Borgarráð 3. febrúar 2022

Bókun Flokks fólksins við bréfi skipulags- og samgönguráðs frá 26. janúar 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hlemms og nágrennis,stgr. 1.240:

Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að það er fólk sem býr við Hlemm. Stundum er eins og það gleymist því svo mikil áhersla er lögð á að byggja upp „stemninguna“. Það eru t.d. engir djúpgámar fyrir íbúa til að koma frá sér rusli. Fyrir þá íbúa sem eiga bíla er ekki vitað hvort þeir megi aka með þungar og miklar vörur/vistir upp að dyrum sínum. Það eru leiðir og leyfi fyrir fyrirtæki að afferma vörur en hvar er leyfið fyrir íbúana? Það er heldur ekkert á svæðinu fyrir börnin. Í gögnum er talað um ofanvatnslausnir sem er orðið tískuhugtak. Ofanvatnslausnir eru mikilvægar víða um heim, en að þær séu gerðar að einhverju aðalatriði á svæði eins og við Hlemm er hjákátlegt. Hér er næg úrkoma til að vökva plöntur í beðum og á torgum. Annars er ýmislegt ágætt í þessum tillögum. Hlemmur-inn er reyndar ekki fallegur í augum margra. Hús Mathallarinnar myndi þola að byggt væri ofan á það, t.d. inndregin efri hæð og kæmi það í stað nýrra húsa. Götur umhverfis mætti endurbæta með t.d. hellulögn. Svæðin mætti gera mun grænni t.d. með trjágróðri í kerjum og afmarka svæði útiveitingar og leiksvæði.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 31. janúar 2022, þar sem óskað er eftir heimild til að bjóða út framkvæmdir við stækkun, viðhald og endurbætur á leikskólanum Laugasól, Leirulæk 6:

Allar byggingar þurfa viðhald. Með eðlilegu viðhaldi er komið í veg fyrir stórfelldar skemmdir sem, ef þær ná að grassera upp að því marki, valda því að bygging er metin allt að ónýt ef ekki alveg ónýt. Nú þekkir fulltrúi Flokks fólksins ekki sögu byggingar Laugasólar. Byggingin þarfnast stórfelldrar viðgerðar og er óskað eftir samþykkt fyrir framkvæmd sem felur í sér viðgerð vegna rakaskemmda m.a. í kjallara. Borgin er með stóra, uppsafnaða viðhaldsskuld víða í borginni í húsnæði þar sem börn og ungmenni dvelja alla vikuna. Nú er komið að skuldadögum.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 31. janúar 2022, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki samkomulag um uppbyggingu Háaleitisbrautar 1:

Í þessari tillögu felst að í stað skrifstofuhúsnæðis á suðaustur hluta lóðarinnar komi nýtt íbúðarhús með 29 íbúðum. Íbúðir á reitnum verða því samtals 76. Bíla- og hjólastæðakröfur breytast m.t.t. fjölda íbúða og núverandi byggingar, Valhallar, en skilgreining per íbúð/m2 helst óbreytt. Auka á byggingarmagn. Þarna er þegar þröngt og líklega mun bílastæði skorta eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins sér málið í kynningu.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara við drögum að starfssamningi við Háskóla Íslands um jafnréttisrannsóknir við Háskóla Íslands (RIKK) til tveggja ára:

Yfir það heila er það mat fulltrúa Flokks fólksins að það sé ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að styrkja rannsóknir Háskóla Íslands. Ef sveitarfélögin eiga að koma að slíku væri eðlilegt að styrkur kæmi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Kostnaður skv. samningnum í þessu máli er 4.000.000 kr. fyrir hvert ár. Samstarf HÍ og Reykjavíkurborgar er mikilvægt að mati fulltrúa Flokks fólksins að öllu leyti og rannsóknir eru gríðar mikilvægar, m.a. jafnréttisrannsóknir. En þetta er spurning um hver borgar brúsann.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um málsmeðferð fyrir tillögur starfshóps um hringrásarhagkerfið í Reykjavík ásamt tillögu um eigendastefnu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum:

