Borgarráð 5. desember 2019

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar Flokks fólksins um heildarkostnað við bækling um húsnæðisuppbyggingu:

Upplýsingabæklingur um uppbyggingu íbúðarhúsnæðisins sem hér er spurt um kostaði tæpar níu milljónir. Þessi bæklingur vakti athygli fyrir margar sakir kannski helst vegna þess að svo leit út fyrir sem meirihlutinn væri kominn í hlutverk fasteignasala. Borgarstjóra er greinilega mikið í mun að borgarbúar viti af öllum byggingarframkvæmdunum í borginni sem loksins var hrint af stað eftir nokkra ára dvala. Og nú eru byggingarframkvæmdir sagðar fordæmalausar. En því ber að fagna að loksins var hafist handa. Um eitt þúsund umsóknir voru komnar á biðlista eftir félagslegu húsnæði og annar eins fjöldi fjölskyldna á sífelldum þvælingi frá einu hverfi til annars með börn sín ár eftir ár. Loksins hófst úthlutun lóða eftir áralanga stöðnun sem ekki er alfarið hægt að kenna hruninu um. Annað sem vekur athygli er að þessi bæklingur er gefinn út til að auka þekkingu uppbyggingaraðila. Hvert er markmiðið með því nákvæmlega og af hverju er ekki hægt að upplýsa uppbyggingaraðila með ódýrari hætti?

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins þess efnis af hverju gefa þarf út bækling eins og þenna til að auka þekkingu byggingaraðila eins og fram kemur í svari og hvort ekki sé hægt að auka þekkingu þeirra með ódýrari hætti? 

Fyrirspurn í framhaldi á svari við kostnað upplýsingabæklings. Fram kemur í svari við fyrirspurn um kostnað á upplýsingabæklingi að markmiðið með honum var að auka þekkingu uppbyggingaraðila. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju auka þarf þekkingu uppbyggingaraðila með þessum hætti? Væru rafrænar upplýsingar ekki betri og ódýrari leið til þess? Að greiða á 9. milljón til að auka þekkingu uppbyggingaraðila er fyrir ofan skilning borgarfulltrúa Flokks fólksins. Er ekki hægt að auka þekkingu byggingaraðila með öðrum ódýrari hætti t.d. með því að setja upplýsingarnar á netið? R18080190

 

Bókun Flokks fólksins við deiliskipulag fyrir Hlemm og nágrenni sem samþykkt er að fari í auglýsingu:

Hér er um að ræða deiliskipulag fyrir Hlemm, Snorrabraut og nærliggjandi umhverfi. Fokkur fólksins er alltaf með sömu áhyggjurnar þegar skipulagsyfirvöld borgarinnar eru að vinna að deiliskipulagi og senda án samráðs við fólk í auglýsingu. Hlemmur er okkar allra, eitt af þeim svæðum sem flestir borgarbúa þekkja. Eina aðgengið fyrir bíla að Hlemmtorgi virðist verða í gegnum Rauðarárstíginn þrönga og erfiða götu, sem er aðalæðin þarna að. Áhyggjur eru af aðgengi fyrir fatlaða. Flokki fólksins finnst að borgarbúar eigi að koma meira að hönnun og skipulagi á fyrstu stigum verkefnis sem þessa. Sagt er að það sé ekki venja. Athugasemdir koma eftir að búið er að auglýsa skipulagið en reynslan sýnir að ekki er tekið tillit til allra athugasemda og oft ekki þeirra sem skipta flesta máli. Í ljósi slæmrar reynslu af þessum málum sbr. ákvarðanir og framkvæmdir í miðbænum í óþökk fjölda fólks óttast Flokkur fólksins að sama kunni að gerast hér. Lögbundið deiliskipulag þyrfti að fela í sér að strax á frumstigi sé meira rætt við fólkið í borginni og hlustað á óskir og skoðanir þeirra og möguleg áhrif sem skipulagsbreytingarnar kunna að hafa á íbúa og rekstur á svæðinu og aðgengi að því.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins þess efnis að heimilt verði að halda katta- og hundasýningar í íþróttamannvirkjum.

Tillaga Flokks fólksins um að heimilt verði að halda katta- og hundasýningar í íþróttamannvirkjum. Lagt er til að heilbrigðisnefnd heimili að farið sé með dýr inn í íþróttamannvirki Reykjavíkurborgar eftir nánari fyrirmælum. 4. tölul. 19. gr. reglugerðar um hollustuhætti. Í reglugerð um hollustuhætti er kveðið á um að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga geti heimilað að farið sé með dýr inn í íþróttamannvirki þar sem aðstaða er til íþróttaiðkunar. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefur ekki gefið út slík leyfi þrátt fyrir heimild í reglugerð. Það yrði mikil bót fyrir áhugamenn um dýrarækt að geta haldið sýningar innandyra. Í dag eru slíkar sýningar annaðhvort úti eða haldnar í hesthúsum. Það er vel hægt að takmarka alla áhættu, sem fylgir því að halda slíkar sýningar innandyra í íþróttamannvirkjum, án þess að mikið þurfi að hafa fyrir því og yrði það mikil bót fyrir dýravini að geta haldið sýningar í íþróttamannvirkjum. R19120045

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins þess efnis að eldri borgarar fái að leggja frítt í bílastæðahúsum borgarinnar um helgar

