Borgarráð 4. október 2018

Framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hreyfingu á íbúðum hjá Félagsbústöðum

1. Óskað er eftir sundurliðun á hvers lags viðgerðir eru í gangi á þessum 90 íbúðum. 2. Hvenær hófust viðgerðir? 3. Á hvaða stigi eru þær? 4. Hvenær verður þeim lokið? 5. Af hverju eru svo margar íbúðir óstandsettar? 6. Hverjar eru ástæðurnar? R18080196

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um frekari þjónustu skrifstofu borgarstjórnar við kjörna fulltrúa

Flokkur fólksins óskar eftir að fá aukna aðstoð frá skrifstofu borgarstjórnar svo sem lögfræðiaðstoð og aðstoð með texta og prófarkalestur á tillögum og fleira í þeim dúr. Borgarfulltrúar sérstaklega minni flokkanna í minnihlutanum eru undir miklu álagi að sinna öllum skyldum en einnig að halda úti málatilbúnaði og undirbúningi funda. Á skrifstofu borgarstjórnar eru starfsmenn sem borgarfulltrúum var sagt að myndu vera þeim til aðstoðar en aðstoðin er hvorki næg né nógu víðtæk. Sú aðstoð sem hér er beðið um er ekki þar innifalin. Nauðsynlegt er að útvíkka þessa aðstoð þannig að borgarfulltrúi geti leitað til skrifstofunnar eftir lagalegri ráðgjöf og aðstoð við undirbúning mála, tillagna og fyrirspurna.

Frestað.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bjölluhringingar og flautur á Eineltisdeginum

Lagt er til að borgaryfirvöld og þá sérstaklega skóla- og frístundarráð mælist til þess að allar stofnanir og fyrirtæki borgarinnar hringi bjöllum af hvers lags tagi eða þeyti flautur á eineltisdaginn 8. nóvember kl. 13:00. Árið 2009, nánar tiltekið 3. nóvember samþykkti Borgarstjórn Reykjavíkur að helga árlega einn dag í baráttunni gegn einelti. Dagur gegn einelti var fyrst haldinn hátíðlegur 17. mars árið 2010. Árlegur dagur gegn einelti og kynferðisáreiti var haldinn á landsvísu 8. nóvember 2011. Öllum mögulegum klukkum og bjöllum var hringt og flautur þeyttar. Í tilefni dagsins var undirritaður þjóðarsáttmáli um jákvæð samskipti. Að hringja bjöllum er skemmtilegur gjörningur í tilefni þessa mikilvæga dags, gegn einelti og kynferðisofbeldi í öllum aldurshópum.

Frestað.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kosningu um Borgarlínu

Flokkur fólksins leggur fram tillögu um að Reykvíkingar kjósi um hvort þeir vilji að farið verði að undirbúa borgarlínu. Borginni ber skylda til að taka upp beint og milliliðalaust lýðræði sérstaklega þegar verið er að taka ákvörðun um að fara í fjárfrekar aðgerðir sem borgarlínan verður. Hér er verið að sýsla með fé borgarbúa og í þessu tilfelli er um milljarða framkvæmdir að ræða. Í borginni eins og staðan er núna skortir mjög á lýðræði þegar kemur að því að ákveða stórframkvæmdir til framtíðar. Fáir eru að taka lokaákvarðanir sem ættu að vera teknar af fólkinu sjálfu. Hægt er að viðhafa rafræna kosningu við að heyra álit borgarbúa á borgarlínu sem dæmi. Flokkur fólksins gerir kröfu um að auka beint og milliliðalaust lýðræði.

Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 1. október 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokk fólksins um vináttuverkefni Barnaheilla, frá 13. september 2018

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Vináttuverkefni Barnaheilla 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Svar skrifstofustjóra leikskólamála við fyrirspurn Flokks fólksins um vinnu með vináttuverkefni Barnaheilla er afar ófullkomið og felur engan veginn í sér það sem spurt var um. Áheyrnarfulltrúi mun því leggja hana fyrir aftur til að freista þessa að fá almennilegt svar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vináttuverkefni Barnaheilla hefur verið kynnt skólum borgarinnar og hafa nú þegar 17 leikskólar hafið þátttöku. Þátttaka er hverjum skóla í sjálfsvald sett.

Framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Vináttuverkefni Barnaheilla

Vegna loðinna og óljósra svara vill borgarfulltrúi Flokks fólksins spyrja aftur:
Býður borgin þeim leik- og grunnskólum sem óska eftir að vinna með vináttuverkefni Barnaheilla að greiða kostnað við verkefnið, t.d. námskeið fyrir leikskólakennara og/eða starfsfólk og efni: töskur, bangsa og bækur, að hluta til eða öllu leyti? Ef að hluta til, hversu stór hluti er það?

Fyrirspurn Flokks fólksins um fjölda lausra íbúða hjá Félagsbústöðum

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hreyfingu á íbúðum hjá Félagsbústöðum

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokki fólksins finnst furðu sæta að 90 íbúðir séu lausar vegna standsetningar. Hvað er átt við hér? Óskað er eftir sundurliðun á hvers lags viðgerðir eru í gangi á þessum íbúðum og hvenær þær hófust, á hvaða stigi þær eru og hvenær er stefnt að því að viðgerð verði lokið. Fram kemur að jafnaði sé um að ræða 70 íbúðir á hverjum tímapunkti sem standa auðar vegna viðgerðar. Þetta er mikill fjöldi íbúða sem standa auðar að jafnaði á meðan 1000 bíða á biðlista. Ljóst þykir að þetta getur varla talist eðlilegt ef tekið er mið af erfiðum húsnæðismarkaði. Allt kapp ætti að vera lagt á að standsetja íbúðirnar hratt svo hægt sé að leigja þær út aftur.

Fyrirspurn Flokks fólksins um aðkeypta þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga vegna eineltismála

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Í ljósi þess að í borginni starfa eineltisteymi á öllum sviðum borgarinnar auk miðlægs eineltisteymis, sem sjá um úrvinnslu flestra tilkynninga um einelti ætti ekki að vera þörf á að leita með þessi mál til sjálfstætt starfandi sálfræðinga nema í mjög sérstökum aðstæðum s.s. ef í ljós kæmi að öll teymi borgarinnar séu vanhæf til að fara með eitthvað ákveðið mál. Sé einhver í teymi vanhæfur skal kalla inn varamann. Sé teymið allt vanhæft er hægt að vísa málinu til annars teymis innan borgarinnar. Það er mjög mikilvægt að þessi mál séu sem mest unnin innan borgarinnar enda eru sjálfstætt starfandi aðilar mjög misjafnir hvað varðar færni jafnvel þótt þeir gefi sig út fyrir að hafa þekkingu og þjálfun í þessum málum. Mörg dæmi eru um að mál sem unnin eru út í bæ hafa sýnst ekki vera nægjanlega faglega unnin og málið jafnvel sett í verri farveg en áður en lagt var af stað. Dæmi eru vissulega um slíkt innan borgarinnar en það setur málið í enn alvarlegri stöðu þegar búið er að greiða háar upphæðir fyrir utanaðkomandi vinnu sem sár óánægja er með vegna ófaglegra vinnubragða og er þá ekki verið að horfa til niðurstaðna sem vissulega hugnast oft ekki báðum aðilum í svo viðkvæmum málum sem hér um ræðir.

Fyrirspurn Flokks fólksins um fjölda barna sem búa undir fátæktarmörkum

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokk fólksins um fjölda barna sem búa undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokki fólksins finnst það æði dapurt að tæp 500 börn búi undir fátæktarmörkum og tæp 800 börn eru börn foreldra sem eru með fjárhagsaðstoð í Reykjavík, í borg sem teljast má rík að flestöllu leyti. Þessar tölur eru með ólíkindum og enn sorglegra er að sjá hversu miklu munar eftir hverfum. Í Breiðholti má sjá hvernig borgarmeirihlutanum hefur mistekist þegar kemur að félagslegri blöndun en í Breiðholti er fjöldi fátækra barna mestur. Í Breiðholti hefur fátækt fólk einangrast. Í Reykjavík ættu engin börn að þurfa að lifa undir fátæktarmörkum. Ástæðan er ekki sú að ekki sé nægt fjármagn til heldur frekar að fjármagni er veitt í aðra hluti og segja má sóað í aðra hluti á meðan láglaunafólk og börn þeirra og öryrkjar ná ekki endum saman. Þessar tölur sýna að forgangsröðunin er verulega skökk í borginni þegar kemur að útdeilingu fjármagns. Um sóun og fjárhagslegt bruðl borgarmeirihlutans eru mörg nýleg dæmi og er skemmst að minnast hundruð milljóna fjárfestingu í hégómleg verkefni eins og uppbyggingu bragga í Nauthólsvík, Mathöll á Hlemmi og fleira mætti telja til.