Margt gott að segja um hringrásarkerfin en Reykjavíkurborg er þar ekki framarlega. Nú á að bæta úr því. En til hvers er verið að fá nágranna sveitarfélögin með? Er ekki komið nóg af bs. fyrirtækjum? Mestur hluti gagnanna eru sjálfsögð mál sem ekki þarf að deila um. En þarna kemur fram að nýta á lífrænt efni til að gera moltu og metan– og nota í eitthvað ? En í öðrum skjölum er ekki minnst á að verið sé að hugsa um að nýta metanið. Stóru spurningunni er enn ósvarað sem er hvað á að gera við metanið? Á að halda áfram að brenna því á báli? Þessar fyrirspurnir hefur fulltrúi Flokks fólksins ítrekað lagt fram en aldrei fengið nein svör.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra um málsmeðferð fyrir tillögur starfshóps um hröð orkuskipti í Reykjavík, ásamt tillögu um eigendastefnu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni.

Í gögnum er talað um hreinorku og að ekki verði keyptir bílar eða tæki sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti á vegum borgarinnar frá og með 2022. Tillaga Flokks fólksins sem lögð var fram 18. nóvember sl. hljóðaði svona: Lagt er til að Reykjavíkurborg upplýsi að frá og með árinu 2024 muni útboð borgarinnar sem snúa að aðkeyptum leigubílaakstri eða bílaleigubílum ávallt miða við að bifreiðar þurfi að vera knúnar umhverfisvænu eldsneyti. Tillögunni var frestað og ekki heyrst af henni meir. Í skýrslunni virðist ekki vera gerður munur á mismunandi valkostum með tilliti til verðs og nýtingar. Verð metans er því í raun ekkert, það er bara brennt á báli. Söfnun mun aukast þegar GAJA kemst einhvern tíma í notkun. Auðvelt er að breyta bílum sem ganga fyrir bensíni svo þeir gangi fyrir metani. Ekki er fjallað um kostnað við að búa til vetni, en orkunýting við að búa til vetni með rafgreiningu er lítil og vetni verður af þeim ástæðum alltaf dýr kostur. Líklega nýtist ekki nema um 20% af orkunni. En starfshópurinn virðist telja alla kosti svipaða og segir í gögnum: „telur starfshópurinn að þau muni helst byggjast á þremur orkugjöfum næstu árin, þ.e. metani, rafmagni og vetni“. Mælt er með að starfshópurinn beri saman kostnað við valkostina.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra um settur verði á fót starfshópur til að taka afstöðu til og útfæra tillögur um hringrásargarð á Álfsnesi:

Borgarstjóri leggur til að settur verði á fót starfshópur til að taka afstöðu til og útfæra tillögur um hringrásargarð á Álfsnesi. Hópurinn verði skipaður fulltrúum umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og SORPU bs. auk þess sem Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samtökum atvinnulífsins verði boðið að skipa fulltrúa í hópinn. Engin ástæða er til að hafa nágrannasveitarfélögin með í þessu að mati fulltrúa Flokks fólksins. Nóg er komið að slæmri reynslu af bs-fyrirtækjum og þrátt fyrir að eigendastefnan hafi verið endurskoðuð og inn sett ákvæði um meiri upplýsingagjöf til eigenda og aðkomu þeirra hafa t.d. minnihlutafulltrúar enga aðkomu að ákvörðunum. Tryggja þarf í það minnsta að fulltrúar minnihlutans komi að borðinu og geti haft alvöru áhrif. Til þess þyrftu þeir að eiga fulltrúa í stjórn verkefnisins. Byggðasamlög eru einfaldlega ólýðræðisleg vegna þess að eigendur hafa litla aðkomu að ákvörðunum.

