Velferðarráð 19. janúar 2022

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 19. janúar 2022, um breytingu á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, ásamt fylgiskjölum:

Meirihlutinn leggur til að velferðarráð samþykki að fjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu og aðstoð vegna barna hækki um 2,4% í samræmi við forsendur við úthlutun fjárhagsramma velferðarsviðs fyrir árið 2022. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta afar nánasalegar hækkanir, nokkrir þúsundkallar. Þegar verðbólga mælist í kringum 5% er þetta í raun skerðing á kaupmætti milli ára. Hægt er að gera mun betur hér.

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 19. janúar 2022, um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, ásamt fylgiskjölum:

Það er ekki lengur krafa að hafa dvalið í eitt ár í  Reykjavík til að eiga rétt á því að sækja um félagslegt húsnæði og til að komast á biðlista sem er mjög af hinu góða. En síðan er fólki gefið stig fyrir að hafa búið hér í Reykjavík í ár. Fólk sem hér um ræðir er oft í miklum vandræðum húsnæðislega séð og hefur orðið að flytja eða búa utan borgar kannski vegna þess að þar fékk það skjól um tíma. Þeir sem hafa verið svo heppnir að hafa búið í Reykjavík fá aukastig. Er þetta sanngjarnt? Fólk sækir ekki um nema það sé í mikilli neyð. Auka þarf sárlega framboð af félagslegu húsnæði enn meira en gert hefur verið.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á viðbrögðum vegna öryggisbrests hjá Strætó bs.:

Þetta er mikið áfall fyrir Strætó. Þetta getur hent alla sannarlega. Mikilvægt er að linna ekki látum fyrr en búð er að finna þá sem eru ábyrgir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af öryggismálum almennt í borginni sérstaklega þar sem starf gæða og öryggisstjóra hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði var lagt niður í apríl 2020 eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur frétt. Ekki er vitað til þess að sérfræðingur á sviði öryggismála á þessu sviði sé að sinna tölvuöryggismálum í Reykjavík.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu minnisblað, dags. 19. janúar 2022, um stöðumat á innleiðingu aðgerðaáætlunar um velferðartækni fyrir árin 2020 og 2021:

Farið er yfir stöðu innleiðingu aðgerðaáætlunar um velferðartækni fyrir árin 2020 og 2021. Fulltrúa Flokks fólksins finnst heildarmyndin óskýr. Það hefði verð gott að fá samantekt á því og að árangursmælingar væru meira staðlaðar þannig að auðveldara væri að sjá hver staðan væri og á hvers ábyrgð hvert verkefni er og á hverju strandar.  Segir jafnframt í gögnum að hægt sé „að sækja rafrænt um skjáheimsóknir gegnum rafræna gátt á innri vef en nýr ytri vefur Reykjavíkurborgar er ekki kominn í notkun.“ Þjónustuþegar geta þ.a.l. ekki sótt um beint sem hlýtur að vera markmiðið að verði. Hvenær er gert ráð fyrir að nýr ytri vefur borgarinnar sé klár fyrir þetta? Fram kemur að „ekki sé talin ástæða til að taka inn ný verkefni sem eru í þróun hjá frumkvöðlum og að verkferlar tækni og kerfis séu í áframhaldandi þróun hjá upplýsingatæknideild Reykjavíkur (UTR).“
Áður hefur komið fram og kemur fram hér einnig að snjalllausnir séu enn í tilraunar- eða þróunarfasa og á því strandi. Spurning er hvort ekki sé hægt að leita að tilbúnum sambærilegum lausnum? Hvar liggur helsta hindrunin í þessum málum? Er það hjá velferðarsviði eða þjónustu- og nýsköpunarsviði?

