Tillaga Flokks fólksins að lækka hámarkshraða á Laugarásvegi
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að hámarkshraði á Laugarásvegi verði lækkaður úr 50 km/klst. í 30 km/klst. Nauðsynlegt er að lækka hámarkshraskýrslaða á Laugarásvegi úr 50 km/klst. í 30 km/klst. í samræmi við aðrar götur í hverfinu þar sem íbúðarhúsnæði er þétt. Ökumenn aka jafnan vel yfir 50 km/klst. á Laugarásvegi sem skapar mikla hættu en mikið af börnum búa í götunni og leika sér fyrir framan húsin. Gatan er löng og þ.a.l. eiga ökumenn það til að auka hraðann verulega. Íbúar við Laugarásveg eru uggandi um börn sín og telja að það auki öryggi þeirra til muna verði hámarkshraði lækkaður í 30 km/klst. R19090067
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.
Tillaga Flokks fólksins að bílastæði í bílastæðahúsum borgarinnar verði gjaldfrjáls á nóttum.
Bílastæðaskortur er vaxandi vandamál í miðborg Reykjavíkur. Íbúar borgarinnar finna fyrir þeim skorti en lítið bólar á úrræðum til úrlausnar á vandanum. Á sama tíma rekur Reykjavíkurborg 6 bílastæðahús með yfir þúsund bílastæðum. Bílastæðahúsin eru alls ekki nógu vel nýtt yfir daginn og notkun þeirra er enn minni á nóttinni. Gjaldskylda í bílastæði fellur niður á kvöldin en gjaldskylda er allan sólarhringinn í bílastæðahúsum. Til að stemma stigu við bílastæðavanda miðborgarinnar er því lagt til að það verði gjaldfrjálst að leggja í bílastæðahús á nóttinni, nánar tiltekið milli kl. 22:00 og kl. 8:00. Þannig er hægt að koma til móts við bílastæðavanda miðborgarinnar og auka notkun bílastæðahúsa. Þá er það einnig íbúum til góðs að leggja bílum sínum þar sem þeir njóta skjóls frá veðri og vindum. R19090068
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum Breyting á fjárfestingar- og fjármögnunaráætlun SORPU V. 1.6 milljarða bakreiknings vegna mistaka
Kostnaður við framkvæmdir Sorpu er vanáætlaður um 1.6 milljarð. Reikningurinn er sendur til eigendanna. Ætlar borgarmeirihlutinn að sætta sig við þetta? Stjórn Sorpu ber ábyrgð en stjórnkerfi Sorpu er ekki í lagi, frekar en hjá öðrum byggðarsamlögum. Byggðasamlög eru ekki góð tilhögun þar sem ábyrgð og ákvarðanataka fara ekki saman. Í þessu tilfelli er Reykjavík með einn fulltrúa í stjórn af 6 (17 % vægi), en á rúm 66 % í byggðarsamlaginu. Ábyrgð fulltrúa Reykjavíkur er um 20 sinnum meiri en stjórnarmanns frá fámennasta sveitarfélaginu. Formaður Sorpu ætti því að koma frá Reykjavík. Sorpa ætlar að fresta framkvæmduam. Frestun er tap á umhverfisgæðum og fjármunum. Fresta á kaupum á tækjabúnað til að losa matvöru úr pakkningum. Ótal margt þarf að skoða annað t.d. er Sorpa ekki að flokka nægjanlega mikið á söfnunarstað. Flokkun er forsenda fyrir þvi að nýta úrganginn. Verðmæti eru í úrgangi sem verða að engu þegar mismunandi vöruflokkum er blandað saman. Hér er tekið undir orð formanns borgarráðs í fjölmiðlum að svona eigi ekki að geta gerst. Borgarfulltrúi er á móti því að veðsetja útsvarstekjur borgarinnar vegna vanáætlunar Sorpu sem sögð er vera vegna mistaka. Flokkur fólksins sættir sig ekki við skýringar sem hér eru lagðar fram og krefst þess að stjórnin axli á þessu ábyrgð.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu Skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma til grunnskóla