 

Bókun Flokks fólksins við fasteignaskatt, hækkun.

Fasteignaskattar hafa hækkað um 6% milli ára og um 9,6% á heimilin. Fasteignagjöld eru 0,18% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis. Gjöldin leggjast á verðmæti eigna án tillits til skuldastöðu eigenda. Fólk sem á 20% í íbúðinni sinni greiðir t.a.m. það sama og þau sem eiga sína íbúð skuldlaust.

Bókun Flokks fólksins við við tillögu  borgarstjóra, dags. 31. janúar 2022, að 10 m.kr. verði lagðar til reksturs Þjóðarleikvangs ehf. sem er í sameiginlegri eigu Reykjavíkurborgar (50%), ríkisins (42,50%) og KSÍ (7,50%). Framlagið er til að standa straum af reglubundnum rekstri út árið 2021 og til 30. júní árið 2022.

Meirihlutinn leggur til að samþykkt sé viðbótarframlag sem fara á í undirbúning nýs þjóðarleikvangs, framlag Reykjavíkurborgar er að fjárhæð 10 m.kr. Reykjavík á helmingshlut í félaginu Þjóðarleikvangi. Vissulega er það hagur Reykjavíkurborgar að leikvangurinn verði í Reykjavík og nú er gert ráð fyrir að hann verði í Laugardalnum. Reykjavík sem stærsti aðilinn þarf að gæta að því að hafa mest áhrif á framkvæmdina. En það er svo spurning hvort Reykjavík eigi að vera svona stór aðili í þessu verkefni. Eðlilegt er að ríkið verði aðaleigandi og greiði mest. Þetta er jú þjóðarleikvangur, enda þótt borgin greiði helming af undirbúningsvinnunni.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að rafræn undirskrift geti komið í stað eiginhandarundirskriftar. Jafnframt er óskað eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði að ljúka verkefninu rafrænar undirritanir hjá Reykjavíkurborg:

Fulltrúi Flokks fólksins benti á það á sínum tíma að rafrænar undirskriftir hafa verið í notkun í mörg ár hjá Barnavernd Reykjavíkur. Af einhverjum ástæðum komu fulltrúar þjónustu- og nýsköpunarsviðs algjörlega af fjöllum þegar fulltrúinn benti á þetta. Rafrænar undirskriftir hafa verið í notkun hér á landi og erlendis í mörg ár. Bankar og margar opinberar stofnanir ríkisins hafa notað slíkar undirskriftir lengi. Fram kemur að þróunarteymi þjónustu- og nýsköpunarsviðs hafi verið að undirbúa þetta verkefni með því að taka notendaviðtöl við borgarstarfsmenn sem hafi sumir hverjir efast um lögmæti rafrænna undirskrifta. Hvernig má það eiginlega vera að þegar innleiðing á lausn sem fyrir löngu er komin í notkun annars staðar, að hjá Reykjavíkurborg þurfi heilt þróunarteymi til þess að taka viðtöl vegna þessa? Það er alveg sama hvað ÞON (þjónustu- og nýsköpunarsvið) tekur sér fyrir hendur, það er eins og það þurfi alltaf að finna upp hjólið áður. Það ætti að vera löngu ljóst að rafrænar undirskriftir eru framtíðin og þess vegna hægt að innleiða það hjá borginni eins og annars staðar þar sem lausnin er fyrir löngu komin til að vera.

Við þetta má bæta að það er með ólíkindum af hverju Reykjavíkurborg er ekki eitt af sveitarfélögunum sem eru aðilar að rammasamningum Ríkiskaupa í stað kostnaðarsamra sérsamninga við Dokobit?
Hér er spurning um að innleiða lausn sem er tilbúin í stað þess að fara í mikla vinnu í „uppgötvunarfasa“ og svo í  „tilraunafasa“, sagan endalausa!

