Borgarráð 31. mars. 2022

Bókun Flokks fólksins við nýju deiliskipulagi fyrir Hagaskóla að Fornhaga 1:

Því er fagnað að lögð er fram tillaga skipulagsyfirvalda/umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að nýju deiliskipulagi fyrir Hagaskóla að Fornhaga 1. Í tillögunni felst að gerðir eru byggingarreitir fyrir uppsetningu tímabundinna færanlegra eininga fyrir kennslu og starfsmannahald á lóð. Árum saman hafa skólayfirvöld kvartað vegna ástandsins, skólinn löngu sprunginn og mygla og raki víða í eldri byggingu. Hagaskóli eins og Fossvogsskóli hefur verið í langan tíma heilsuspillandi húsnæði en yfirvöld vildu ekki ljá málinu eyra. Verið er að súpa seyðið af áralangri vanrækslu á viðhaldi skólabygginga í borginni. Viðhaldsskuld borgarinnar er orðin stór og komið er að skuldadögum. Hvað varðar Hagaskóla er óhætt segja að þar hefur staðan verið sérlega alvarleg. Blessunarlega er hreyfing á málinu og vonandi eru veikindi vegna heilsuspillandi húsnæðis úr sögunni.

 

Bókun Flokks fólksins við nýju umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. mars 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 23. mars 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga nýja Skerjafjarðar:

Lagt er fram stórt skjal sem ber nafnið nýi Skerjafjörður og að breytt deiliskipulag fari í auglýsingu. Útilokað er að ná utan um allar þessar upplýsingar á stuttum tíma þótt umræðan sé nú ekki ný af nálinni. Málið hefur verið mjög umdeilt og hreinlega mörgu mótmælt af íbúum svæðisins. Flestar þessar breytingar eru óafturkræfar. Það þarf sannarlega að byggja af krafti enda mikill húsnæðisskortur í Reykjavík. Um það eru allir sammála enda barist um hverja íbúð. Í Reykjavík hefur ekki verið byggt nóg. Skortur hefur verið á húsnæði af öllum gerðum. Þétta á byggð þarna svo um munar. Hængur á þessu deiliskipulagi er að verið er að hanna hverfi þar sem sífellt þarf að taka mið af flugvelli sem á að fara. Af hverju má ekki bíða eftir því að það gerist og þá mun hönnun e.t.v. verða allt öðruvísi? Þá verður hægt að hanna og byggja af myndarskap. Nú þarf t.d. að „HANNA“ nýja strönd með fram landfyllingu. Hönnuð strönd er líklega miklu betri en náttúruleg strönd að mati núverandi skipulagsyfirvalda. Þessi framkvæmd er sögð ein mestu skipulagsmistök sem hafa verið gerð á síðustu árum.

 

Bókun Flokks fólksins við nýja svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á starfssvæði SORPU bs, Sorpurðunar Vesturlands hf., Sorpstöðvar Suðurlands bs. og Kölku, sorpeyðingarstöðvar sf.:

Verið er að breyta úrgangssöfnun á höfuðborgarsvæðinu. Reyna á að ná betri flokkun. Hirðukostnaður mun hækka mikið. Áætlaður kostnaður 2023 er 18 m.kr. vegna jarðvegsmóttöku í Bolaöldu. Ljóst er að endurvinnsla sorps er enn ekki í lagi. Hér er fjallað um steinefni og moldarefni og vandræðaganginn við að koma þeim efnum fyrir. Þær lausnir sem mest eru nefndar eru einhvers konar verkfræðileg útfærsla. Hver eru rökin fyrir að setja jarðveg á Bolaöldu og hvers konar jarðveg er átt við? Bolaöldur eru nálægar vatnsbóli og það er áhætta að aka farmi þangað. Hugtakið óvirkur úrgangur er ekki skilgreindur. Hér ættu líffræðileg sjónarmið einnig að koma til skoðunar. Ef þessi jarðvegur er nýtanlegur sem ræktunarjarðvegur ætti að dreifa honum víða, en ef hann er mengaður er skást að koma honum fyrir þar sem verið er að rækta skóg. Þar getur slíkur jarðvegur verið til frambúðar. Að mati Flokks fólksins þarf að vera skýr yfirlýsing um vilja til að nýta moldina, aðeins ónýtanlega mold, sem ekki er hægt að nýta til ræktunar, má urða. Stefnan, Sameiginleg svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2022-2033, bendir til að enn eitt byggðasamlagið sé að verða til, með öllum ókostum slíks fyrirkomulags.