Svar við fyrirspurn Flokks fólksins um aðkeypta sálfræðiþjónustu vegna eineltismála og sundurliðun á hvers vegna beðið var um þjónustuna og hverjir voru fengnir til verksins

Tillaga Flokks fólksins um auknar fjárheimildir skrifstofu borgarstjórnar til að halda úti skrá yfir fyrirspurnir og tillögur

Lagt er til að borgarráð samþykki auknar fjárheimild til skrifstofu borgarstjórnar eða fundar séu aðrar hagræðingaleiðir til þess að borgarskrifstofa borgarstjórnar geti haldið opinbera skrá yfir tillögur, fyrirspurnir og bókanir flokkanna og birti skránna á heimasíðu borgarfulltrúa á  vef Reykjavíkurborgar. Samkvæmt minnisblaði skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjórnar sem lagt var fyrir á fundi forsætisnefndar var gerð lausleg þarfgreining á þessu auka verkefni.

Svar við fyrirspurn Flokks fólksins um hvað mörg börn búa undir fátækarmörkum í Reykjavík

Bókun Flokks fólksins í tillögu um auknar fjárheimildir:

Flokkur fólksins gerir kröfu um allt verði gert til að koma því sem fyrst á koppinn að hægt sé að halda opinbera skrá yfir mál og afdrif mála borgarfulltrúa þannig að þau séu aðgengileg borgarbúum á vef borgarfulltrúa. Þetta auðveldar borgarfulltrúum sjálfum að fylgjast með eigin málum og gerir mál þeirra aðgengileg öllum þeim sem vilja fylgjast með vinnu borgarstjórnar. Hvort heldur þurfi auknar fjárheimildir eins og skrifstofustjóri borgarstjórnar fullyrðir að þurfi eða að önnur hagræðing verði viðhöfð til að framkvæma þetta skiptir borgarfulltrúa Flokks fólksins engu máli, aðeins að þetta hefjist og það hið fyrsta. Hér er um sjálfsagt mál að ræða enda fordæmi fyrir sambærilegu kerfi hjá Alþingi. Borgarbúar eiga rétt á að vita hvað fólkið og flokkarnir sem það kaus eru að gera í starfi sínu sem borgarfulltrúar. Í fundargerðum er ekki vinnandi vegur að finna nokkuð enda eru þær afar óaðgengilegar og tyrfnar aflestrar.

Fyrirspurnir Flokks fólksins um umframkostnað vegna braggans í Nauthólsvík

Hverjir höfðu umsjón með verkefninu? Var verkefnið boðið út, að hluta til eða öllu leyti? Hvaða verktakar unnu verkið? Samþykkti borgarstjóri reikningana áður en greitt var? Óskað er eftir að fá afrit af samstarfssamningi Reykjavíkurborgar við Háskólann í Reykjavík um endurbyggingu braggans í Nauthólsvík. Óskað er eftir að fá afrit af öllum samþykktum þeirra ábyrgðaraðila innan borgarkerfisins sem samþykktu útgjaldaliði af hálfu borgarinnar umfram kostnaðaráætlun. Óskað er eftir að lagðar séu fram hönnunarfundargerðir og verkfundargerðir.

Hverjar voru hönnunarforsendurnar? Hverjar voru forsendurnar að vali ráðgjafa, voru þeir valdir vegna sérþekkingar sinnar á endurbyggingu bragga af þessu tagi eða vegna sérþekkingar þeirra á eldri húsum almennt? Á hvaða grundvelli var samið við þessa ráðgjafa? Hver ber ábyrgð á þessari framúrkeyrslu? Fyrir hönd verkkaupa og skattgreiðenda? Hver breytti forsendum þannig að kostnaðaráætlunin fór svona úr böndum? Hver hafði yfirsýn yfir framvinduna? Hver gaf leyfi til að haldið yrði áfram þegar ljóst var að áætlunin stóðst ekki.