Lagt er til að eldri borgarar fái að leggja frítt í bílastæðahúsum borgarinnar um helgar, n.t.t. frá kl. 17:00 á föstudegi til kl. 00:00 aðfararnótt mánudags. Mikilvægt er að tryggja eldri borgurum betra aðgengi að miðbænum. Menningarstarfsemi borgarinnar er að mestu leiti í miðbænum. Þar má finna menningarstofnanir þjóðarinnar, sögufrægar byggingar, helstu söfn og Þjóðleikhúsið. Á undanförnum árum hefur aðgengi að miðbænum verið takmarkað með ýmsum hætti. Ítrekaðar framkvæmdir valda töfum og lokunum. Þá er sífellt verið að breyta akstursstefnum og gatnamótum á götum sem hafa staðið óbreyttar í áratugi og þeim vinsælustu jafnvel breytt í göngugötur. Þá hefur bílastæðum utandyra fækkað verulega í miðbænum og borgin hefur tekið í notkun meingallaðar gjaldstöðvar. Öll þessi atriði gera fólki erfiðara fyrri vilji það halda niður í miðbæ og njóta þess sem hann hefur uppá að bjóða. Sérstaklega bitnar þetta á eldri borgurum sem eiga erfiðara með að ganga langar leiðir frá bílastæðum, venjast breyttum akstursleiðum og læra á óþarflega flókna gjaldmæla. Lagt er til að borgin gefi út sérstakt bílastæðakort sem allir eldri borgarar eigi rétt á. Það kort veiti þeim aðgang að bílastæðahúsum borgarinnar án endurgjalds um helgar, n.t.t. frá kl. 17:00 á föstudegi til kl. 00:00 aðfararnótt mánudags. Þannig mætti auðvelda aðgengi eldri borgara að miðbænum og menningu hans. R19120046

Tillagan er felld. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna fellingar tillögunnar:

Þessi tillaga í þágu eldri borgara hefur verið felld. Hér er um að ræða hóp eldri borgara sem koma akandi í bæinn en ekki þá sem koma í skipulögðum rútuferðum til að sækja menningarviðburði. Margir hafa gefist upp á bænum og vill Flokkur fólksins reyna að laða þennan hóp í bæinn aftur. Eldri borgurum þykja stæðismál erfið en þeim stæðum sem eru utandyra hefur fækkað í miðbænum. Borgin hefur tekið í notkun flóknar gjaldstöðvar. Iðulega sést fólk standa í öngum sínum fyrir framan þær og ekki vita til hvers er ætlast. Næg stæði eru án efa í bílastæðahúsum en eldri borgarar eru margir ekki hrifnir af þeim og finnst sláa og greiðslufyrirkomulagið ógnandi. Með því að bjóða þeim frítt stæði þar og helst leiðsögn á staðnum er líklegt að hægt sé að fá þennan hóp oftar í bæinn og leggja bíl sínum í stæðishúsin. Flokki fólksins finnst þessi borgarmeirihluti ekki vilja gera mikið fyrir eldri borgara. Hér áður streymdi þessi hópur t.d. í Kolaportið en nú hefur það snarbreyst. Í samtali við sölumenn í Kolaportinu eru þeir sammála um að eldir borgara hafa minnkað komur sínar. Það ætti að vera sameiginlegt markmið okkar að gera miðbæinn aðlaðandi fyrir Íslendinga en ekki einungis ferðamennina.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulag- og samgönguráðs, lið 17 er varðar biðstöð Strætó á Hagatorgi

Hagatorg er ekki þekkt slysasvæði, síst af öllu gangandi vegfarendum. Engin slys hafa verið á fólki undanfarin 10 ár þrátt fyrir að gengið sé iðulega yfir torgið. Engu þarf því sérstaklega að breyta til að auka öryggi. Það að þrengja torgið í eina akrein, banna akstur að utanverðu, setja strætóstöðina alveg við innri hringinn og láta strætó stoppa í akstursleiðinni á vinstri akrein gerir ekkert annað en að auka hættu og auka tafir vegfarenda. Rétt er að stoppistöð hefur verið þarna til margra ára, en hún var utar og því hægt að aka fram hjá strætó sem stoppaði þá án þess að hefta allan annan akstur. Hér er lagt til að stoppistöðin verið við Birkimel og utan við hringtorgið.

Tillaga Flokks fólksins að sú stoppistöð sem nú er á Hagatorgi verði færð yfir á Birkimel og þar með utan við hringtorgið

Flokkur fólksins leggur til að sú stoppistöð sem nú er á Hagatorgi verði færð yfir á Birkimel og þar með utan við hringtorgið. Hagatorg er torg, stórt torg og þar aka bílar í hring, hringinn í kringum torgið. Hagatorg og svæðið í kringum það hefur ávallt verið öruggt svæði. Í það minnsta eru ekki sögur um slys þar undanfarin ár. Með því fyrirkomulagi sem nú er þ.e. að stoppistöð strætó sé nú komin á þann stað sem hún er, hefur hins vegar skapast slysahætta. Að þrengja torgið í eina akrein, banna akstur að utanverðu, setja strætóstöðina alveg við innri hringinn og láta strætó stoppa í akstursleiðinni á vinstri akrein skapar hættu og auka tafir vegfarenda. Rétt er að stoppistöð hefur verið þarna til margra ára en ekki nákvæmlega þarna. Þá var hægt að aka fram hjá strætó sem stoppaði án þess að hefta annan akstur. Flokkur fólksins leggur til að strætóstoppistöðin verði færð yfir á Birkimel þar sem betur fer um hana og þar sem skapast hvorki slysahætta né tafir þegar vagninn stoppar við stöðina til að hleypa fólki í og úr vagninum. R19120043

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.