You are currently viewing Borgarstjórn 1. febrúar 2022

Borgarstjórn 1. febrúar 2022

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að opna í Reykjavíkur, grænt svæði, almenningsgarð með afþreyingu

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að opna í úthverfi Reykjavíkur grænt svæði, almenningsgarð með  afþreyingu, svo sem kaffihúsi og þar sem frætt verður um umhverfisgildi ræktunar og að minnka sóun.

Núverandi meirihluta er tíðrætt um „Græna borg“ sem er af hinu góða. Ekki veitir af. Fulltrúi flokks fólksins vill efla og styrkja Reykjavík sem græna borg og þá ekki bara með grænum þökum á þéttingarsvæðum.

Lagt er til að í almenningsgarðinum verði tré og runnar  merkt og þar skrifaðar upplýsingar um gildi plantnanna; hvaða  áhrif þær hafa á umhverfið. Í  kaffistofu (græn kaffistofa) yrðu upplýsingaspjöld og leiðbeiningar sem unnar yrðu af fagfólki m.a. um gildi náttúrunnar í umhverfismálum og hvernig minnka mætti sóun.

Taka mætti hér undir svæði í Elliðaárdal, jafnvel við Landbúnaðarskóla Íslands á Keldnaholti og þar sem væri líklega hægt að  fá  leiðsögn um slík svæði, allt út frá umhverfissjónarmiðum, skógi og fallegu umhverfi. Hafa mætti samstarf við Skógræktarfélag Reykjavíkur, eða jafnvel íþróttafélög auk samráðs við íbúanna á hverjum stað.

Þetta framtak myndi opna  skemmtilegt útivistarsvæði í nærumhverfi ytri byggðar og minnka þannig þörf á því að sækja afþreyingu annað með tilheyrandi kolefnisspori.

Greinargerð.

Eitt stærsta verkefni okkar í dag tengist  umhverfismálum. Líklega eru fá mál eins aðkallandi. Reykjavíkurborg þarf að sjálfsögðu að vera í fararbroddi í slíku. Reykjavíkurborg þarf að mati Flokks fólksins einnig að sinna þjónustu við íbúa í úthverfum. Flestir viðburðir sem borgin stendur fyrir eru í miðborginni

Fá opin svæði eru eftir í miðborginni. Því er í þessarri tillögu gert ráð fyrir því að koma fyrir grænum garði í úthverfi Reykjavíkur. Tillagan gengur einnig út á  að upplýsa þá sem koma á staðin um gildi umhverfisverndar. Hvort sem það er um að rækta landið eða til að koma í veg fyrir sóun. Svæði sem þetta hefur því bæði fræðslu- og skemmtanagildi.

Kaffistofa yrði á staðnum og miðuð við að þar verði þess gætt að hugsa til umhverfisins og leiðbeiningar verði um hvernig best sé að slíku staðið. Kaffistofan ætti að nota sem mest innlenda framleiðslu og á sumrin básar t.d. um helgar þar sem m.a. heimaframleiðsla yrði seld. Slíkt hefur jákvæðan umhverfisávinning. Mörg dæmi eru um ágætlega vel heppnuð svipuð verkefni um allt land. Sjá t.d. beintfrabyli.is. Framlag Reykjavíkurborgar væri því að úthluta lóð, útbúa leiðbeiningar um hvaða reglur gilda um reksturinn og setja upp sölubása/aðstöðu. Rekstur kaffistofu yrði boðin út og þar miðað við að hún þyrfti að gangast undir skilyrði eins  og hér var farið yfir og selja innlenda framleiðslu/heimaframleiðslu. Einnig mætti þarna að sjálfsögðu að selja rótarskot björgunarsveitanna.

Hér eru einungis settar fram grófar hugmyndir og ekki reiknað með að verkefni kosti mikið. Í dag er verið að styðja við ýmsa kynningarstarfsemi í umhverfsimálum og er það mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að tillaga eins og þessi muni nýta slíkt fjármagn mjög vel í þessa grænu umhverfisvænu framkvæmd. Þetta mun einnig styrkja og styðja við úthverfi Reykjavíkurborgar, íbúum þar til yndisauka auk þess að tengja saman íbúa  og þá sem framleiða í smáum stíl.   Vonandi geta allir borgarfulltrúar sameinast um þetta verkefni, þvert á pólitískar skoðanir.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins að opna í úthverfi Reykjavíkur grænt svæði, almenningsgarð með afþreyingu, svo sem kaffihúsi og þar sem frætt verður um umhverfisgildi ræktunar og að minnka sóun.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að opna í úthverfi Reykjavíkur grænt svæði, almenningsgarð með afþreyingu.

