Skóla- og frístundarráð 23. október 2018

Flokkur fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð beiti sér fyrir því að menntamálaráðuneytið samþykki að skák verði kennd í grunnskólum.

Skák er því miður ekki komin á námskrá grunnskólanna í Reykjavík, þótt tvær nefndir á vegum menntamálaráðuneytisins hafi mælt eindregið með því. Rannsóknir hafa sýnt að samhengi er á milli námsárangurs og skákkunnáttu. Hafa skal í huga að skák er einstök hvað varðar svo ótal margt. Skák þjálfar m.a. sjónminni og sjónræna rökhugsun, þjálfar barn í að hugsa sjálfstætt, viðhafa gagnrýna hugsun, fást við óhlutbundin viðfangsefni og finna rökleg tengsl. Þannig leggur skákíþróttin svo ótal margt á vogarskálar þroska barns sem hana stundar. Auk einbeitingar og sjálfsaga sem skákin krefst, þá auðgar íþróttin ímyndunaraflið og iðkendur læra að hugsa í lausnum. Skákíþróttin kallar á hugrekki, að þora að taka ákvörðun og hún þjálfar iðkendur í að lesa í, greina og meta stöðu. Félagslegur ávinningur þeirra sem stunda skákíþróttina á sér einnig margar hliðar. Tengsl myndast þótt aðilar hafi það eina markmið sameiginlegt, að tefla skák. Þannig getur skákborðið laðað að börn frá gjörólíkum menningarheimum. Kennarar og skólastjórnendur eru margir hlynntir skákkennslu, og víða í Reykjavíkurskólunum er unnið gott starf. Skák þarf hins vegar að komast inn á námskrá, 1 kennslustund í viku ef vel ætti að vera.

Tilraunaverkefni um sumaropnun. Umræða

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er leiðinlegt að heyra hvað mikil gremja virðist vera vegna þessa tilraunaverkefnis með sumaropnun, bæði hjá hópi foreldra og starfsmanna leikskóla. Ýmis rök og sjónarmið hafa komið fram sem útskýra óánægjuna. Um er að ræða tilraunaverkefni og spurning er hvort ekki hefði mátt grunnvinna þetta betur. Hér heyrist einnig vera spurning um óánægju vegna forgangsröðunar fjármagns. Á meðan starfsmönnum finnast þeir sviknir t.d. um orlof þá svíður þeim að skóla- og frístundarráð keyri verkefni sem þetta í gegn. Ekki liggur heldur nægjanlega vel fyrir afstaða foreldra og hversu mikil nýtingin verði á verkefninu sem er bagalegt auk þess sem það hefði mátt vera mun víðtækara samráð við starfsfólk leikskóla að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins.

Tillaga Flokks fólksins um samráð við foreldra og kennara um samræmt einkunnakerfi

Lagt er til að skóla- og frístundarráð beiti sér fyrir því að menntamálaráðherra hafi samráð við foreldra þegar ákvörðun á samræmdu einkunnakerfi er tekin enda séu það lýðræðisleg vinnubrögð. Ólíkar skoðanir eru í gangi hvað varðar  einkunnakerfi/leiðsagnarmat og námsmat og er rétt að kalla kerfisbundið og markvisst eftir viðhorfi og skoðunum foreldra og eldri barnanna einnig. Sumum foreldrum kann að þykja kerfið tölur frá 0 til 10 best en öðrum hugnast ef til vill bókstafir og enn öðrum þykir blanda af hvoru tveggja besti kosturinn. Kerfi einkunnagjafar í grunnskóla þarf að vera í sátt við sem allra flesta sem það varðar, börnin, foreldra og kennara.

Aukið vægi starfs-, list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins telur að það þurfi að gera miklu betur þegar kemur að auknu vægi list- og verknáms í grunnskólum og hefði borgin átt að setja þennan málaflokk í forgang fyrir löngu þegar kemur að útdeilingu fjármagns. Eins og staðan er í dag þá er vægi list- og verknáms mjög misjafnt eftir skólum sem er óásættanlegt. Ljóst er að börn sitja ekki við sama borð í þessum efnum og er það alvarlegt. Lengi vel hefur verið kallað eftir auknu vali á t.d. fjölbreyttum verkgreinum en einnig síðustu ár ekki síður list- og menningargreinum. Börn eru eins misjöfn og þau eru mörg og er mikilvægt að mæta áhuga og þörfum þeirra á öllum sviðum. Því fjölbreyttari sem valkostirnir eru því betra. Eins og staðan er núna fá þau börn sem þurfa aðlagaða námskrá ef til vill eitthvað val en það á ekki að þurfa að vera skilyrði. Hér er líðan barna, sjálfstraust og sjálfsmat í húfi. Flokkur fólksins skorar á skóla- og frístundaráð að beita sér af þunga í þessum málum þannig að staðan verði ekki bara viðunandi heldur fullnægjandi.

Skóla- og frístundaráð samþykkir að ráðast í aðgerðir til að auka hagkvæmni innkaupa á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í tenglum við tillögu meirihlutans að auka hagkvæmni innkaupa á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs vill Flokkur fólksins minna á tillögu sem borgarfulltrúi lagði fram í september en hún hljóðaði þannig að borgin skilgreini þjónustusamninga mötuneyta borgarinnar og bjóði rekstur þeirra út. Í greinargerð segir að markmiðið með tillögunni sé að skilgreina gæði mötuneytisfæðis betur og auka gæðin. Auk þess eru vísbendingar um að þetta fyrirkomulag er hagstæðara en það sem nú ríkir sbr. niðurstöður útboða. Ef borgin vill auka hagkvæmni er varðar mötuneyti þarf að skoða matarsóun og stefnu til að sporna við henni. Fjölmargt skiptir máli í þessu sambandi og hefur Flokkur fólksins sent inn fyrirspurnir sem er enn ósvarað t.d um hversu margir af þeim sem greiða fyrir mat nýta sér að jafnaði þjónustuna á hverjum degi. Matarsóun er kostnaðarsöm og meðal fyrirspurna Flokks fólksins var hversu miklum mat er hent í mötuneytum borgarinnar og hvort til sé stefna hjá borginni eða leiðir til að nýta matarafganga.