 

Bókun Flokks fólksins við umsögn umhverfis- og heilbrigðisráðs vegna verkefnisins Hverfið mitt 2022:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst verkefnið Hverfið mitt gott mál enda leið til að ljá röddum borgarbúa eyra og virða óskir þeirra eins og unnt er. Fram kemur að kosningaþátttaka er 16,4% kosningabærra íbúa sem er reyndar mjög slök þátttaka. Fulltrúi Flokks fólksins fór á stúfana og ræddi við nokkra borgarbúa um þetta verkefni. Fólk hefur mismunandi reynslu eins og gefur að skilja. Flestum finnst þetta sniðugt verkefni en raddir voru einnig á lofti um að hér væri á ferðinni hálfgert montverkefni meirihlutans. Tillögur um skemmtileg verkefni eins og ærslabelginn og rennibrautir eru gjarnan samþykktar en tilvik eru um að tillögum um lagfæringar og viðhald sé hafnað og vísað í annan farveg. Dæmi um slíka reynslusögu borgarbúa er að viðkomandi sendi inn tillögu um að laga körfuboltavöll sem ekki hefur verið notaður árum saman vegna þess að hellulögn er ónýt og hættuleg. Tillögunni var hafnað þátttöku í Hverfið mitt 2020-2021 því hún snerist um viðhalds- eða öryggisverkefni og bent á að annar farvegur væri fyrir slíkt. Viðkomandi sendi því ábendinguna inn á þar til gerðri vefsíðu en hefur ekki fengið nein viðbrögð. Engu að síður á að endurbæta körfuboltavöll við Laugarnesskóla. Hvernig á að skilja þetta?

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna nýs leikskóla og fjölskyldumiðstöðvar við Njálsgötu 89:

 

Óskað er eftir af meirihlutanum að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna nýs leikskóla og fjölskyldumiðstöðvar við Njálsgötu 89. Það er aldeilis gott mál að mati Flokks fólksins enda vantar leikskólapláss. Erfitt hefur reynst að fá það staðfest hvað vantar mörg leikskólapláss. Á hverju ári er eins rennt sé blint í sjóinn í þessum málum. Ferlið er flókið því ekki eru næg pláss fyrir öll börn. Fyrst þarf að bjóða elstu börnunum pláss og yngri börn mæta afgangi. Eftir það er fyrst hægt að segja til um biðlista. Það kemur því ekki endanleg mynd á biðlistann fyrr enn  snemmsumars. Þessi óvissa er erfið öllum en langmest foreldrum sem bíða oft í angist eftir að frétta hvort barn þeirra fái pláss eða ekki. Þess utan er vandinn mismunandi eftir hverfum sem einfaldar sannarlega ekki málið. En klárlega þarf að byggja fleiri leikskóla sem og almenn íbúðarhúsnæði í borginni. Skortur er á þessu öllu og því hefur ekki tekist að brúa nein bil.

 

Bókun Flokks fólksins bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út malbikunarframkvæmdir 2022:

Stefnt er á að auka malbikun yfirlaga og að fjárheimild til þeirra á árinu 2022 verði 900 m.kr. Er það hækkun um 200 m.kr. frá því sem áður var gert ráð fyrir í áætlun. Ástæður þessa eru aukið niðurbrot slitlaga einkum vegna veðurfars í vetur. Hefðbundnar malbiksviðgerðir eru áætlaðar um 300 m.kr. Spurning er hvort hægt er að kenna veðurfari um allar skemmdirnar en fleira gæti einnig komið til. Uppsöfnuð vanræksla á götuviðhaldi sem dæmi.

