Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð 10. mars 2022

Bókun Flokks fólksins við kynningu á hlutverki samráðsnefnda við stefnumótun og ákvarðanatöku sbr. aðgerð 2. í aðgerðaráætlun lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar:

Flokkur fólksins fagnar þessari umræðu um hlutverk samráðsnefnda  við stefnumótun og ákvarðanatöku þegar verið er að taka ákvarðanir sem lúta að aðstæðum og umhverfi borgarbúa og minnihlutahópa eða íbúa hverfa. Það hefur verið langþráður draumur sem minnihlutafulltrúi Flokks fólksins að  samráðsferli og eðli samráðs sem Reykjavíkurborg hefur við borgara og hagaðila verði skoðað með gaumgæfulegum hætti og því breytt í grunninn. Samráðsferli hefur alls ekki verið alltaf skýrt og engar samræmdar leiðbeiningar liggja fyrir. Hvað þarf að liggja til grundvallar í vel heppnuðu samráðsferli þarf að liggja fyrir.
Hefja þarf samráð á allra fyrstu stigum, fara að stað með autt blað og leyfa borgarbúum (íbúum hverfa) og hagaðilum að leggja frumdrög að forsendum. Þetta hefur því miður ekki verið með þessum hætti á kjörtímabilinu með þeim afleiðingum að víða hafa logað eldar um borgina sem enn hefur ekki tekist að slökkva. Fulltrúi tekur heilshugar undir eftirfarandi:Gerð verði úttekt á núverandi fyrirkomulagi samráðs við stefnumótun og ákvarðanatöku hjá Reykjavíkurborg. Markmið: Að samráð við íbúa, hagaðila og samráðsnefndir verði ætíð stór hluti af stefnumótun og stærri ákvörðunum.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á verkefninu áhættustýring og greining misferlisáhættu hjá Reykjavíkurborg, Innri Endurskoðun:

Nokkrar aðgerðir eru  á „rauðu“ sem þýðir að verulegrar styrkingar er þörf til að minnka misferlisáhættu
Á rauðu eru t.d. duldar eftirlitsaðgerðir sem starfsmönnum og viðskiptavinum er ekki kunnugt um, svo sem gagnagreiningar sem ætlaðar eru að bera kennsl á óvenjulegar aðgerðir. Þetta vekur upp spurningar.  Reykjavíkurborg er ekki lögregla sem ættu að fá leyfi til að  „njósna“ um starfsfólk. Er ekki komið á hættubraut ef borgarráð/fagráð samþykkir lista af einstaklingum sem hafa leyfi til að afla upplýsinga og skilgreinir eigið upplýsingaaðgengi með tilliti til þeirra varna gegn misferli sem ætlað er að leynd hvíli yfir?
Nú eru rafrænar undirskriftir ekki enn komnar í gagnið hjá borginni eins og verið hefur við lýði hjá flestum fyrirtækjum og stofnunum. Hefur það ekkert gildi þegar kemur að áhættustýringu og misferlisgreiningu? Margt er varðar starfslokasamninga eru á „rauðu“. Fram kemur að hafa þarf samtöl en ekki er víst að þau skili endilega miklu, viðkomandi vill kannski ekki mikið segja, verandi að hætta í starfinu.
Erfitt að lesa úr skoðanakönnun borgarfulltrúa. Hverjar eru þar helstu niðurstöður? Talað er um siðareglur í skýrslunni. Setta voru siðareglur borgarfulltrúa sem brotnar voru viku seinna í beinni útsendingu borgarstjórnar. Svo mikið fyrir siðareglur!

 

Bókun Flokks fólksins við tillögur starfshóps um ókyngreinda aðstöðu í skóla – og frístundahúsnæði Reykjavíkurborgar dags. nóvember 2021. Jafnfram er lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs dags. 15. febrúar 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið þær upplýsingar að ekki er ennþá búið að breyta reglugerðum hvað þessi efni varðar og því er enn sem komið er ekki skylda að bjóða upp á ókyngreind salerni eða ókyngreinda búningsaðstöðu. Ríkisstjórnin hyggst gera slíkar breytingar á viðeigandi reglugerðum á þessu ári eða 2023, sbr. markmið 10. í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum hinsegin fólks. Ljóst er að hið opinbera ætlar ekki að veita fjármagn til verkefnisins ef litið er til þess að aðeins var athugaður kostnaður hjá þeim skólum: Þar sem ekki eru ókyngreind salerni eða ókyngreind búningsaðstaða, þar sem skólastjóri/forstöðufólk taldi þörf á slíku og þar sem nemendur höfðu kallað eftir ókyngreindri aðstöðu. Verður að áætla að þegar áðurnefndar reglugerðarbreytingar ganga í garð verði auk þess þörf á frekari breytingum í öðrum skólum, íþróttamiðstöðvum og félagsheimilum. Því er líklegt að heildarkostnaðurinn verði umtalsvert meiri en þær 30 m.kr. sem gert er ráð fyrir í frumkostnaðaráætlun. Hér er enn eitt dæmið um hvernig hið opinbera gerir breytingar á lögum og reglum með fögur fyrirheit um breytta tíma án þess að fjármagn fylgi til að framfylgja þeim lögum og reglum á sveitarstjórnarstiginu.