Tillaga Flokks fólksins um jafnræði barna á félagsmiðstöðvum borgarinnar

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að öll börn sem sækja félagsmiðstöðvar eigi þess kost að taka þátt í ferðum eða viðburðum á vegum félagsmiðstöðvarinnar sem þau sækja án tillits til efnahags foreldra þeirra. Flokkur fólksins vill að skerpt sé á reglum um starfsemi félagsmiðstöðva hvað þetta varðar svo það sé ekki á valdi leiðbeinanda hverju sinni hvernig dagskráin er. Kostnaðarsöm dagskrá leiðir án efa oft til þess að börn fátækra foreldra geta ekki tekið þátt. Lagt er til að börnum fátækra foreldra (foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytis) verði gert kleift að taka þátt í öllum dagskrárliðum þeim að kostnaðarlausu. Þetta er tryggasta leiðin til að gefa öllum börnum tækifæri til að taka fullan þátt í skipulagðri dagskrá félagsmiðstöðvanna án tillits til kostnaðar.

Greinargerð:

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um að ekki megi mismuna börnum eftir stöðu þeirra og foreldra þeirra. Félagsmiðstöðvar vinna gott starf. Þetta er félagslegt athvarf fjölmargra barna sem njóta þess að koma saman og gera skemmtilega hluti saman. Félagsmiðstöðvar hafa iðulega mikla og metnaðarfulla dagskrá sem útheimtir sjaldnast mikinn ef nokkurn kostnað. Nokkuð hefur borið á því engu að síður að börn eru beðin að koma með pening til að standa straum af kostnaðasamari viðburðum og ferðum. Segir í reglum um félagsmiðstöðvar að reynt sé að dreifa kostnaðinum sem jafnast yfir vetrarmánuðina.

Á tímabilinu janúar-maí 2018 voru börn þeirra sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu samtals 489 eða tæplega 2% af öllum börnum 17 ára og yngri í Reykjavík. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um fjölda barna undir framfærsluviðmiðum velferðarráðuneytisins. Langflest eða 153 búa í Breiðholti. Því má við bæta að fjöldi barna eftir þjónustumiðstöðvum og fjöldi barna per foreldra með fjárhagsaðstoð af einhverju tagi hjá velferðarsviði Reykjavíkur er 784, flest í Breiðholti eða 218 og fæst í Grafarvogi og á Kjalarnesi. Af þessu sést að aðstæður barna eru ekki einungis mismunandi almennt séð heldur eru þær einnig mismunandi eftir hverfum.

Lagt er til börnin sem hér um ræðir séu undir engum kringumstæðum krafin um að greiða þátttökugjald af neinu tagi hvort sem um er að ræða viðburði eða ferðir á vegum félagsmiðstöðva. Foreldrar þessara barna eru að berjast í bökkum við að ná endum saman og eiga oft enga möguleika á að reiða fram aukafé sem félagsmiðstöðvar fara fram á börn komi með þegar til standa viðburðir eða ferðir á þeirra vegum.

Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega mikil og alvarleg áhrif á börnin í fjölskyldunni. Fólk sem er með tekjur að upphæð u.þ.b. 250-300.000 kr. á mánuði á þess engan kost að ná endum saman ef leiguverð húsnæðis er einnig innifalið í þeirri upphæð. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra mega ekki bitna á börnum.

Það er skylda okkar sem samfélags að sjá til þess að börnum sé ekki mismunað á grundvelli fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Að mismuna börnum vegna fjárhagsstöðu foreldra samræmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði – banni við mismunun af nokkru tagi án tillits til m.a. félagslegra aðstæðna. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Þau fá t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Félagsmiðstöðvar eru stundum eina tómstund þessara barna. Börn sem alin eru upp við fátækt og skort af einhverju tagi fá sig oft ekki til að biðja foreldrana um peninga því þau vita að þeir eru ekki til. Það er okkar ábyrgð að gera allt sem við getum til að koma barni ekki í slíkar aðstæður.