 

Bókun Flokks fólksins tillögu borgarstjóra, dags. 29. mars 2022, um uppfærða áætlun um lóðaúthlutun til 2030 til óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga:

Lögð er fram uppfærð áætlun meirihlutans um lóðaúthlutun til 2030 til óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga. Spýta þarf verulega í lófana að mati Flokks fólksins enda húsnæðisskortur í borginni. Skortur er á hagkvæmu húsnæði af öllum tegundum. Biðlistar upp á hundruð manna eru eftir félagslegu húsnæði, sértæku húsnæði og annars konar búsetuúrræðum. Barist er um hverja einustu íbúð. Því fyrr sem fasteignamarkaðurinn kemst í eðlilegt horf því fyrr náum við tökum á verðbólgunni. Þrátt fyrir að byggt hafi verið talsvert hafa allt of margir ekki öruggt húsnæði. Byrja þarf á þeim sem standa verst fjárhagslega og þá koma óhagnaðardrifin húsnæðisfélög til sögunnar. Þau hafa stigið of hægt inn á markaðinn eða verið hleypt of hægt inn á markaðinn. Ef vel ætti að vera þyrftu á annað þúsund íbúða í Reykjavík að koma árlega inn á markað á vegum óhagnaðardrifinna félaga. Nú eru þau aðeins fáein hundruð. Þétting byggðar hefur leitt til þess að það sem er byggt er einsleitt, mest litlar og meðalstórar blokkaríbúðir á rándýrum þéttingarsvæðum. Um 30% fasteignakaupenda eru fyrstu kaupendur.

 

Bókun Flokks fólksins bréfi borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. mars 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita Byggingarfélagi námsmanna vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 65 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Arnarbakka í neðra Breiðholti:

Meirihlutinn óskar eftir því að borgarráð samþykki að veita Byggingarfélagi námsmanna vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 65 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Arnarbakka í neðra Breiðholti. Það er gott og vel enda sárvantar húsnæði fyrir námsmenn og fyrstu kaupendur. Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi nefna að það þarf að sjá til þess að umferðarmálin og aðgengi verði í lagi þegar svo mikið á að byggja í einu hverfi. Meirihlutinn verður einnig að horfa til þess að bílar þurfa stæði og í könnunum má sjá að bílum fer fjölgandi. Borgarlína kann að vera framtíðin en ennþá er margt óljóst með hana og hvort hún verði „sá“ samgöngumáti sem „fjöldinn“ á eftir að velja.

Bókun Flokks fólksins við kynningu um Klapp, nýtt greiðslukerfi Strætó bs.

Eina leiðin til að borga sig inn í strætó núna, svona að mestu, er að eiga farsíma og vera búin að koma sér upp „Klapp“ appinu til að geta keypt sér inneign. Nauðsynlegt er að hafa rafrænt auðkenni til að geta farið inn á „Mínar síður“ og endurnýjað inneignina. Það eiga ekki alveg allir farsíma og sumir, t.d. hælisleitendur sem nota strætó mikið, hafa ekki einu sinni kennitölu. Enn aðrir geta ekki, t.d. vegna fötlunar sinnar, notað  rafræn skilríki og geta þ.a.l. ekki notað „Mínar síður“. Reynt hefur verið að finna lausnir á þessu og á eftir að koma í ljós hvort þær gagnast. Versta er ef „kerfi“ sem þetta á eftir að hindra fólk í að nota strætó. Það er ekki gott ef viðkvæmir hópar og þeir sem hafa stólað mest á strætó treysti sér ekki til að nota strætó vegna nýja greiðslukerfisins Klapp. Fólk hefur kvartað sáran yfir þessu kerfi og að ekki sé boðið upp á fleiri greiðslumöguleika. Stjórnendur Strætó verða að setja sig betur í spor þeirra sem ferðast með vögnum fyrirtækisins og sníða þjónustuna að þeirra veruleika.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu stýrihóps um mótun atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar til 2030 að atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar til 2030 ásamt fyrstu drögum að aðgerðaáætlun ásamt viðaukum:

Atvinnu- og nýsköpunarstefna sem þessi þarf að rúma alla flóru fólks án tillits til aldurs, menntunar, reynslu, fötlunar o.s.frv. Við erum fjölmenningarsamfélag. Tæknibylting er boðin velkomin en tækni kemur aldrei í staðinn fyrir mannlega hugsun og tilfinningar. Tækni er aðeins hjálpartæki í þjónustu mannsins. Stefnan sem hér er lögð fram er í raun stefna um stafræna umbreytingu en minna fer fyrir öðru. Ekki er lögð mikil áhersla á atvinnustoðir í öllum hverfum og almennt er ímynd borgarinnar óljós þegar kemur að atvinnu. Eins er ekki ávarpað það sem skiptir okkur mestu máli sem er kolefnisspor og vaxandi ójöfnuður og fátækt. Megininntak skjalsins er lýsing á kostnaðarsömum tilraunum, þróun og uppgötvunum á stafrænum lausnum, fjölmörgum sem hafa aðeins skemmtana- og afþreyingargildi. Ítrekað kemur fram að „það sé í lagi að gera tilraunir og prófa sig áfram með alls konar“. Það er eins það gleymist að verið er að leika sér að útsvarfé borgarbúa. Reykjavíkurborg er að stofna sitt eigið hugbúnaðarfyrirtæki, á því leikur enginn vafi. Flokkur fólksins hefur kvartað yfir því að nauðsynlegar stafrænar lausnir voru ekki settar í forgang og miklu fé hefur verið eytt í leikaraskap.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að óska eftir umsóknum um samstarf á fimm lóðum í borginni með það að markmiði að styðja við uppbyggingu vistvænni mannvirkja þar sem kappkostað hefur verið að draga úr neikvæðum áhrifum á loftslag og umhverfi:

Lagt er til af meirihlutanum að borgarráð samþykki að veita skrifstofu borgarstjóra og borgarritara umboð til að ræða við hlutskörpustu hópana í verkefninu grænt húsnæði framtíðarinnar. Þarna er margt sem hæpið er að kalla grænt húsnæði að mati fulltrúa Flokks fólksins, ef átt er við að þetta framtíðarhúsnæði verði mun vistvænna en það sem þegar hefur verið byggt. Ekki verður séð að græn vottun gefi byggingum framtíðarábyrgð. Þegar lesið er um þessi mál kemur í ljós að fátt hefur verið prófað við íslenskt veðurfar. T.d. gefur svansvottun grænt ljós á krosslímdar timbureiningar sem verða fyrir láréttri rigningu. Það er ávísun á fúa í framtíðinni, mygluvandamál í húsum og niðurrif hússins. Svansvottun vottar að eins lítið sé notað af mengandi efnum og unnt sé og kolefnisspor sé minna en áður, en vottar ekki gæði bygginga að öðru leyti.

 

Bókun Flokks fólksins tillögu um að stafesta stafræna húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar til næstu 10 ára sem er nú lögð fram í fyrsta sinn en hún er unnin að frumkvæði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS):

Stafræn húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar til næstu 10 ára er nú lögð fram í fyrsta sinn en hún er unnin að frumkvæði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Markmið HMS er að staðla og koma húsnæðisáætlunum allra sveitarfélaga á Íslandi á stafrænt form og þannig auðvelda samanburð og aðgengi allra leikenda á húsnæðismarkaði. Stafræn húsnæðisáætlun gefur sveitarfélögum og aðilum í byggingarbransa gott tól til þess að fylgjast „lifandi eða stafrænt“ með því hversu margar íbúðir eða annað húsnæði er í byggingu á hverjum tíma og hvar sem er á landinu. Hér eru um ný og þægileg vinnubrögð að ræða og ekki lengur þörf á að keyra á milli húsa í hverfum og handtelja.

 

Bókun Flokks fólksins  við tillögu borgarstjóra, dags. 25. mars 2022, að markvissum vinnu- og virkniaðgerðum fyrir fólk sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu:

Atvinnu- og virknimiðlun. Það er fátt sem gleður meira en að einstaklingur sem hefur þurft fjárhagsaðstoð kemst aftur út í atvinnulífið. Hér er verið að leggja til viðbót við verkefni sem fyrir er. Af gögnum að dæma hefur verkefnið gengið vel. Þó er ekki mikil reynsla komin á það og skiptir þess vegna máli að gera reglulegar árangursmælingar. Fylgja þarf einstaklingum eftir til skemmri og lengri tíma til að staðfesta ábatann eftir því sem fram líða stundir. Fyrirliggjandi tillaga hefur verið kostnaðarmetin og er þar gert ráð fyrir að hreinn ábati af verkefninu á tveggja ára tímabili verði 149 m.kr., en áætlað er að það verði 387 m.kr. ábati eftir að verkefninu lýkur vegna lækkunar fjárhagsaðstoðar. Þetta á eftir að koma í ljós en ekki er hægt að staðfesta ábata svona fyrirfram í ljósi þess skamma tíma sem verkefnið hefur verið í virkni.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 14. mars 2022, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022 vegna fjárfestingaáætlunar A-hluta Reykjavíkurborgar. Greinargerðir fylgja tillögunum:

Fulltrúa Flokks fólksins líst ekki vel á alla þessa viðauka, a.m.k. ekki þá sem draga úr framkvæmdum og hækkun til þess að hækka laun stjórnenda. Fjárheimild vegna Úlfarsárdals, íþróttasvæði FRAM verði lækkuð um 50 m.kr. og verði 200 m.kr. í stað 250 m.kr. Áætlað umfang verkefna á árinu verður minna en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Fjárheimild vegna Vísinda- og upplifunarsafns í Laugardal verði lækkuð um 25 m.kr. og verði 375 m.kr. í stað 400 m.kr. Hver eru rökin fyrir því? Áætlað umfang verkefna á árinu verður minna en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Flokkur fólksins getur heldur ekki samþykkt hækkun launa stjórnenda en lagt er til að fjárheimildir fagsviða og miðlægrar stjórnsýslu hækki um 33.983 þ.kr. vegna ákvörðunar kjaranefndar Reykjavíkurborgar frá 2. febrúar 2022 um kjör þeirra stjórnenda sem undir hana heyra. Hækkun launa stjórnenda er með öllu ósamþykkjanleg.

 

Bókun Flokks fólksins svari ÍTR við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands  um fjölda sendra innheimtukrafna frá september 2021, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. janúar 2022:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst það almennt mjög erfitt að hugsa til þess að sendar skuli vera innheimtukröfur til lögfræðinga vegna skuldar fólks sem upp til hópa hefur ekki nægt fjármagn milli handanna til að greiða fyrir nauðsynjar t.d. sem tengjast börnum þeirra. Fulltrúi Flokks fólksins vill að samið verði við fólk og í öllum tilfellum sé allt gert til að mæta erfiðri stöðu fólks. Sýna á sveigjanleika og umburðarlyndi og umfram allt manngæsku í málum af þessu tagi. Það er ekkert grín að vera svo illa staddur fjárhagslega að geta ekki greitt húsaleigu, skólamat fyrir barnið sitt eða frístund svo dæmi sé tekið. Í desember 2021 fékk fulltrúi Flokks fólksins svar við fyrirspurn um viðbrögð við vanskilum vegna áskrifta á skólamat. Fram kom þá að af 9.514 útgefnum reikningum í hverjum mánuði fór 4,2% til Momentum og voru 1,5% ennþá ógreiddir þann 1. nóvember 2021. Það segir sig alveg sjálft að þarna er á ferð hópur foreldra sem nær engan veginn endum saman um mánaðamót. Við bætast svo dráttarvextir sem elta fátæka foreldra jafnvel ævilangt.

 

Bókun Flokks fólksins fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 14. mars 2022:

Þessi fundargerð íbúaráðs Laugardals er óvenju rýr. Það kemur í raun ekkert fram hvað var rætt þarna, voru teknar einhverjar ákvarðanir, einhverjar niðurstöður og hvar eru öll þau málefni sem brenna á íbúum? Framtíðarskipulag skólamála og fleira. Í fundargerðinni er ekki ein einasta bókun og virðist sem þarna hafi lítið verið um skoðanaskipti. Þessi fundargerð er með öllu gagnslaus að mati fulltrúa Flokks fólksins og spyr maður sig yfir höfuð um gagnsemi íbúaráða og tengsl þeirra við íbúa og þeirra skoðanir um hverfið sitt þegar maður sér svona plagg.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 23. mars:

Athugasemdir vegna tillögu að deiliskipulagi Arnarnesvegar eru ekki birtar í fundargerð. Harðorð mótmæli hafa borist frá stórum hópi sem ekki er hlustað á. Fyrirhugaðri framkvæmd um 3. áfanga Arnarnesvegar hefur verið mótmælt vegna þess að hann mun eyðileggja eitt dýrmætasta svæði höfuðborgarsvæðisins. Framkvæmdin byggir á umhverfismati frá 2003 og hefur verið mótmælt kröftuglega á öllum skipulagsstigum af íbúum nágrennisins síðastliðin 40 ár. Nýleg niðurstaða Skipulagsstofnunar um að ekki væri tæknilega þörf á nýju umhverfismat, því að talið er að byrjað hafi verið á framkvæmdinni 2004, er engan veginn í samræmi við umhverfissjónarmið og almennt siðferði. Á síðustu 18 árum hefur höfuðborgarsvæðið breyst mikið og áherslur í umferðarmenningu hafa breyst verulega. Því er ljóst að umferðarlíkanið sem stuðst var við í upphaflega umhverfismatinu er úrelt og þarfnast ítarlegrar endurskoðunar. Það er vert að hafa í huga að verkfræðistofurnar sem vinna þessar skýrslur fyrir Vegagerðina koma ávallt með niðurstöður sem samræmast væntingum Vegagerðarinnar, enda ólíklegt að þessar verkfræðistofur fari að bíta höndina sem fæðir þær. Það er alveg ljóst að Vegagerðin og þessar verkfræðistofur virðast aldrei setja umhverfi og lífríki í fyrsta sætið. Svo snertir þessi vegur einnig Elliðaárdalinn og gengið er þar einnig á útivistarsvæði og öllu þessu er vísað til verkefnisstjóra.