Samþykkt er að henni sé vísað til frekari skoðunar á umhverfis- og skipulagssviði. Með framsetningu tillögunnar er fulltrúi Flokks fólksins ekki að segja að ekkert sambærilegt hafi nokkurn tíman verið gert en hér má taka fleiri skref í átt að fleirum skemmtilegum útivistarsvæðum í ytri byggð borgarinnar. Að opna almenningsgarð og auka þar með útivist í úthverfi Reykjavíkur þar sem boðið er upp á afþreyingu, fræðslu og umhverfisvæna upplifun þarf ekki að skyggja á viðburði sem eru í miðbænum. Í tillögunni er  áhersla lögð á að upplýsa gesti um mikilvægi umhverfisvitundar og sérstaklega áhrif gróðurs en einnig um að minnka sóun. Auk þess var í tillögunni lögð áhersla á að tengja saman borg og sveit með því að koma upp sölubásum fyrir vörur beint frá býli. Slíkt yrði gert í samvinnu við bændur og kannaður áhugi þeirra á slíku. Með því að hafa svæði sem þetta sem víðast í nærumhverfi má leiða líkum að því að íbúar njóti útivistar og nærveru nágranna sinna um leið og þeir læra um gildi umhverfisins. Þetta mun einnig draga úr akstri í miðbæinn sem léttir þar á umferðarþunga. Þá gæti þetta verið góð leið til að kynna úthverfi og það sem þau hafa upp á að bjóða.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi, sbr. 3. lið fundargerðar ofbeldisvarnarnefndar frá 17. janúar 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari aðgerðaáætlun. Hún hefur breyst frá því sem stóð í drögum en í þeim var t.d. ekki minnst á einelti. Úr því hefur aðeins verið bætt. Einelti er ofbeldi sem varðar, eins og annað ofbeldi, við lög. Það er mikilvægt að það sé ávarpað með ítarlegum hætti í aðgerðaáætlun Reykjavíkur gegn ofbeldi. Það er upplifun fulltrúa Flokks fólksins að einelti hafi orðið nokkuð undir í umræðunni um ofbeldi og aðgerðir gegn ofbeldi. Við það er ekki unað. Afleiðingar eineltis geta verið geigvænlegar og hafa eyðilagt líf fjölmargra, ungra sem eldri. Í aðgerðaáætluninni sem nú liggur fyrir eru þó nefndar tvær aðgerðir, aðgerð um fræðslu til starfsfólks borgarinnar um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi og aðgerð sem lýtur með reglubundnum hætti að því að allir skólar í borginni séu með eineltisáætlun sem þeir starfa eftir til að fyrirbyggja og uppræta einelti. Þess sé jafnframt gætt að nauðsynleg þekking sé til staðar með því að bjóða fræðslu um einelti og að upplýsingar um leiðir til að tilkynna um einelti séu aðgengilegar á vefsíðu, ásamt viðbragðsáætlun og upplýsingum um úrvinnsluferli. Jafnframt komi fram hverjir taki við ábendingum um einelti og hverjir sitji í eineltisteymum skólanna.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Miðflokksins að innri endurskoðanda verði falið skoða og leggja mat á lögmæti samninga Reykjavíkurborgar við olíufélögin sem lagðir voru fram í borgarráði 22. júní 2021. Verði þeirri skoðun lokið fyrir 1. maí nk.:

 

