Borgarráð 29. ágúst 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki að vísa hjálögðum drögum að viðauka við samkomulag um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum, Samgöngusáttmálans:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar uppfærslu samgöngusáttmálans sem nú stendur í 310 milljörðum og hafa áætlanir tvöfaldast. Það sem Flokkur fólksins sér jákvætt við uppfærslu samgöngusáttmálans er að ríkið skuldbindur sig til þess að fjármagna þriðjung kostnaðar vegna reksturs almenningssamgangna á móti sveitarfélögunum. Fyrirséð er að fram til ársins 2030 þurfi að fjárfesta í um 200 rafmagnsvögnum. Miðað er við að framlag vegna vagnakaupa verði allt að 30 milljónir króna fyrir hvern vagn. Það eru 6 milljarðar fyrir 200 vagna. Strætó og borgarlína hljóta að skarast víða í borginni. Ekki liggur fyrir hvernig almenningssamgöngur púslast inn í áætlanir borgarlínu. Það sem flestum er þó umhugað um er hvort og hvernig þá taka eigi á bráðavanda í umferðarmálum, eitthvað sem allir hafa fengið sig fullsadda af. Innviðaskuld á höfuðborgarsvæðinu er gríðarleg. Umferðarmál hafa verið vanrækt stórlega eins og sjá má á því að samgönguinnviðirnir í Reykjavík eru allir löngu sprungnir. Flokkur fólksins fagnar nýrri hugmynd um samgöngumiðstöð sem hugmynd er um að reisa við vesturenda jarðganga. Samgöngumiðstöðvar eru mikilvæg og nauðsynleg mannvirki í borgum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. ágúst 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. ágúst 2024 á kynningu á verklýsingu íbúðaruppbyggingar í grónum hverfum:

Flokkur fólksins styður íbúðauppbyggingu í grónum hverfum, en sú uppbygging má þó ekki vera í mikilli andstöðu við þá íbúa sem eru þar eru fyrir. Reyndar verður alltaf einhver andstaða en þá þarf að meta hversu málefnaleg hún er. Svo þarf hátt hlutfall íbúða að vera á viðráðanlegu verði fyrir ungt fólk. Beita má nokkrum aðferðum til að ná því marki. Vannotuð er sú aðferð að setja kvaðir um meðalstærð íbúða á tilteknum reit. Það þýðir að ef einhverjar íbúðir eru stórar og dýrar verður að byggja litlar og ódýrar íbúðir á móti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki að vísa hjálagðri tillögu um sameiningu Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar í nýja R-deild hjá Brú lífeyrissjóði, dags. 21. nóvember 2023, til borgarstjórnar.

Á Íslandi eru alltof margir lífeyrissjóðir. Flokkur fólksins er hlynntur því að sameina Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar og Brú lífeyrissjóð sveitarfélaga ef fólk heldur öllum sínum réttindum í nýjum sjóði. Yfirbygging ætti að verða minni og rekstrarkostnaður hlýtur að sparast með sameiningu. Það mun verða umtalsverður fjárhagslegur ávinningur með sameiningu sjóðanna sem felst fyrst og fremst í lækkun á kostnaði. Jafnframt mun sameiningin skapa tækifæri til að bæta rekstur sjóðanna enn frekar með betri nýtingu starfsfólks sjóðanna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á framkvæmd Menningarnætur 2024:

Menningarnótt 2024 gekk án efa vel að mati fjölmargra sem bæði stóðu að hátíðinni og sóttu hana. Menningarnótt var upphaflega hugsuð sem fjölskylduhátíð en í tímans rás hefur eðli hennar breyst sérstaklega þegar líður á kvöld og nóttu. Þá eru fjölskyldur farnar heim en í bæinn kemur annar hópur, yngra fólk. Ölvun hefur verið mikil samkvæmt fréttum frá lögreglu. Alvarleg ofbeldistilfelli hafa orðið á Menningarnótt nú í ár og einnig síðustu ár. Merki eru um að ákveðin ofbeldismenning sé að þróast meðal ungmenna hérlendis og teikn eru á lofti um sömu þróun og hefur átt sér stað á mörgum Norðurlöndunum. Þróunin er áhyggjuefni sem þarf að bregðast við. Tilkynningum til lögreglu og barnaverndar þar sem grunur er um að barn beiti ofbeldi hefur fjölgað verulega. Grunaðir í meiriháttar eða stórfelldum líkamsárásum undir 18 ára árið 2023 voru 18% af heildarfjölda og hefur hlutfallið ekki verið hærra frá 2016. Eftir nýliðna Menningarnótt er mörgum brugðið. Fullvíst má telja að við höfum sofið á verðinum. Flokkur fólksins hefur fyrir alllöngu kallað eftir að Reykjavíkurborg bregðist við með afgerandi og áberandi aðgerðum. Fara þarf inn í skólana, íþrótta- og tómstundahreyfinguna í borginni og ná til barnanna og foreldra þeirra.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um öryggismál í Reykjavík.

Umræða um Menningarnótt og öryggismál er að beiðni Flokks fólksins vegna alvarlegra ofbeldistilvika nýliðinnar Menningarnætur og einnig síðustu ára. Flokkur fólksins telur að mikilvægt sé að breyta fyrirkomulagi Menningarnætur og e.t.v. færa viðburðinn aftur til upphafsins eins og hann var hugsaður, þ.e. sem fjölskylduskemmtun. Ekki er hjá því litið að ofbeldi vex í Reykjavík og er hér ekki verið að vísa í pústra og fylleríslæti. Æ fleiri ganga nú vopnaðir hnífum. Flokkur fólksins lagði til fyrir um tveimur árum að stýrihópur kortlegði aukinn eggvopnaburð meðal ungmenna og kæmi með tillögur til að spyrna fótum við þessari neikvæðu þróun. Tillagan náði ekki fram að ganga. Fyrirbyggjandi aðgerða er þörf í stað þess að bregðast aðeins við þegar atburðurinn er skeður. Flokkur fólksins vill skoða að stytta skemmtidagskrá Menningarnætur þannig að viðburðum sé lokið kl. 22 og þá hægt að hefja rýmingu miðborgar. Þar með yrði flugeldasýning lögð af enda krefst slík sýning þess að orðið sé skuggsýnt. En það er einmitt í kjölfar hennar og fram eftir nóttu sem alvarleg ofbeldisatvik hafa átt sér stað. Reykjavíkurborg verður að leggjast yfir fjölbreyttar aðgerðir í samvinnu við skólasamfélagið og foreldra til að ná böndum yfir þessa neikvæðu þróun.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 21. ágúst 2024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:

Flokkur fólksins tekur undir með íbúaráðinu vegna stúdentaíbúða en því miður á að fjarlægja þær á þessum stað vegna þess að ekki náðist samkomulag við félögin sem standa að byggingu námsmannaíbúða þarna. Námsmannaíbúðir eru hluti af góðri blöndun að mati Flokks fólksins. Það eru miklir kostir að hafa íbúðir fyrir námsmenn sem víðast. Með slíkum íbúðum verða auðvitað að fylgja bílastæði. Rök námsmanna félaganna tveggja voru þau að betra sé að byggja nær skólunum. Reykjavíkurborg á sannarlega að stýra ferðinni þegar kemur að borgarþróun.