 

Bókun Flokks fólksins 1. og 3. lið fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 11. febrúar 2022:

Þetta er gagnslaus fundargerð. Eina sem sagt er að gerður hafi verið leigusamningur. Rætt var um stórmál, urðun, GAJU og metansölu, en engar upplýsingar veittar. Þetta er dæmi um slaka stjórnarhætti byggðarsamlags. Eingögu innvígðir og innmúraðir mega vita hvað er í gangi og um hvað er rætt. Það er ekki boðlegt að bjóða minnihlutafulltrúum og borgarbúum upp á svona vinnubrögð.

 

Bókun Flokks fólksins við 3. lið fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 25. febrúar:

Vagnaútboð, útboðsgögn vegna fyrirhugaðs vagnakaupaútboðs á rafknúnum strætisvögnum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að leggja eigi áherslu á metanvagna í ljósi þess að metan er framleitt hjá Sorpu í stórum stíl en brennt þar sem aðeins lítill hluti þess er notaður. Fátt væri því eðlilegra en að allir vagnar Strætó væru metanvagnar. Stjórn og yfirstjórn Strætó virðast sjá rafmagnsvagna sem besta kost og ekki hafa verið sett fram nægjanlega skýr rök fyrir af hverju þeir eru teknir fram yfir metanvagna.

 

Bókun Flokks fólksins við minnisblaði innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 7. mars 2022, um áhættustýringu og greiningu misferlisáhættu hjá Reykjavíkurborg:

Áhættustýring og greining misferlisáhættu hjá Reykjavíkurborg. Nokkrar aðgerðir eru á „rauðu“ sem þýðir að verulegrar styrkingar er þörf til að minnka misferlisáhættu Á rauðu eru t.d. duldar eftirlitsaðgerðir sem starfsmönnum og viðskiptavinum er ekki kunnugt um, svo sem gagnagreiningar sem ætlað er að bera kennsl á óvenjulegar aðgerðir. Þetta vekur upp spurningar.  Reykjavíkurborg er ekki lögregla sem ætti að fá leyfi til að „njósna“ um starfsfólk. Er ekki komið á hættubraut ef borgarráð/fagráð samþykkir lista af einstaklingum sem hafa leyfi til að afla upplýsinga og skilgreinir eigið upplýsingaaðgengi með tilliti til þeirra varna gegn misferli sem ætlað er að leynd hvíli yfir? Nú eru rafrænar undirskriftir ekki enn komnar í gagnið hjá borginni eins og verið hefur við lýði hjá flestum fyrirtækjum og stofnunum. Hefur það ekkert gildi þegar kemur að áhættustýringu og misferlisgreiningu? Margt er varðar starfslokasamninga eru á „rauðu“. Fram kemur að hafa þarf samtöl en ekki er víst að þau skili endilega miklu, viðkomandi vill kannski ekki mikið segja, verandi að hætta í starfinu. Erfitt að lesa úr skoðanakönnun borgarfulltrúa. Hverjar eru þar helstu niðurstöður? Talað er um siðareglur í skýrslunni. Settar voru siðareglur borgarfulltrúa sem brotnar voru viku seinna í beinni útsendingu borgarstjórnar. Svo mikið fyrir siðareglur!

Ný mál Flokks fólksins

Tillaga um að lesfimipróf eða hraðlestrarpróf verði val og aðeins lagt fyrir barn í samráði við foreldra og sátt við nemandann er lögð fram í borgarráði 31.3.