Ef litið er til síðustu ára sést að áhersla hefur verið á framkvæmdir ýmissa verkefna sem snúa ekki beint að þörfum fólks. Við höfum fengið skýrslur um framúrkeyrslur og að sveitarstjórnarlög hafi verið brotin, hunsað að gera samninga eða fara í útboð skv. innkaupareglum. Á meðan hefur skólakerfið verið vanrækt með vaxandi vanlíðan barna og skólabyggingar hafa drabbast niður. Hróp skólastjórnenda hafa ekki náð eyrum borgarstjóra og skólaráðs. Alla vega hafa þessi aðilar ekki beitt sér í því að beina meira fjármagni til skólanna. Eftir hrun var erfið staða en 10 ár eru frá hruni og nú er borgin rekin með hagnaði. Í skýrslunni segir „viðhaldi hefur ekki verið sinnt sem skyldi og safnast upp „innheimt óunnið viðhald“ þar sem SEA hefur tekjufært þetta án þess að viðhaldið væri unnið“. Skýrslan er kjaftshögg og svartari en von var á. Það er ekki haft samráð við fólkið á gólfinu og skólastjórar geta aðeins sent inn óskalista og svo bara beðið og vonað. Svona vinnubrögð geta aldrei leitt til góðs. Flokki fólksins finnst að börn séu ekki hátt skrifuð hjá borgarstjóra og finnst að skóla og frístundaráð hafi brugðist. Endurskoða þarf þetta kerfi frá grunni.
Fyrirspurn Flokks fólksins um að fá opinberað skjal frá fyrra ári með breytingum og óskum skólastjóra um viðbótarfjármagn
Skóla og frístundarsvið heldur utan um skjal með breytingum frá fyrra ári og óskum skólastjóra um viðbótarfjármagn. Þetta grunnskjal fer síðan til skoðunar og yfirferðar hjá fjármálaskrifstofu (FMS) og eftir atvikum tekur fjármálahópur og/eða meirihluti borgarstjórnar skjalið til meðferðar og samþykkir eða hafnar óskum skólastjórnenda sem þar koma fram. Flokkur fólksins óskar eftir að fá að sjá þetta breytingarskjal SFS frá síðasta ári og sjá hvaða meðferð óskir skólastjóra fengu, hvaða óskir voru samþykktar og hverjum var hafnað. Flokkur fólksins fer einnig fram á að fá í hendur hina svokölluðu 5 skóla skýrslu. Nýlega var Flokkur fólksins með umræðu um ástand skólabygginga í borgarstjórn. Þar var sérstaklega rakið ástandið m.a. í Hagaskóla. Til er svokölluð 5 skóla skýrsla sem borgarfulltrúi hefur óskað eftir að verði gerð opinber en án árangurs. Borgarstjóri hefur neitað að opinbera þetta skjal. Óskað er eftir að hin svokallaða 5 skólaskýrsla verði opinberuð strax. R19050085
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.
Tillaga Flokks fólksins að fundnar verði leiðir til að tryggja að börn að erlendu bergi brotin heyri íslenskt mál sem mest
Lagt er til að fundnar verði leiðir til að tryggja að börn sem eru af erlendu bergi brotin heyri íslenskt mál sem oftast til að auka líkur þeirra á að tileinka sér íslensk mál sem fyrst. Þátttaka þeirra í umhverfi þar sem töluð er íslenska skiptir sköpum Fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjármagns til grunnskóla að börn af erlendu bergi sem eru fædd á Íslandi komu ekki nógu vel út úr prófi sem ætlað er að greina færni þeirra í íslensku. Fjármagni er úthlutað sérstaklega til grunnskóla vegna kennslu barna af erlendu bergi. Grunnur fyrir úthlutun er svokallað Milli mála málkönnunarpróf sem mælir færni þeirra í íslensku. Niðurstöður eru flokkaðar í grænan, gulan, og rauðan. Þau sem fá gulan eða rauðan þurfa aðstoð. Fjöldi barna sem fengu rauða niðurstöðu árið 2018 voru 1.797. 45 % af þeim eru börn sem fædd eru á Íslandi af erlendum foreldrum. Það er sláandi hvað mörg börn sem fædd eru á Íslandi og hafa alist upp í leik- og grunnskólakerfinu séu engu að síður svo illa stödd í íslensku. Þetta þarf sérstaklega að leggjast yfir. Finna þarf leiðir til að tryggja að þessi börn heyri íslensku nægjanlega oft og vel til að geta meðtekið hana sem sitt fyrsta mál.
