlegar vistgötur nálægt Höfðatorgi, nema að dregið verði úr vindstrengjum sem leitt hefur til þess að fólk hafi hreinlega tekist á loft í miklum vindihviðum. Til eru leiðir til að draga úr vindstrengjum frá turnum eins og skipulagsyfirvöldum er án efa kunnug um.

Bókun Flokks fólksins við liðnum:Tímabundnar göngugötur í miðborginni:

Skipulagsráð vill framlengja göngugötur þar til deiliskipulag 2. áfanga hefur tekið gildi og þá eiga þessar götur að vera varanlegar göngugötur. Brúa á bilið. Í ljósi samráðsleysis með tilheyrandi leiðindum í kringum allt þetta mál spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort þessi ákvörðun sé ekki bara olía á eld? Freistandi væri auk þess að opna fyrir umferð og sjá hvaða áhrif það hefði. Vel kann að vera að viðskipti glæðist í miðbænum.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Erindi íbúaráðs Laugardals, vegna bílastæða austan göngustígs við World Class Laugum:

Lögð er fram bókun íbúaráðs Laugardals sem beinir því til skipulags- og samgönguráðs að loka bílastæðum austan göngustígs við World Class Laugar. Þetta er hið besta mál að mati fulltrúa Flokks fólksins og mikið öryggisatriði. Þarna er alls konar óþarfa umferð eftir því sem íbúar segja. Fólk er að koma í ræktina, sumir aka upp að dyrum, á mis miklum hraða. Fulltrúi Flokks fólksins styður þetta.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um trjárækt meðfram stórum umferðaræðum, lagt fram aftur og vísað áfram:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til skipulagsyfirvöld ákveði að stórauka plöntun trjáa meðfram stórum umferðaræðum í borgarlandinu. Eitt af því sem ekki hefur verið horft til í baráttunni við svifryksmengun er trjágróður. Rannsóknir sýna að trjágróður dregur úr svifryki. Svifryk er einatt til vandræða og plöntun trjáa er einföld aðgerð sem hefur góð áhrif. Umrædd svæði nýtast ekki til útivistar, en eru án bygginga vegna skipulagsmála enda þarf að vera gott rými meðfram stóru umferðaræðunum vegna veghelgunar og framtíðarnotkunar. En svæðin má nýta tímabundið með trjárækt en gera jafnframt ráð fyrir að slíkur trjágróður verði felldur þegar og ef nýta á rýmið í annað. Þetta er svipuð hugmyndafræði og er í verkefninu ,,Torg í biðstöðu“. Lagt er því til að plöntun trjáa meðfram stórum umferðaræðum verði stóraukin.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um fundarsköp. Lagt fram að nýju og vísað áfram:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur haft samband við Sveitarstjórnarráðuneytið til að kanna hvort bann við bókunum við kærum og framlögðum bréfum borgarstjóra standist sveitarstjórnarlög. Lögfræðingur ráðuneytisins hvatti borgarfulltrúa Flokks fólksins til að óska eftir skýringum frá lögfræðingi skipulags- og samgöngusviðs vegna málsins. Hér með er því óskað skriflegra skýringa á því hvers vegna bókunarréttur er þrengri á fundum skipulags- og samgönguráðs en almennt tíðkast í ráðum jafnvel þótt byggja eigi á sömu lögum og reglugerðum. Gengið hefur verið óeðlilega langt í að meina fulltrúum minnihlutans að leggja fram bókanir m.a. við kærur sem kynntar eru og „bréf borgarstjóra“ sem lögð eru fram á fundum. Bókanir eru eina tjáningarformið sem fulltrúar minnihlutans geta beitt til að koma á framfæri skoðunum sínum og álitum á málum þegar fundir eru lokaðir (sbr. 2. mgr. 5. gr. samþykktar skipulags- og samgönguráðs). Ekki er tilgreint að ákveðin mál á dagskrá skuli undanskilin. Vísað er einnig í 2. mgr. 26. gr. sveitarstjórnarlaga að málfrelsi fylgi réttur til að leggja fram bókanir.
Eins hefur fulltrúi Flokks fólksins ítrekað óskað eftir að fá fundardagskrá án fylgigagna senda í fundarboði, sbr. verklag sem tíðkast í öðrum ráðum. Það hefur ekki vafist fyrir öðrum ráðum að senda dagskrá samhliða boðun. Öll ráð og svið borgarinnar nýta sömu tæknina og ætti hún því ekki að vera vandamál hér.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra og til skrifstofu borgarstjórnar.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að huga sérstaklega að leiksvæðum barna þegar verið er að þétta byggð.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur það til við skipulagsyfirvöld að huga sérstaklega að leiksvæðum barna þegar verið er að þétta byggð. Þéttingarstefna meirihlutans í borgarstjórn tekur of mikinn toll bæði á græn svæði og leiksvæði barna. Í fyrsta sinn í sögu Reykjavíkur mótmæla börn með skipulögðum hætti. Þéttingarstefnan virðist engu eira því byggja skal á hvern blett, stóran og smáan í þeirri von að borgarlína nýtist. Fólk á vissum svæðum í Reykjavík mun reyndar ekki eiga annan valkost en að nota almenningssamgöngur eða hjól þar sem að við íbúabyggð á vissum stöðum í Reykjavík verða fá bílastæði. Börn hafa mótmælt þéttingu byggðar við Vatnshólinn í nágrenni Sjómannaskólans, vinsælt leiksvæði barna. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að Reykjavík er líka borga barnanna sem þar búa. Í allri þessari þéttingu má ætla að skólar þurfi ýmist að stækka eða byggja verði nýja. Varla verða eftir reitir fyrir slíkar framkvæmdir ef heldur sem horfir.

Frestað.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, að hlusta á íbúa við Brekkugerði og Stóragerði vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Hvassaleiti og nágrenni:

Fulltrúi Flokks leggur til og hvetur skipulagsyfirvöld að hlusta á íbúa við Brekkugerði og Stóragerði vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Hvassaleiti og nágrenni. Hér er um samstíga ákall íbúa sem benda á atriði um öryggi barna þeirra. Skipulagsyfirvöld eiga að hlusta á sjónarmið fólksins og breyta samkvæmt þeim. Enginn veit betur um hættur í hverfum en íbúarnir sjálfir. Í þessu tilfelli er mikil samstaða meðal íbúa í málinu og hafa fulltrúar þinglýstra eigenda allra íbúðarhúsa við Brekkugerði sett nafn sitt við bréf til skipulagsyfirvalda þar sem sem að sú fyrirætlan sem er á borðinu er ekki talin leysa málið. Einnig er því mótmælt af íbúum að verið sé að útfæra tillögu sem er í fullkominni mótsögn við stefnu borgarinnar um vistvæna ferðamáta með nýjum bílastæðum.

Frestað.


Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um málun bílastæða/gatna í miðbænum:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um stöðu mála um málun bílastæða/gatna í miðbænum.
Fulltrúi Flokks fólksins spyr einnig hver hefur umsjón með málningu gatna/bílastæða hér í miðbænum?
Ástæða fyrirspurna er að borið hefur á því að hlaupið hefur verið frá óloknu verki með þeim afleiðingum að ökumenn eiga erfitt með að sjá hvar stæði enda og byrja. Skort hefur á eftirliti með verkum eða þau hreinlega eftirlitslaus? Tryggja þarf ábyrgt eftirlit með málum af þessu tagi eins og öðrum málum.