Bókun Flokks fólksins við minnisblaði um stöðumat á aðgerðaáætlun stýrihóps velferðarsviðs um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra:

Farið er yfir stöðu aðgerðaáætlunar stýrihóps velferðarsviðs um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Í niðurstöðum segir að allar aðgerðir sem settar voru fram í aðgerðaráætluninni hafa nú þegar komist til framkvæmda fyrir utan eina. Sú aðgerð sem ekki er komin í framkvæmd felur í sér að endurskoða verklag og verkaskiptingu milli velferðarsviðs og Félagsbústaða út frá notendamiðaðri hönnun. Hér strandar á að ekki er tilbúin stafræn lausn sem þarf til að koma aðgerðinni á. Lítið fer fyrir þeim stafrænu lausnum sem búið er að róma í kynningum frá þjónustu- og nýsköpunarsviði. Eins og segir „þá MUNU þær koma og þá tryggja betri upplýsingagjöf til notenda“. Eina sem komið er í einhverja virkni er nýtt kerfi þar sem sótt er um fjárhagsaðstoð, rafræn lausn sem kostaði yfir 100 millj. Lítið fer fyrir öðru þrátt fyrir 10 milljarða innspýtingu til þjónustu- og nýsköpunarsviðs á þremur árum. Ein sú mikilvægasta tillaga/aðgerð sem hefur komið til framkvæmda er að nú þarf ekki að fullnýta frístundakort til að eiga rétt á heimildagreiðslum skv. gr. 16. A né þjónustugreiðslum (nú 10. gr. reglnanna). Þetta var tillaga fulltrúa Flokks fólksins svo því sé haldið til haga, tillaga sem kostaði mikið átak að koma til eyrna meirihlutans.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skrifstofu borgarstjórnar varðandi tillögu fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um að stytta afgreiðslutíma þeirra tillagna sem ungmenni leggja fram á árlegum borgarstjórnarfundi og að upplýsingar um úrvinnsluferlið verði aðgengilegar:

Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar tillögu fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um að stytta afgreiðslutíma tillagna þeirra sem ungmenni leggja fram á árlegum fundi borgarstjórnar og að upplýsingar og úrvinnsluferlið verði aðgengilegar. Tafir á afgreiðslu mála og ógegnsæi í úrvinnsluferli borgarinnar er stórt vandamál nánast hvert sem litið er innan borgarkerfisins. Þó er þetta einmitt eitt af því sem þessi meirihluti lofaði að laga svo um munaði. Þvert á móti tekur það heila eilífð fyrir svið/nefndir  Reykjavíkurborgar að afgreiða og vinna tillögur þ.m.t. tillögur minnihlutafulltrúa borgarstjórnar. Dæmi eru um að meira en eitt ár og jafnvel eitt og hálft ár hafi liðið frá því að tillaga er lögð fram og þar til hún kemur til afgreiðslu á fundi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur skilning á að þetta taki einhvern tíma enda mikið af málum en heilt ár og meira er of mikið. Þá hafa mál oft misst marks. Vonandi mun afgreiðslutími almennt séð styttast, hvaðan svo sem þær eru að koma, frá ungmennaráðum, borgarbúum eða kjörnum fulltrúum minnihlutans.

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um bið eftir þjónustu talmeinafræðinga, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. nóvember 2021.

Hinn 1.11.2021 voru 400 börn á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðings. Ábyrgð borgarinnar er mikil og byggist m.a. á samkomulagi ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skiptingu ábyrgðar vegna talmeinaþjónustu við börn frá árinu 2014. Reykjavíkurborg á samkvæmt samkomulaginu að veita börnum með vægari frávik þjónustu innan leik- og grunnskóla sveitarfélaga. Það er sérlega bagalegt að öll þessi börn séu að bíða eftir svo mikilvægri þjónustu. Að hjálpa þessum börnum gengur of hægt hjá borginni.  Fjármagn upp á 140. m.kr til að vinna niður biðlista vegna greininga sálfræðinga og talmeinafræðinga dugar skammt.
Ef horft er til þeirra barna sem glíma við málþroskavanda þá hafa rannsóknir sýnt að börn með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í félagslegum aðstæðum og eru þau einnig berskjaldaðri fyrir tilfinningalegum erfiðleikum. Á þetta reynir sérstaklega þegar komið er inn á unglingsárin ef barn hefur ekki fengið nauðsynlega aðstoð með málþroskavandann í leik- og grunnskóla. Unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í tengslamyndun við félaga sína þar sem á þeim árum eiga miklar breytingar sér stað, bæði líffræði-, vitsmuna, félags- og tilfinningalega.