Forsætisnefnd 2. apríl

Bókun Flokks fólksins við skýrslu Háskóla Íslands, dags. 28. febrúar 2022, um reynslu og viðhorf kjörinna fulltrúa í bæjar- og sveitarstjórnum á Íslandi:

Niðurstöður staðfesta margt sem fulltrúi Flokks fólksins upplifir sem borgarfulltrúi í minnihluta. Ef minnihlutafulltrúi ætlar að láta að sér kveða þarf að leggja dag við nótt. Álagið er mikið. Starfið er gefandi enda þótt minnihlutafulltrúi nái nánast engum málum í gegn. Umbunin felst í tækifærinu til að vera í nálægð við borgarbúa, hlusta á raddir þeirra og ræða ítrekað um hvernig hægt er að bæta og auka þjónustuna. Dropinn holar jú steininn. Í Reykjavík sérstaklega eiga margir um sárt að binda aðallega vegna þess að þeir fá ekki fullnægjandi þjónustu sem þeir eiga rétt á. Fátækt hefur farið vaxandi. Verkefnin eru því ærin. Menning og starfshættir sveitarstjórna eru án efa mismunandi og kemur stærðin þar m.a. til. Meiri- og minnihlutar alla vega einhverra sveitarfélaga, vonandi sem flestra, eiga án efa gott og farsælt samstarf sem grundvallast þá m.a. á að bjóða hinum síðari að ákvörðunarborðinu, hlusta á það sem þeir hafa fram að færa, leyfa þeim að tjá sig, ýmist hrósa eða gagnrýna eftir atvikum eins og gengur í stjórnmálum. Þokkalegt til gott samstarf meiri- og minnihluta sveitarstjórnar er lykilatriði ef starfið á að geta verið farsælt og án átaka og skilað sér sem best til borgar-/bæjarbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við yfirlit ódags., yfir opinberar móttökur Reykjavíkurborgar:

Yfirlit yfir móttökur er lagt fram. Fulltrúa Flokks fólksins finnst styrkur borgarinnar kr. 800.000 kr. á viðburðinn Women Political Leaders ansi hár og hefði viljað sjá að minnsta kosti hluta af þessum pening varið í annað t.d. í þágu barna. Kostnaður við Hönnunarmars/Borgarlína eru rúmar 500.000. Hér er um að ræða hópa sem eru án efa aflögufærir og gætu greitt hluta af veitingum sjálfir. Þetta er vont að sjá þegar hugsað er til þeirra borgarbúa sem lepja nánast dauðann úr skel. Fólk sem nær engan veginn endum saman. Sjálfsagt er að styrkja viðburði af fjölbreyttu tagi en þetta er þó alltaf spurning um hóf og skynsemi og að ávallt sé reynt að fara sem best með útsvarsfé borgarbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs, dags. 21. mars 2022, varðandi afgreiðslu velferðarráðs frá 2. mars 2022 á breytingartillögu vegna tillögu fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um betra aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunnskólum Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum:

Fulltrúi Flokks fólksins harmar viðbrögð og afgreiðslu meirihluta velferðarráðs við tillögu ungmennaráðs Árbæjar og Holta á fundi velferðarráðs 2. mars sl. Tillaga ungmennaráðsins var að aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu í öllum grunnskólum yrði bætt. Án nokkurs samráðs við fulltrúa í minnihluta velferðarráðs var lögð fram breytingartillaga sem er með öllu óraunhæf og til þess fallin að slá ryki í auga tillöguflytjanda. Meirihlutinn leggur til að velta vinnunni yfir á heilsugæslusálfræðinga og vill ræða við heilsugæsluna um að heilsugæslusálfræðingar fari út í skólana og veiti grunnskólanemum að sálfræðiþjónustu. Þetta er fráleitt. Heilsugæslusálfræðingar starfa á heilsugæslunni og sinna fjölbreyttum hópi. Til þeirra er langur biðlisti. Í breytingartillögu meirihlutans er gengið svo langt að segja að „skoða hvort og hvernig sálfræðingar Heilsugæslunnar fái afnot af skólahúsnæði til að geta veitt nemendum meðferð líkt og skólahjúkrunarfræðingar hafa haft um langa hríð“. En það eru sálfræðingar skólaþjónustunnar sem eiga að sinna þessum hópi samkvæmt lögum. Þeirra aðsetur er hins vegar á þjónustumiðstöðvum en ekki úti í skólum. Ítrekað hefur verið lagt til að færa aðsetur skólasálfræðinga út í skólanna án árangurs. Hins vegar hikar velferðarráð ekki við að leggja það til að finna stað fyrir heilsugæslusálfræðinga í skólum borgarinnar til að sinna vinnu skólasálfræðinganna.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um nýjan vef Reykjavíkurborgar:

Fulltrúi fólksins fagnar öllum þeim breytingum sem stuðla að betri þjónustu við borgarbúa. Þó er það grundvallaratriði að þær breytingar sem gerðar eru, skili því sem lagt er upp með og virki! Nýr vefur Reykjavíkurborgar hefur ágætt yfirbragð. En það er ekki útlitið sem skiptir mestu máli, heldur virknin sem segir til um hvort viðkomandi vefur stuðli að betri þjónustu eða ekki. Í raun má segja að innleiðing þessa vefjar sé hálfklárað verk. „Mínar síður“ og Rafræn Reykjavík eru enn að því er virðist ónothæfar og leit í fundargerðum ber oft á tíðum lítinn árangur. Oft stingur nýi vefurinn upp á því að notandinn smelli á gamla vefinn til að leita upplýsinga. Spurt er hvort það geti verið að innan þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) skorti hreinlega þá sérfræðiþekkingu sem þarf til verksins. Einnig eru þarna skipurit sem ekki hafa verið uppfærð í langan tíma, þar á meðal skipurit þjónustu- og nýsköpunarsviðs sjálfs sem er með vefinn. Ef borið saman við aðra vefi fær vefur borgarinnar slaka einkunn. Taka má dæmi um foreldra sem eru að setja barn sitt á leikskóla, að þá fá þau enn í hendur nokkrar blaðsíður af innritunarskjölum sem þarf að haka við og handskrifa undir. Ekkert stafrænt þar á ferð.