Velferðarráð 4. desember 2019

Bókun Flokks fólksins við tillögu Flokksins um að gera breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði þannig að ekki verði litið til þess hvort meira en sex mánuðir eru eftir af leigusamningi við mat á  húsnæðisþörf
Tillögunni er vísað til endurskoðunarnefndar

Flokkur fólksins telur að ekki eigi að nota þetta atriði sem hindrun til að fólk komi á biðlistann þótt líta eigi til þessa þáttar. Þetta fyrirkomulag getur leitt til þess að fólk segi upp leigusamningi ótímabært til að  komast inn á biðlistann. Í umsögn við tillöguna er sagt að  „Einstaklingar fá því 1 stig óháð því hve langan húsaleigusamning þeir eru með ef húsnæðiskostnaður telst verulega íþyngjandi“. Þetta er í ósamræmi við svör deildarstjóra í deild húsnæðis og búsetu á velferðarsviði, við fyrirspurn  dagsett 25. 9. sl en þar segir að „Ef meira en sex mánuðir eru eftir af húsaleigusamningi umsækjanda er hann metin í öruggu húsnæði og fær 0 stig“. Hér er því um mismunandi svör frá tveimur starfsmönnum borgarinnar. Þetta þarf að skýra. Það skiptir ekki máli hvort leigusamningur sé 6 mánuðir eða lengri. Vel er hægt að taka þessa setningu út úr matsblaðinu. Tillögunni er vísað í endurskoðun og er fulltrúi Flokks fólksins sáttur við það.

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðstjóra velferðarsviðs um hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar (árlegt). 

Hér er verið að leggja til hækkun grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar til framfærslu. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að þessar hækkanir séu allt of litlar. Hér hefði verið nauðsynlegt að gera betur. Allir vita að enginn lifir sómasamlegu lífi á þessum fjárhæðum. Hækkanir eru frá örfáum hundrað krónum í mest um 10.000 krónur. Það segir sig sjálft að þetta eru engar hækkanir að heitið geti enda þótt muni vissulega um hverjar þúsundkrónurnar hjá fólki sem býr við slæman efnahag og fátækt. Hækkanir eru eftirfarandi: Að grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu hækkar úr 201.268 kr. í 207.709 kr. á mánuði. – Grunnfjárhæð til hjóna/sambúðarfólks hækkar úr 322.028 kr. í 332.334 kr. á mánuði. – Grunnfjárhæð til einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði hækkar úr 169.579 kr. í 175.006 kr. á mánuði. – Grunnfjárhæð til þeirra sem búa í foreldrahúsum hækkar úr 100.634 kr. í 103.854 kr. á mánuði. – Fjárhæð vegna barna í 16 gr. a hækkar úr 16.154 kr. í 16.671 kr. á mánuði.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna framlagningar minnisblaðs:

NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) er nú orðin lögbundið þjónustuform. Því ber að fagna að reglur borgarinnar um þá þjónustu hafa verið samþykktar. Ríkissjóður veitir framlag til ákveðinna fjölda NPA samninga á innleiðingartímabilinu frá 2018 til 2022. Það er ótækt að bráðabirgðaákvæði laga um notendastýrða persónulega aðstoð skuli takmarka fjölda samninga á þann hátt sem gert er. Nú bíða 19 eftir þjónustu og álíka stór hópur mun bætast við á næsta ári. Fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði deilir áhyggjum af þeim sem eiga eftir að þurfa að bíða eftir þjónustu. Til að hægt sé að gæta jafnræðis og alls réttlætis þarf nægjanlegt fjármagn að fylgja inn í málaflokkinn ef þetta á að virka sem skyldi. Annars verður þessi þjónusta hvorki viðunandi hvað þá fullnægjandi. Nú er vitað að sá fjöldi sem áætlaður var mun ekki duga til að koma til móts við þá þörf sem fyrir liggur og þau réttindi sem fólk með sérstakar stuðningsþarfir á samkvæmt lögum 38/2018.  Það er illa farið með fólk að setja réttindi í lög en láta svo ekki fylgja með fjármagn. Spurning er hvort ríki og borg geti mæst á miðri leið með þetta samvinnuverkefni og deilt kostnaði?

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs um vísun tillagna stýrihóps um sárafátækt til yfirstandandi vinnu velferðarsviðs við endurskoðun reglna um fjárhagsaðstoð.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst margt afar gott í þessum tillögum og fagnar breytingum um frístundarkortið þ.e. að hægt sé að fá þjónustustyrk án þess að frístundarkortið skerðist alveg. Flokkur fólksins vill vona að þessi breyting sé tilkomin vegna tillagna Flokks fólksins um m.a. breytingu á þessum þætti frístundarkortsins. Þetta er alla vega byrjun og vonandi halda breytingar áfram þar til frístundarkortið þjóni alfarið því hlutverki sem samræmist markmiði þess og tilgangi. Fulltrúi Flokks fólksins hefði einnig viljað sjá frítekjumarkið hærra t.d. alla vega 320.000.