Greinargerð
Finna þarf að finna skýringar á hvað gæti legið til grundvallar að 45% barna af 1797 börnum sem fengu rauða niðurstöðu eru af erlendu bergi brotin en fædd á Íslandi. Meðal skýringa gæti verið að foreldrar þeirra tali ekki íslensku og að íslenska sé ekki töluð á heimilinu. Leita þarf fleiri skýringa t.d. hvort börnin séu í félagsstarfi og íþróttum. Það kemur fram í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um hver sé fjöldi fjölskyldna í Fella og Hólahverfi sem búa við félagslega einangrun að fjöldi foreldra sem sækja fjárhagsstyrk er mestur í Breiðholti. Í tveimur hverfum, 109 og 111 er hins vegar notkun frístundarkortsins minnst eða 56% og 38% í póstnúmer 111.
Hér er um efnalitlar fjölskyldur að ræða jafnvel fátækar. Frístundarkort þessara barna er því kannski mikið til notað til að greiða gjald frístundarheimilis og þar með er barnið ekki að geta notað það í annað félags- eða tómstundastarf. Ef börn eiga að læra tungumálið þurfa þau að heyra það. Ef börn heyra ekki íslensku talaða á heimilinu skiptir öllu máli að þau heyri það í skólanum og í félags- og tómstundarstarfi. Þetta þarf að skoða ofan í kjölinn. Hægt er að sækja um aðra styrki en í svari hefur einnig komið fram að fæstar umsóknir um aukastyrki eru í Breiðholti. Vissulega er það val foreldra hvort þeir nota frístundarkortið til að greiða frístundarheimilið en ef ekki eru til peningar á heimilinu er þetta að sjálfsögðu ekkert val. Tillaga Flokks fólksins er að þessum börnum verði veittur styrkur (þurfa ekki að sækja um hann sérstaklega) til að standa straum af gjaldi frístundarheimilis til þess að þau geti notað frístundarkortið sitt í annað tómstundar- og félagsstarf. Allt miðast þetta að því að börn af erlendu bergi geti verið sem mest í umhverfi þar sem talað er íslenska.
Gagnbókun Flokks fólksins undir 4. lið fundargerðarinnar vegna samráðsleysis meirihlutans við hagsmuna- og rekstraraðila í tengslum við lokanir gatna í miðbænum
Meirihlutinn í borgarstjórn hefur ákveðið að hunsa skoðanir fjölda fólks, rekstraraðila og annarra hagsmunaaðila sem hrópa á hlustun. Hugtakið „samráð“ hefur verið afbakað. Það sem meirihlutinn kallar samráð er að bjóða fólki til fundar, leyfa því að blása út en ekkert er síðan gert með óskir þeirra hvað þá kröfur. Eitthvað fékk fólk jú að segja til um hvar setja ætti bekki og blómapotta. Þetta er kallað „mikið og gott samráð“. Nýjustu viðbrögð meirihlutans í borgarstjórn er að segja að „Flokkarnir sem mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur höfðu allir þá stefnu að gera Laugaveg að varanlegri göngugötu og umboð kjósenda því skýrt“. Öll vitum við að umboð þessa meirihluta er tæpt og stendur hann því á brauðfótum. Að vísa í eitthvað umboð er örvæntingarviðbragð meirihlutans. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að í þessu máli stígi meirihlutinn aftur á bak um nokkur skref og byrji á byrjuninni sem er að hafa alvöru samráð.