Fulltrúi Flokks fólksins telur að of mikil áhersla m.a. frá Menntamálastofnun (MMS) sé á leshraða (lesfimi) og mælingar á honum. Þess utan valda hraðlestrarpróf barni oft mikilli angist og kvíða. Hraðlestrarsamanburður getur almennt séð verið vafasamur, ekki einungis fyrir börn sem standa höllum fæti heldur einnig þá sem ná viðmiðum. Börn sem standa höllum fæti fá sífellt þau skilaboð að frammistaðan sé ekki nægilega góð jafnvel þótt hún batni. Að sama skapi getur verið að börn sem standa vel að vígi upplifi að þar sem þau séu búin að ná markmiðum þurfi þau ekki að bæta sig frekar. Færa má rök fyrir að leshraði sé stundum á kostnað lesskilnings. Á meðan hvatt er til að skólar mæli leshraða er e.t.v. ekki eins mikil áhersla á samræmdar mælingar á orðaforða, stafsetningu og lestur á sjónrænum orðaforða. Það er einfaldlega ekki hægt að gera ráð fyrir að lesskilningur „bara komi“ hjá börnum þegar þau ná auknum hraða eins og stundum er haldið fram.

Greinargerð

Frá því í september 2017 hefur Menntamálastofnun (MMS) mælt með að skólar mæli leshraða hjá börnum í 1. til 10. bekk. Rökin eru þau að nemendur með góðan leshraða hafi yfirleitt góðan lesskilning. En þetta er kannski ekki alveg svo einfalt því árangur á hraðlestrarprófi segir ekkert til um lesskilning einstaklings. Niðurstöður sýna aðeins hversu hratt lesandinn getur bunað út orðum. Leshraði er til lítils ef barn skilur ekki efnið sem það les. Barnið sem ekki skilur efnið er verr sett en barn sem les hægt en hefur ágætan lesskilning.  Standa þarf vörð um tilfinningalíðan barna og er hér höfðað til skóla- og frístundasviðs að beita sér í að framkvæmd á hraðlestrarprófi verði aldrei nema í samráði og sátt við foreldra og nemenda.

Menntamálastofnun hefur sett ákveðin lesfimiviðmið sem sýna  fjölda rétt lesinna orða á mínútu. Unglingur sem hefur lokið 10. bekk hefur farið í gegnum 30 mælingar á leshraða á 10 ára skólagöngu. Spyrja má hvaða áhrif slíkar endurteknar mælingar hafi á lestraráhuga og tilfinningalega líðan barnsins.

Enda þótt lesefnisviðmiðin séu e.t.v. almennt ekki endilega ósanngjörn eru þau of há fyrir mjög mörg börn. Í hópi barna er lestrarfærni þeirra mismikil. Sum börn ná einfaldlega ekki miklum hraða í lestri og ná ekki hraðaviðmiðunum Menntamálastofnunar. Vandamál með lestur geta átt rætur að rekja til ótal þátta þ.m.t. undirliggjandi leshömlunar eða annarra frávika. Hér þarf skóla- og frístundasvið að stíga inn og standa vörð um að vernda líðan barna í skólanum og verja þau gegn óþarfa áreiti sem hraðlestrarpróf geta verið og eru upplifuð af hópi barna í grunnskólum Reykjavíkur.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að hætt verði að framkvæma hin svokölluðu píp-próf í íþróttakennslu. Dæmi eru um að börn hafi ofreynt sig í ákafa um að reyna að standa sig vel á svokölluðum píp-prófum í íþróttakennslu í grunnskólum:

Tillaga um að hætt verði að framkvæma hin svokölluðu píp-próf í íþróttakennslu. Dæmi eru um að börn hafi ofreynt sig í ákafa um að reyna að standa sig vel á svokölluðum píp-prófum í íþróttakennslu í grunnskólum. Mörg börn upplifa vanlíðan og kvíða fyrir umræddum prófum og á meðan á þeim stendur. Þá upplifa mörg börn það sem niðurlægingu þegar þau detta út úr píp-prófunum í viðurvist skólafélaga sinna. Um þetta hefur umboðsmaður barna tjáð sig, m.a. í bréfi til mennta- og barnamálaráðherra. Píp-próf eru þol- og hlaupapróf sem framkvæmd eru þannig að nemendur hlaupa fram og til baka í íþróttasal skólans þar sem tíminn milli lota er stöðugt styttur. Þeir sem ekki ná að hlaupa salinn á enda á tilskildum tíma verða að setjast niður og fylgjast með þar til aðeins einn stendur eftir. Það skal nefnt að próf þessi eru ekki notuð í öllum skólum. Þessi próf valda mörgum börnum kvíða og eru letjandi í stað hvetjandi. Börn eiga að fá tækifæri til að stunda hreyfingu á eigin forsendum. Í þessu máli verður Reykjavíkurborg og skóla- og frístundasvið að beita sér enda skal ávallt hafa hagsmuni barna að leiðarljósi í hvívetna. MSS22030283