Það er hagur borgarinnar að þær lóðir þar sem nú fer fram eldsneytissala verði nýttar undir íbúðarhúsnæði. En það er að sama skapi ekki gott að með slíkri breytingu hagnist núverandi lóðarhafar um milljarða. Samningsstaða borgarinnar er ágæt því að lóðir munu renna til hennar að leigutíma loknum og borgin þarf ekki að bæta fyrir það. Þess vegna hefði átt að bíða þar til að þessar lóðir losna og byggja á þeim íbúðarhúsnæði í fyllingu tímans. Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki séð að Reykjavík sé skuldbundin af því að endurnýja lóðarleigusamninginn, en þó veltur það að endingu á nákvæmu orðalagi samninganna. Fulltrúi Flokks fólksins styður það að málið verði rannsakað af innri endurskoðun. Þá fæst úr því skorið hvort Reykjavík hefur samið undan sér að ósekju. Ef allt reynist rétt sem meirihlutinn hefur fullyrt um þessa samninga þá ætti úttekt innri endurskoðunar einungis að renna stoðum undir þann málflutning og draga úr efasemdum almennings gagnvart þessum samningum. Því er það allra hagur að þegar samningar borgarinnar eru jafn umdeildir og þessir, þá verði þeir teknir til nánari skoðunar. Það er mikilvægt að það komi í ljós hvort hér er um að ræða stór mistök eða góðan gjörning.

 

Bókun Flokks fólksins við leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. og 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. janúar:

Bókun við 4. lið, viðaukar: Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að auka eigi fjárheimildir til velferðarsviðs 2022 um 100 milljónir vegna tímabundinnar fjölgunar sérfræðinga til að vinna úr áhrifum COVID-19 á börn og unglinga. En þetta er ekki há upphæð og mun varla duga til að taka obbann af biðlistakúfnum. Meirihlutinn horfir grannt í krónuna þegar kemur að því að fjárfesta í andlegri heilsu barna á meðan milljarðar streyma á svið sem dundar sér við tilraunir á stafrænum lausnum, sumum hverjum sem engin nauðsyn er á og eru jafnvel til annars staðar. Nú bíða um 1500 börn eftir aðstoð fagfólks skóla. Bókun við 8. lið: sala Malbikunarstöðvarinnar. Flokkur fólksins telur rétt að selja Malbikunarstöðina Höfða og hefur áður bókað að Reykjavíkurborg eigi að hætta í þessum samkeppnisrekstri enda ekki verið settar fram tölur um ávinning borgarbúa af þessari starfsemi. Þá telur Flokkur fólksins að standa hefði mátt betur að sölumálum. Hefði ekki verið vænlegra að selja fyrr áður en farið var í gríðarleg fjárútlát við að endurbyggja stöðina í Hafnarfirði? Er það von Flokks fólksins að viðunandi verð fáist fyrir þetta fyrirtæki og að söluhagnaðurinn verði notaður til að auka fjárframlög til velferðarsviðs og minnka þannig biðlista barna eftir fagþjónustu.

 

Bókun Flokks fólksins undir 5. og 6. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tillögu hans um að skóla- og frístundasvið kaupi skólamöppur frá Múlalundi hefur nú verið samþykkt. Fram til þessa hefur Reykjavíkurborg hunsað Múlalund – vinnustofu SÍBS varðandi kaup á margskonar skólavörum ólíkt öðrum sveitarfélögum. Í þrjú ár hefur Múlalundur, sem er vinnustofa fyrir fólk með skerta starfsorku, reynt að fá Reykjavíkurborg að samningaborðinu. Nú er það loksins orðið að veruleika enda skóla- og frístundasviði ekki stætt á öðru. Um 80% starfsmanna Múlalundar eru með lögheimili í Reykjavík og það er löng bið eftir plássi þar. Þótt vörur séu ívið dýrari þá er það dropi í hafið. Á móti skapar Reykjavíkurborg atvinnu fyrir hóp sem er í brothættri stöðu. Fulltrúi Flokks fólksins elur þá von í brjósti að ákveðið verði sem allra fyrst að versla aðeins skólavörur frá Múlalundi. Við eigum að standa saman að því að hlúa að og byggja upp vinnuaðstöðu sem þessa og nota öll tækifæri til að velja íslenskar vörur að sjálfsögðu. Hér græða allir. Því meiri sem eftirspurnin er eftir skólavörum frá Múlalundi því fleiri atvinnutækifæri eru sköpuð. Þess utan hefur það verið staðfest að viðskiptin skerða ekki fjárheimildir skóla- og frístundasviðs. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að viðskiptin ekki aðeins aukist heldur séu komin til langrar framtíðar.