Bókun Flokks fólksins undir liðum 19., 20., 21. og 22. lið fundargerðar Skipulags- og samgönguráðs frá 4. september
19: Tal um mikið og gott samráð meirihlutans við hagsmunaaðila vegna lokunar gatna er orðið hjákátlegt. Ekki er hægt að draga borgarbúa á asnaeyrum út í hið óendanlega. Minnt er á nýsamþykktar siðareglur þar sem hvatt er m.a. til heiðarleika. Hið meinta íbúasamráð í Ráðhúsinu er fátt annað en grín. Ekki hefur verið tekið mark á kröfum fólksins og kallast það því ekki samráð. Halda á til streitu að loka götum varanlega þrátt fyrir gargandi mótmæli. Ekkert lögformlegt samráð hefur verið haft á grundvelli 40. gr. skipulagslaga
20: Fjöldi ábendinga/kvartana sem borist hafa Strætó bs er sláandi og snúa þær að mestu að aksturslagi, framkomu vagnstjóra og tímasetningar eins og segir í svari. Skoða þarf hvað er þarna í gangi.
21: Meirihlutinn hafnar samráði við rekstrar- og hagsmunaaðila þrátt fyrir margítrekað ákall. Hér er með fordæmalausum hætti gengið fram hjá hagsmunaaðilum sem hafa haft lífsviðurværi sitt á þessum götum.
22: Tillaga að heimilt verði að leggja frítt í bílastæðahúsum borgarinnar í 120 mínútur á dag er felld. Bílastæðahúsin eru illa nýtt. Ekki er áhugi fyrir að kanna ástæður og finna leiðir til að þau verði betur nýtt til að laða t.d. íslendinga í bæinn. Það kostar líka að hafa tóm bílastæðahús.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum Bréf borgarstjóra þess efnis að lagt er til að Secret Solstice verði með sama sniði og á sama stað næsta ár, 2020
Borgarstjóri vill að tónleikar Secret Solstice verði haldnir með sambærilegu sniði og var í ár í Laugardal dagana 26. – 28. júní 2020. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill að haft verði samráð við íbúa í nágrenninu og foreldrafélög. Framkvæma á könnun og verður það að vera gert af óháðum, viðurkenndum aðila. Flokkur fólksins vill að beðið verði eftir niðurstöðum og verði þær á þann veg að ekki sé vilji til að halda hátíðina í Laugardalnum ber borginni að una því. Hér er verið að segja að íbúar áhrifasvæða tónleikanna ákveði hvort hátíðin skuli haldin aftur á þessum stað. Að leggja fyrir könnun í þeim tilgangi einum að bregðast við ábendingum segir ekkert um hvort fólk sé almennt sátt við að hafa þessa hátíð aftur í Laugardalnum. Íbúar eiga að ráða þessu.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum Yfirlit yfir ábendingar innri endurskoðanda um Nauthólsveg 100
Lagt er fram yfirlit yfir ábendingar og niðurstöður í skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100. Það er gott að vita til þess að ekki sé búið að gleyma braggamálinu og annað þar sem farið var á svig við sveitarstjórnarlög s.s. ekki gerðir samningar og ekki farið í útboð svo fátt sé nefnt. . Skýrslan um braggann er ein sú svartasta sem sést hefur og áfellisdómur á borgarkerfið. Fleiri slíkar skýrslu fylgdu í kjölfarið. Í skýrslunni rakti innri endurskoðandi fjölda atriða sem brást, þætti sem ekki er hægt að setja á reikning mistaka. Margstaðfest hefur verið að ábendingar hafa verið hunsaðar árum saman og hafa eftirlitsaðilar ítrekað bent á það í opinberum gögnum. Hvað þessu yfirliti líður og að fara eigi í að laga hluti þá er engu að síður langt í land með að byggja upp traust í garð borgarkerfisins. En vonandi liggur núna einhver alvara hér að baki.