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um vinnustaðagreiningu Strætó 2022, niðurstöður:

Fyrirspurnir um vinnustaðagreiningu Strætó 2022, niðurstöður. Fulltrúi Flokks fólksins hefur skoðað þessar niðurstöður. Tekið er eftir því að það er sama staða í eineltismálum og áreitni hjá Strætó auk þess sem kvartað er yfir mikilli streitu. Niðurstöður sýna að um og yfir 40% sammála eða frekar sammála um að finna fyrir streitu í vinnunni og sjá má að seinustu 4 ár kvarta sífellt fleiri yfir einelti þrátt fyrir aðkomu sálfræðinga sem kostaði fyrirtækið stórar fjárhæðir. Og 3% segjast hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni síðustu 12 mánuði. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um af hverju staðan er svona slæm þrátt fyrir góðan vilja yfirstjórnar og stjórnar um að bæta þessa hluti eftir því sem haldið hefur verið fram. Hvað er verið að gera nákvæmlega til að draga úr álagi starfsfólks og sporna gegn einelti og áreitni? Ekki er hægt að líta framhjá niðurstöðum rannsókna sem sýnt hafa ítrekað að rekja megi óánægju og vanlíðan í starfi til yfirstjórnar og álagsþátta í starfi. Ábyrgð stjórnenda er mikil. Staðreyndin er sú að stjórnendur hafa það hvað mest á hendi sér hvort einelti fær þrifist á vinnustað. MSS22030285

Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn upplýsingum um hvað margar kvartanir hafa borist vegna hins nýja greiðslukerfis, Klappsins:

Fyrirspurn um kvartanir vegna Klappsins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur rýnt í niðurstöður vinnustaðagreiningar Strætó 2022 en þar kemur fram að ástæða fyrir streitu er m.a. óánægðir viðskiptavinir. Í framhaldi óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um hvað margar kvartanir hafa borist vegna hins nýja greiðslukerfis, Klappsins. MSS22030286

Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort mannauðsdeild hafi sett sig í samband við starfsfólk vetrarþjónustu með það að markmiði að styðja við og hjálpa:

Fyrirspurn vegna erindis starfsmanna vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar þar sem lýst er ófullnægjandi stöðu öryggismála, ófullnægjandi aðbúnaði, óboðlegu og hættulegu vaktafyrirkomulagi og launamismunun hjá starfsmönnum í vetrarþjónustu sem vinna sömu störf. Í erindinu er einnig lýst skoðanakúgun, forsjárhyggju, einelti og þöggun. Sagt var í bréfinu að gögn liggi fyrir varðandi þessi mál. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um þetta grafalvarlega mál og hverjir séu ábyrgir fyrir alvarlegu ástandi sem þarna ríkir. Það hefur verið upplýst af borgaryfirvöldum að málið sé nú komið inn á borð mannauðsdeildar. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort mannauðsdeild hafi sett sig í samband við starfsfólk vetrarþjónustu með það að markmiði að styðja við og hjálpa. Einnig væri gott að fá upplýsingar um hvort úrbætur hafi verið gerðar í tengslum við öryggismál, og þá hverjar. Hverjir hafa fyrir hönd borgarinnar verið í sambandi við starfsmenn vetrarþjónustu vegna þessara mála? MSS22030287

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um kostnað við borgarlínuverkefnið:

Fyrirspurn Flokks fólksins um kostnað Reykjavíkur við borgarlínuverkefni. Reykjavík hefur nú þegar greitt 1 milljarð og 737 milljónir – sem sagt rúmlega 1,7 milljarð í borgarlínuverkefnið. Spurt er hver heildarkostnaður Reykjavíkurborgar verður í borgarlínuverkefnið þegar yfir lýkur og verkefnið verður komið í fulla virkni. MSS22030288