Á fundi velferðarráðs þann 23. október 2019 fór fram kynning á reglum um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra. Eftirfarandi bókanir voru lagðar fram og færðar í trúnaðarbók.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun þar sem lýst er áhyggjum af biðlistum

Talað er um að þetta sé ný hugmyndafræði. Horft er á styrkleika en áður var þá horft á veikleikana ef skilja má þetta rétt? Þjónustuform er meira einstaklingsbundið, á forsendum manneskjunnar, eitthvað sem halda mætti að hefði verið viðhaft áður sem nú. En Flokkur fólksins fagnar vissulega hverju skrefi í átt að fagmennsku og bættari þjónustu við fólk. Það er leitt að sjá hins vegar að strax er gert ráð fyrir biðlista eins og biðlistar séu lögmál. Biðlistar eru nánast partur af hugmyndafræðinni? Borgarmeirihlutinn þarf að endurskoða þetta og hætta að setja á laggirnar kerfi og semja reglur sem gera ráð fyrir biðlistum, stundum mánaða og áralanga biðlista? Undir „helstu breytingar“ eru margir góðir punktar en forvitnilegt væri að sjá meira um hvernig á að útfæra þessar breytingar? Hvert er nákvæmlega ferlið, hver hefur samband við hvern og gerir hvað og hvað svo…? Þegar kemur að fyrirhugaðri samráðslýsingu veit borgarfulltrúi Flokks fólksins að starfsfólkið langar að hafa virkt samráð um stuðning en samráð þýðir í raun að þjónustuþeginn stýrir för þegar um svona persónulega og einstaklingsbundna þjónustu er að ræða og aldrei skal gera neitt sem er í hans óþökk. Vandamálið er að þetta hefur einfaldlega ekki verið það samráð sem meirihlutinn hefur praktíserað a.m.k. fram til þessa.

Tillaga um að kanna hvernig aldursfordómar birtast í borgarkerfinu, í samþykktum borgarinnar og regluverki borgarinnar sem fjalla um eldri borgara.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að velferðarráð og velferðarsvið geri úttekt á hvernig aldursfordómar birtast í borgarkerfinu, í samþykktum borgarinnar og regluverki borgarinnar sem fjalla um eldri borgara. Markmiðið er að draga úr öldrunarfordómum og fyrsta skrefið hlýtur að vera að skoða með hvaða hætti stjórnkerfi borgarinnar fjallar um eldri borgara, hvað hindranir og takmörk  samþykktir og regluverk setur fólki sem grundvallast einungis á aldri þeirra. Metið verði hvort samþykktir og regluverk borgarinnar mismuni að því er varðar réttindi og skyldur umfram það sem mætti telja eðlilegt vegna þroska og getu, hvort tilefni sé til að fella brott aldurstengd viðmið, hvort frekar skuli miða við hæfni eða önnur málefnaleg viðmið í stað aldurs.

Öldrunarfordómar eru rótgrónir víða í samfélaginu og  þeir snerta afar stóran hóp, ekki bara eldra fólk heldur líka aðstandendur þeirra og þá sem vinna með eldra fólki.  Fyrsta skrefið í átt að því að eyða öldrunarfordómum er að stjórnkerfið skoði sjálfa sig enda leggur línurnar og setur fyrirmyndirnar.

Fordómarnir gagnvart öldruðum koma auk þess fram með margvíslegum öðrum hætti t.d. í umræðunni  í heilbrigðiskerfinu og í  umræðu um félagslega kerfið. Þeir koma fram í umræðu um eldri borgara hvað varðar allt mögulegt.

Greinargerð

Hvað eru aldursfordómar? Aldursfordómar vísar til staðlaðrar ímyndar og fordóma gegn fólki á tilteknum aldri, til að mynda eldra fólks, alveg eins og kynþáttafordómar og kynjamisrétti verða vegna húðlitar eða kynferðis. Dæmi um fordóma gegn öldruðum er þegar því er haldið fram að aldraðir séu staðnaðir, sérvitrir og heilsulausir o.s.frv.

Það væri vert að Reykjavíkurborg gerði frekari könnun á hvort eldri borgara séu almennt að upplifa aldursfordóma og þá með hverjum hætti. Það að eldri borgarar geti ekki unnið eins lengi og þeir vilja eru fordómar. Gert er ráð fyrir að á vissum aldri verði eldri borgarar skyndilega slakari þátttakendur á atvinnumarkaði aðeins vegna þess að þeir hafi náð vissum aldri.