 

Bókun Flokks fólksins við svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 15. janúar 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um innvistingu verkefnisins stafræn umbreyting og sundurliðun verkþátta, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. október 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur undanfarið ár ítrekað verið að benda á að ekki virðist allt með felldu í vegferð stafrænnar umbreytingar undir stjórn þjónustu og nýsköpunarsviðs. Skýringar sem fram koma í þessu svari segja allt sem segja þarf. Þarna kemur skýrt fram að í stað þess að líta til þeirra borga sem lengst eru komnar í stafrænni umbreytingu, ákváðu stjórnendur þessa sviðs að líta frekar til stórra þjónustufyrirtækja á borð við banka og tryggingafélög. Fyrir utan það að leita ekki fyrirmynda til þeirra borga sem lengst eru komnar í stafrænni umbreytingu, er því haldið fram að Reykjavík sé á einhvern hátt lengra komin en aðrar borgir í stafrænni umbreytingu. Þetta er ekki rétt. Í þessu svari sviðsstjóra eru settir fram langir listar erlendra sem innlendra ráðgjafafyrirtækja sem greinilega virðast vera komin með eitthvað úrslitavald yfir bæði ráðstöfun útsvarspeninga Reykvíkinga sem og því hvaða borgarstarfsmenn haldi vinnunni sinni og hverjir ekki. Það er auðvitað ótækt að eitt svið borgarinnar skuli hafa komist upp með það árum saman að reka sig líkt og þjónustufyrirtæki á einkamarkaði með fullu samþykki núverandi meirihluta. Staðreyndin er nefnilega sú að ef þjónustu- og nýsköpunarsvið væri raunverulega einkafyrirtæki, væri það fyrir löngu komið á hausinn.

 

Bókun flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 31. janúar 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ráðstöfun borgarinnar á lóð við Ægisíðu 102 til Festi, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. janúar 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvort það geti verið að verðmæti lóðarinnar séu tveir milljarðar og ef svo er af hverju er ekki beðið með lóðaúthlutun eftir að borgin hefur leyst lóðina til sín sem getur gerst eftir fimm ár. Málið snýst ekki bara um hugsanlegan tveggja milljarða hagnað Festi, heldur um hvort verið sé að færa Festi verulegan hagnað, þótt hann verði ekki tveir milljarðar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst eins og verið sé að veikja samningsstöðu borgarinnar með því að fullyrða að kostnaður við uppkaup á eignum, rífa og fjarlægja stöð og hreinsa jarðveg gæti verið á bilinu 400-600 milljónir. Þessi tala er ágiskun og giska mætti alveg eins á 50-100 milljónir. Það er ekki fyrr en á síðari stigum sem það kemur í ljós hver hagnast og um hvað mikið.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 12. janúar 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um netöryggismál Reykjavíkurborgar, sbr. 62. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. desember 2021:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst margt einkennilegt í þessu svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Í svari kemur til dæmis fram að deildarstjóri kerfisstjórnar og tæknireksturs sinni líka meðfram því starfi stöðu öryggisfulltrúa. Hafa ber í huga að staða öryggisstjóra sviðsins var lögð niður árið 2020 og þáverandi öryggisstjóri sviðsins rekinn í miðju COVID ásamt hátt í tíu öðrum starfsmönnum þessa sama sviðs. Fulltrúa Flokks fólksins telur það mjög undarlega ákvörðun að öryggisstjóra sviðsins sé sagt upp og staðan lögð niður og deildarstjóri kerfisreksturs og tæknilausna fengið hlutverk öryggisstjóra samhliða öðrum verkum. Sérstaklega þegar öryggisbrestur í tölvukerfum Reykjavíkurborgar gæti mögulega haft áhrif á ⅓ hluta landsmanna, eins og kemur fram í svari ÞON (þjónustu- og nýsköpunarsviðs). Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessum málum og óttast að nú hafi ÞON ekki yfirsýn að öllu leyti yfir hvaða hugbúnaður er í notkun eða hvar gögn eru geymd. Ef ekki ÞON þá hver? Er þetta kannski mál sem Persónuvernd þarf að skoða? Einnig stingur það í augu að æðsti yfirmaður beri ábyrgð á viðhaldi gæðaskjala. Hér er kallað eftir fagmennsku en ekki bara reddingum. Persónulegar skoðanir skipta ekki máli þegar svo mikið er undir.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar aðgengis- og samráðsnefndar um gæðaeftirlit með þjónustu við fatlað fólk:

Fram fer kynning á styðjandi gæðaeftirliti með þjónustu við fatlað fólk. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi vinna bæði jákvæð og afar mikilvæg. Gæðaviðmið þurfa að vera til til þess að hægt sé að átta sig á hvort þjónustan sé að skila tilætluðum árangri að mati þeirra sem þiggja þjónustuna. Gæðaviðmiðin eru fjögur: samskipti og traust, hvort þjónustan er örugg og sjálfræði er síðan rauður þráður í gæðaviðmiðunum og áhrif notandans á þjónustuna. Þessi viðmið og staðlar þyrftu nauðsynlega að koma inn í alla þjónustu sem borgin veitir borgarbúum.

 

Bókun Flokks fólksins við 4. lið fundargerðar íbúaráðs Háleitis- og Bústaðahverfis frá 27. janúar 2022 um ákvörðun meirihlutans að hætta við þéttingaráform við Bústaðaveg:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir þá ánægju sem fram kemur undir þessum lið og lúta að  breytingatillögum við Bústaðaveg. Enn er þó margt óljóst í því máli. Meirihlutinn hefur lofað að hverfa frá þéttingaráformum við Bústaðarveg eða eins og fram kom í fréttatilkynningu að leggja til hliðar hugmyndir um þéttingu byggðar við Bústaðaveg. Mikil óánægja kom einnig fram í Gallup könnun með aðrar tillögur sem snúa að Múlum, Háaleiti, Gerðum, Hvassaleiti og Smáíbúðahverfinu. Það vantar að skýra þetta mál allt miklu betur að mati fulltrúa Flokks fólksins. Það vantar einhvers konar punkt á þetta mál.

 

Bókun Flokks fólksins við 4. lið fundargerð í  Vesturbæjar frá 19. janúar 2022 um gagnrýni íbúa vegna framkvæmda í Sörlaskjóli á göngustíg:

Á fundi íbúaráðs Vesturbæjar fór fram umræða um tillögu að deiliskipulagi fyrir göngu- og hjólastíg við Sörlaskjól og Faxaskjól. Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi koma gagnrýni íbúa í Vesturbæ á framfæri um að það eigi að fara í framkvæmdir á grænu svæði við ströndina. Um er að ræða ströndina við Sörlaskjól og Faxaskjól. Borist hafa athugasemdir sem sjálfsagt er að hlusta á og reyna í kjölfarið að finna milliveg. Samkvæmt fjölmiðlum er nú búið að samþykkja, þvert ofan í vilja íbúa, að malbika tvöfaldan stíg yfir þetta svæði og jafnvel yfir mjótt grassvæði sem liggur nánast ofan í fjöru við Sörlaskjól.  Framkvæmd af þessu tagi þarf að vera gerð í sátt við íbúana eins og kostur er. Fram hefur komið að íbúar þarna hafa áður lent í því að verktakar fá samning til að fara í framkvæmdir á þessu svæði án þess að samráð sé haft við íbúana.

 

Bókun Flokks fólksins við 13. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 2. febrúar 2022 um þungt og flókið umsagnarferli ef sótt er um byggingarleyfi. Vísað er í Ársskýrslu:

Ársskýrsla skipulagssviðs. Þessi samantekt staðfestir þann vanda sem borgin glímir við í húsnæðismálum. Um 61% byggingarleyfisumsókna er frestað vegna athugasemda og eða ófullnægjandi gagna. Af þessu má sjá og skilja pirring margra umsækjenda sem kvarta yfir að ferlið allt taki óheyrilegan tíma ef eitthvað þarf að bæta í gögn eða laga. Það vantar almennt meira framboð af nýjum íbúðum og þess vegna hefur verðbólgan rokið upp. Verðhækkanir eru m.a. tilkomnar vegna framboðsskorts. Húsnæðisvandinn er heimagerður vandi.

 

Bókun Flokks fólksins við 9. lið í yfirliti  yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál:

Fulltrúi Flokks fólksins vill draga athygli að bréfi umboðsmanns barna þar sem hún minnir á að mikilvægur þáttur í innleiðingu Barnasáttmálans er að tryggja að hann sé með markvissum og kerfisbundnum hætti hafður að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku sem snerta börn. Segir í bréfinu að umboðsmaður barna fái reglulega ábendingar sem snúa að ákvörðunum sveitarfélaga og hvort þær samræmist hagsmunum og réttindum barna. Umboðsmaður barna áréttar í bréfi sínu að sveitarfélögum beri skylda til að leggja sérstakt mat á áhrif ákvarðana á börn sem teknar eru á vettvangi þeirra, en slíkt mat ætti ávallt að fara fram á fyrstu stigum umræðu eða ákvarðanatöku. Nýlega lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að skipaður yrði stýrihópur sem greindi og legði mat á hvað þurfi til til að Reykjavík geti farið í innleiðingarferli á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna líkt og gert var í Kópavogi. Í kjölfarið yrði stefnt að því að fá afhenta viðurkenningu og vera þar með komin í hóp barnvænna sveitarfélaga en hugmyndafræði þeirra byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF. Tillögunni var vísað til borgarráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í Austurbæjarskóla, Háteigsskóla, Hlíðaskóla og Vörðuskóla:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í Austurbæjarskóla, Háteigsskóla, Hlíðaskóla og Vörðuskóla. Í desember sl. stóð foreldrafélag Háteigsskóla fyrir rafrænni könnun meðal foreldra og forráðamanna dagana 18.-24. janúar 2022. Alls bárust 142 svör og af þeim er ljóst að mikill meirihluti leggst gegn hugmyndinni um safnskóla, vill að börn Háteigshverfis sæki 1.-10. bekk í sama grunnskólanum innan hverfis og að það sé byggt við Háteigsskóla í stað þess að ætla unglingum hverfisins að sækja sér grunnmenntun í öðru hverfi. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvar þetta mál er statt nú og hvort tekin hafi verið ákvörðun um fyrri fyrirheit um uppbyggingu og stækkun Háteigsskóla þannig að skólinn geti hér eftir sem hingað til þjónað því hlutverki sínu að vera heildstæður hverfisskóli. MSS22020056

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um leigueignir og leigusal þeirra sem leigja umsækjendum um alþjóðlega vernd:

Fyrirspurnir um leigueignir fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Á fundi borgarráðs er birt yfirlit yfir leigueignir og leigusala borgarinnar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Stærstu aðilar (leigusalar) eru Heimavellir, Leigufélagið Bríet og síðan „einkaaðilar“. Einnig Stýrifell ehf., Krissakot ehf., Steinbúð ehf. og E-Fasteignafélag ehf. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvernig leigusalar þetta eru í þeirri merkingu hver er leigan og hvort hún er innan „eðlilegra marka“. Um er að ræða 56 íbúðir. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um leiguverð þessara leigusala og samanburð á leiguverði þeirra á milli. Ekki er endilega farið fram á að leigusamningarnir verði birtir en óskað er eftir eins skýrum svörum og hægt er. Einnig er óskað upplýsinga um hvernig viðhaldi sé háttað og hverjir taka ábyrgð á því og meðtaka kvartanir sem og fylgja þeim eftir. MSS22020062

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs, eignaskrifstofu.